Ferill 667. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1131  —  667. mál.
Stjórnarfrumvarp.Frumvarp til laga


um tímabundnar greiðslur vegna launa einstaklinga sem sæta sóttkví samkvæmt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda án þess að sýna merki þess að vera sýktir.

Frá félags- og barnamálaráðherra.1. gr.

Gildissvið.

    Lögin taka til greiðslna til atvinnurekenda sem greitt hafa launamönnum sem sæta sóttkví laun á tímabilinu frá 1. febrúar 2020 til og með 30. apríl 2020. Enn fremur gilda lögin um greiðslur til launamanna sem sæta sóttkví á sama tímabili en fá ekki greidd laun frá atvinnurekanda. Þá gilda lögin um greiðslur til sjálfstætt starfandi einstaklinga sem sæta sóttkví á sama tímabili.

2. gr.

Markmið.

    Markmið laga þessara er að styðja atvinnurekendur sem greiða launamönnum sem sæta sóttkví laun þegar önnur réttindi, svo sem veikindaréttur samkvæmt kjarasamningum, eiga ekki við. Með því er stefnt að því að einstaklingar geti fylgt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda um að sæta sóttkví án þess að hafa áhyggjur af afkomu sinni.

3. gr.

Orðskýringar.

    Í lögum þessum er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:
     1.      Launamaður: Einstaklingur sem starfar fyrir og á ábyrgð atvinnurekanda gegn endurgjaldi.
     2.      Sjálfstætt starfandi einstaklingur: Hver sá sem starfar við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi í því umfangi að honum sjálfum er gert að standa mánaðarlega eða með öðrum reglulegum hætti skil á staðgreiðslu af reiknuðu endurgjaldi og tryggingagjaldi vegna starfs síns samkvæmt reglum ríkisskattstjóra um reiknað endurgjald.
     3.      Sóttkví: Þegar einstaklingi er gert að einangra sig eins og kostur er, einkum í heimahúsi, samkvæmt beinum fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda þegar hann hefur mögulega smitast af sjúkdómi en sýnir ekki merki þess að vera sýktur.

4. gr.

Yfirstjórn og framkvæmd.

    Ráðherra fer með yfirstjórn samkvæmt lögum þessum. Vinnumálastofnun annast framkvæmd laganna.

5. gr.

Skilyrði fyrir greiðslum vegna launamanna.

    Heimilt er að greiða atvinnurekanda launakostnað, eftir því sem nánar er mælt fyrir um í lögum þessum, hafi hann greitt launamanni sem sætir sóttkví laun. Skilyrði fyrir greiðslum eru að:
     a.      launamaður hafi sætt sóttkví,
     b.      launamaður hafi ekki getað sinnt vinnu að öllu leyti eða að hluta þaðan sem hann sætti sóttkví,
     c.      önnur atvik hafi ekki staðið í vegi fyrir því að launamaður hafi getað mætt til vinnu á vinnustað, og
     d.      atvinnurekandi hafi sannanlega greitt launamanni laun á meðan hann sætti sóttkví.
    Heimilt er að greiða launamanni launatap hafi hann ekki fengið greidd laun, svo sem vegna rekstrarörðugleika eða tekjufalls atvinnurekanda, á þeim tíma er launamaðurinn sætti sóttkví enda séu skilyrði a–c-liðar 1. mgr. uppfyllt. Vinnumálastofnun er heimilt að óska eftir staðfestingu frá atvinnurekanda um að laun hafi ekki verið greidd fyrir það tímabil sem launamaður sætti sóttkví sem og eftir upplýsingum um ástæður þess að laun hafi ekki verið greidd.

6. gr.

Fjárhæð greiðslna vegna launamanna.

    Greiðsla til atvinnurekanda skal taka mið af heildarlaunum launamanns í þeim almanaksmánuði eða almanaksmánuðum sem hann var í sóttkví. Til launa teljast hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald þann mánuð sem launamanni var gert að sæta sóttkví. Til að finna út fjárhæð greiðslna fyrir hvern dag skal miða við 30 daga í mánuði.
    Þegar launamaður sækir um greiðslu á grundvelli 2. mgr. 5. gr. skal greiðsla taka mið af heildarlaunum hans fyrir undanfarandi almanaksmánuð áður en honum var gert að sæta sóttkví. Heildargreiðslur til launamanns geta þó aldrei verið hærri en sem nemur mismun heildarlauna þann mánuð sem honum var gert að sæta sóttkví og heildarlauna undanfarandi mánaðar. Vinnumálastofnun ráðstafar 4% af greiðslunni til lífeyrissjóðs launamanns. Jafnframt greiðir Vinnumálastofnun 11,5% mótframlag.
    Þrátt fyrir ákvæði 1. og 2. mgr. geta greiðslur aldrei verið hærri en 633.000 kr. fyrir launamann miðað við heilan almanaksmánuð. Hámarkgreiðslur fyrir hvern dag sem launamaður sætir sóttkví nema 21.100 kr.

7. gr.

Skilyrði fyrir greiðslum til sjálfstætt starfandi einstaklinga.

