Ferill 1. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 537  —  1. mál.
3. umræða.



Nefndarálit


um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2020.

Frá meiri hluta fjárlaganefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið að nýju eftir 2. umræðu og fengið fulltrúa fjármála- og efnahagsráðuneytisins á sinn fund. Breytingartillögur meiri hlutans eru að langmestu leyti tæknilegs eðlis, þ.e. leiðréttingar á hagrænni skiptingu gjalda og verðlagsmálum, breytingar á markaðsleigu stofnana og leiðréttingar á milli einstakra málaflokka og málefnasviða.
    Aðeins er gerðar tvær breytingatillögur sem hafa áhrif á afkomuna skv. 1. gr. fjárlaga, samtals að fjárhæð 102,6 millj. kr. sem leiða til lakari afkomu en miðað var við eftir 2. umræðu frumvarpsins.
    Annars vegar eru framlög aukin um 82,6 millj. kr. vegna verðalagsbóta á viðbótarsamning milli ríkis og kirkju og hins vegar er veitt tímabundið 20 millj. kr. framlag til að styrkja rekstrargrundvöll Vigdísarstofnunar, alþjóðlegrar miðstöðvar tungumála og menningar, sem starfar innan vébanda Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum. Samningsbundið framlag ríkisins var tímabundið til þriggja ára og fellur niður á næsta ári. Meiri hlutinn væntir þess að samningurinn verði endurnýjaður og framvegis verði gert ráð fyrir árlegu framlagi innan fjárhagsramma Háskóla Íslands. Auk samningsbundins ríkisframlags hefur stofnunin hlotið fjölmarga erlenda og innlenda styrki.
    Samtals lækka rekstrartekjur um 145,6 millj. kr. á móti samsvarandi lækkun fjárheimildar á útgjaldahlið vegna breyttrar framsetningar á framlögum til þjóðkirkjunnar. Sú breyting hefur því engin áhrif á afkomu ríkissjóðs. Að auki er ein millifærsla á tekjuhlið þar sem áætlun um 165,1 millj. kr. flokkun veiðileyfa hreindýraráðs er breytt.
    Breytingar á gjaldahlið leiða til þess að útgjaldarammar málefnasviða hækka um 623,7 millj. kr. Þyngst vegur hækkun í tengslum við greiðslur stofnana á markaðsleigu, 521,1 millj. kr. Þessi útgjöld eru flokkuð sem innri viðskipti samkvæmt hagskýrslustaðli og hafa því ekki áhrif á afkomu ríkissjóðs. Önnur tilefni eru verðlagsbætur sem vega 82,6 millj. kr. til hækkunar þar sem við 2. umræðu lá ekki fyrir útreikningur á verðlagsbótum vegna viðbótarsamnings milli ríkis og kirkju og 20 millj. kr. framlags til Vigdísarstofnunar.
    Á móti vegur lækkun heimildar um 145,6 millj. kr. í tengslum við breytta framsetningu á framlagi til þjóðkirkjunnar. Samsvarandi breyting er gerð á tekjuhlið og hefur því engin áhrif á afkomu ríkissjóðs.
    Að teknu tilliti til leiðréttingar á innbyrðis viðskiptum vegna markaðsleigu stofnana lækka útgjöldin um 43 millj. kr. Lækkun rekstrartekna nemur 145,6 millj. kr. Afkoma ríkissjóðs versnar því samtals um 102,6 millj. kr. frá því sem gert var ráð fyrir við 2. umræðu um frumvarpið.
    Auk þess er eru lagðar til tvær breytingar við 6. gr. frumvarpsins.

