Ferill 382. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 700  —  382. mál.
2. umræða.



Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á búvörulögum og tollalögum (úthlutun tollkvóta).

Frá minni hluta atvinnuveganefndar.


    Fyrir nefndinni hafa komið fram sjónarmið um að fresta ætti afgreiðslu frumvarpsins og vísa því til umfjöllunar við gerð heildrænnar stefnumótunar í landbúnaði. Var bent á að móta þyrfti sameiginlega sýn til lengri tíma þar sem hlutverk allra aðila yrðu skilgreind og stefnt að sameiginlegri landbúnaðarstefnu sem styddi við aðra opinbera stefnumótun.
    Minni hlutinn telur þær breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu vera til bóta en tekur undir framangreind sjónarmið. Nauðsynlegt sé að móta heildstæða stefnu í landbúnaði sem unnið verði eftir, öllum til hagsbóta.
    Nefndinni var bent á að sú leið sem lögð er til í frumvarpinu mundi lækka tekjur ríkisins og að ekki væri tryggt að sú lækkun skilaði sér til neytenda. Var bent á að bökunarkartöflur hefðu verið fluttar til landsins án tolla í fjöldamörg ár en væru þó ekki ódýrari en þær íslensku.
    Minni hlutinn tekur undir að ekki hafi verið sýnt fram á að sú lækkun á útboðskostnaði sem frumvarpið geri tillögu um muni skila sér til neytenda. Bendir minni hlutinn á að nauðsynlegt sé að tryggja með einhverjum hætti að neytendur njóti góðs af lækkuninni. Minni hlutinn leggst ekki gegn því að málið hljóti brautargengi en bendir á að málið er seint fram komið og er hugsi yfir því hvers vegna liggi á að hraða málinu í gegnum þingið á sama tíma og markmið stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar um sjálfbærni í landbúnaði og matvælaframleiðslu er enn í ferli.

Alþingi, 11. desember 2019.

Sigurður Páll Jónsson, frsm. Þorgrímur Sigmundsson.