Ferill 726. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1255  —  726. mál.
Stjórnarfrumvarp.



Frumvarp til laga


um frekari aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru.

Frá fjármála- og efnahagsráðherra.



I. KAFLI

Breyting á lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003.

1. gr.

    Við lögin bætast tvö ný ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:

    a. (LIV.)
    Þeim lögaðilum sem skattskyldir eru skv. 1. og 2. tölul. 1. mgr. 2. gr., og bera tekjuskatt við álagningu á árinu 2020 er heimilt að fresta að hluta til eða að öllu leyti um eitt ár greiðslu tekjuskatts allt að 20 millj. kr., enda sé fyrirsjáanlegur taprekstur á yfirstandandi rekstrarári. Samskattaðir lögaðilar teljast sem einn lögaðili í þessu sambandi.
    Reikna skal skatteign við álagningu á árinu 2021 hjá lögaðila, sem frestað hefur greiðslu skv. 1. mgr., hafi orðið tap á rekstri samkvæmt niðurstöðu álagningar á tekjur ársins 2020. Skatteign reiknast 20% af rekstrartapi við álagningu á árinu 2021 og skal henni jafnað sem nemur allt að frestuðum skatti skv. 1. mgr. Nemi rekstrartap hærri fjárhæð en nægir til fullrar jöfnunar yfirfærist það sem umfram er skv. 8. tölul. 31. gr.
    Skilyrði fyrir frestun skv. 1. mgr. eru að arði sé ekki úthlutað eða eigin hlutir keyptir á meðan krafan er óuppgerð við ríkissjóð. Enn fremur er það skilyrði frestunar að lögaðili sé ekki í vanskilum með opinber gjöld, skatta og skattsektir sem komnar voru á eindaga 31. desember 2019 og að álagðir skattar og gjöld byggist ekki á áætlunum vegna vanskila á skattframtölum og skýrslum, þ.m.t. staðgreiðsluskilagreinum og virðisaukaskattsskýrslum, síðastliðin þrjú ár eða síðan hann hóf starfsemi.
    Lögaðili skal tilkynna Skattinum um fjárhæð þeirrar skattgreiðslu sem hann kýs að fresta skv. 1. mgr. fyrir 10. nóvember 2020, á því formi sem Skatturinn ákveður.
    Nemi frestuð skattgreiðsla skv. 1. mgr. hærri fjárhæð en jöfnuð verður skv. 2. mgr. skulu dráttarvextir falla á fjárhæð sem nemur mismuninum frá þeim tíma þegar hann hefði fallið í gjalddaga hefði frestun ekki komið til. Dráttarvextir reiknast frá sama tíma af frestaðri fjárhæð reynist skilyrði frestunar ekki til staðar skv. 1. málsl. 3. mgr. Engir vextir skulu falla á fjárhæð sem jöfnuð er skv. 2. mgr.

    b. (LV.)
    Í stað þess að telja að fullu til tekna eftirgjöf skulda umfram rekstrartöp vegna greiðsluerfiðleika á árunum 2020, 2021 og 2022 skal lögaðilum og þeim mönnum sem stunda atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi vera heimilt að færa á milli tekjuáranna 2020 til og með 2022 þann hluta eftirgjafarinnar sem er umfram yfirfæranleg rekstrartöp og rekstrartap ársins, fyrningar og niðurfærslu. Skilyrði fyrir yfirfærslu skv. 1. málsl. er að skattaðili hafi fyrnt að fullu, að teknu tilliti til 42. gr., allar fyrnanlegar eignir sínar og nýtt mögulegar hámarksniðurfærslur á viðskiptakröfum og vörubirgðum. Þá er skilyrði að arði sé ekki úthlutað vegna tekjuáranna 2020 til og með 2022. Skatturinn getur heimilað skattaðila að taka þátt í samsköttun og sameiningu við aðra skattaðila eða skiptingu upp í fleiri félög að uppfylltum skilyrðum þessa ákvæðis. Nýta skal allar heimildir samkvæmt ákvæðinu áður en til samsköttunaruppgjörs kemur.
    Standi eftir í árslok 2022 eftirgjöf skulda sem er hærri en 500 millj. kr. er skattaðila heimilt að færa það sem umfram er til tekna með jöfnum fjárhæðum á tekjuárunum 2023 til og með 2027. Sé eftirgjöf lægri en 500 millj. kr. í lok árs 2022 færist hún ekki til tekna.
    Skilyrði er að til skuldanna hafi verið stofnað í beinum tengslum við atvinnureksturinn.
    Lögaðilum og þeim mönnum sem stunda atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi er heimilt að fyrna eignir, sem eru fyrnanlegar skv. 33. gr., um fjárhæð sem nemur eftirstöðvum eftirgjafarinnar, sbr. 2. mgr., að teknu tilliti til ákvæða 42. gr., á því ári sem eftirgjöf er færð til tekna í skattframtali.
    Skilyrði fyrir frestun á tekjufærslu skv. 1. mgr., dreifingu á tekjufærslu skv. 2. mgr. eða fyrningu skv. 4. mgr. er að rekstrartap ársins og yfirfæranlegt rekstrartap hafi verið jafnað.
    Ákvæðið gildir ekki um eftirgjöf skulda milli móður- og dótturfélaga að því undanskildu þegar fjármálafyrirtæki yfirtaka félög til að tryggja fullnustu kröfu, sbr. 2. mgr. 22. gr. laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002.
    Þegar kröfu er breytt í hlutafé í hinu skuldsetta félagi í stað eftirgjafar skal það talið fullnaðargreiðsla hennar. Aðilar geta samið um niðurfellingu á hluta kröfunnar áður en slík greiðsla með hlutafé er innt af hendi. Sé skipt á kröfu og hlutafé skal fara fram mat á verðmæti hlutafjárins og skal matsverðið miðast við þann dag þegar skiptin eiga sér stað. Skuldara ber að tekjufæra mismun á verðmæti hlutafjárins og bókfærðu verði skuldarinnar. Kröfuhafa ber eftir atvikum að tekjufæra eða gjaldfæra mismun á bókfærðu verði kröfunnar og matsverði hlutafjárins. Mat á verðmæti hlutafjár skal unnið af óháðum matsaðila þegar skipti á kröfu og hlutafé fara fram á milli eignatengdra aðila.
    Við eftirgjöf skulda er kröfuhafa skylt að varðveita öll gögn sem forsendur eftirgjafarinnar byggjast á þannig að unnt verði að sinna upplýsingaskyldu skv. 92. gr. Upplýsingar skulu veittar í því formi sem ríkisskattstjóri ákveður.
    Eftirgefnar skuldir sem á einhvern hátt tengjast refsiverðri háttsemi skattaðila skal tekjufæra án nokkurs frádráttar.