    Heimilt er að greiða sjálfstætt starfandi einstaklingi launatap, eftir því sem nánar er mælt fyrir um í lögum þessum, hafi hann orðið að leggja niður störf á meðan hann sætir sóttkví. Skilyrði fyrir greiðslum eru að:
     a.      sjálfstætt starfandi einstaklingur hafi sætt sóttkví,
     b.      sjálfstætt starfandi einstaklingur hafi ekki getað sinnt vinnu að öllu leyti eða hluta þaðan sem hann sætti sóttkví,
     c.      önnur atvik hafi ekki staðið í vegi fyrir því að sjálfstætt starfandi einstaklingur hafi getað unnið störf sín,
     d.      sjálfstætt starfandi einstaklingur sé með opinn rekstur auk þess að hafa staðið í skilum á greiðslu tryggingagjalds og staðgreiðslu skatts af reiknuðu endurgjaldi samkvæmt ákvörðun skattyfirvalda a.m.k. þrjá mánuði á undanfarandi fjórum mánuðum fyrir umsóknardag.

8. gr.

Fjárhæð greiðslna vegna sjálfstætt starfandi einstaklinga.

    Greiðsla til sjálfstætt starfandi einstaklings sem sætir sóttkví skal taka mið af 80% af mánaðarlegum meðaltekjum hans. Til að finna meðaltekjur sjálfstætt starfandi einstaklings skal taka mið af meðaltali reiknaðs endurgjalds sem greitt hefur verið tryggingagjald af og skal miða við tekjuárið 2019. Til að finna út fjárhæð greiðslna fyrir hvern dag skal miða við 30 daga í mánuði.
    Þrátt fyrir 1. mgr. geta greiðslur aldrei verið hærri en 633.000 kr. miðað við heilan almanaksmánuð. Hámarkgreiðslur fyrir hvern dag sem sjálfstætt starfandi einstaklingur sætir sóttkví nema 21.100 kr.

9. gr.

Umsóknir um greiðslur.

    Í umsókn um greiðslu skal tilgreina þá einstaklinga sem sótt er um greiðslu fyrir og þá daga sem þeir lögðu niður störf sökum þess að þeim var gert að sæta sóttkví. Umsókn skal vera skrifleg og henni skulu fylgja fullnægjandi gögn og upplýsingar að mati Vinnumálastofnunar svo unnt sé að taka afstöðu til þess hvort skilyrði laganna fyrir greiðslu séu uppfyllt, þ.m.t. afrit af fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda um að viðkomandi skuli sæta sóttkví og launaseðla fyrir þann almanaksmánuð sem sóttkví stóð yfir sem og undanfarandi almanaksmánuð.
    Umsóknir skulu afgreiddar þegar allar nauðsynlegar upplýsingar og gögn hafa borist. Vinnumálastofnun er heimilt að synja umsókn um greiðslu hafi nauðsynlegar upplýsingar og gögn ekki borist innan 45 daga frá þeim degi er umsóknin barst stofnuninni.
    Umsóknir um greiðslur samkvæmt lögum þessum skulu berast Vinnumálastofnun í síðasta lagi 1. júlí 2020. Hafi umsókn ekki borist fyrir það tímamark fellur réttur til greiðslu niður.

10. gr.

Heimild til upplýsingaöflunar.

    Vinnumálastofnun er heimilt að afla upplýsinga frá Skattinum, Tryggingastofnun ríkisins, Sjúkratryggingum Íslands, embætti landlæknis, hlutaðeigandi atvinnurekendum, stéttarfélögum og heildarsamtökum stéttarfélaga sem nauðsynlegar eru til að unnt sé að framfylgja lögum þessum og ber framangreindum aðilum að veita stofnunni þær upplýsingar sem hún óskar eftir, enda búi þeir yfir þeim. Hið sama á við um öflun nauðsynlegra upplýsinga frá launamönnum og sjálfstætt starfandi einstaklingum sem hafa þurft að leggja niður störf í sóttkví.

11. gr.

Ósamrýmanlegar greiðslur.

    Skilyrði greiðslna samkvæmt lögum þessum teljast ekki uppfyllt njóti launamaður eða sjálfstætt starfandi einstaklingur slysadagpeninga samkvæmt lögum um slysatryggingar almannatrygginga, sjúkradagpeninga samkvæmt lögum um sjúkratryggingar, endurhæfingarlífeyris samkvæmt lögum um félagslega aðstoð eða greiðslna úr sjúkrasjóðum stéttarfélaga sem koma til vegna óvinnufærni að fullu á sama tímabili. Sama á við njóti launamaður eða sjálfstætt starfandi einstaklingur greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði samkvæmt lögum um fæðingar- og foreldraorlof eða Atvinnuleysistryggingasjóði samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar.

12. gr.

Leiðrétting á greiðslum.

    Atvinnurekandi, launamaður eða sjálfstætt starfandi einstaklingur sem lætur hjá líða að veita nauðsynlegar upplýsingar um það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum þessum á ekki rétt á greiðslu.
    Hafi umsækjandi fengið hærri greiðslur en hann átti rétt á eða fengið greiðslur fyrir tímabil sem skilyrði laganna voru ekki uppfyllt ber honum að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd var.
    Ákvarðanir Vinnumálastofnunar um endurkröfu á ofgreiðslum til umsækjenda eru aðfararhæfar.

13. gr.

Málskot.

    Stjórnvaldsákvarðanir Vinnumálastofnunar samkvæmt lögum þessum sæta kæru til úrskurðarnefndar velferðarmála. Úrskurðir úrskurðarnefndarinnar um endurkröfu á ofgreiðslum samkvæmt lögum þessum eru aðfararhæfir. Um málsmeðferð hjá nefndinni fer samkvæmt ákvæðum laga um úrskurðarnefnd velferðarmála.
    Úrskurðir úrskurðarnefndar velferðarmála á grundvelli laga þessara eru endanlegir á stjórnsýslustigi og verður ekki skotið til æðra stjórnvalds.

