Ferill 526. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 997  —  526. mál.




Svar


mennta- og menningarmálaráðherra við fyrirspurn frá Smára McCarthy um reiknilíkan nemendaígildis á framhaldsskólastigi.


     1.      Hvernig eru nemendaígildi reiknuð á framhaldsskólastigi? Full útlistun reiknilíkans óskast, með viðeigandi breytum sem hafa áhrif á framlög til skóla á framhaldsskólastigi.
    Nýtt reiknilíkan framhaldsskóla er í þróun en gert er ráð fyrir að fjöldi nemenda verði endurskoðaður fyrir hvern skóla á þriggja ára fresti þegar líkanið er komið í fulla framkvæmd. Þannig er stefnt að stöðugleika sem ætlað er að koma til móts við sáttmála ríkisstjórnarinnar um að tryggja framhaldsskólum frelsi og fjármagn til eigin stefnumótunar innan ramma framhaldsskólalaga.
    Líkanið er samsett af fjórum þáttum: framlagi til náms og kennslu, þjónustuframlagi, útskriftarframlagi og öðrum rekstrarframlögum. Grunnstoð nýja líkansins er verð á námsbraut í stað verðs á áfanga áður. Námsbrautir eru flokkaðar í verðflokka sem verðmetnir eru á grundvelli launakostnaðar, hópastærða, aðstöðu og tækjabúnaðar. Hlutfallslegur verðmunur milli flokka er fastur og hlutfallsleg dreifing nemenda hvers skóla í námsbrautaflokka er að jafnaði stöðug en gert ráð fyrir endurskoðun á þriggja ára fresti. Lýsing á verðflokkum og verðhlutfall er birt í fjárlögum.
     Framlag til náms og kennslu. Við þróun reiknilíkans er notað hugtakið „nemandi í fullu námi“ en ekki orðið nemendaígildi. Í aðalnámskrá framhaldsskóla er fullt nám skilgreint sem 60 einingar á ári og nemendur að jafnaði taldir með því að deila 60 í einingafjölda hvers verðflokks á ári. Við útreikninga fjárlagaársins 2020 var tekið tillit til þess að starfsnámsnemendur í fullu námi skila oft færri einingum á vetri. Til að starfsnámsnemendur séu taldir í fullu námi var því miðað við að skráðar einingar væru að meðaltali a.m.k. 80% af 60 einingum, þ.e. 48 einingar.
    Hvorki í bóknámi né starfsnámi eru nemendur taldir fleiri en höfðatala í viðkomandi verðflokki. Þar sem stúdentsbraut er skipulögð sem 200 eininga nám að lágmarki skila þeir nemendur að jafnaði fleiri en 60 einingum á ári. Tekið er tillit til þess í fjárhæð verðflokks stúdentsbrauta.
    Nemendur á starfsbrautum/sérnámsbrautum fyrir fatlaða eru alltaf taldir óháð einingafjölda.
    Framhaldsskólanemendur á Íslandi geta verið skráðir samtímis í fleiri en einn framhaldsskóla. Í reiknilíkaninu er miðað við að nemendur tilheyri einum aðalskóla sem sé sá skóli þar sem hann tekur meginhluta námseininga sinna. Í þeim skóla er nemandinn skráður á þá námsbraut sem hann stefnir á að útskrifast af. Gert er ráð fyrir að sá skóli sinni lögbundinni þjónustu við nemandann, svo sem náms- og starfsráðgjöf, aðstöðu og útskrift. Með það í huga bera aðrir skólar, sem nemandi er skráður í, minni kostnað af nemandanum. Einingafjöldi sem nemandi tekur í aukaskóla er reiknaður sem 70% af eiginlegum einingafjölda í reiknilíkani. Þetta á til að mynda við þegar nemandi tekur áfanga í fjarnámi í aukaskóla en ekki ef nemandi tekur fjarnámsáfanga í eigin aðalskóla.
    Við útreikning á nemendum í fullu námi eru nú notuð gögn frá skólum um nemendafjölda og einingar á brautum þremur vikum eftir upphaf annar. Stefnt er að því, þegar líkanið er komið í fulla framkvæmd, að nemendafjöldi hvers framhaldsskóla og nemendasamsetning eftir verðflokkum verði að jafnaði föst í þrjú ár. Vakin er athygli á að enn er verið að þróa reiknilíkanið og geta því hlutfallstölur breyst.
     Þjónustuframlögum er ætlað að styðja við þjónustu og stuðning sem skólinn skipuleggur, t.d. við nemendur í brotthvarfshættu, nemendur sem þurfa aðstoð vegna fötlunar og aðra nemendur með sértækar þarfir. Til viðbótar er stuðningur vegna þjónustu við nemendur með annað móðurmál en íslensku. Þjónustuframlaginu er ætlað að koma til móts við aukna þjónustu við nemendur en greiðsla fyrir námsáfanga fer í gegnum reikniþáttinn Nám og kennsla.
     Útskriftarframlagi er ætlað að styðja við markmið stjórnvalda um að hækka hlutfall nemenda sem ljúka námi á tilsettum tíma. Framlagið er föst upphæð sem skiptist á milli framhaldsskóla eftir fjölda útskriftarnemenda af heildstæðum námsbrautum á 2. og 3. hæfniþrepi.
     Önnur framlög eru til að koma til móts við ýmsan rekstrarkostnað, svo sem vegna húsnæðis, stjórnunarkostnaðar og smæðar skóla og sömuleiðis kostnaðar við ýmis sérverkefni skóla. Greitt hefur verið fyrir ýmis sérverkefni í gegnum tíðina. Val á sérverkefnum og útreikningur á fjárframlagi er mismunandi og á sér oft sögulegar skýringar. Unnið er að því að auka gagnsæi og jafnræði milli skóla hvað þetta varðar.

     2.      Hvaða önnur framlög eru til skóla á framhaldsskólastigi og hvernig er þeim skipt eftir skólum? Hvernig eru slík aukaframlög reiknuð?
    Ein tegund þjónustuframlagsins sem rætt er um í svari við 1. tölul. er ekki inni í reiknilíkaninu. Aftur á móti er 60 millj. kr. dreift árlega til framhaldsskóla til að koma til móts við aukna þjónustu við nemendur með annað móðurmál en íslensku. Árið 2019 var framlaginu deilt á skóla með grunnframlagi og eftir fjölda nemenda með annað móðurmál en íslensku.

     3.      Eru dæmi um að skólum sé mismunað um fjármagn á grundvelli þátta sem koma ekki fram í reiknilíkönum? Ef svo er, hvaða þátta?
    Nei, ekki eru dæmi um að skólum sé mismunað á grundvelli þátta sem ekki koma fram í reiknilíkani. Lögð er áhersla á að auka gagnsæi, bæta rekstrarumhverfi skólanna og færa reiknaðar nemendatölur nær rauntölum.