Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1174, 150. löggjafarþing 667. mál: tímabundnar greiðslur vegna launa einstaklinga sem sæta sóttkví.
Lög nr. 24 21. mars 2020.

Lög um tímabundnar greiðslur vegna launa einstaklinga sem sæta sóttkví samkvæmt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda án þess að vera sýktir.


1. gr.

Gildissvið.
     Lög þessi taka til greiðslna til atvinnurekenda sem greitt hafa launamönnum sem sæta sóttkví laun á tímabilinu frá 1. febrúar 2020 til og með 30. apríl 2020. Enn fremur gilda lögin um greiðslur til launamanna sem sæta sóttkví á sama tímabili en fá ekki greidd laun frá atvinnurekanda. Þá gilda lögin um greiðslur til sjálfstætt starfandi einstaklinga sem sæta sóttkví á sama tímabili.

2. gr.

Markmið.
     Markmið laga þessara er að styðja atvinnurekendur sem greiða launamönnum sem sæta sóttkví laun þegar önnur réttindi, svo sem veikindaréttur samkvæmt kjarasamningum, eiga ekki við. Með því er stefnt að því að einstaklingar geti fylgt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda um að sæta sóttkví án þess að hafa áhyggjur af afkomu sinni.

3. gr.

Orðskýringar.
     Í lögum þessum er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:
  1. Launamaður: Einstaklingur sem starfar fyrir og á ábyrgð atvinnurekanda gegn endurgjaldi.
  2. Sjálfstætt starfandi einstaklingur: Hver sá sem starfar við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi í því umfangi að honum sjálfum er gert að standa mánaðarlega eða með öðrum reglulegum hætti skil á staðgreiðslu af reiknuðu endurgjaldi og tryggingagjaldi vegna starfs síns samkvæmt reglum ríkisskattstjóra um reiknað endurgjald.
  3. Sóttkví: Þegar einstaklingi er gert að einangra sig eins og kostur er, einkum í heimahúsi, samkvæmt beinum fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda þegar hann hefur mögulega smitast af sjúkdómi.


4. gr.

Yfirstjórn og framkvæmd.
     Ráðherra fer með yfirstjórn samkvæmt lögum þessum. Vinnumálastofnun annast framkvæmd laganna.

5. gr.

Skilyrði fyrir greiðslum vegna launamanna.
     Heimilt er að greiða atvinnurekanda launakostnað, eftir því sem nánar er mælt fyrir um í lögum þessum. Skilyrði fyrir greiðslum eru að:
  1. launamaður, eða barn í hans forsjá undir 13 ára aldri eða barn undir 18 ára aldri sem þiggur þjónustu á grundvelli laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, hafi sætt sóttkví,
  2. launamaður hafi ekki getað sinnt vinnu að öllu leyti eða að hluta þaðan sem hann sætti sóttkví,
  3. önnur atvik hafi ekki staðið í vegi fyrir því að launamaður hafi getað mætt til vinnu á vinnustað og
  4. atvinnurekandi hafi sannanlega greitt launamanni laun á meðan hann eða barn í hans forsjá sætti sóttkví.

     Heimilt er að greiða launamanni launatap hafi hann ekki fengið greidd laun, svo sem vegna rekstrarörðugleika eða tekjufalls atvinnurekanda, enda séu skilyrði a–c-liðar 1. mgr. uppfyllt. Vinnumálastofnun er heimilt að óska eftir staðfestingu frá atvinnurekanda um að laun hafi ekki verið greidd og upplýsingum um ástæður þess.

6. gr.

