Ferill 17. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 743  —  17. mál.
Síðari umræða.Nefndarálit


um tillögu til þingsályktunar um 300 þús. kr. lágmarksframfærslu almannatrygginga.

Frá minni hluta velferðarnefndar.


    Með tillögunni er lagt til að félags- og barnamálaráðherra undirbúi og leggi fram frumvarp þess efnis að fullur örorkulífeyrir, endurhæfingarlífeyrir og ellilífeyrir tryggi 300 þús. kr. lágmarksframfærslu á mánuði, skatta- og skerðingarlaust.
    Umsagnaraðilar og gestir nefndarinnar voru almennt hlynntir efni tillögunnar og tóku undir að þörf væri á að tryggja viðunandi lágmarksframfærslu örorku- og ellilífeyrisþega og að hún tæki mið af launaþróun. Í því samhengi var nefndinni m.a. bent á að atvinnuleysisbætur væru orðnar umtalsvert hærri en lífeyrir almannatrygginga. Þyki það skjóta skökku við enda atvinnuleysisbætur hugsaðar sem skammtímaúrræði en lífeyrir almannatrygginga sem langtímaúrræði fyrir einstaklinga sem alla jafna eiga ekki nokkurn kost á að bæta hag sinn, sbr. umsögn Öryrkjabandalagsins frá 28. október 2019 við fjárlög fyrir árið 2020 (1. mál á 150. löggjafarþingi).
    Minni hlutinn tekur undir framangreint og telur að kjör lífeyrisþega hafi ekki náð að fylgja launaþróun sem hafi þar af leiðandi leitt af sér ákveðna kjaragliðnun. Þá bendir minni hlutinn á að lífeyrisþegar geta ekki nýtt sér sömu úrræði og launþegar, eins og verkfallsrétt. Að mati minni hlutans er mikilvægt að tryggja lífeyrisþegum lágmarksframfærslu, skatta- og skerðingarlaust. Þá er það mat minni hlutans að tillaga þessi feli í sér nauðsynlega kjarabót í þeim efnum og áréttar mikilvægi þess að frumvarp þess efnis verði lagt fram fyrir lok yfirstandandi löggjafarþings.
    Með hliðsjón af framangreindu leggur minni hlutinn til að tillagan verði samþykkt.

Alþingi, 13. desember 2019.

Helga Vala Helgadóttir,
form.
Guðmundur Ingi Kristinsson, frsm. Halldóra Mogensen.