II. KAFLI

Breyting á lögum um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki, nr. 152/2009.

2. gr.

    Við lögin bætast þrjú ný ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:

    a. (I.)
    Þrátt fyrir ákvæði 1. málsl. 1. mgr. 10. gr. skal nýsköpunarfyrirtæki sem er eigandi að rannsóknar- eða þróunarverkefnum sem hlotið hafa staðfestingu skv. 5. gr. eiga rétt á sérstökum frádrætti frá álögðum tekjuskatti árin 2021 og 2022 sem nemur 25 hundraðshlutum af útlögðum kostnaði vegna þessara verkefna enda sé um að ræða frádráttarbæran rekstrarkostnað í skilningi 1. tölul. 31. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003.

    b. (II.)
    Þrátt fyrir ákvæði 2. málsl. 1. mgr. 10. gr. skal hámark kostnaðar til útreiknings á frádrætti frá álögðum tekjuskatti árin 2021 og 2022 hjá hverju fyrirtæki vera 900.000.000 kr.

    c. (III.)
    Þrátt fyrir ákvæði 3. málsl. 1. mgr. 10. gr. skal hámark kostnaðar til útreiknings á frádrætti frá álögðum tekjuskatti árin 2021 og 2022 vera samtals 1.100.000.000 kr. ef um er að ræða aðkeypta rannsóknar- eða þróunarvinnu skv. 6. gr.

III. KAFLI

Breyting á lögum um virðisaukaskatt, nr. 50/1988.

3. gr.

    Við ákvæði til bráðabirgða XXXIII í lögunum, sbr. a-lið 7. gr. laga nr. 25/2020, bætist ný málsgrein, er verður 5. mgr., svohljóðandi:
    Ákvæði 1. mgr. nær á viðkomandi tímabili jafnframt til annars húsnæðis sem er alfarið í eigu sveitarfélaga eða stofnana og félaga sem alfarið eru í eigu sveitarfélaga, enda sé húsnæðið skráð í fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands.

IV. KAFLI

Breyting á lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða,
nr. 129/1997.

4. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Þrátt fyrir ákvæði 7. mgr. 36. gr. c er lífeyrissjóði heimilt að eiga allt að 35% í stað 20% af hlutdeildarskírteinum eða hlutum í sjóðum um sameiginlega fjárfestingu eða einstakri deild þeirra, þó aldrei umfram 1% heildareigna lífeyrissjóðsins. Heimildin nær til sjóða um sameiginlega fjárfestingu sem eingöngu fjárfesta í litlum eða meðalstórum nýsköpunarfyrirtækjum samkvæmt lögum um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki. Innlausnir í sjóðunum skulu fyrst fara fram að fimm árum liðnum frá því að þeir hófu fjárfestingar.
    Heimildin gildir til 1. janúar 2023 en þó verður lífeyrissjóði ekki gert að innleysa hlutdeildarskírteini eða hluti sem fjárfest var í á grundvelli hennar.

V. KAFLI

Breyting á lögum um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995.

5. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 13. gr. b laganna:
          a.      Á eftir orðinu „stuðningsþarfir“ í fyrri málsl. 1. mgr. kemur: og til úrbóta í ferlimálum fatlaðs fólks, einkum hvað varðar aðgengi að fasteignum, mannvirkjum og útisvæðum á vegum sveitarfélaga.
          b.      Á eftir orðinu „fólk“ í 3. mgr. kemur: og til úrbóta í ferlimálum fatlaðs fólks, einkum hvað varðar aðgengi að fasteignum, mannvirkjum og útisvæðum á vegum sveitarfélaga.
          c.      Við 4. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Ráðherra er heimilt í reglugerð að kveða á um að sveitarfélagi sé heimilt að ráðstafa framlagi úr fasteignasjóði til að auka eða bæta aðgengi fyrir fatlað fólk enda séu framkvæmdir unnar í samstarfi við félagasamtök og aðra aðila sem starfa í þágu almannaheilla.

6. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Þrátt fyrir 13. gr. b er Jöfnunarsjóði sveitarfélaga heimilt að nýta allt að 1.500 millj. kr. úr fasteignasjóði Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga til greiðslu almennra jöfnunarframlaga skv. c-lið 9. gr., jöfnunarframlaga vegna reksturs grunnskóla skv. d-lið 9. gr., jöfnunarframlaga vegna þjónustu við fatlað fólk skv. e-lið 9. gr., bundinna framlaga skv. a- og b-lið 10. gr. og fasteignaskattsframlaga skv. d-lið 11. gr. á árinu 2020. Til að jafna stöðu fasteignasjóðs skal Jöfnunarsjóður halda eftir hluta af sömu framlögum á tímabilinu 2021–2028 eða þar til staða fasteignasjóðs hefur verið jöfnuð út.

VI. KAFLI

Breyting á lögum um tímabundnar greiðslur vegna launa einstaklinga sem sæta sóttkví samkvæmt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda án þess að vera sýktir, nr. 24/2020.

7. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. gr. laganna:
          a.      Í stað dagsetningarinnar „30. apríl“ í 1. málsl. kemur: 30. september.
          b.      Við bætist ný málsgrein svohljóðandi:
                     Ekki kemur til greiðslna samkvæmt lögum þessum hafi launamaður eða sjálfstætt starfandi einstaklingur farið til útlanda þrátt fyrir að honum hafi mátt vera ljóst þegar hann fór að hann þyrfti við heimkomuna að sæta sóttkví enda hafi heilbrigðisyfirvöld ákveðið að þeir sem dvelji í viðkomandi landi þurfi að sæta sóttkví við heimkomu.

8. gr.

    Í stað dagsetningarinnar „1. júlí“ í fyrri málsl. 3. mgr. 9. gr. laganna kemur: 31. desember.

VII. KAFLI

Breyting á lögum um um fjölmiðla, nr. 38/2011.

9. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Á árinu 2020 er ráðherra heimilt með reglugerð að útfæra fyrirkomulag á sérstökum rekstrarstuðningi til einkarekinna fjölmiðla. Við ákvörðun um stuðningsfjárhæð í reglugerð skal meðal annars litið til launa og verktakagreiðslna vegna miðlunar á fréttum og fréttatengdu efni á ritstjórnum, og til þess að stuðningur verði hlutfallslega meiri til minni fjölmiðla og að hámark verði sett á stuðning til einstaka fjölmiðla.

10. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi. Þó skal 2. gr. koma til framkvæmda við gildistöku laganna.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Í frumvarpi þessu, sem samið er í fjármála- og efnahagsráðuneytinu, samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu, félagsmálaráðuneytinu og mennta- og menningarmálaráðuneytinu í samvinnu við Skattinn og Þjóðskrá Íslands, eru lagðar til breytingar á lögum um tekjuskatt, lögum um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki og lögum um virðisaukaskatt vegna þeirrar miklu óvissu sem ríkir nú í atvinnulífi og efnahag landsins eftir að lýst hefur verið yfir heimsfaraldri vegna kórónuveirunnar (SARS-CoV-2) sem veldur COVID-19-sjúkdómnum. Jafnframt eru lagðar til breytingar á lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða og lagt til að rýmkuð verði heimild lífeyrissjóða til að eiga í sjóðum um sameiginlega fjárfestingu. Þegar hafa verið samþykkt lög um breytingu á ýmsum lögum til að mæta efnahagslegum áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru, nr. 25/2020. Hér er því um að ræða annað skref í þá átt að koma til móts við þann samdrátt sem orðið hefur í íslensku atvinnulífi. Þá er jafnframt að finna í frumvarpinu breytingar á lögum um tekjustofna sveitarfélaga og lögum um tímabundnar greiðslur vegna launa einstaklinga sem sæta sóttkví samkvæmt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda án þess að vera sýktir og lögum um fjölmiðla.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Tilefni lagasetningarinnar má rekja til samþykktar ríkisstjórnarinnar hinn 10. mars 2020 um aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum af völdum kórónuveirufaraldursins. Útbreiðsla veirunnar og ráðstafanir til að hamla útbreiðslu hennar hafa þegar haft áhrif á efnahagslífið og samfélagið allt og hafa þau áhrif aukist. Fyrirhugaðar aðgerðir miða að því, eins og fyrri aðgerðir, að draga úr tjóni, tryggja að neikvæð áhrif á atvinnulíf og efnahag vari sem skemmst og skapa aðstæður fyrir öfluga viðspyrnu í kjölfarið.

3. Meginefni frumvarpsins.
3.1. Frestun skattgreiðslna lögaðila.
    Fyrirséð er að mörg fyrirtæki munu skila hagnaði vegna rekstrar á árinu 2019 en tapi vegna rekstrar á árinu 2020. Með lögum nr. 25/2020 og reglugerð nr. 283/2020, er breytti reglugerð nr. 1227/2019, um innheimtu þinggjalda og jöfnunargjalds á árinu 2019, var tímabundið komið til móts við þessa aðila á þann hátt að lögaðilum var gefinn kostur á að fresta fyrirframgreiðslu tekjuskatts vegna 2019 fram á síðari hluta ársins 2020. Nú er ráðgert að ganga skrefinu lengra og gefa lögaðilum með takmarkaða ábyrgð kost á að fresta skattgreiðslu vegna 2019 og jafna á móti tapi ársins 2020 þegar það raungerist. Aðgerðin leiðir til þess að fyrirtæki sem sjá fram á tap á yfirstandandi ári geta sótt um frekari frestun á greiðslu tekjuskatts þar til álagning næsta árs liggur fyrir og lækkað skattkröfuna sem nemur reiknaðri skatteign af tapi ársins, að uppfylltum skilyrðum laganna. Samkvæmt núgildandi skattalögum er heimilt að færa tap yfir á næstu 10 rekstrarár (yfirfæranlegt tap) en ekki hefur verið heimilt að færa tap yfir á fyrri ár (afturfæranlegt tap), sem nú er lagt til að verði gert. Aðgerðin mun styrkja lausafjárstöðu fyrirtækja og rekstur þeirra og gera fyrirtækjum betur kleift að takast á við þær krefjandi aðstæður sem nú eru uppi vegna COVID-19.
    Hámark þess skatts sem heimilt verður að fresta greiðslu á er 20 millj. kr. Snýr úrræðið þannig fyrst og fremst að litlum og meðalstórum fyrirtækjum en um 98% þeirra fyrirtækja sem skiluðu hagnaði í álagningu 2019, vegna rekstrarársins 2018, voru með skatt til greiðslu undir 20 millj. kr.

3.2. Skattaleg meðferð á eftirgjöf skulda lögaðila og einstaklinga í atvinnurekstri.
    Eftirgjöf skulda er skattskyld skv. meginreglu 7. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, og öll gæði sem metin verða til fjár eru tekjufærð hjá skattaðila. Undanþáguákvæði 3. tölul. 28. gr. tekjuskattslaga um eftirgjöf skulda við nauðasamning tekur aðeins til einstaklinga og ekki til aðila í atvinnurekstri. Á eftirhrunsárunum var brugðist við þessu með lögum nr. 104/2010 sem leiddi í lög um tekjuskatt, nr. 90/2003, ákvæði til bráðabirgða XXXVI, um skattalega meðferð á eftirgjöf skulda, og giltu fyrir rekstrar- og tekjuárin 2009-2011 þegar fjöldi fyrirtækja fór í gegnum fjárhagslega endurskipulagningu. Skilyrðin voru þau að til skuldanna hafi verið stofnað í beinum tengslum við atvinnureksturinn og að yfirfæranlegt tap auk rekstrartaps ársins hafi verið jafnað. Gengið var skrefinu lengra með lögum nr. 165/2010 og ákvæði til bráðabirgða XLIV þar sem fram kom í greinargerð með frumvarpi til laganna að gagnrýni hefði komið fram á fyrra úrræði í þá veru að það hamlaði í ákveðnum tilvikum fjárhagslegri endurskipulagningu lífvænlegra fyrirtækja vegna þeirrar tekjuskattsskuldbindingar sem myndaðist við eftirgjöfina. Því var lögð til breyting til frekari rýmkunar á reglum með ákveðnum skilyrðum, þ.e. að félaginu væri ekki heimilt að taka þátt í samsköttun, sameiningu eða skiptingu á sama tímabili án heimildar ríkisskattstjóra. Bráðabirgðaákvæðin voru bæði framlengd allt til ársins 2014.
    Í ljósi þess ástands sem frumvarpi þessu er ætlað að bregðast við er lagt til að svipaðar reglur taki gildi vegna áranna 2020, 2021 og 2022 í tengslum við niðurfærslu skulda lögaðila og einstaklinga í atvinnurekstri vegna greiðsluerfiðleika. Er þá litið sér í lagi til bráðabirgðaákvæðis XLIV sem fyrirmyndar þar sem ljóst þykir að hömlur á fjárhagslegri endurskipulagningu aðila í atvinnurekstri með skattlagningu eru ekki til þess fallnar að gera gagn í því ástandi sem nú ríkir.

