Ferill 547. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1226  —  547. mál.
Svar


ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra við fyrirspurn frá Unu Hildardóttur um hvata fyrir iðnaðar- og þjónustufyrirtæki og líffræðilega fjölbreytni.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Er hafin vinna í ráðuneytinu við að skapa jákvæða hvata fyrir iðnaðar- og þjónustufyrirtæki til að verðlauna þau fyrir breytingar á starfsháttum sem stuðla að verndun og eflingu líffræðilegrar fjölbreytni?
     2.      Er hafin vinna í ráðuneytinu við að útrýma skaðlegum hvötum sem gerir iðnaðar- og þjónustufyrirtækjum kleift að stunda starfsemi sem skaðar líffræðilega fjölbreytni?
     3.      Hver eru áform ráðherra í þessum efnum?


    Hinn 9. janúar 2020 skipaði umhverfis- og auðlindaráðherra stýrihóp um stefnumótun um líffræðilega fjölbreytni. Hlutverk stýrihópsins er að undirbúa nýja stefnumótun og framkvæmdaáætlun fyrir líffræðilega fjölbreytni hér á landi til næstu ára, sem jafnframt styðji við framkvæmd samnings Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni og aðra alþjóðasamninga.
    Framangreindum stýrihóp ber að hafa víðtækt samráð í störfum sínum með fulltrúum ýmissa aðila, m.a. stofnana, félagasamtaka og hagsmunaaðila sem mál þetta varðar. Gert er ráð fyrir að tillögur stýrihópsins liggi fyrir snemma árs 2021.
    Stýrihópurinn er skipaður fulltrúum sem tilnefndir voru af heilbrigðisráðherra, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og mennta- og menningarmálaráðherra, auk þess sem formennska stýrihópsins er á vegum umhverfis- og auðlindaráðuneytis.
    Í vinnu stýrihópsins verður tekið með heildstæðum hætti á líffræðilegri fjölbreytni og því munu áform ráðherra ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunar, hvað þetta varðar, taka mið af vinnu stýrihópsins og tillögum. Meðal annars um jákvæða hvata fyrir iðnaðar- og þjónustufyrirtæki fyrir breytingar á starfsháttum sem stuðla að verndun og eflingu líffræðilegrar fjölbreytni, og að útrýma skaðlegum hvötum.
    Mikilvægt er að vernda líffræðilega fjölbreytni á Íslandi og nefna má að í stefnumótun á sviði orkumála, nýsköpunar og iðnaðar er áhersla lögð á sjálfbæra nýtingu, byggða á bestu vísindalegri þekkingu.