Ferill 420. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 953  —  420. mál.
Svar


mennta- og menningarmálaráðherra við fyrirspurn frá Ara Trausta Guðmundssyni um fornminjaskráningu á landi.


     1.      Í hve miklum mæli hefur tekist að skrá fornminjar á landi hérlendis?
    Samkvæmt upplýsingum frá Minjastofnun Íslands er áætlað að á landinu öllu séu um 250.000 fornleifar. Um 30% þeirra hafa verið skráðar undanfarna áratugi og eru elstu skráningargögnin í sumum tilvikum úrelt. Yfirfara þarf fyrirliggjandi gögn til að sjá hve stór hluti uppfyllir staðla Minjastofnunar til fornleifaskráningar.

     2.      Hver er áætlaður kostnaður við að ljúka skráningunni?
    
Minjastofnun Íslands hefur áætlað að kostnaður við heildarskráningu landsins sé 2,5 milljarður kr. Er þar gert ráð fyrir yfirferð skráningargagna sem þegar eru til, gerð gagnagrunns, rannsóknir á ritheimildum og kortum og vettvangsvinnu. Til að skrá megi landið í heild þarf bæði að mennta og ráða nýtt starfsfólk sem og kaupa tæki.

     3.      Hverjar eru horfur á að hægt verði að auka verulega við fornminjaskráningar á landi, á næstu 2–5 árum?
    Fornleifaskráning hefur verið lögbundinn hluti skipulagsvinnu frá gildistöku þjóðminjalaga nr. 88/1989. Með gildistöku þjóðminjalaga nr. 107/2001 var fært í lög að þeir sem bæru ábyrgð á skipulagsgerð, sveitarfélög og framkvæmdaaðilar, skyldu standa straum af kostnaði við skráningu. Þrátt fyrir þetta hefur gengið hægt að ljúka fyrstu umferð fornleifaskráningar í landinu og helgast það einkum af því að kostnaður getur reynst mikill og eru sveitarfélög landsins misvel í stakk búin til að fást við verkefnið. Oft er um að ræða fámenn en landmikil sveitarfélög. Af þessum sökum var í nýlegum reglum Minjastofnunar Íslands um skráningu menningarminja vegna skipulags og framkvæmda, sem unnar voru í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga, dregið verulega úr kröfum um umfang skráningar vegna aðalskipulags sveitarfélaga. Áður áttu sveitarfélög að láta skrá allt land innan sinna marka, en nú er einungis gerð krafa um skráningu framkvæmdasvæða og þéttbýlis í tengslum við aðalskipulagsgerð. Því er ljóst að landið verður ekki skráð í heild með skipulagsvinnu sveitarfélaga.
    Í samstarfssáttmála ríkisstjórnarflokkanna er lögð áhersla á umhverfismál og friðlýsingar landsvæða og hafa fjárframlög til málaflokksins hækkað umtalsvert í þessu ljósi. Menningarminjar eru nær undantekningarlaust hluti af umhverfi þessara svæða og eru oft tilteknar sérstaklega sem mikilvægur hluti hins friðlýsta svæðis. Hins vegar vill skráning menningarminja oft gleymast í vinnu við umhverfismál. Til að mynda voru veittir styrkir í rammaáætlun til skráningar náttúruminja en ekki menningarminja sem þó eru verndaðar með lögum. Að sama skapi þarf að skrá menningarminjar vegna Landskipulagsstefnu. Mikilvægt er að þeirri fagstofnun sem ber ábyrgð á menningarminjum í landinu, Minjastofnun Íslands, sé tryggð þátttaka í vinnu vegna umhverfismála og friðlýsingar landsvæða og þar með hluti af fjárframlögum til málaflokksins. Með því mætti leysa hluta þess verkefnis að skrá allar menningarminjar í landinu.
    Í þessu ljósi ber einnig að hafa í huga að skv. 2. mgr. 16. gr. laga um menningarminjar, nr. 80/2012, skal ríkissjóður bera kostnað af fornleifaskráningu sem fram fer innan þjóðlendna. Samkvæmt 3. gr. þjóðlendulaga, nr. 58/1998, á að verja tekjum ríkisins af þjóðlendum í þágu verkefna innan þjóðlendna, en hingað til eru helstu tekjur sem ríkið hefur haft tæpur milljarður króna frá Landsvirkjun. Ekki hefur verið lögð til sérstök ráðstöfun á þessum fjármunum við fjárlagagerð og hafa fjármunirnir því runnið í ríkissjóð.
    Til að hægt sé að auka verulega skráningu fornleifa á Íslandi á næstu 2–5 árum þarf að koma til fjármögnun eftir hefðbundinni leið fjármálaáætlunar.

     4.      Telur ráðherra þörf á að fullgilda Valletta-samninginn frá 1992 um vernd fornleifaarfsins og enn fremur Faro-samninginn um gildi menningararfsins fyrir samfélagið frá 2005?
    Við gerð laga um menningarminjar, nr. 80/2012, voru Valletta- og Faro-samningarnir hafðir til hliðsjónar og endurspeglast báðir samningarnir í löggjöf hérlendis. Árið 1989 fullgilti Ísland fyrri samninginn um vernd fornleifaarfs, en hefur ekki skrifað undir endurskoðaðan samning frá 1992, svokallaðan Valletta-samning.
    Fyrirhuguð er endurskoðun laga um menningarminjar og verða báðir samningar áfram hafðir til hliðsjónar. Fullgilding Valletta- og Faro-samninganna er því ekki aðkallandi.
    Ísland hefur staðfest samninga UNESCO um verndun menningar- og náttúruminja heimsins frá 1972, um varðveislu menningarerfða frá 2003 og um leiðir til að banna og hindra ólögmætan innflutning, útflutning og yfirfærslu eignarhalds á menningarverðmætum frá 1970. Undanfarin ár hefur meiri áhersla verið lögð á UNESCO-samninga en á samninga Evrópuráðsins.