3.3. Efling nýsköpunar.
    Núgildandi kerfi skattívilnana samkvæmt lögum um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki, nr. 152/2009, hefur stuðlað að arðbærum rannsóknum og þróun nýsköpunarfyrirtækja á undanförnum árum. Í ljósi áhrifa útbreiðslu COVID-19 er tillögu þessari ætlað að styðja enn frekar við verkefni fyrirtækja sem snúa að rannsóknum og tækniþróun og um leið stuðla að nauðsynlegri nýsköpun í atvinnu- og efnahagslífi til lengri tíma litið.
    Í fyrsta lagi er lögð til breyting til bráðabirgða á 1. málsl. 1. mgr. 10. gr. laga um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki, nr. 152/2009. Breytingin lýtur að 5 hundraðshluta hækkun á núverandi frádráttarhlutfalli frá álögðum tekjuskatti nýsköpunarfyrirtækja árin 2021 og 2022 vegna útlagðs kostnaðar þeirra á rannsóknar- og þróunarverkefnum sem þau eru eigendur að og hlotið hafa staðfestingu Rannsóknarmiðstöðvar Íslands (Rannís) skv. 5. gr. laga nr. 152/2009. Frádráttarhlutfallið mun því hækka úr 20 í 25 hundraðshluta og er hækkunin í samræmi við þau mörk sem hinu opinbera er heimilt að viðhafa við ríkisaðstoð sem þessa, sbr. reglugerð um almenna hópundanþágu frá tilkynningarskyldu (e. General Block Exemption Regulation, GBER), nr. 651/2014, sem tekin hefur verið upp í EES-samninginn, sbr. ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 152/2014.
    Í öðru lagi eru lagðar til breytingar til bráðabirgða á 2. og 3. málsl. 1. mgr. 10. gr. laganna sem lúta að því að hækkaðar verði núgildandi viðmiðunarfjárhæðir skattfrádráttar frá álögðum tekjuskatti árin 2021 og 2022 vegna rannsóknar- og þróunarkostnaðar nýsköpunarfyrirtækja. Annars vegar felur tillagan í sér að hámark á rannsóknar- og þróunarkostnaði til almennrar viðmiðunar á frádrætti hækki úr 600 millj. kr. í 900 millj. kr. ef viðkomandi fyrirtæki er eigandi að rannsóknar- eða þróunarverkefnum. Hins vegar er lagt til að hámark á rannsóknar- og þróunarkostnaði til viðmiðunar á frádrætti hækki úr 900 millj. kr. í 1.100 millj. kr. þegar rannsóknar- og þróunarvinna er keypt af ótengdu fyrirtæki, háskóla eða stofnun. Þessar hækkanir á viðmiðunarfjárhæðum eru innan marka fyrrnefndrar reglugerðar um almenna hópundanþágu frá tilkynningarskyldu, nr. 651/2014.

3.4. Endurgreiðsla virðisaukaskatts til sveitarfélaga.
    Með lögum um breytingu á ýmsum lögum til að mæta efnahagslegum áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru, nr. 25/2020, var m.a. gildandi heimild til endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu manna við íbúðarhúsnæði hækkuð og útvíkkuð á tímabilinu 1. mars til og með 31. desember 2020. Heimildin var meðal annars látin taka til frístundahúsnæðis og samhliða var mannúðar- og líknarfélögum, íþróttafélögum, björgunarsveitum o.fl. veitt heimild til endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna vinnu manna sem innt er af hendi á byggingarstað við byggingu, viðhald eða endurbætur á mannvirkjum sem alfarið væru í eigu þeirra. Á sama hátt náði endurgreiðslan til þjónustu vegna hönnunar eða eftirlits með byggingu á slíkum mannvirkjum.
    Fyrir liggur að atvinnuástand í mörgum sveitarfélögum hefur versnað til muna síðustu vikurnar vegna veirufaraldursins. Samkvæmt upplýsingum frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga er talið raunhæft markmið að sveitarfélög geti ráðist í 15 milljarða kr. flýtiframkvæmdir til þess að bregðast við efnahagsástandinu. Verkefnin séu oft á tíðum tilbúin, tiltölulega auðvelt sé að ráðast í þau og jafnframt henti þau smærri verktökum, einyrkjum og iðnaðarmönnum á hverjum stað fyrir sig. Til þess að liðka fyrir markmiði sveitarfélaga um flýtiframkvæmdir er nú lagt til að sveitarfélög eða stofnanir og félög sem alfarið eru í eigu þeirra öðlist tímabundinn rétt til endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu manna á byggingarstað vegna byggingar, viðhalds eða endurbóta á öðru húsnæði en íbúðar- og frístundahúsnæði, sem alfarið er í eigu þeirra. Með breytingunni verður sveitarfélögum eða stofnunum og félögum sem alfarið eru í eigu þeirra veitt samsvarandi heimild til endurgreiðslu virðisaukaskatts og þeim var veitt með lögum nr. 10/2009 og var hluti þeirra ráðstafana sem gripið var til í kjölfar fjármálakreppunnar sem hófst árið 2008.

3.5. Rýmkun á fjárfestingaheimild lífeyrissjóða.
    Sem liður í að bæta fjárfestingaumhverfi nýsköpunar hér á landi, t.d. með því að auðvelda stofnun nýsköpunarsjóða, er í frumvarpinu lagt til að rýmkuð verði heimild lífeyrissjóða til að fjárfesta í sjóðum um sameiginlega fjárfestingu. Heimild lífeyrissjóða til að fjárfesta í slíkum sjóðum má að lögum að hámarki nema 20% í hverjum sjóði en í frumvarpinu er lagt til að heimild lífeyrissjóða til fjárfestinga í hlutdeildarskírteinum eða hlutum í hverjum sjóði um sameiginlega fjárfestingu verði hækkuð tímabundið í 35%. Með breytingunni þyrftu þrír lífeyrissjóðir að hafa aðkomu að sjóði, í stað fimm í dag, sem myndi auðvelda fjármögnun slíkra sjóða og styðja við áætlun stjórnvalda um að bæta fjárfestingaumhverfi nýsköpunar hér á landi. Önnur áform stjórnvalda sem snúa að sama markmiði er stofnun Kríu – sprota- og nýsköpunarsjóðs en frumvarp þess efnis hefur verið lagt fram á Alþingi.