14. gr.

Reglugerðarheimild.

    Ráðherra er heimilt að kveða á um nánari framkvæmd laga þessa í reglugerð, þ.m.t. um málsmeðferð framkvæmdaraðila.

15. gr.

Gildistaka.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Frumvarp þetta er lagt fram í ljósi breyttra aðstæðna á vinnumarkaði þar sem mikil óvissa ríkir vegna kórónuveiru (SARS-CoV-2) sem veldur COVID-19-sjúkdómnum. Ljóst þykir að veirufaraldurinn COVID-19 komi til með að hafa bein áhrif hér á landi, m.a. á atvinnulífið og stöðu ríkissjóðs.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Með sameiginlegri yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins, sem undirrituð var 5. mars 2020, náðist sátt um samfélagslega nauðsyn þess að hægja á útbreiðslu COVID-19-veirunnar. Í yfirlýsingunni kom fram að ríkisstjórn Íslands, Samtök atvinnulífsins og Alþýðusamband Íslands væru sammála um nauðsyn þess að hægja á útbreiðslu COVID-19-veirunnar. Vitað sé að veiran er meira smitandi en hefðbundin inflúensa og að bóluefni er ekki fyrir hendi. Veiran og aðgerðir gegn henni hafi þegar haft áhrif á vinnumarkaðinn og samfélagið allt og að búast megi við að þau áhrif muni aukast. Í yfirlýsingunni kemur jafnframt fram að markmið sóttvarna sé að hægja á útbreiðslu veirunnar, vernda viðkvæma hópa fyrir smiti og draga úr álagi á heilbrigðiskerfið og innviði samfélagsins á meðan veiran gengur yfir. Sóttkví sé mikilvægt úrræði í þessu skyni og er því beint til fólks, sem af ýmsum ástæðum má ætla að sé í verulegri hættu að smitast eða smita aðra, að það virði fyrirmæli heilbrigðisyfirvalda um að dvelja í sóttkví. Þá kemur fram í yfirlýsingunni að ákvörðun um sóttkví sé tekin með hagsmuni heildarinnar í huga og því mikilvægt að einstaklingar geti fylgt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda um að fara í sóttkví án þess að hafa áhyggjur af afkomu sinni.
    Í yfirlýsingunni kemur enn fremur fram að aðilar hennar hafi orðið ásáttir um eftirfarandi:
     1.      Samtök atvinnulífsins munu beina þeim tilmælum til atvinnurekenda að laun verði greidd til einstaklinga sem sæta sóttkví að fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda.
     2.      Alþýðusamband Íslands mun beina þeim tilmælum til aðildarsamtaka sinna að sjóðfélagar í sjúkrasjóðum þeirra sem sýkjast njóti óskertra greiðslna úr sjóðunum að tæmdum veikindarétti.
     3.      Stjórnvöld munu beita sér fyrir að breytingar verði gerðar á lögum um sjúkratryggingar í þá veru að atvinnurekandi, sem greiðir launamanni sem sætt hefur eða mun sæta sóttkví laun, geti krafið sjúkratryggingar um endurgreiðslu kostnaðar að ákveðnu hámarki séu tilteknar aðstæður fyrir hendi eins og til dæmis að launamaður geti ekki sinnt vinnu heiman frá sér.
    Þá hefur fjármála- og efnahagsráðherra, fyrir hönd ríkissjóðs, lýst því yfir að starfsmenn ríkisins fái greidd laun sæti þeir sóttkví án þess að sýna merki þess að vera sýktir og að sú ráðstöfun skuli ekki skerða veikindarétt þeirra. Samskonar yfirlýsingu hefur Samband íslenskra sveitarfélaga gefið. Því liggur fyrir að opinberir starfsmenn muni almennt fá greidd laun á sama tíma og þeir fylgja fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda um að sæta sóttkví.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Með frumvarpinu er m.a. brugðist við framangreindri yfirlýsingu ríkisstjórnar Íslands, Samtaka atvinnulífsins og Alþýðusambands Íslands með það fyrir augum að tryggja að atvinnurekendur, sem greiða launamönnum sem ekki sýna merki þess að vera sýktir en sæta sóttkví samkvæmt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda laun á tímabilinu frá 1. febrúar 2020 til og með 30. apríl 2020, geti sótt um greiðslur vegna launakostnaðar í þessum tilteknu tilvikum. Þá er lagt til að lögin skuli gilda um greiðslur til sjálfstætt starfandi einstaklinga sem ekki sýna merki þess að vera sýktir en verða fyrir launatapi þar sem þeir sæta sóttkví samkvæmt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda á framangreindu tímabili. Ljóst þykir að áhrif COVID-19-veirunnar á vinnumarkaðinn kunna að verða slík að einhverjum fyrirtækjum getur reynst ómögulegt að greiða laun starfsmanna, svo sem vegna tekjufalls. Þykir því nauðsynlegt að kveðið verði á um heimild til launamanna sem sæta sóttkví samkvæmt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda, án þess að sýna merki þess að vera sýktir, til að sækja um greiðslur vegna launataps hafi þeir ekki fengið greidd laun á þeim tíma er þeir sættu sóttkví. Í samræmi við hina sameiginlegu yfirlýsingu ríkisstjórnar Íslands, Samtaka atvinnulífsins og Alþýðusambands Íslands verður að ætla að atvinnurekendur muni almennt greiða laun starfsmanna sinna sem sæta sóttkví samkvæmt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda án þess að sýna merki þess að vera sýktir. Þó er gert ráð fyrir að í þeim undantekningartilvikum þegar atvinnurekandi getur ekki greitt laun um mánaðamót geti launamenn sem verða af launum af þeim sökum sótt um greiðslur vegna þess tíma sem þeir sættu sóttkví.
    Með yfirlýsingu ríkisstjórnar Íslands, Samtaka atvinnulífsins og Alþýðusambands Íslands var gert ráð fyrir að gerðar yrðu breytingar á lögum um sjúkratryggingar vegna þeirra greiðslna sem hér um ræðir. Við vinnslu frumvarpsins var þó ákveðið að leggja til tímabundin sérlög um greiðslur í þessum tilteknu tilvikum og að framkvæmd laganna myndi falla undir málefnasvið Vinnumálastofnunar. Gert er ráð fyrir að umsóknir um greiðslur skuli berast Vinnumálastofnun í síðasta lagi 1. júlí 2020.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Efni frumvarpsins gefur ekki sérstakt tilefni til mats á samræmi við ákvæði stjórnarskrár eða alþjóðlegar skuldbindingar.

