Ferill 247. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 503  —  247. mál.




Svar


forsætisráðherra við fyrirspurn frá Þorgerði K. Gunnarsdóttur um sérfræðiþekkingu í öryggismálum.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Telur ráðherra að í landinu sé fullnægjandi íslensk sérfræðiþekking í hermálum til að mæta þeim áskorunum sem Ísland stendur frammi fyrir í öryggis- og varnarmálum, sbr. 6. tölul. í þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland? Ef svo er, á hverju byggist sú skoðun?

    Samkvæmt 2. mgr. 2. gr. laga um þjóðaröryggisráð, nr. 98/2016, er forsætisráðherra formaður þjóðaröryggisráðs og veitir forsætisráðuneytið ráðinu alla nauðsynlega starfsaðstöðu og aðstoð við störf þess. Þjóðaröryggisráð hefur eftirlit með því að þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland sé framkvæmd í samræmi við ályktun Alþingis og er jafnframt samráðsvettvangur um þjóðaröryggismál, sbr. 1. mgr. 4. gr. laganna. Í athugasemdum með 4. gr. frumvarps þess er varð að lögum nr. 98/2016 segir jafnframt að kjarninn í starfi þjóðaröryggisráðs sé sá að ráðinu sé ætlað að vera samstarfsvettvangur um framkvæmd þjóðaröryggisstefnunnar og þjóðaröryggismál. Ráðinu sé hins vegar ekki ætlað að hafa nein áhrif á skiptingu stjórnarmálefna á milli ráðuneyta. Ábyrgð stjórnarframkvæmdar á einstökum málefnasviðum er varða þjóðaröryggi er því óbreytt hjá hlutaðeigandi ráðherra samkvæmt forsetaúrskurði hverju sinni.
    Fyrirspurnin lýtur að sérfræðiþekkingu í hermálum með vísan til 6. tölul. þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland, en þar er fjallað um varnarmannvirki, búnað, getu og sérfræðiþekkingu til að mæta þeim áskorunum sem Ísland stendur frammi fyrir í öryggis- og varnarmálum. Samkvæmt framangreindu má álykta að fyrirspurnin lúti að fullnægjandi viðbúnaði, þar á meðal fullnægjandi sérfræðiþekkingu, sem ætlað er að mæta áskorunum er varða varnarmál og varnarsamstarf.
    Samkvæmt k-lið 2. tölul. 10. gr. forsetaúrskurðar nr. 119/2018, um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands, fer utanríkisráðuneytið með mál er varða varnarmál og er þar m.a. starfrækt sérstök varnarmálaskrifstofa til að sinna málefninu, auk þess sem þar er starfrækt sérstök alþjóða- og öryggisskrifstofa. Það er því á ábyrgð utanríkisráðherra og utanríkisráðuneytisins að tryggja að á hverjum tíma sé fyrir hendi fullnægjandi sérfræðiþekking á varnar- og öryggismálum í stjórnkerfinu, þ.m.t. á hermálum. Óski fyrirspyrjandi eftir nánari upplýsingum um málefnið ber að beina fyrirspurn þar að lútandi til utanríkisráðherra, sbr. 1. mgr. 57. gr. laga um þingsköp Alþingis, nr. 55/1991.