3.6. Tekjustofnar sveitarfélaga.
    Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um tekjustofna sveitarfélaga. Í fyrsta lagi er lagðar til breytingar á heimild til að veita framlög úr fasteignasjóði Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Sjóðnum var komið á fót í tengslum við yfirfærslu á málefnum fatlaðs fólks frá ríki til sveitarfélaga 1. janúar 2011. Hlutverk sjóðsins var að taka yfir réttindi og skyldur tengdar fasteignum í eigu ríkisins sem nýttar höfðu verið í þjónustu við fatlað fólk. Jafnframt tók hann yfir eignir, réttindi og skyldur framkvæmdasjóðs fatlaðra sem var lagður niður. Með lögum nr. 9/2018 var sjóðnum markað það hlutverk að veita sveitarfélögum framlög vegna uppbyggingar eða breytinga á fasteignum sem nýttar eru í þjónustu við fatlað fólk með miklar og/eða sértækar stuðningsþarfir. Eru framlög sjóðsins því bundin við verkefni er tengjast fasteignum sem eru fyrst og fremst nýttar í þjónustu við fatlað fólk með miklar og/eða sérstakar stuðningsþarfir, svo sem sambýli. Sem hluti af aðgerðaáætlun sveitarfélaga vegna áhrifa heimsfaraldurs COVID-19 var lagt til að sjóðurinn kæmi einnig að verkefnum er varðaði aðgengismál fatlaðra en ljóst þótti að slík verkefni myndu falla fyrir utan hlutverk sjóðsins eins og það var skilgreint í 13. gr. b laga um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995. Því er lögð til sú breyting að sjóðnum verði einnig heimilt að veita framlög til sveitarfélaga vegna framkvæmda sem hafa þann tilgang að bæta aðgengismál fatlaðra í byggingum og útisvæðum á vegum sveitarfélaga.
    Þá er einnig lagt til að Jöfnunarsjóði sveitarfélaga verði veitt heimild til að nýta fjármuni fasteignasjóð Jöfnunarsjóð sveitarfélaga til að greiða almenn framlög, grunnskólaframlög og framlög vegna málefna fatlaðs fólks á árinu 2020. Tilgangur lagaákvæðisins er að minnka áhrif tekjutaps sjóðsins vegna COVID-19 á almenn framlög hans á árinu 2020.

3.7. Tímabundnar greiðslur vegna launa einstaklinga sem sæta sóttkví samkvæmt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda án þess að vera sýktir.
    Í lögum um tímabundnar greiðslur vegna launa einstaklinga sem sæta sóttkví samkvæmt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda án þess að vera sýktir, nr. 24/2020, kemur fram að lögin taki til greiðslna til atvinnurekenda sem greitt hafa launamönnum sem sæta sóttkví laun á tímabilinu frá 1. febrúar 2020 til og með 30. apríl 2020. Enn fremur kemur fram að lögin gildi um greiðslur til launamanna sem sæta sóttkví á sama tímabili en fá ekki greidd laun frá atvinnurekanda. Þá kemur fram að lögin gildi um greiðslur til sjálfstætt starfandi einstaklinga sem sæta sóttkví á sama tímabili. Lagt er til að tímabilið sem lögin taka til verði framlengt þannig að þau taki til þeirra tilvika þegar framangreindir einstaklingar sæta sóttkví á tímabilinu 1. febrúar 2020 til og með 30. september 2020. Markmið laganna er að styðja atvinnurekendur sem greiða launamönnum sem sæta sóttkví laun þegar önnur réttindi, svo sem veikindaréttur samkvæmt kjarasamningum, eiga ekki við. Með því er stefnt að því að einstaklingar geti fylgt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda um að sæta sóttkví án þess að hafa áhyggjur af afkomu sinni. Þykir því mikilvægt að gildistími laganna verði framlengdur til 30. september 2020 þar sem áfram ríkir óvissa um þróun COVID-19-faraldursins. Þá er lagt til að skýrt verði kveðið á um að lögin gildi ekki hafi launamaður eða sjálfstætt starfandi einstaklingur farið til útlanda þrátt fyrir að honum hafi mátt vera ljóst þegar hann fór að hann þyrfti við heimkomuna að sæta sóttkví enda hafi heilbrigðisyfirvöld gefið það út að þeir sem dvelji í viðkomandi landi þurfi að sæta sóttkví við heimkomu. Þá er lagt til að unnt verði að sækja um greiðslur samkvæmt lögunum til 31. desember 2020.

3.8. Rekstrarstuðningur til einkarekinna fjölmiðla.
    Með breytingartillögu við lög um fjölmiðla, nr. 38/2011, er lagt til að mennta- og menningarmálaráðherra verði á árinu 2020 heimilt með reglugerð að útfæra fyrirkomulag á greiðslu sérstaks rekstrarstuðnings til einkarekinna fjölmiðla vegna þess víðtæka rekstrarvanda sem steðjar nú að einkareknum fjölmiðlum vegna faraldursins. Verulegur fjöldi einkarekinna fjölmiðla hér á landi hefur staðið höllum fæti síðustu ár. Rekstrarforsendur þeirra hafa versnað til muna, svo sem vegna örra tæknibreytinga og minnkandi auglýsingatekna samhliða breyttri neysluhegðun fyrirtækja á markaði. Samhliða þessum erfiðu áskorunum sem einkareknir fjölmiðlar hafa staðið frammi fyrir blasir nú við fyrirsjáanlegt tekjufall vegna samdráttar í fjölda atvinnugreina vegna heimsfaraldurs kórónuveiru. Í ljósi þessa er í ákvæðinu lagt til að brugðist verði við með einskiptisaðgerð til að greiða fyrir rekstri einkarekinna fjölmiðla hér á landi vegna þeirra tímabundnu rekstrarerfiðleika sem rekja má til heimsfaraldursins. Sterkir einkareknir fjölmiðlar eru sérstaklega mikilvægir á tímum sem þessum vegna þess hlutverks sem þeir gegna við að stuðla að upplýsingu og umræðu í samfélaginu, auk þess að veita stjórnvöldum aðhald og efla almannavarnir í þeirri víðtækari merkingu sem hugtakið hefur öðlast síðan faraldurinn hófst.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Frumvarpið felur í sér tillögur að breytingum á lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003, lögum um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki, nr. 152/2009, lögum um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997, lögum um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995, lögum um tímabundnar greiðslur vegna launa einstaklinga sem sæta sóttkví samkvæmt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda án þess að vera sýktir, nr. 24/2020, og lögum um fjölmiðla, nr. 38/2011, til að mæta efnahagslegum áhrifum af COVID-19-sjúkdómnum. Efni frumvarpsins gefur ekki tilefni til að ætla að tillögur þess stangist á við stjórnarskrá eða alþjóðlegar skuldbindingar. Þess var gætt við samningu frumvarpsins að efni þess og framsetning samrýmdust ákvæðum 40. og 77. gr. stjórnarskrárinnar.