5. Samráð.
    Frumvarpið var samið félagsmálaráðuneytinu. Í ljósi þess að frumvarpið er lagt fram vegna þeirrar miklu óvissu sem nú ríkir á vinnumarkaði hér á landi og erlendis eftir að Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) lýsti yfir heimsfaraldri vegna kórónuveiru (SARS-CoV-2) sem veldur COVID-19-sjúkdómnum gafst ekki svigrúm til hefðbundins samráðs enda um fordæmalausar aðstæður að ræða. Þess ber þó að geta að frumvarpið var samið í samráði ráðuneytisins, forsætisráðuneytis, fjármála- og efnahagsráðuneytis, heilbrigðisráðuneytis, Alþýðusambands Íslands, Samtaka atvinnulífsins og Vinnumálastofnunar.

6. Mat á áhrifum.
    Frumvarpinu er ætlað að taka til fyrirtækja og einstaklinga á almennum vinnumarkaði en utan hans standa starfsmenn ríkis og sveitarfélaga. Því má gera ráð fyrir að frumvarpið nái til um 75% allra starfandi einstaklinga á vinnumarkaði en gera má ráð fyrir að um 190 þúsund einstaklingar séu starfandi á vinnumarkaði hér á landi um þessar mundir. Frumvarpið varðar því rúmlega 140 þúsund einstaklinga.
    Sú aðgerð heilbrigðisyfirvalda að gefa bein fyrirmæli um að einstaklingar sæti sóttkví er fyrsta stigs aðgerð til að stemma stigu við útbreiðslu COVID-19-faraldursins. Mikil óvissa ríkir um þróun faraldursins og ómögulegt er að segja til um hversu lengi grípa þarf til sérstakra aðgerða vegna hans. Því eru á þessari stundu engar forsendur til leggja mat á hugsanlegan fjölda þeirra sem getur átt rétt á greiðslum í samræmi við frumvarp þetta þar sem þeir hafa fengið fyrirmæli heilbrigðiyfirvalda um að sæta sóttkví án þess að sýna merki þess að vera sýktir. Ef miðað er við að heildarfjöldi þeirra sem sættu sóttkví yrði 5.000 einstaklingar er gert ráð fyrir að fjöldi þeirra sem frumvarpið nær til yrði um 2.500–3.000 einstaklingar að hámarki.
    Sé miðað við að hámarksfjárhæðir taki mið af hámarksábyrgð á kröfum launamanna samkvæmt lögum um Ábyrgðasjóð launa er gert ráð fyrir að lögfesting frumvarpsins geti leitt af sér 600–700 millj. kr. í auknum útgjöldum fyrir ríkissjóð. Þar að auki er gert ráð fyrir að kostnaður vegna umsýslu Vinnumálastofnunar við þróun hugbúnaðar gæti numið 25 millj. kr. auk þess sem gert er ráð fyrir stofnunin þurfi að bæta við þremur stöðugildum, m.a. til að annast afgreiðslu umsókna um greiðslur á grundvelli laganna.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Í greininni er gildissvið frumvarpsins afmarkað þannig að það taki til greiðslna til atvinnurekenda sem greitt hafa launamönnum sem sæta sóttkví laun á tímabilinu frá 1. febrúar 2020 til og með 30. apríl 2020. Enn fremur er gert ráð fyrir að lögin gildi um greiðslur til launamanna sem sæta sóttkví á sama tímabili en fá ekki greidd laun frá atvinnurekanda. Þá er gert ráð fyrir að lögin gildi um greiðslur til sjálfstætt starfandi einstaklinga sem sæta sóttkví á sama tímabili. Gildistíminn er þannig samkvæmt frumvarpinu afmarkaður við tímabilið 1. febrúar 2020 til og með 30. apríl 2020. Er það meðal annars gert þar sem sóttvarnaryfirvöld telja óvíst hversu lengi til viðbótar sóttkví verði beitt til að hefta útbreiðslu COVID-19-veirunnar en á tilteknum tímapunkti hætti sú ráðstöfun að ná þeim markmiðum sem að sé stefnt með úrræðinu.
    Gengið er út frá því ekki verði sótt um greiðslur samkvæmt lögunum vegna opinberra starfsmanna. Er það í samræmi við það sem rakið er í inngangi um að ríkið og sveitarfélögin hafa lýst því yfir að opinberir starfsmenn muni almennt fá greidd laun á sama tíma og þeir fylgja fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda um að sæta sóttkví án þess að sýna merki þess að vera sýktir. Með sóttkví er átt við þegar einstaklingi er gert að einangra sig eins og kostur er, einkum í heimahúsi, samkvæmt beinum fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda þegar hann hefur mögulega smitast af sjúkdómi en sýnir ekki merki þess að vera sýktur. Um nánari skýringar á hugtakinu sóttkví er vísað til skýringa við 3. gr. frumvarpsins.