Innleiðing markaðsleigu fyrir fasteignir í eigu ríkisins.
    Gjaldaheimildir hækka samtals um 521,1 millj. kr. þar sem fasteignir Háskólans á Akureyri og hluti af fasteignum Stjórnarráðsins greiða nú húsaleigu miðað við markaðsleigu og jafnframt er veitt heimild til að Ríkiseignir geti skilað þeim tekjum sínum til ríkissjóðs. Samkvæmt breyttum reikningskilum ber nú að eignfæra og afskrifa fasteignir á endingartíma þeirra. Með því að taka upp innri leigu í starfsemi ríkisins sem endurspeglar verðmæti viðkomandi eignar er verið að auka fjárhagslegt gagnsæi við húsnæðisrekstur hins opinbera.
    Með þessum breytingum er verið að draga fram raunverulegan kostnað af opinberri þjónustu. Samræming á leigugreiðslum hjá ríkisstofnunum, óháð því hvort starfsemin er rekin í ríkishúsnæði eða húsnæði í eigu einkaaðila, er liður í þeirri viðleitni.
    Ríkisaðilum verður bættur mismunur á núverandi og fyrirhuguðum leigugreiðslum án þess að það hafi áhrif á afkomu ríkissjóðs eða breyti umfangi starfsemi Ríkiseigna.
    Í þessum áfanga er umsýsla fasteigna Háskólans á Akureyri auk fasteigna á Stjórnarráðsreitnum færð til Ríkiseigna.

Hagræn skipting gjalda.
    Ríkisútgjöld eru flokkuð í rekstrarframlög, rekstrartilfærslur, fjármagnstilfærslur og fjárfestingarframlög samkvæmt alþjóðlegum hagskýrslustaðli. Gerðar eru tillögur um breytingar á þeirri flokkun sem leiða ekki til breytinga á heildarútgjöldum. Dæmi um þetta er 2.382,9 millj. kr. framlag til Fjármálaeftirlitsins sem breytt er í tilfærslu í samræmi við sameiningu stofnunarinnar við Seðlabanka Íslands og sama gildir um 2.782,9 millj. kr. framlag til þjóðkirkjunnar sem nú er lagt til að færist sem rekstrartilfærsla. Með rekstrartilfærslum er átt við framlög ríkissjóðs til einstaklinga eða samtaka utan ríkisins án þess að um kaup á þjónustu sé að ræða.
    Hjá utanríkisþjónustunni er ætlunin að nýta 200 millj. kr. til kaupa á búnaði fyrir aðalskrifstofu ráðuneytisins og fyrir sendiskrifstofur erlendis og er gerð tillaga um að færa samtals 200 millj. kr. af rekstri yfir á fjárfestingarheimild af þeim sökum.
    Gerð er tillaga um að millifæra tímabundið 150 millj. kr. framlag til eflingar Hafrannsóknarstofnunar. Í frumvarpinu var gert ráð fyrir 280 millj. kr. framlagi til að efla grunnrannsóknir á sviði hafrannsókna og matvælarannsókna og er þessi tillaga hluti af nánari útfærslu á þeirri ráðstöfun. Á móti eru framlög á liðnum Ýmis framlög í sjávarútvegi lækkuð um sömu fjárhæð.
    Samtals eru gerðar 14 aðrar tillögur sem flokkast undir breytingu á hagrænni skiptingu gjalda og breyta þær ekki heildargjaldaheimild fjárlaga skv. 1. gr. frumvarpsins. Tillögurnar koma fram á eftirfarandi málefnasviðum: Alþingi og eftirlitsstofnanir þess; Skatta- eigna- og fjármálaumsýsla; Hagskýrslugerð og grunnskrár; Réttindi einstaklinga, trúmál og stjórnsýsla dómsmála; Samgöngu- og fjarskiptamál; Markaðseftirlit, neytendamál og stjórnsýsla atvinnumála og nýsköpunar; Menning, listir, íþrótta- og æskulýðsmál; Önnur skólastig og stjórnsýsla mennta- og menningarmála; Hjúkrunar- og endurhæfingarþjónusta og Lyf og lækningavörur. Tillögurnar hafa engin áhrif á útgjaldaheimildir einstakra málaflokka og breyta eingöngu flokkun gjalda.
    Lagðar til nokkrar millifærslur þar sem í ljós hefur komið að breytingar sem lagðar voru til fyrir 2. umræðu um frumvarpið eiga betur heima á öðrum liðum.
    Meiri hlutinn vekur athygli á því að hann telur ekki þörf á að leggja til frekari hækkun á framlögum til þeirra aðila sem vinna við að tryggja virkt skatteftirlit að sinni. Í frumvarpinu er nú þegar gert ráð fyrir 200 millj. kr. hækkun til embættis ríkisskattstjóra vegna aukins skatteftirlits sem útfært verður með því að styrkja bæði eftirlitssvið, greiningarteymi og tekjuskráningareftirlit hjá embættinu. Auk þess vísast til aðgerða stjórnvalda sem kynntar voru 15. nóvember sl. sem m.a. snúa að hertri löggjöf um skattundanskot og fjölgun upplýsingaskiptasamninga við önnur ríki. Frá árinu 2017 hafa framlög til ríkisskattstjóra verið aukin að raungildi um 450 millj. kr. sem eru tæp 14%. Að auki er vakin athygli á því að varasjóður málaflokksins hljóðar upp á 77,4 millj. kr. á næsta ári og er hægt að nota hann til þess að efla skatteftirlit enn meira ef þörf krefur. Þá skal þess getið að almennur varasjóður þessa árs hefur ekki verið fullnýttur enn sem komið er og því svigrúm til að bregðast við útgjaldatilefnum innan ársins í ár.
    Samkvæmt 28. gr. laga um opinber fjármál skal innan tveggja vikna frá því að fjárlög hafa verið samþykkt á Alþingi uppfæra fylgirit með frumvarpi til fjárlaga í samræmi við breytingar Alþingis á frumvarpinu. Ráðherra skal kynna uppfært fylgirit fyrir fjárlaganefnd. Meiri hlutinn leggur til að 10 millj. kr. verði millifærðar á lið vegna styrkja til uppbyggingar landsmótsstaða af almennum styrkjalið íþróttamála þannig að tekið sé tillit til þess að þrjú landsmót verða á næsta ári og styrkir til uppbyggingar landsmótsstaða ættu að taka mið af því.
    Auk þess leggur meiri hlutinn til að 50 millj. kr. verði millifærðar af fjárheimild nýbyggingarinnar Alþingis yfir á framkvæmdir á Alþingisreit innan sama fjárlagaliðar fylgiritsins til að mæta kostnaði við uppsetningu á lyftu í Þórshamri. Umboðsmaður Alþingis er til húsa í Þórshamri og þar hefur ekki verið aðgengi fyrir fatlaða þar sem engin lyfta er í húsinu. Unnið er að breytingum á húsinu og uppsetningu á lyftu og hefur Framkvæmdasýsla ríkisins umsjón með verkinu fyrir Alþingi.