5. Samráð.
    Frumvarpið er ekki á þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar fyrir yfirstandandi löggjafarþing. Í ljósi þess að frumvarpið er lagt fram vegna þeirrar miklu óvissu sem nú ríkir hér á landi og erlendis eftir að Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) lýsti yfir heimsfaraldri vegna kórónuveiru (SARS-CoV-2) sem veldur COVID-19-sjúkdómnum og þeirra efnahagsáhrifa sem þegar er farið að gæta vegna þessa hefur ekki gefist svigrúm til hefðbundins samráðs fyrir framlagningu þess á Alþingi.

6. Mat á áhrifum.
    Lagabreytingar þær sem lagðar eru til í frumvarpinu munu hafa neikvæð áhrif á afkomu ríkissjóðs til skemmri tíma litið verði frumvarpið óbreytt að lögum. Gróflega má áætla að tillaga frumvarpsins er lýtur að nýtingu rekstrartaps með afturvirkum hætti geti lækkað tekjur ríkissjóðs um allt að 13 milljarða kr. á þessu ári. Til lengri tíma litið jafnast það út og hefur takmörkuð fjárhagsleg áhrif á ríkissjóð þar sem gert er ráð fyrir að fyrirtæki muni eiga minna yfirfæranlegt tap á móti hagnaði næstu ára og greiða þar af leiðandi fyrr tekjuskatt á ný en ella.
    Umfang fjárhagslegrar endurskipulagningar lögaðila og einstaklinga í atvinnurekstri næstu ár er erfitt að meta að svo stöddu og þar með hvaða áhrif frestun og möguleg eftirgjöf skattlagningar vegna niðurfærslu skulda kunni að hafa á ríkissjóð. Hins vegar voru fyrirtæki almennt meira skuldsett og með lægra eiginfjárhlutfall fyrir hrun en í dag og standa vonir til þess að fjárhagsleg endurskipulagning lífvænlegra fyrirtækja komi til með að skila árangri meðal annars með þessum aðgerðum.
    Hækkun á frádráttarhlutfalli frá álögðum tekjuskatti nýsköpunarfyrirtækja vegna útlagðs kostnaðar þeirra af rannsóknar- og þróunarverkefnum leiðir til þess að stuðningur við fyrirtækin í formi skuldajöfnunar á tekjuskatti og beinna endurgreiðslna eykst árin 2021 og 2022 vegna rekstraráranna 2020 og 2021. Hækkun á hámarksfjárhæðum frádráttarbærs kostnaðar hefur viðbótaráhrif til hækkunar á stuðningnum. Samanlagt má áætla að stuðningurinn aukist um 3 milljarða kr. Heildaráhrifin á fjármál ríkissjóðs ættu þó með tímanum að verða jákvæð enda tilgangur breytinganna að stuðla að aukinni nýsköpun með jákvæðum áhrifum á almannahagsmuni og aukinni hagsæld til framtíðar.
    Heimild til endurgreiðslu virðisaukaskatts til sveitarfélaga eða stofnana og félaga alfarið í þeirra eigu, af kostnaði við vinnulið við byggingu, endurbætur eða viðhald annars húsnæðis en íbúðarhúsnæðis, mun draga úr kostnaði og því liðka fjárhagslega fyrir slíkum framkvæmdum. Ríkissjóður mun gefa eftir skatttekjur og verður sú eftirgjöf meiri en þær skatttekjur sem að óbreyttu hefðu fengist þar sem gert er ráð fyrir hvetjandi áhrifum af heimildinni. Sé tekið mið af fyrirliggjandi áætlunum sveitarfélaga um framkvæmdir á árinu 2020 og enn fremur litið til endurgreiðslna samkvæmt hliðstæðri heimild sem var í gildi á árunum 2009–2014 má áætla að endurgreiðslur til sveitarfélaga skv. 3. gr. gætu orðið um 1 milljarður kr. sem dreifast muni á árin 2020 og 2021.
    Í frumvarpinu er lögð til sérstök hækkun á heimild lífeyrissjóða til að eiga í sjóðum um sameiginlega fjárfestingu sem fjárfesta eingöngu í litlum eða meðalstórum nýsköpunarfyrirtækjum. Í dag er lífeyrissjóði heimilt að eiga 20% af hlutum eða hlutdeildarskírteinum í hverjum sjóði um sameiginlega fjárfestingu en lagt er til að það hámark verði hækkað í 35%, fyrir nýsköpunarsjóði eingöngu. Þó verður sett það hámark að hver lífeyrissjóður megi ekki hafa meira en 1% heildareigna sinna í slíkum sjóðum. Heildareignir lífeyrissjóðanna nema nú um 5.000 milljörðum kr. þannig að lífeyrissjóðum verður gert mögulegt að eiga í áðurnefndum sjóðum fyrir sem nemur um 50 milljörðum kr. Ekki hefur farið fram mat á því hvort þessi fjárhæð sé í samræmi við fjárfestingarþörf eða framboð á fjárfestingum í umræddum sjóðum. Heimildin er engu að síður til þess fallin að auka fjölbreytni eignasafns lífeyrissjóðanna og ýta undir verkefni í rannsóknum og þróun sem skapa verðmæti til lengri tíma og styðja við atvinnustig.
    Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á úthlutunarheimildum fasteignasjóðs Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga sem munu hafa jákvæð áhrif á aðgengismál fatlaðs fólks. Þá mun sú aðgerð að færa fjármuni tímabundið úr fasteignasjóði Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga til greiðslu almennra framlaga, grunnskólaframlaga og framlaga til málefna fatlaðs fólks, milda áhrif tekjutaps sjóðsins vegna COVID-19-faraldursins á framlög úr sjóðnum á árinu 2020. Ekki er gert ráð fyrir kostnaðarauka á ríkissjóð vegna breytinga á lögum um tekjustofna sveitarfélaga. Þá hefur frumvarpið hvorki áhrif á heildartekjur né heildarútgjöld Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga.