Um 2. gr.

    Markmið frumvarpsins er að styðja atvinnurekendur sem greiða launamönnum sem sæta sóttkví laun þegar önnur réttindi, s.s. veikindaréttur samkvæmt kjarasamningum, eiga ekki við. Með því er stefnt að því að einstaklingar geti fylgt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda um að sæta sóttkví án þess að hafa áhyggjur af afkomu sinni. Er með þessu verið að styðja við opinberar sóttvarnaráðstafanir skv. sóttvarnalögum, nr. 19/1997, þannig að sem flestir sem fá fyrirmæli um að sæta sóttkví fylgi þeim fyrirmælum í því skyni að stemma stigu við útbreiðslu COVID-19-faraldursins.

Um 3. gr.

    Í greininni eru hugtökin „launamaður“, „sjálfsætt starfandi einstaklingur“ og „sóttkví“ skilgreind nánar. Lagt er til að með orðinu „launamaður“ sé átt við einstakling sem starfar fyrir og á ábyrgð atvinnurekanda gegn endurgjaldi. Þá er lagt til að með hugtakinu „sjálfstætt starfandi einstaklingur“ sé átt við hvern þann sem starfar við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi í því umfangi að honum sjálfum er gert að standa mánaðarlega eða með öðrum reglulegum hætti skil á staðgreiðslu af reiknuðu endurgjaldi og tryggingagjaldi vegna starfs síns samkvæmt reglum ríkisskattstjóra um reiknað endurgjald. Þá er lagt til að með hugtakinu „sóttkví“ sé átt við þegar einstaklingi er gert að einangra sig eins og kostur er, einkum í heimahúsi, samkvæmt beinum fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda þegar hann hefur mögulega smitast af sjúkdómi en sýnir ekki merki þess að vera sýktur. Hugtakið er ekki skýrt nánar í sóttvarnarlögum en ætla má að sú skýring sem hér er lögð til sé minna íþyngjandi en þegar hugtakið er notað í tengslum við afkvíun tiltekinna byggðalaga eða einangrun einstaklinga. Óumdeilt er að sóttkví fellur undir aðrar nauðsynlegar ráðstafanir í 2. mgr. 14. gr. sóttvarnarlaga nr. 19/1997. Um er að ræða aðgerð þar sem viðkomandi einstaklingur sætir ekki jafn ströngum fyrirmælum um að halda sig heima og innandyra og ef um einangrun væri að ræða, sbr. leiðbeiningar embættis Landslæknis fyrir almenning varðandi sóttkví í heimahúsi. Sóttkví er því almennt beitt vegna þeirra sem hafa mögulega smitast af sjúkdómi en sýna ekki merki þess að vera sýktir. Með beinum fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda er einkum átt við bein fyrirmæli embættis landlæknis til fólks um að sæta sóttkví sem fram til þessa hafa verið send með tölvupósti. Með sóttkví í skilningi frumvarpsins er ekki átt við önnur fyrirmæli heilbrigðisyfirvalda í því skyni að stemma stigu við útbreiðslu COVID-19-faraldursins, svo sem fyrirmæli um samkomubann.

Um 4. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 5. gr.

    Lagt er til að heimilt verði að greiða atvinnurekanda launakostnað hafi hann greitt launamanni sem sætir sóttkví laun. Gert er ráð fyrir að skilyrði fyrir greiðslum verði að launamaður hafi sætt sóttkví og hafi ekki getað sinnt vinnu að öllu leyti eða hluta þaðan sem hann sætti sóttkví. Er þannig gert ráð fyrir að ekki geti komið til greiðslna til atvinnurekanda hafi launamaður sinnt starfi sínu áfram þaðan sem hann sætti sóttkví, enda hafi atvinnurekandi þá notið vinnuframlags starfsmannsins á því tímabili sem um ræðir hverju sinni. Jafnframt er gert ráð fyrir að skilyrði fyrir greiðslu til atvinnurekanda sé að önnur atvik hafi ekki staðið í vegi fyrir því að launamaður hafi mætt til vinnu á vinnustað og að atvinnurekandi hafi sannanlega greitt launamanni laun á meðan hann sætti sóttkví. Þykir þetta mikilvægt þar sem ekki er gert ráð fyrir að atvinnurekandi sem greiðir launamanni sem sætir sóttkví laun geti sótt um greiðslur vegna launakostnaðar hafi launamaðurinn sinnt vinnu sinni þaðan sem hann sætir sóttkví. Þá er ekki gert ráð fyrir að um sé að ræða sóttkví í skilningi frumvarpsins ef launamaðurinn sætir sóttkví samkvæmt beinum fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda þar sem hann hefur smitast af COVID-19-sjúkdómnum og er þar af leiðandi veikur í sóttkví. Gert er ráð fyrir að í slíkum tilvikum gildi réttur launamanna til launa í veikindum samkvæmt kjarasamningum.
    Jafnframt er lagt til að kveðið verði á um að heimilt sé að greiða launamanni launatap hafi hann ekki fengið greidd laun, svo sem vegna rekstrarörðugleika eða tekjufalls atvinnurekanda, á þeim tíma er launamaðurinn sætti sóttkví enda séu skilyrði a–c-liðar 1. mgr. uppfyllt. Í yfirlýsingu forsætisráðherra, Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins er gert ráð fyrir að Samtök atvinnulífsins muni beina þeim tilmælum til atvinnurekenda að laun verði greidd til launamanna sem sæta sóttkví að fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda. Í ljósi þess má ætla að það muni heyra til undantekninga að launamenn sæki um greiðslur þar sem þeir hafi ekki fengið greidd laun á meðan þeir sættu sóttkví. Lagt er til að Vinnumálastofnun verði heimilt að óska eftir staðfestingu frá atvinnurekanda um að laun hafi ekki verið greidd fyrir það tímabil sem launamaður sætti sóttkví sem og eftir upplýsingum um ástæður þess að launin hafi ekki verið greidd.

