Ferill 638. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1081  —  638. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um upprunamerkingar matvæla á veitingastöðum.


Flm.: Una María Óskarsdóttir, Anna Kolbrún Árnadóttir, Bergþór Ólason, Birgir Þórarinsson, Karl Gauti Hjaltason, Ólafur Ísleifsson, Sigurður Páll Jónsson, Þorgrímur Sigmundsson, Þorsteinn Sæmundsson.


    Alþingi ályktar að fela sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að beita sér fyrir því að teknar verði upp upprunamerkingar matvæla sem seld eru á veitingastöðum, þannig að skylt verði að geta uppruna vörunnar með skriflegum hætti.
    Ráðherra skipi starfshóp til þess að undirbúa málið og geri Alþingi grein fyrir stöðu þess í september 2020.

Greinargerð.

    Upprunamerkingum matvæla er ætlað að vera grunnur að upplýstri ákvarðanatöku neytenda og öruggri neyslu þeirra á matvælum, með sérstöku tilliti til sjónarmiða sem varða heilbrigði, efnahag, umhverfið og félagslega og siðferðilega þætti, sbr. 1. mgr. 3. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 1169/2011, sem innleidd var með reglugerð um miðlun upplýsinga um matvæli til neytenda, nr. 1294/2014. Til þess að neytendur geti tekið upplýsta ákvörðun á þeim grundvelli þarf að tryggja að þeir hafi skýrar og aðgengilegar upplýsingar um uppruna matvæla til samræmis við ákvæði reglugerðarinnar.
    Þegar matvæli eru seld án þess að vera forpökkuð er seljanda heimilt að veita nauðsynlegar upplýsingar á hvaða hátt sem er, þ.m.t. munnlega. Með því móti er ekki tryggt að upplýsingar um uppruna matvæla skili sér til neytenda.
    Lagt er til að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra verði falið að beita sér fyrir því að upprunamerkingar matvæla sem seld eru á veitingahúsum verði teknar upp í ríkari mæli. Heilnæmi matvæla skiptir miklu máli fyrir bætta lýðheilsu. Það ætti að vera kappsmál framleiðenda að gefa upplýsingar um hvernig varan er unnin, við hvaða aðstæður og frá hvaða landshluta hún er. Með aukinni ferðamennsku ætti að vera keppikefli að á hverjum og einum veitingastað séu upplýsingar um uppruna þeirra matvæla sem þar eru seld.