    Sú aðgerð heilbrigðisyfirvalda að gefa bein fyrirmæli um að einstaklingar sæti sóttkví er fyrsta stigs aðgerð til að stemma stigu við útbreiðslu COVID-19-faraldursins. Í frumvarpi því er varð að lögum um tímabundnar greiðslur vegna launa einstaklinga sem sæta sóttkví samkvæmt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda án þess að vera sýktir kemur fram að mikil óvissa hafi ríkt um þróun faraldursins og ómögulegt væri að segja til um hversu lengi grípa þyrfti til sérstakra aðgerða vegna hans. Því hafi ekki verið forsendur til leggja mat á hugsanlegan fjölda þeirra sem gæti átt rétt á greiðslum í samræmi við frumvarpið. Var þar miðað við að heildarfjöldi þeirra sem kæmi til með að sæta sóttkví á tímabilinu 1. febrúar til 30. apríl 2020 yrði um 5.000 einstaklingar og að fjöldi þeirra sem frumvarpið næði til yrði um 2.500–3.000 einstaklingar að hámarki. Hinn 20. apríl 2020 höfðu rúmlega 18 þúsund einstaklingar lokið sóttkví og rúmlega 1.100 einstaklingar voru þann dag í sóttkví. Má því ætla að nálægt fjórfalt fleiri einstaklingar komi til með að sæta sóttkví á tímabilinu 1. febrúar til og með 30 apríl 2020 en gert var ráð fyrir í skýringum með framangreindu frumvarpi. Áfram ríkir óvissa um þróun faraldursins og eru því ekki forsendur til að leggja mat á hve margir muni sæta sóttkví fram til 30. september 2020. Þó má gera ráð fyrir að fari útbreiðsla sjúkdómsins minnkandi muni þeim einnig fækka sem fá fyrirmæli um að sæta sóttkví.
    Gert er ráð fyrir að heildarkostnaður ríkissjóðs vegna rekstrarstuðnings til einkarekinna fjölmiðla verði allt að 350 millj. kr.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Lagt er til að í 1. mgr. ákvæðis til bráðabirgða LIV verði kveðið á um heimild til handa lögaðilum með takmarkaða ábyrgð að fresta greiðslu tekjuskatts á árinu 2020 vegna rekstrar á árinu 2019 enda sjái þeir fram á taprekstur á yfirstandandi ári. Greinin tekur aðeins til lögaðila með takmarkaða ábyrgð og þar af leiðandi nær úrræðið ekki yfir lögaðila með ótakmarkaða ábyrgð eða einstaklinga í atvinnurekstri, en slíkt yrði flóknara í framkvæmd. Fram kemur að frestaður skattur getur að hámarki numið 20 millj. kr. en það samsvarar 100 millj. kr. skattstofni. Í tilviki samskattaðra félaga á 20 millj. kr. hámarkið við um álagðan skatt af samanlögðum skattstofni félaganna.
    Í 2. mgr. er kveðið á um heimild til að jafna saman skattalegu tapi ársins 2020, þegar það liggur fyrir við álagningu, við skattstofn 2019. Er það gert með þeim hætti að reiknuð er skatteign af tapi rekstrarársins 2020 sem kemur til frádráttar þeirri fjárhæð skatts sem greiðslu var frestað á. Skatteignin nemur margfeldi skatthlutfallsins og rekstrartapi ársins, þó ekki hærri fjárhæð en sem nemur þeim skatti sem frestað var að greiða. Þannig er ekki gert ráð fyrir að það komi til útgreiðslu úr ríkissjóði heldur aðeins að heimilt verði að jafna frestaðri skattkröfu og reiknaðri skatteign. Tap sem myndar ekki skatteign mun vera hægt að færa yfir á næstu ár í samræmi við núgildandi rétt.
    Í 3. mgr. eru sett ákveðin formskilyrði fyrir því að lögaðili geti sótt um frest skv. 1. mgr. en ekki þykir eðlilegt að lögaðilar geti leyst til sín fjármuni úr rekstrinum á meðan frestuð skattkrafa er óuppgerð. Þá er einnig skilyrði um að lögaðilinn sé ekki í vanskilum og hafi staðið skil á lögboðnum upplýsingum til Skattsins eins og nánar er kveðið á um í ákvæðinu.
    Í 4. mgr. er gert ráð fyrir að lögaðili skuli tilkynna Skattinum um þá fjárhæð sem hann kýs að fresta þegar álagning á árinu 2020 liggur fyrir og í síðasta lagi 10. nóvember á því formi sem Skatturinn ákveður en gera má ráð fyrir að á þeim tíma ætti að vera ljóst hvort tap verði á yfirstandandi rekstrarári eða ekki.
    Í 5. mgr. er kveðið á um dráttarvexti af frestuðum greiðslum á skatti sem er umfram reiknaða skatteign. Við þær aðstæður skulu dráttarvextir reiknast af mismuninum samkvæmt almennum reglum líkt og frestun hafi ekki komið til. Það sama gildir um höfuðstól sem frestað er ef skilyrði frestunar skv. fyrri málsl. 3. mgr. eru ekki uppfyllt, þ.e. ef arði er úthlutað eða eigin bréf eru keypt áður en krafan er gerð upp við ríkissjóð. Við þær aðstæður reiknast dráttarvextir á frestaðan höfuðstól líkt og frestun hafi ekki komið til, sbr. eftirfarandi dæmi um útreikning til einföldunar (tölur eru í kr.):

Dæmi 1:
Skattstofn gjaldárið 2020 150.000.000
Álagður skattur 30.000.000
Frestaður skattur 20.000.000
Skattur til greiðslu 10.000.000
Rekstrartap gjaldárið 2021 150.000.000
Rekstrartap til jöfnunar 100.000.000
Skatteign til jöfnunar 20.000.000
Yfirfæranlegt tap 50.000.000
Dæmi 2:
Skattstofn gjaldárið 2020 150.000.000
Álagður skattur 30.000.000
Frestaður skattur 20.000.000
Skattur til greiðslu 10.000.000
Rekstrartap gjaldárið 2021 50.000.000
Rekstrartap til jöfnunar 50.000.000
Skatteign til jöfnunar 10.000.000
Vangoldinn skattur 10.000.000 sem ber dráttarvexti