Um 6. gr.

    Hér er fjallað um fjárhæð greiðslna vegna launamanna. Lagt er til að greiðsla til atvinnurekanda skuli taka mið af heildarlaunum launamanns í þeim almanaksmánuði eða almanaksmánuðum sem hann sætti sóttkví en með almanaksmánuðum er átt við þau tilvik þegar sóttkví varir yfir mánaðamót. Gert er ráð fyrir að til launa teljist hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald þann mánuð sem launamanni var gert að sæta sóttkví. Til að finna út fjárhæð greiðslna fyrir hvern dag skal miða við 30 daga í mánuði. Þannig myndi atvinnurekandi, sem hefur greitt laun til launamannsmanns í sóttkví, eiga rétt á greiðslu í réttu hlutfalli við mánaðarlaun sem hann greiddi launamanninum en þó aldrei hærri en sem nemur 633.000 kr. miðað við heilan almanaksmánuð að uppfylltum öllum skilyrðum, sbr. 5. gr. frumvarpsins. Jafngildir sú hámarksfjárhæð hámarksábyrgð á kröfum launamanna samkvæmt lögum um Ábyrgðasjóð launa. Í ljósi þess að miðað er við 30 daga í mánuði þegar fundin er út fjárhæð greiðslna fyrir hvern dag myndu hámarkgreiðslur til atvinnurekanda vegna hvers dags sem atvinnurekandinn greiðir launamanni sem sætir sóttkví laun þannig nema 21.100 kr.
    Sem dæmi má nefna launamann sem hefur fengið greiddar 420.000 kr. í laun í þeim mánuði sem hann sætti sóttkví eða 14.000 kr. á dag (420.000/30). Atvinnurekandi fær því greiddar 14.000 kr. fyrir hvern dag sem launamaðurinn er í sóttkví að uppfylltum öðrum skilyrðum. Hafi launamaðurinn verið í sóttkví í 14 daga getur atvinnurekandinn því átt rétt á greiðslu að fjárhæð 196.000 kr. (14.000x14).
    Ef heildarlaun launamanns eru hærri en 633.000 kr. á mánuði skal miða við hámarksgreiðslu frumvarpsins. Við útreikning á greiðslum til atvinnurekanda vegna launamanns sem hefur fengið greiddar 700.000 kr. í laun í þeim mánuði sem hann sætti sóttkví nema greiðslur til atvinnurekanda því 21.100 kr. á dag (633.000/30).
    Lagt er til að kveðið verði á um að þegar launamaður sæki um greiðslu á grundvelli 2. mgr. 5. gr. frumvarpsins skuli greiðsla taka mið af heildarlaunum hans fyrir undanfarandi almanaksmánuð áður en honum var gert að sæta sóttkví. Þó er gert ráð fyrir að heildargreiðslur til launamanns geti aldrei verið hærri en sem nemur mismun heildarlauna þann mánuð sem honum var gert að sæta sóttkví og heildarlauna undanfarandi mánaðar. Þá er lagt til að Vinnumálastofnun ráðstafi 4% af greiðslunni til lífeyrissjóðs launamanns. Jafnframt er lagt til að Vinnumálastofnun greiði 11,5% mótframlag, meðal annars í samræmi við lög um atvinnuleysistryggingar og lög um Ábyrgðasjóð launa.
    Sem dæmi má nefna launamann sem sætir sóttkví í apríl. Atvinnurekandi greiddi honum ekki laun í sóttkví og námu skert laun hans 220.000 kr. umræddan mánuð en laun hans í febrúar námu hins vegar 420.000 kr. Sú reikniregla sem hér er lögð til leiðir til þess að greiðslur til viðkomandi starfsmanns vegna tekjutaps hans nema 14.000 kr. á dag (420.000/30). Hafi hann sætt sóttkví í 14 daga getur hann því átt rétt á greiðslu að fjárhæð 196.000 kr. (14.000x14). Hafi launamaður í framangreindu dæmi fengið greiddar 300.000 kr. í apríl getur hann í mesta lagi átt rétt á greiðslum að upphæð 120.000 kr. (420.000–300.000= 120.000), þar sem mismunur launa hans milli mánaða eru 120.000 kr.og getur hann því ekki fengið hærri greiðslu en sem því nemur. Gert er ráð fyrir að hámarksgreiðsla fyrir heilan mánuð verði 633.000 kr. eða 21.100 kr. á dag. Tekið skal fram að heildargreiðsla getur orðið hærri þegar 11,5% mótframlagi Vinnumálastofnunar hefur verið bætt við.

Um 7. gr.

