Ferill 15. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 865  —  15. mál.
Síðari umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um tillögu til þingsályktunar um stofnun embættis tæknistjóra ríkisins.

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Sigurð H. Helgason og Einar Birki Einarsson frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu og Njörð Sigurðsson frá Þjóðskjalasafni Íslands. Nefndinni barst umsögn um málið frá Þjóðskjalasafni Íslands.
    Með tillögunni er lagt til að stofnað verði embætti tæknistjóra ríkisins sem hafi yfirumsjón með tæknilegum innviðum Stjórnarráðsins.
    Við meðferð málsins var lögð áhersla á mikilvægi þess að samræma tæknikerfi ríkisins, auka sjálfsafgreiðslu í rafrænni þjónustu ríkisins og samnýta tæknilega innviði þar sem það ætti við. Þá kom einnig fram að huga þyrfti að varðveislu rafrænna gagna strax við hönnun rafrænna gagnakerfa og að samræma þyrfti uppbyggingu rafrænna gagnakerfa ríkisins. Enn fremur þyrfti að tryggja að varðveisla þessara gagna yrði í samræmi við lög um opinber skjalasöfn, nr. 77/2014.
    Meiri hlutinn bendir á að í upphafi árs 2018 var stofnaður verkefnahópur innan fjármála- og efnahagsráðuneytisins sem gengur undir heitinu „Verkefnastofa um stafrænt Ísland“. Megináherslur verkefnastofunnar eru að auka og bæta stafræna opinbera þjónustu á Ísland.is, að byggja upp og styrkja grunninnviði upplýsingatækni og að auka samrekstur stofnana á sviði upplýsingatækni. Að auki samþykkti ríkisstjórnin fyrr á þessu ári aðgerðaáætlun um eflingu stafrænnar þjónustu sem inniheldur m.a. tillögu um að gagnasöfn verði efld og opnuð almenningi og vísindasamfélaginu. Þar kemur einnig fram að þörf sé á breytingum á lagaumgjörð til að styðja við hagnýtingu og útbreiðslu á stafrænni opinberri þjónustu.
    Meiri hlutinn telur ljóst að mikil uppsöfnuð þörf er á tæknilegri vinnu við rafræna þjónustu hins opinbera og að efling stafrænnar þjónustu muni skila aukinni hagræðingu í ríkisfjármálum. Að mati meiri hlutans falla markmið tillögunnar vel að framangreindri vinnu sem hafin er hjá stjórnvöldum en nauðsynlegt er að sú vinna verði efld enn frekar. Meiri hlutinn leggur áherslu á mikilvægi þess að tæknilegir innviðir Stjórnarráðsins fái umgjörð í samræmi við mikilvægi sitt og telur að sérstakt embætti eða stofnun geti verið leið að því marki. Þó er það mat meiri hlutans að rétt sé að eftirláta ráðherra að meta hvort tilefni verði til að stofna sérstakt embætti sem hafi yfirumsjón með tæknilegum innviðum Stjórnarráðsins og hvort vinnan kalli á lagabreytingar. Meiri hlutinn leggur til orðalagsbreytingu á tillögugrein og fyrirsögn að þessu leyti. Að lokum áréttar meiri hlutinn að í slíkri vinnu verði tryggt að samræming rafrænna gagnakerfa ríkisins sem og varðveisla rafrænna gagna verði í samræmi við lög um opinber skjalasöfn.

    Að teknu tilliti til þess sem að framan greinir leggur meiri hlutinn til að þingsályktunartillagan verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Tillögugreinin orðist svo:
             Alþingi ályktar að fela fjármála- og efnahagsráðherra að stórefla vinnu er varðar tæknilega innviði Stjórnarráðsins, samþættingu vefkerfa og forritunarviðmóta og stöðlun þróunarferla og gæðastýringar við hugbúnaðargerð, utanumhald um opinber gögn sem og varðveislu og afhendingu rafrænna gagna til Þjóðskjalasafns Íslands, upplýsingaöryggismál ríkisins og annað sem snýr að því að tryggja gæði rafrænnar þjónustu hins opinbera gagnvart almenningi. Ráðherra kynni Alþingi niðurstöður þeirrar vinnu og leggi jafnframt til nauðsynlegar lagabreytingar, ef við á, á 151. löggjafarþingi.
     2.      Fyrirsögn tillögunnar orðist svo: Tillaga til þingsályktunar um tæknilega innviði Stjórnarráðsins og rafræna þjónustu hins opinbera.

    Ólafur Þór Gunnarsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins en ritar undir álit þetta samkvæmt heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fastanefnda Alþingis.

Alþingi, 16. janúar 2020.

Óli Björn Kárason,
form.
Smári McCarthy, frsm. Þorsteinn Víglundsson.
Bryndís Haraldsdóttir. Ólafur Þór Gunnarsson.