Ferill 332. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1025  —  332. mál.
2. umræða.Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum varðandi leyfisveitingar (einföldun regluverks).

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Heimi Skarphéðinsson frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, Björgu Ástu Þórðardóttur frá Samtökum iðnaðarins, Öglu Eiri Vilhjálmsdóttur og Gunnar Dofra Ólafsson frá Viðskiptaráði Íslands, Elmar Hallgrímsson frá Samiðn, Kristján Þórð Snæbjarnarson og Ólaf Karl Eyjólfsson frá Rafiðnaðarsambandi Íslands, Jón Trausta Ólafsson, Guðmund Inga Skúlason og Maríu Jónu Magnúsdóttur frá Bílgreinasambandinu og Jón Kristján Sigurðsson frá Félagi íslenskra bifreiðaeigenda.
    Nefndinni bárust umsagnir frá Bílgreinasambandinu, Félagi íslenskra bifreiðaeigenda, Rafiðnaðarsambandi Íslands, Samiðn, Samtökum ferðaþjónustunnar, Samtökum iðnaðarins, Sýslumannafélagi Íslands og Viðskiptaráði Íslands.
    Meginefni frumvarpsins lýtur að því að felldar verði niður kvaðir um leyfis- eða skráningarskyldu vegna nánar tilgreindrar starfsemi sem ekki er talið nauðsynlegt að séu í lögum. Jafnframt er með frumvarpinu lagt til að felld verði úr gildi lög sem talin eru úrelt og hafa ekki sjálfstætt gildi lengur. Um efni frumvarpsins vísast að öðru leyti til greinargerðar með því.

Umfjöllun nefndarinnar.
Leyfi til sölu notaðra ökutækja.
    Í 12. og 13. gr. laga um verslunaratvinnu, nr. 28/1998, er kveðið á um leyfisskyldu til að reka verslun eða umboðssölu með notuð ökutæki auk þess sem skilyrði slíks leyfis eru skilgreind. Með 5. gr. frumvarpsins er lagt til að þessi ákvæði falli brott og að starfsemin verði þar með ekki lengur háð starfsleyfi. Við meðferð málsins hjá nefndinni sætti þessi breyting gagnrýni og var m.a. bent á að leyfisveitingin skapaði aðhald fyrir sölufyrirtæki og stuðlaði að auknu trausti og fagþekkingu í viðskiptum með notuð ökutæki. Skilyrði leyfisins, svo sem um starfsábyrgðartryggingu, væru nauðsynleg til að tryggja réttindi neytenda.
    Bent hefur verið á að réttindi neytenda séu mun betur tryggð nú á dögum en þegar leyfisskylda til sölu notaðra ökutækja var sett á árið 1994, ekki síst með tilkomu laga um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu, nr. 57/2005, og samkeppnislaga, nr. 44/2005. Þau lög gildi um alla atvinnustarfsemi og sérstök rök þurfi að koma til svo að rétt sé að auka opinbert eftirlit með tiltekinni starfsemi umfram aðra. Í greinargerð með frumvarpinu er m.a. bent á að einkaréttarleg úrræði til handa neytendum til að ná fram rétti sínum gagnvart seljendum felist í lögum um úrskurðaraðila á sviði neytendalána, nr. 81/2019, en samkvæmt lögunum mun kærunefnd vöru- og þjónustukaupa leysa af hólmi kærunefnd lausafjár- og þjónustukaupa. Þá kemur fram í greinargerðinni að ekki verði talið að nægilega sterk rök liggi fyrir leyfisskyldunni auk þess sem slíka löggjöf sé almennt ekki að finna á EES-svæðinu og hvergi annars staðar á Norðurlöndunum.
    Þá hefur nefndinni verið bent á að ekki er almenn skylda fyrir atvinnustarfsemi hér á landi að hafa sérstaka starfsábyrgðartryggingu heldur bera aðilar almenna ábyrgð í samræmi við reglur skaðabótaréttar. Við verslun með notuð ökutæki sé ekki um svo verulegar fjárhæðir að ræða umfram það sem almennt gerist við lausafjárkaup að sérstök ástæða sé til að kveða á um skyldu til starfsábyrgðartryggingar í lögum.
    Nefndin telur gild rök standa til þess að fella brott þá leyfisskyldu sem kveðið er á um í 12. og 13. gr. laga um verslunaratvinnu. Hvetur nefndin til að þrátt fyrir brottfall leyfisskyldunnar verði þeim sem starfa við sölu notaðra ökutækja áfram gert kleift að afla sér sérþekkingar á því sviði á þar til gerðum námskeiðum. Þá bendir nefndin á mikilvægi þess að einkaréttarleg úrræði neytenda verði tryggð, þar á meðal að starfsskilyrði kærunefndar vöru- og þjónustukaupa verði með þeim hætti að nefndin geti staðið undir málafjölda án þess að málsmeðferðartími fari fram úr hófi.