    Hér er fjallað um skilyrði fyrir greiðslum til sjálfstætt starfandi einstaklinga. Lagt er til að heimilt verði að greiða sjálfstætt starfandi einstaklingi launatap, eftir því sem nánar er mælt fyrir um í frumvarpinu, hafi hann orðið að leggja niður störf á meðan hann sætti sóttkví. Lagt er til að skilyrði fyrir greiðslum verði að viðkomandi hafi sætt sóttkví, hafi ekki getað sinnt vinnu að öllu leyti eða hluta þaðan sem hann sætti sóttkví og að önnur atvik hafi ekki staðið í vegi fyrir því að viðkomandi hafi getað unnið störf sín. Er þannig gert ráð fyrir að ekki geti komið til greiðslna til sjálfstætt starfandi einstaklings hafi hann sinnt starfi sínu áfram þaðan sem hann sætti sóttkví. Þykir þetta mikilvægt þar sem ekki er get ráð fyrir að sjálfstætt starfandi einstaklingur sem sætir sóttkví geti sótt um greiðslur vegna launataps hafi hann sinnt vinnu sinni þaðan sem hann sætti sóttkví. Ekki er gert ráð fyrir að um sé að ræða sóttkví í skilningi frumvarpsins ef sjálfstætt starfandi einstaklingur sætir sóttkví samkvæmt beinum fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda þar sem hann hefur smitast af COVID-19-sjúkdómnum og er þar af leiðandi veikur í sóttkví. Þá er lagt til að sjálfstætt starfandi einstaklingur skuli vera með opinn rekstur og skuli auk þess að hafa staðið í skilum á greiðslu tryggingagjalds og staðgreiðsluskatts af reiknuðu endurgjaldi samkvæmt ákvörðun skattyfirvalda a.m.k. þrjá mánuði á undanfarandi fjórum mánuðum fyrir umsóknardag. Í ljósi þess að hér er kveðið á um tímabundið úrræði sem afmarkast við tiltekið tímabil á árinu 2020 þykir rétt að miðað sé við að sjálfstætt starfandi einstaklingar séu með opinn rekstur og hafi staðið skil á opinberum gjöldum á framangreindan hátt. Þá verður að ætla að ekki geti verið um tekjutap að ræða hafi sjálfstætt starfandi einstaklingur stöðvað rekstur áður en til þess kemur að hann sætir fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda um sóttkví. Þá er í 8. gr. frumvarpsins lagt til að fjárhæð greiðslna til sjálfstætt starfandi einstaklinga taki mið af reiknuðu endurgjaldi. Við mat á því hvort umsækjandi teljist vera með opinn rekstur er gert ráð fyrir að Vinnumálastofnun geti meðal annars litið til hreyfinga í virðisaukaskattsskrá ríkisskattstjóra, sbr. heimild stofnunarinnar í 10. gr. frumvarpsins til þess að afla nauðsynlegra upplýsinga.

Um 8. gr.

    Hér er fjallað um fjárhæð greiðslna vegna sjálfstætt starfandi einstaklinga. Lagt er til að greiðsla til sjálfstætt starfandi einstaklings sem sætir sóttkví skuli taka mið af 80% af mánaðarlegum meðaltekjum hans. Gert er ráð fyrir að til að finna meðaltekjur sjálfstætt starfandi einstaklings skuli taka mið af meðaltali reiknaðs endurgjalds sem greitt hefur verið tryggingagjald af og að miða skuli við tekjuárið 2019. Jafnframt er gert ráð fyrir að til að finna út fjárhæð greiðslna fyrir hvern dag skuli miða við 30 daga í mánuði. Þá er gert ráð fyrir að kveðið verði á um að greiðslur geti aldrei verið hærri en 633.000 kr. miðað við heilan almanaksmánuð. Er það sama hámarksfjárhæð og lögð er til í 6. gr. frumvarpsins vegna launamanna. Á sama hátt er jafnframt lagt til að hámarksgreiðslur fyrir hvern dag sem sjálfstætt starfandi einstaklingur sætir sóttkví nemi 21.100 kr. en gengið er út frá því að sóttkví vari almennt í 14 daga.
    Þannig myndi sjálfstætt starfandi einstaklingur sem hefur sætt sóttkví eiga rétt á greiðslum í réttu hlutfalli við 80% af meðaltali reiknaðs endurgjalds ársins 2019 en að hámarki 633.000 kr. miðað við heilan almanaksmánuð að uppfylltum öllum skilyrðum fyrir slíkri greiðslu.
    Sem dæmi má nefna sjálfstætt starfandi einstakling sem hefur að meðaltali reiknað sér 420.000 kr. í endurgjald á mánuði á árinu 2019 en 80% af meðallaunum væru þá 336.000 kr. á mánuði eða 11.200 kr. á dag (336.000/30). Viðkomandi ætti því rétt á að fá greiddar 11.200 fyrir hvern dag sem hann er í sóttkví að uppfylltum skilyrðum fyrir slíkum greiðslum. Hafi sjálfstætt starfandi einstaklingur verið í sóttkví í 14 daga getur hann því átt rétt á greiðslu að fjárhæð 156.800 kr. (11.200x14) að uppfylltum öllum skilyrðum, sbr. 7. gr. frumvarpsins.

Um 9. gr.