Skýringar við breytingartillögur á gjaldahlið fyrir utan hagræna skiptingu og markaðsleigu.
10 Réttindi einstaklinga, trúmál og stjórnsýsla dómsmála.
10.20 Trúmál.
    Lagt er til 82,6 millj. kr. viðbótarframlag til málaflokksins. Um er að ræða viðbótarframlag til þjóðkirkjunnar í samræmi við viðbótarsamning íslenska ríkisins og þjóðkirkjunnar. Framlagið er vegna launa- og verðlagsbreytinga á samningsfjárhæðum skv. 1. og 2. gr. samningsins, samningsfjárhæðirnar voru settar fram á verðlagi ársins 2018 en eru með þessari tillögu færðar til verðlags ársins 2020. Útreikningar á þessum breytingum lágu ekki endanlega fyrir við 2. umræðu um frumvarpið og er því breytingin lögð til við 3. umræðu.
    
13 Sjávarútvegur og fiskeldi.
13.20 Rannsóknir, þróun og nýsköpun í sjávarútvegi.
    Gert er ráð fyrir að millifæra 150 millj. kr. tímabundið framlag í eitt ár til eflingar á Hafrannsóknastofnun. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir 280 millj. kr. framlagi til þess m.a. að efla grunnrannsóknir á sviði hafrannsókna og matvælarannsókna og er þessi tillaga hluti af nánari útfærslu á þeirri ráðstöfun.

