Ferill 393. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 705  —  393. mál.
2. umræða.Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 95/2000, með síðari breytingum (lenging fæðingarorlofs).

Frá meiri hluta velferðarnefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ásmund Einar Daðason félags- og barnamálaráðherra, Arnar Þór Sævarsson, Bjarnheiði Gautadóttur, Gissur Pétursson, Gunnhildi Gunnarsdóttur og Stefán Daníel Jónsson frá félagsmálaráðuneytinu, Halldór Oddsson frá Alþýðusambandi Íslands, Dagnýju Aradóttur Pind frá BSRB, Margréti Júlíu Rafnsdóttur frá Barnaheillum, Guðríði Bolladóttur frá embætti umboðsmanns barna, Bryndísi Gunnlaugsdóttur frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Steinunni Bergmann og Sigurlaugu H. Traustadóttur frá Félagsráðgjafafélagi Íslands.
    Umsagnir bárust frá Alþýðusambandi Íslands, Bandalagi háskólamanna, Barnaheillum, BSRB, Félagsráðgjafafélagi Íslands, Geðverndarfélagi Íslands, Jafnréttisstofu, Ljósmæðrafélagi Íslands og Sambandi íslenskra sveitarfélaga.
    Með frumvarpinu er lagt til að samanlagður réttur foreldra til fæðingarorlofs verði lengdur úr níu mánuðum í tólf mánuði og að lengingin komi til framkvæmda í tveimur áföngum, annars vegar vegna barna sem fæðast, eru ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur á árinu 2020 og hins vegar vegna barna sem fæðast, eru ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur 1. janúar 2021 eða síðar.
    Í fyrsta áfanga er gert ráð fyrir að samanlagður réttur foreldra til fæðingarorlofs lengist um einn mánuð vegna barna sem fæðast, eru ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur á árinu 2020. Er lagt til að lengingunni verði þannig háttað að sameiginlegur réttur foreldra til fæðingarorlofs verði tveir mánuðir í stað þriggja, og að réttur hvors foreldris um sig verði fjórir mánuðir árið 2020 og fimm mánuðir árið 2021. Sams konar breyting er lögð til á rétti til fæðingarstyrks.

Skipting réttar til fæðingar- og foreldraorlofs.
    Umsagnir um málið voru almennt jákvæðar um þá lengingu fæðingarorlofs sem lögð er til með frumvarpinu. Hins vegar komu við umfjöllun nefndarinnar fram athugasemdir um að í lögum um fæðingar- og foreldraorlof væri ekki tekið með fullnægjandi hætti á aðstæðum einstæðra foreldra sem gætu verið mismunandi, enda réttur hvors foreldris óframseljanlegur. Markmið laganna væri að tryggja barni samvistir við foreldri. Í aðstæðum þar sem einungis annað foreldri hefur áhuga á að nýta rétt sinn til töku fæðingarorlofs gæti barnið ekki notið þeirra samvista sem lögunum er ætlað að tryggja. Þá var bent á að einnig kæmu þar til skoðunar jafnréttismál, til að mynda þegar einstæðir foreldrar sem sinna einir uppeldi barns þurfa að hverfa af vinnumarkaði í lengri tíma en gildandi lög gera ráð fyrir til þess að annast barnið.
    Meiri hlutinn tekur undir þessar áhyggjur og bendir á að skipuð hefur verið nefnd í tengslum við heildarendurskoðun laganna. Telur meiri hlutinn brýnt að við vinnu nefndarinnar verði mótaðar tillögur sem taki á fjölbreyttari fjölskyldumynstrum.
    Við vinnu nefndarinnar, og í samtölum við gesti, komu fram margvísleg sjónarmið um skynsamlegustu skiptingu þeirra mánaða sem foreldrar eiga rétt á fæðingarorlofi vegna barna sinna. Bent var á í umsögnum að heppilegast væri að allur rétturinn væri skilgreindur sérstaklega, en einnig komu fram þau sjónarmið að það ætti að vera val hverrar fjölskyldu hvernig skiptingu yrði háttað.
    Meiri hlutinn telur afar brýnt að við heildarendurskoðun laga um fæðingarorlof verði skoðað hvort núverandi fyrirkomulag sé það skynsamlegasta, og þá einkum með það fyrir augum að réttur barna til samvista við foreldri í 12 mánuði eftir fæðingu sé tryggður.