Fjárhæð greiðslna vegna launamanna.
     Greiðsla til atvinnurekanda skal taka mið af heildarlaunum launamanns í þeim almanaksmánuði eða almanaksmánuðum sem hann eða barn í hans forsjá var í sóttkví. Til launa teljast hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald þann mánuð sem launamanni var gert að vera í sóttkví. Til að finna út fjárhæð greiðslna fyrir hvern dag skal miða við 30 daga í mánuði.
     Þegar launamaður sækir um greiðslu á grundvelli 2. mgr. 5. gr. skal greiðsla taka mið af heildarlaunum hans fyrir undanfarandi almanaksmánuð áður en honum var gert að vera í sóttkví eða hann annaðist barn í sóttkví. Heildargreiðslur til launamanns geta þó aldrei verið hærri en sem nemur mismun heildarlauna þann mánuð sem honum var gert að vera í sóttkví eða hann annaðist barn í sóttkví og heildarlauna undanfarandi mánaðar. Vinnumálastofnun ráðstafar 4% af greiðslunni til lífeyrissjóðs launamanns. Jafnframt greiðir Vinnumálastofnun 11,5% mótframlag.
     Þrátt fyrir ákvæði 1. og 2. mgr. geta greiðslur aldrei verið hærri en 633.000 kr. fyrir launamann miðað við heilan almanaksmánuð. Hámarksgreiðslur fyrir hvern dag sem launamaður sætir sóttkví eða annast barn í sóttkví nema 21.100 kr.

7. gr.

Skilyrði fyrir greiðslum til sjálfstætt starfandi einstaklinga.
     Heimilt er að greiða sjálfstætt starfandi einstaklingi launatap, eftir því sem nánar er mælt fyrir um í lögum þessum. Skilyrði fyrir greiðslum eru að:
  1. sjálfstætt starfandi einstaklingur, eða barn í hans forsjá undir 13 ára aldri eða barn undir 18 ára aldri sem þiggur þjónustu á grundvelli laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, hafi sætt sóttkví,
  2. sjálfstætt starfandi einstaklingur hafi ekki getað sinnt vinnu að öllu leyti eða hluta þaðan sem hann sætti sóttkví,
  3. önnur atvik hafi ekki staðið í vegi fyrir því að sjálfstætt starfandi einstaklingur hafi getað unnið störf sín,
  4. sjálfstætt starfandi einstaklingur sé með opinn rekstur auk þess að hafa staðið skil á greiðslu tryggingagjalds og staðgreiðslu skatts af reiknuðu endurgjaldi samkvæmt ákvörðun skattyfirvalda a.m.k. þrjá mánuði á undanfarandi fjórum mánuðum fyrir umsóknardag eða með öðrum reglulegum hætti samkvæmt reglum ríkisskattstjóra.


8. gr.

Fjárhæð greiðslna vegna sjálfstætt starfandi einstaklinga.
     Greiðsla til sjálfstætt starfandi einstaklings sem sætir sóttkví eða annast barn í sóttkví skal taka mið af mánaðarlegum meðaltekjum hans. Til að finna meðaltekjur sjálfstætt starfandi einstaklings skal taka mið af meðaltali reiknaðs endurgjalds sem greitt hefur verið tryggingagjald af og skal miða við tekjuárið 2019. Til að finna út fjárhæð greiðslna fyrir hvern dag skal miða við 30 daga í mánuði.
     Þrátt fyrir 1. mgr. geta greiðslur aldrei verið hærri en 633.000 kr. miðað við heilan almanaksmánuð. Hámarksgreiðslur fyrir hvern dag sem sjálfstætt starfandi einstaklingur sætir sóttkví eða annast barn í sóttkví nema 21.100 kr.

9. gr.