17 Umhverfismál.
17.50 Stjórnsýsla umhverfismála.
    Gert er ráð fyrir að tekjur af veiðileyfum hreindýraráðs verði flokkaðar sem rekstrartekjur en ekki skattatekjur. Áætlað er að tekjur af veiðileyfunum verði 165,1 millj. kr. á árinu 2020. 10 millj. kr. hækkun á milli áranna 2019 og 2020 var færð til tekna hjá stofnuninni í frumvarpinu. Nú er lögð til 155,1 millj. kr. hækkun á rekstrartekjum Umhverfisstofnunar og samsvarandi lækkun á greiðslu úr ríkissjóði á móti. Breytingin hefur ekki áhrif á afkomu ríkissjóðs.
    Gert er ráð fyrir að flokkun tekna vegna starfsleyfa og gjalds af veiðikorti verði óbreytt frá fyrri árum og þær flokkist sem skattur. Í frumvarpinu var áætluð hækkun á milli ára flokkuð sem rekstrartekjur stofnunar. Nú er lagt til að flokkunin verði færð til samræmis við fyrri ár. Breytingin hefur ekki áhrif á afkomu ríkissjóðs.
    
20 Framhaldsskólastig.
20.10 Framhaldsskólar.
    Lögð er til millifærsla á 15 millj. kr. tímabundnu framlagi til Lýðskólans á Flateyri sem veitt var við 2. umræðu og 15 millj. kr. tímabundnu framlagi til LungA af málaflokki 22.20.

21 Háskólastig.
21.10 Háskólar og rannsóknastarfsemi.
    Gerð er tillaga um 20 millj. kr. tímabundið framlag til að styrkja rekstrargrundvöll Vigdísarstofnunar, alþjóðlegrar miðstöðvar tungumála og menningar, sem starfar innan vébanda Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum. Samningsbundið framlag ríkisins var tímabundið til þriggja ára og fellur það niður á næsta ári. Meiri hlutinn væntir þess að samningurinn verði endurnýjaður og framvegis verði gert ráð fyrir árlegu framlagi innan fjárhagsramma Háskóla Íslands. Auk samningsbundins ríkisframlags hefur stofnunin hlotið fjölmarga erlenda og innlenda styrki.

22 Önnur skólastig og stjórnsýsla mennta- og menningarmála.
22.10 Leikskóla- og grunnskólastig.
    Gert er ráð fyrir að millifæra 100 millj. kr. framlag sem veitt var við 2. umræðu til sérstakra fræðsluverkefna af varasjóði málaflokks 22.30.

22.20 Framhaldsfræðsla og menntun óflokkuð á skólastig.
    Lögð er til millifærsla á 15 millj. kr. tímabundnu framlagi til Lýðskólans á Flateyri sem veitt var við 2. umræðu og 15 millj. kr. tímabundnu framlagi til LungA á málaflokk 20.10.

22.30 Stjórnsýsla mennta- og menningarmála.
    Gert er ráð fyrir að millifæra 100 millj. kr. framlag sem veitt var við 2. umræðu til sérstakra fræðsluverkefna yfir á málaflokk 22.10 Leikskóla- og grunnskólastig.

24 Heilbrigðisþjónusta utan sjúkrahúsa.
24.10 Heilsugæsla.
    Gerð er tillaga um millifærslu 17,8 millj. kr. fjárheimildar á málaflokk 24.40 Sjúkraflutningar vegna samnings um sjúkraflutninga.

24.40 Sjúkraflutningar.
    Gerð er tillaga um millifærslu fjárheimildar á málaflokk 24.40 Sjúkraflutningar vegna samnings um sjúkraflutninga.

27 Örorka og málefni fatlaðs fólks.
27.10 Bætur samkvæmt lögum um almannatryggingar, örorkulífeyrir.
    Gerð er tillaga um millifærslu á 213,8 millj. kr. fjárheimild af 27.20 vegna breyttrar flokkunar.

27.20 Bætur samkvæmt lögum um félagslega aðstoð, örorka.
    Gerð er tillaga um millifærslu á 213,8 millj. kr. fjárheimild á 27.10 vegna breyttrar flokkunar.

    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem skýrðar hafa verið og gerð er tillaga um á sérstökum þingskjölum.

Alþingi, 25. nóvember 2019.

Willum Þór Þórsson,
form., frsm.
Haraldur Benediktsson. Njáll Trausti Friðbertsson.
Páll Magnússon. Steinunn Þóra Árnadóttir.