Ferill 608. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1023  —  608. mál.
Stjórnarfrumvarp.



Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um innflutning dýra, nr. 54/1990, með síðari breytingum (sóttvarna- og einangrunarstöðvar).

Frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.



1. gr.

    Í stað 5. mgr. 2. gr. laganna koma tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
    Dýrum, sem eru flutt inn án heimildar eða sleppa úr flutningsförum, skal tafarlaust lógað og fargað bótalaust á kostnað umráðanda svo eigi stafi hætta af. Matvælastofnun er þó heimilt að gefa kost á að slík dýr séu tafarlaust send úr landi sé smitvörnum ekki ógnað. Umráðamaður dýrs skal þá tafarlaust gera ráðstafanir þar að lútandi á eigin kostnað. Eggjum, sæði eða fósturvísum skal á sama hátt eytt eða þau send úr landi á kostnað innflytjanda, svo og dýrum sem sædd kunna að hafa verið eða notuð sem fósturmæður og afkvæmum sem kunna að hafa fæðst eftir ólögmætan innflutning.
    Innflutningi samkvæmt lögum þessum telst lokið þegar öll skilyrði innflutnings hafa verið uppfyllt að mati Matvælastofnunar.

2. gr.

    1. mgr. 7. gr. laganna orðast svo:
    Vegna innflutnings á dýrum og erfðaefni er heimilt að starfrækja sóttvarna- og einangrunarstöðvar. Stöðvarnar skulu hafa leyfi til reksturs og lúta eftirliti Matvælastofnunar. Ráðherra ákveður með reglugerð, að fengnum tillögum Matvælastofnunar, hvaða kröfur skuli gerðar til sóttvarna- og einangrunarstöðva. Matvælastofnun getur heimilað innflytjendum að annast einangrun einstakra dýra í þeirra eigu, að uppfylltum skilyrðum um smitvarnir og aðbúnað sem sett eru og undir eftirliti Matvælastofnunar.

3. gr.

    15. gr. laganna orðast svo:
    Komi upp alvarlegur smitsjúkdómur, óeðlileg eða óútskýrð afföll eða ef rökstuddur grunur er um smitsjúkdóm í sóttvarna- eða einangrunarstöð er Matvælastofnun heimilt að gera hverjar þær ráðstafanir sem þurfa þykir til að útrýma sjúkdómi eða hindra útbreiðslu hans og til að afstýra hættu og tjóni, m.a. fella dýr ef nauðsyn krefur og gera ráðstafanir til að stöðva dreifingu erfðaefnis. Sama á við um heimasóttkví. Rekstraraðili sóttvarna- eða einangrunarstöðvar ber allan kostnað af slíkum aðgerðum og er skylt að hlíta fyrirmælum Matvælastofnunar.
    Innflytjendur eiga ekki rétt á bótum úr ríkissjóði fyrir dýr eða erfðaefni sem eyða þarf vegna slíkra aðgerða. Sama á við um eigendur dýra sem eru í heimasóttkví.
    Hlíti rekstraraðili eða eigandi ekki fyrirmælum Matvælastofnunar skulu aðgerðir skv. 1. og 2. mgr. framkvæmdar með aðstoð lögreglu. Sé um heimasóttkví að ræða er þó ekki heimilt að fara í þessum tilgangi í íbúðarhús, útihús eða aðra viðlíka staði án samþykkis eiganda eða umráðamanns húsnæðisins nema að fengnum dómsúrskurði. Fylgja skal ákvæðum laga um meðferð sakamála um leit og hald á munum.

4. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. apríl 2020.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Frumvarp þetta er samið í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu í samstarfi við Matvælastofnun. Megintilgangur frumvarpsins er að tryggja að Matvælastofnun hafi fullnægjandi úrræði til að framfylgja lögbundnum skyldum sínum.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á fyrirkomulagi einangrunar dýra, aðgengi Matvælastofnunar að innfluttum dýrum sem eru í einangrun sem og breytingar til að tryggja að starfsmenn stofnunarinnar geti leitað liðsinnis lögreglu sé þeim aftrað í að sinna störfum sínum. Meginmarkmið breytinganna er að Matvælastofnun geti sinnt sínu lögbundna hlutverki við að koma í veg fyrir að alvarlegir dýrasjúkdómar berist til landsins, hefta útbreiðslu þeirra og afstýra hættu og tjóni af völdum útbreiðslu dýrasjúkdóma.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Við framkvæmd laga um innflutning dýra, nr. 54/1990, hefur komið í ljós að Matvælastofnun skortir viðeigandi úrræði til að framfylgja frekar skyldum sínum við að hefta útbreiðslu dýrasjúkdóma í landinu. Nauðsynlegt er að tryggja að stofnunin geti betur sinnt sínu lögbundna hlutverki og miðar frumvarpið að því að tryggja henni frekari úrræði. Þá þykir brýnt að gæta meðalhófs og gefa umráðamönnum dýra kost á að dýr verði send úr landi í þeim tilvikum þegar innflutningur er óheimill eða þau sleppa frá flutningsförum en gildandi ákvæði kveður á um að í slíkum tilvikum sé dýrum tafarlaust lógað.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Frumvarpið skiptist í þrjár greinar þar sem lagðar eru til eftirfarandi breytingar:
     1.      Gefinn verði kostur á því í 2. gr. laganna að dýr séu send úr landi ef þau eru m.a. flutt inn án heimildar en gildandi ákvæði kveður á um að þeim sé tafarlaust lógað. Þá verði kveðið skýrar á um hvenær innflutningi telst lokið.
     2.      Kveðið verði skýrar á um starfsemi sóttvarna- og einangrunarstöðva í 7. gr. laganna.
     3.      Heimildir Matvælastofnunar verði skýrðar nánar í 15. gr. laganna í þeim tilfellum þegar upp kemur alvarlegur smitsjúkdómur, óeðlileg eða óútskýrð afföll eða rökstuddur grunur um smitsjúkdóm í sóttvarna- eða einangrunarstöð og skyldur rekstraraðila þeirra til að hlíta fyrirmælum stofnunarinnar.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Frumvarpið gaf ekki tilefni til sérstakrar athugunar á samræmi við stjórnarskrá eða alþjóðlegar skuldbindingar.