Eftirlit með iðnaðarlögum.
    Samkvæmt iðnaðarlögum er lögreglu falið eftirlit með löggjöfinni. Við meðferð málsins var nefndinni bent á að eftirlitið væri ómarkvisst og að því væri áfátt og ábótavant. Tilefni væri til að endurskoða eftirlit með iðnaðarlögum með heildrænum hætti. Þá var bent á að þörf væri á að halda og birta skrá yfir þá einstaklinga sem hlotið hafa réttindi samkvæmt lögunum.
    Nefndinni er kunnugt um að ráðherra hafi þegar skipað starfshóp sem ætlað er að skila skýrslu með tillögum til úrbóta að þessu leyti. Í skipunarbréfi ráðherra kemur fram að eftirlit með iðnaðarlögum hafi í einhverjum mæli færst yfir á markaðinn og að skortur sé á úrræðum til að stöðva ólögmæta starfsemi ófaglærðra í löggiltum iðngreinum. Flestar kærur séu látnar niður falla og þá sjaldan sem mál rati fyrir dóm séu sektarfjárhæðir ólíklegar til að hafa varnaðaráhrif.
    Starfshóp ráðherra er ætlað að taka eftirlit með iðnaðarlögum til endurskoðunar með það að markmiði að bæta framkvæmd þess þannig að allir sem starfa á sviði lögverndaðra iðngreina starfi eftir sömu leikreglum. Vinnan á einnig að taka til styttingar málsmeðferðartíma hjá stjórnvöldum og aukinnar skilvirkni eftirlits, t.d. þannig að viðurlög við brotum hafi raunveruleg varnaðaráhrif.
    Starfshópurinn er skipaður fulltrúum ráðuneytisins, Samtaka iðnaðarins, Alþýðusambands Íslands, Skattsins og Neytendasamtakanna og á að skila tillögum til ráðherra fyrir 1. júlí næstkomandi. Nefndin telur skipun starfshópsins jákvæða og nauðsynlegt skref í átt að bættu umhverfi hvað varðar eftirlit með iðnaðarlögum. Nefndin hvetur til að við vinnu starfshópsins verði m.a. tekið til skoðunar hvort og með hvaða hætti skynsamlegt sé að halda og birta lista yfir útgefin sveins- og meistarabréf samkvæmt iðnaðarlögum.

Breytingartillögur nefndarinnar.
Lög um aukatekjur ríkissjóðs.
    Við gildistöku frumvarpsins falla brott ákveðnar leyfisveitingar og þar af leiðandi verður ekki lengur grundvöllur fyrir gjaldtöku þeirra leyfa. Nefndin leggur til að felldir verði brott viðeigandi gjaldtökuliðir í lögum um aukatekjur ríkissjóðs til samræmis. Nefndin leggur jafnframt til að bráðabirgðaákvæði laga um verslunaratvinnu falli brott þar sem það þjónar ekki lengur tilgangi.
    Að framansögðu virtu leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Á eftir 9. gr. komi ný grein er orðist svo:
                  Ákvæði til bráðabirgða í lögunum fellur brott.
     2.      Á eftir 23. gr. komi ný grein er orðist svo:
                  Við gildistöku laga þessara falla 33. og 51. tölul. 11. gr. laga um aukatekjur ríkissjóðs, nr. 88/1991, brott.

    Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Smári McCarthy og Silja Dögg Gunnarsdóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins. Silja Dögg Gunnarsdóttir skrifar undir álitið samkvæmt heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fastanefnda Alþingis.

Alþingi, 27. febrúar 2020.

Óli Björn Kárason,
form.
Bryndís Haraldsdóttir,
frsm.
Þorsteinn Víglundsson.
Brynjar Níelsson. Oddný G. Harðardóttir. Ólafur Þór Gunnarsson.
Silja Dögg Gunnarsdóttir.