Umsóknir um greiðslur.
     Í umsókn um greiðslu skal tilgreina þá einstaklinga sem sótt er um greiðslu fyrir og þá daga sem þeir gátu ekki sinnt vinnu að öllu leyti eða að hluta sökum þess að þeim var gert að vera í sóttkví eða þeir önnuðust barn í sóttkví. Umsókn skal vera skrifleg og henni skulu fylgja fullnægjandi gögn og upplýsingar að mati Vinnumálastofnunar svo að unnt sé að taka afstöðu til þess hvort skilyrði laga þessara fyrir greiðslu séu uppfyllt, þ.m.t. afrit af fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda um að viðkomandi skuli sæta sóttkví og launaseðlar fyrir þann almanaksmánuð sem sóttkví stóð yfir sem og undanfarandi almanaksmánuð.
     Umsóknir skulu afgreiddar þegar allar nauðsynlegar upplýsingar og gögn hafa borist. Vinnumálastofnun er heimilt að synja umsókn um greiðslu hafi nauðsynlegar upplýsingar og gögn ekki borist innan 45 daga frá þeim degi þegar umsóknin barst stofnuninni.
     Umsóknir um greiðslur samkvæmt lögum þessum skulu berast Vinnumálastofnun í síðasta lagi 1. júlí 2020. Hafi umsókn ekki borist fyrir það tímamark fellur réttur til greiðslu niður.

10. gr.

Heimild til öflunar og vinnslu upplýsinga.
     Vinnumálastofnun er heimil öflun og vinnsla upplýsinga frá Skattinum, Tryggingastofnun ríkisins, Sjúkratryggingum Íslands, embætti landlæknis, félagsþjónustu sveitarfélaga, hlutaðeigandi atvinnurekendum, stéttarfélögum og heildarsamtökum stéttarfélaga sem nauðsynlegar eru til að unnt sé að framfylgja lögum þessum og ber framangreindum aðilum að veita stofnuninni þær upplýsingar sem hún óskar eftir, enda búi þeir yfir þeim. Sama á við um öflun og vinnslu nauðsynlegra upplýsinga frá launamönnum og sjálfstætt starfandi einstaklingum sem hafa þurft að leggja niður störf í sóttkví.

11. gr.

Ósamrýmanlegar greiðslur.
     Skilyrði greiðslna samkvæmt lögum þessum teljast ekki uppfyllt njóti launamaður eða sjálfstætt starfandi einstaklingur slysadagpeninga samkvæmt lögum um slysatryggingar almannatrygginga, sjúkradagpeninga samkvæmt lögum um sjúkratryggingar, endurhæfingarlífeyris samkvæmt lögum um félagslega aðstoð eða greiðslna úr sjúkrasjóðum stéttarfélaga vegna óvinnufærni að fullu á sama tímabili. Sama á við njóti launamaður eða sjálfstætt starfandi einstaklingur greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði samkvæmt lögum um fæðingar- og foreldraorlof eða Atvinnuleysistryggingasjóði samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar.

12. gr.

Leiðrétting á greiðslum.
     Atvinnurekandi, launamaður eða sjálfstætt starfandi einstaklingur sem lætur hjá líða að veita nauðsynlegar upplýsingar um það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum þessum á ekki rétt á greiðslu.
     Hafi umsækjandi fengið hærri greiðslur en hann átti rétt á eða fengið greiðslur fyrir tímabil þegar skilyrði laganna voru ekki uppfyllt ber honum að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd var.
     Ákvarðanir Vinnumálastofnunar um endurkröfu á ofgreiðslum til umsækjenda eru aðfararhæfar.

13. gr.

Málskot.
     Stjórnvaldsákvarðanir Vinnumálastofnunar samkvæmt lögum þessum sæta kæru til úrskurðarnefndar velferðarmála. Úrskurðir nefndarinnar um endurkröfu á ofgreiðslum samkvæmt lögum þessum eru aðfararhæfir. Um málsmeðferð hjá nefndinni fer samkvæmt ákvæðum laga um úrskurðarnefnd velferðarmála.
     Úrskurðir úrskurðarnefndar velferðarmála á grundvelli laga þessara eru endanlegir á stjórnsýslustigi og verður ekki skotið til æðra stjórnvalds.

14. gr.

Reglugerðarheimild.
     Ráðherra er heimilt að kveða á um nánari framkvæmd laga þessara í reglugerð, þ.m.t. um málsmeðferð framkvæmdaraðila.

15. gr.

Gildistaka.
     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 20. mars 2020.