5. Samráð.
    Frumvarpið er unnið í samráði við Matvælastofnun og snertir fyrst og fremst starfsumhverfi stofnunarinnar, starfsumhverfi þeirra sem starfrækja sóttvarna- og einangrunarstöðvar og innflytjendur dýra. Drög að frumvarpinu voru sett í opið samráð á samráðsgátt stjórnvalda á Ísland.is þann 20. janúar 2020 og frestur veittur til 30. janúar sama ár, sbr. mál nr. 11/2020. Engar athugasemdir bárust.

6. Mat á áhrifum.
    Áhrif frumvarpsins verða fyrst og fremst þau að Matvælastofnun verði tryggð viðeigandi úrræði til að sinna sínu lögbundna hlutverki við að hefta og koma í veg fyrir að alvarlegir dýrasjúkdómar berist til landsins eða breiðist þar út. Þá verður innflytjendum dýra gefinn kostur á að senda dýr úr landi ef þau eru t.d. flutt inn án heimildar en gildandi ákvæði kveður á um að þeim sé tafarlaust lógað. Verði frumvarpið að lögum mun það ekki hafa áhrif á fjárhag ríkissjóðs.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Gildandi ákvæði 2. gr. laganna kveður á um að dýrum sem flutt eru inn án heimildar skuli tafarlaust lógað. Lögð er til breyting á 5. mgr. þar sem nauðsynlegt þykir að kveða á um að umráðamönnum dýra verði gefinn kostur á að dýr séu heldur send úr landi í þeim tilvikum þegar innflutningur er óheimill eða þau sleppa úr flutningsförum.
    Þá er lagt til að nýrri málsgrein verði bætt við til að skýrt komi fram að innflutningi teljist ekki lokið fyrr en öll skilyrði innflutningsins séu uppfyllt að mati Matvælastofnunar.

Um 2. gr.

    Lagðar eru til breytingar á 7. gr. til að tryggja þá meginreglu að einangrun dýra, hverrar tegundar sem þau eru, sé ávallt í höndum aðila sem eru með leyfi og lúta eftirliti Matvælastofnunar. Með slíku fyrirkomulagi verði tryggt að einangrun fari fram í starfsstöð sem lúti lögum og reglugerðum sem um sóttvarna- og einangrunarstöðvar gilda. Þó verði enn gert ráð fyrir „heimaeinangrun“ í einstaka tilfellum, t.d. vegna hjálparhunda. Þá er lagt til að það verði á hendi Matvælastofnunar í stað ráðherra að heimila innflytjendum að annast einangrun einstakra dýra í þeirra eigu og setja skilyrði þar að lútandi.

Um 3. gr.

    Í gildandi lögum og reglugerðum er skýrt tekið fram að Matvælastofnun fari með stjórn aðgerða ef upp kemur alvarlegur smitsjúkdómur í sóttvarna- eða einangrunarstöð. Einnig er skýrt kveðið á um að eigendum sé skylt að hlýða fyrirmælum stofnunarinnar sé ákveðið að eyða dýrum í sóttkví eða einangrun. Talið er að orðalag gildandi ákvæðis hefti heimildir Matvælastofnunar til aðgerða sem miða að því að hindra útbreiðslu sjúkdóma. Talið er æskilegt að stofnunin geti gripið til aðgerða ef rökstuddur grunur er um smitsjúkdóm í sóttvarna- eða einangrunarstöð eða heimasóttkví. Matvælastofnun geti þá gripið til ráðstafana til að tryggja vettvang meðan beðið er staðfestingar eða niðurstöðu úr rannsóknum um eðli ástandsins. Með vísan til þess er lagt til að til viðbótar við þau tilfelli þegar upp koma alvarlegir smitsjúkdómar verði kveðið á um í ákvæðinu að Matvælastofnun hafi sömu heimildir til ráðstafana ef óeðlileg eða óútskýrð afföll verða eða ef rökstuddur grunur er um smitsjúkdóm í sóttvarna- eða einangrunarstöð.
    Mikilvægt er að Matvælastofnun sé unnt að framfylgja þeim lögum sem stofnuninni er falið að hafa eftirlit með. Í gildandi löggjöf er ekki kveðið á um heimild til Matvælastofnunar til að kalla eftir aðstoð lögreglu í aðgerðum sínum. Það hefur komið sér illa í tilteknum málum og getur stefnt dýraheilbrigði í landinu í hættu. Því er lagt til að kveðið verði sérstaklega á um það að ef rekstraraðili eða eigandi hlítir ekki fyrirmælum Matvælastofnunar skuli aðgerðir skv. 1. og 2. mgr. framkvæmdar í samráði við, eða af lögreglu.

Um 4. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.