    Hér er lagt til að í umsókn um greiðslu skuli tilgreina þá einstaklinga sem sótt er um greiðslu fyrir og þá daga sem þeir lögðu niður störf sökum þess að þeim var gert að sæta sóttkví. Miðað er við að umsókn skuli vera skrifleg og að henni skuli fylgja fullnægjandi gögn og upplýsingar að mati Vinnumálastofnunar svo unnt sé að taka afstöðu til þess hvort skilyrði laganna fyrir greiðslu séu uppfyllt, þ.m.t. afrit af fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda um að viðkomandi skuli sæta sóttkví og launaseðla fyrir þann almanaksmánuð sem sóttkví stóð yfir sem og undanfarandi almanaksmánuð. Er þannig gert ráð fyrir að öllum umsóknum fylgi að jafnaði tveir launaseðlar launamanns. Verði frumvarpið að lögum er gengið út frá því að stéttarfélög geti liðsinnt félagsmönnum sínum sem sækja um greiðslur samkvæmt lögunum og sótt um greiðslur í umboði þeirra.
    Jafnframt er lagt til að umsóknir skuli afgreiddar þegar allar nauðsynlegar upplýsingar og gögn hafa borist Vinnumálastofnun en stofnuninni verði heimilt að synja umsókn um greiðslu hafi nauðsynlegar upplýsingar og gögn ekki borist innan 45 daga frá þeim degi er umsóknin barst stofnuninni. Verði frumvarpið að lögum er gengið út frá því að umsóknir einstaklinga sem ekki hafi fengið greidd laun frá atvinnurekanda á meðan þeir sættu sóttkví fái forgang við afgreiðslu umsókna samkvæmt lögunum.
    Enn fremur er lagt til að umsóknir um greiðslur verði að hafa borist Vinnumálastofnun í síðasta lagi 1. júlí 2020 en gert er ráð fyrir að hafi umsókn ekki borist fyrir það tímamark falli réttur til greiðslu niður.

Um 10. gr.

    Hér er lagt er til að Vinnumálastofnun verði heimilt að afla upplýsinga frá Skattinum, Tryggingastofnun ríkisins, Sjúkratryggingum Íslands, embætti landlæknis, hlutaðeigandi atvinnurekendum, stéttarfélögum og heildarsamtökum stéttarfélaga sem nauðsynlegar eru til að unnt sé að framfylgja ákvæðum frumvarpsins. Þá er lagt til að framangreindum aðilum beri að veita stofnunni þær upplýsingar sem hún óskar eftir, enda búi þeir yfir þeim. Með upplýsingum frá embætti landlæknis er einkum átt við upplýsingar um þá einstaklinga sem sætt hafa sóttkví og á hvaða tímabili.
    Lagt er til að Vinnumálastofnun verði jafnframt heimilt að afla nauðsynlegra upplýsinga frá launamönnum og sjálfstætt starfandi einstaklingum sem hafa þurft að leggja niður störf í sóttkví.

Um 11. gr.

    Ákvæði þetta fjallar um þær greiðslur sem launamaður eða sjálfstætt starfandi einstaklingur kann að eiga rétt á samkvæmt öðrum lögum eða samkvæmt kjarasamningum og eru ætlaðar honum til framfærslu við tilteknar aðstæður. Verður því að teljast eðlilegt að litið verði á þær sem ósamrýmanlegar greiðslum samkvæmt þessu frumvarpi og að skilyrði greiðslna samkvæmt frumvarpinu teljist ekki uppfyllt njóti launamaður eða sjálfstætt starfandi einstaklingur slíkra greiðslna.

Um 12. gr.

    Gert er ráð fyrir að Vinnumálastofnun leiðrétti og endurkrefji þá sem í hlut eiga hverju sinni um ofgreiðslur. Jafnframt er Vinnumálastofnun veitt heimild til að hafna umsóknum í þeim tilfellum sem umsækjandi lætur hjá líða að veita upplýsingar sem kunna að hafa áhrif á rétt hans til greiðslna.
    Gert er ráð fyrir að sá sem fengið hefur hærri greiðslur en honum bar endurgreiði þær fjárhæðir sem ofgreiddar voru. Á þetta við um öll tilvik sem kunna að valda því að viðkomandi hafi fengið ofgreitt, jafnvel þótt honum verði sjálfum ekki kennt um þá annmarka sem leiddu til þess. Atvinnurekanda kann þannig að verða gert að endurgreiða það sem ofgreitt var komi í ljós að skilyrði frumvarpsins hafi ekki verið uppfyllt, jafnvel þótt honum sjálfum hafi ekki verið kunnugt um ástæður ofgreiðslunnar.
    Þá er gert ráð fyrir að ákvarðanir Vinnumálastofnunar um endurkröfu á ofgreiðslum séu aðfararhæfar.

Um 13.gr.

    Hér er lagt til að heimilt verði að kæra ákvarðanir Vinnumálastofnunar sem teknar eru á grundvelli frumvarpsins, verði það að lögum, til úrskurðarnefndar velferðarmála. Getur þar m.a. verið um að ræða ákvarðanir um rétt til greiðslna, fjárhæð þeirra og ákvarðana um endurkröfur vegna ofgreiðslu og innheimtu. Gert er ráð fyrir að um málsmeðferð hjá nefndinni gildi ákvæði stjórnsýslulaga sem og ákvæði laga um úrskurðarnefnd velferðarmála, nr. 85/2015.
    Jafnframt er lagt til að úrskurðir úrskurðarnefndar velferðarmála um endurkröfu á ofgreiðslum verði aðfararhæfir.
    Þá er áréttað að úrskurðir úrskurðarnefndar velferðarmála á grundvelli laganna séu endanlegir á stjórnsýslustigi og að þeim verði ekki vísað til æðra stjórnvalds. Málsaðilar geta þó ávallt lagt ágreining um framkvæmd laganna fyrir almenna dómstóla.

Um 14. gr.

    Greinin þarfnast ekki frekari skýringa.

Um 15. gr.

    Greinin þarfnast ekki frekari skýringa.