Tillaga nefndarinnar.
    Að mati meiri hlutans er mikilvægt að réttur foreldra til fæðingarorlofs verði lengdur í tólf mánuði og styður meiri hlutinn allar aðgerðir í því sambandi. Hins vegar telur meiri hlutinn ekki síður mikilvægt að skipting milli foreldra á rétti til fæðingarorlofs sem kveðið verður á um í lögum sé vel ígrunduð. Meiri hlutinn leggur því til að með samþykkt frumvarpsins verði sú skylda lögð á félags- og barnamálaráðherra að leggja fram frumvarp á Alþingi eigi síðar en í október 2020 þar sem ákvæði laganna um skiptingu fæðingarorlofs milli foreldra og sameiginlegan rétt verði tekin til endurskoðunar. Gerir meiri hlutinn ráð fyrir því að í því frumvarpi verði litið til tillagna þeirrar nefndar sem þegar hefur hafið heildarendurskoðun laganna, m.a. hvað varðar skiptingu á fæðingarorlofsrétti milli foreldra vegna barna sem fæðast, eru ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur 1. janúar 2021 eða síðar.

    Að framansögðu virtu leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Í stað orðanna „fimm“ og „tveimur“ í a-lið 1. gr. komi: fjóra; og: fjórum.
     2.      Í stað orðanna „fimm“ og „tvo“ í a-lið 2. gr. komi: fjóra.
     3.      Í stað orðanna „fimm“ og „tvo“ í a-lið 3. gr. komi: fjóra.
     4.      4. gr. orðist svo:
                 Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
                 Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 8. gr. eiga foreldrar sameiginlegan rétt til fæðingarorlofs í allt að tvo mánuði vegna barna sem fæðast, eru ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur á árinu 2020. Þrátt fyrir ákvæði 4. mgr. 8. gr. skal réttur foreldra til fæðingarorlofs samkvæmt ákvæðinu vera tíu mánuðir vegna barna sem fæðast, eru ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur á árinu 2020.
                 Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 18. gr. og 1. mgr. 19. gr. eiga foreldrar sameiginlegan rétt til fæðingarstyrks í allt að tvo mánuði vegna barna sem fæðast, eru ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur á árinu 2020. Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. 18. gr. og 2. mgr. 19. gr. skal réttur foreldra til fæðingarstyrks samkvæmt ákvæðunum vera tíu mánuðir vegna barna sem fæðast, eru ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur á árinu 2020.
                 Ráðherra skal eigi síðar en í október 2020 leggja fram á Alþingi frumvarp til laga um breytingu á lögum um fæðingar- og foreldraorlof þar sem meðal annars verði lagt til hvernig skiptingu á tólf mánaða samanlögðum fæðingarorlofsrétti foreldra skuli háttað milli foreldra barna sem fæðast, eru ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur 1. janúar 2021 eða síðar.

    Anna Kolbrún Árnadóttir og Halldóra Mogensen rita undir álit þetta með fyrirvara.
    Hanna Katrín Friðriksson, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykk áliti þessu.

Alþingi, 11. desember 2019.

Helga Vala Helgadóttir,
form.
Ólafur Þór Gunnarsson,
frsm.
Ásmundur Friðriksson.
Anna Kolbrún Árnadóttir,
með fyrirvara.
Halla Signý Kristjánsdóttir. Halldóra Mogensen,
með fyrirvara.
Lilja Rafney Magnúsdóttir. Vilhjálmur Árnason.