Ferill 319. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 744  —  319. mál.
2. umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.

Frá minni hluta velferðarnefndar.


    Minni hlutinn gagnrýnir harðlega þau vinnubrögð ríkisstjórnarinnar sem viðhöfð voru við framlagningu málsins. Frumvarpsdrög voru birt í samráðsgátt stjórnvalda 15. júlí 2019 og lauk umsagnarfresti þar 13. ágúst 2019. Sjö umsagnir bárust um málið en frumvarpið ber það ekki með sér að tillit hafi verið tekið til umsagna. Þrátt fyrir framangreint var ekki mælt fyrir frumvarpinu fyrr en 11. nóvember.
    Fjöldi umsagna barst nefndinni, en formlegu umsagnarferli nefndarinnar lauk 5. desember. Því hafði nefndin ekki tök á því að bregðast með fullnægjandi hætti við öllum umsóknum og kalla alla þá fyrir nefndina sem tilefni var til. Telur minni hlutinn jafnframt að meiri hluti nefndarinnar hafi við afgreiðslu málsins ekki tekið með fullnægjandi hætti tillit til faglegra umsagna sem bárust nefndinni.
    Í umsögn Seðlabanka Íslands var lögð til orðalagsbreyting á 3. málsl. 1. mgr. 2. gr. frumvarpsins. Í umsögninni segir að orðalag ákvæðisins um aðgang almennings að húsnæði „óháð efnahag“ virðist óþarflega opið og megi skilja það sem svo að greiðslugeta lántaka eigi ekki að skipta máli við ákvörðun um lánveitingar Húsnæðissjóðs. Tekur minni hlutinn undir þá athugasemd og leggur til breytingu í samræmi við ábendingu Seðlabanka Íslands.
    Að mati minni hlutans var við samningu frumvarpsins horft of mikið á húsnæðishluta hinnar nýju stofnunar og ber greinargerðin þess merki að sú áhersla hafi verið á kostnað starfs Mannvirkjastofnunar, sem felst m.a. í eftirliti með brunavörnum og rafmagnseftirliti. Meðal annars komu fram áhyggjur af hlutverki brunamálaskólans, þar sem skorti framtíðarsýn, prófin væru úrelt og nám við skólann ekki metið inn í viðurkennt kerfi. Þá væru þeir fjármunir sem greiddir væru í bygginga- og öryggisgjald ekki að skila sér í starfsemi stofnunarinnar. Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna, Verkfræðingafélag Íslands og Samorka bentu öll á að hætta yrði á að mikilvægi öryggisþáttarins yrði ekki gert nægilega hátt undir höfði. Tekur minni hlutinn undir þessi sjónarmið og telur þessar athugasemdir kalla á ítarlegri umfjöllun.
    Þá bendir minni hlutinn á að ákvæði 15. gr. um rafræna byggingargátt veki ýmsar spurningar. Hvorki er mælt fyrir um eignarhald gáttarinnar í frumvarpinu né í nefndaráliti meiri hluta nefndarinnar. Því er ekki heldur svarað með skýrum hætti hvort ríki og sveitarfélög muni þurfa að greiða fyrir aðgang að hinni rafrænu gátt. Í greinargerð frumvarpsins segir um gjaldtökuheimild stofnunarinnar í 15. gr. að ekki sé gert ráð fyrir því að þjónustugjöld verði innheimt fyrir þau verkefni sem snúa að samræmingar- og samstarfshlutverki stofnunarinnar gagnvart sveitarfélögum. Slík skýring á sér þó ekki fullnægjandi stoð í gjaldtökuheimildinni sjálfri, sem veldur vafa um það hvort ríki og sveitarfélög muni þurfa að greiða fyrir aðgang að hinni rafrænu gátt. Með hliðsjón af þeim athugasemdum leggur nefndin til breytingu þess efnis að stofnunin skuli starfrækja gagnasafn í samræmi við ákvæði laga um mannvirki.
    Með vísan til framangreinds leggur minni hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Í stað orðanna „óháð efnahag og búsetu“ í 3. málsl. 1. mgr. 2. gr. komi: með tilliti til efnahags og búsetu.
     2.      2. málsl. 15. gr. orðist svo: Einnig skal stofnunin starfrækja gagnasafn í samræmi við ákvæði laga um mannvirki.

    Hanna Katrín Friðriksson, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykk áliti þessu.

Alþingi, 13. desember 2019.

Helga Vala Helgadóttir,
form., frsm.
Anna Kolbrún Árnadóttir. Halldóra Mogensen.
Guðmundur Ingi Kristinsson.