    Í ákvæði til bráðabirgða LV er að finna tillögu í anda ákvæða til bráðabirgða XXXVI og XLIV í lögunum um skattalega meðferð á eftirgjöf skulda hjá lögaðilum og aðilum í sjálfstæðum atvinnurekstri. Lagt er til að heimilt verði að færa á milli tekjuáranna 2020 til og með 2022 þann hluta eftirgjafar sem er umfram yfirfæranlegt rekstrartap og rekstrartap ársins, fyrningar og niðurfærslu og getur skattaðili hagað frádrætti miðað við rekstrarniðurstöðu þessara ára. Það er þó skilyrði að allar fyrnanlegar eignir hafi verið fyrndar að fullu að teknu tilliti til 42. gr. laganna og mögulegar hámarksniðurfærslur á viðskiptakröfum og vörubirgðum hafi verið nýttar.
    Þá er einnig sett það skilyrði að arði verði ekki úthlutað vegna tekjuáranna 2020–2022 og að ekki sé um að ræða samsköttun, sameiningu eða skiptingu á sama tímabili. Að loknu þessu þriggja ára tímabili, eða í árslok 2022, færist sá hluti eftirgjafar sem eftir stendur, þó að hámarki 500 millj. kr., ekki til tekna. Það sem umfram er 500 millj. kr. er heimilt að færa til tekna með jöfnum fjárhæðum á tekjuárunum 2023 til og með 2027. Eftirgefnar skuldir sem á einhvern hátt tengjast refsiverðri háttsemi skattaðila skal tekjufæra án nokkurs frádráttar.

Um 2. gr.

    Lagt er til að við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða I sem varðar hækkun á núverandi frádráttarhlutfalli nýsköpunarfyrirtækja, þ.e. úr 20 í 25 hundraðshluta, frá álögðum tekjuskatti þeirra árin 2021 og 2022 vegna útlagðs kostnaðar á rannsóknar- og þróunarverkefnum.
    Þá er lagt til að við lögin bætist ákvæði til bráðabirgða II og III sem varða hækkanir á viðmiðunarfjárhæðum skattfrádráttar frá álögðum tekjuskatti nýsköpunarfyrirtækja árin 2021 og 2022. Þannig er lagt til að hámark kostnaðar til útreiknings á frádrætti hækki úr 600 millj. kr. í 900 millj. kr. Þá er hámark kostnaðar vegna aðkeyptrar rannsóknar- eða þróunarþjónustu hækkað úr 900 millj. kr. í 1.100 millj. kr.

Um 3. gr.

    Í ákvæðinu er lögð til breyting á ákvæði til bráðabirgða XXXIII í lögunum. Lagt er til að tekið verði upp sambærilegt ákvæði og lögfest var með 2. gr. laga nr. 10/2009, sbr. 3. mgr. þágildandi ákvæðis til bráðabirgða XV í lögunum, og að sveitarfélögum eða stofnunum og félögum sem alfarið eru í eigu þeirra verði veitt heimild til endurgreiðslu virðisaukaskatts sem þau hafa greitt vegna vinnu manna sem innt er af hendi á tímabilinu 1. mars 2020 til og með 31. desember 2020 á byggingarstað við byggingu, viðhald eða endurbætur á öðru húsnæði en íbúðar- og frístundahúsnæði sem alfarið eru í eigu þeirra.
    Með húsnæði í þessu sambandi er átt við hús, þ.e. byggingu með veggjum og þaki, eða hluta húss, sem ætlað er til nota í starfsemi hjá sveitarfélögum eða hjá stofnunum og félögum sem alfarið eru í þeirra eigu, og eru varanlega skeytt við land, t.d. skrifstofuhúsnæði, íþróttahús, áhaldahús og vörugeymsla, og eru skráð í fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands. Við endurgreiðslu ber að taka tillit til þess virðisaukaskatts sem sveitarfélög eða stofnanir og félög þeirra hafa fengið endurgreiddan á grundvelli 3. mgr. 42. gr. laganna, sbr. reglugerð um virðisaukaskatt af skattskyldri starfsemi opinberra aðila, nr. 248/1990.
    Líkt og fram kemur í ákvæði til bráðabirgða XXXIII tekur endurgreiðsla samkvæmt ákvæðinu ekki til virðisaukaskatts sem færa má til innskatts, sbr. VII. kafla laganna, þ.m.t. samkvæmt reglugerð um virðisaukaskatt af byggingarstarfsemi nr. 576/1989 og reglugerð um frjálsa og sérstaka skráningu vegna leigu eða sölu á fasteign nr. 577/1989.

Um 4. gr.

    Í ákvæðinu er lagt til að heimild lífeyrissjóðs til fjárfestinga í hlutdeildarskírteinum eða hlutum í hverjum sjóði um sameiginlega fjárfestingu verði hækkuð tímabundið úr 20% í 35%, þó aldrei umfram 1% heildareigna lífeyrissjóðsins. Viðbótarheimildin er bundin því skilyrði að hún nái aðeins til sjóða um sameiginlega fjárfestingu sem fjárfesta eingöngu í litlum eða meðalstórum nýsköpunarfyrirtækjum samkvæmt lögum um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki. Þá er gerð sú krafa að innlausnir í viðkomandi sjóðum geti fyrst farið fram fimm árum eftir að sjóður hóf fjárfestingar. Heimildin gildir til og með 31. desember 2022 og verður lífeyrissjóðum sem nýta sér hana ekki gert skylt að þeim tíma liðnum að innleysa hlutdeildarskírteini eða hluti sem þeir hafa fjárfest í.

Um 5. gr.

    Í ákvæðinu er lögð til sú breyting að hlutverk fasteignasjóðs Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga verði víkkað út og sjóðnum verði heimilt að veita styrki til sveitarfélaga vegna framkvæmda sem hafa þann tilgang að bæta aðgengi fatlaðs fólks í fasteignum og mannvirkjum sem eru á vegum sveitarfélaga. Gert er ráð fyrir að hugtakið aðgengi verði túlkað með rúmum hætti og undir það falli allar framkvæmdir sem tengjast bættu aðgengi fatlaðs fólks. Þá þurfa framkvæmdir að snúa að fasteignum, mannvirkjum eða útisvæðum á vegum sveitarfélaganna og ber að líta til laga um skráningu og mat fasteigna, nr. 6/2001, laga um mannvirki, nr. 160/2010, og reglugerða sem settar eru með stoð í nefndum lögum við skilgreiningu á framangreindum hugtökum. Einnig er rétt að hafa í huga að eðli málsins samkvæmt kunna hér eingöngu að falla undir fasteignir, mannvirki eða útisvæði sem eru á vegum sveitarfélaga, hvort sem það er bygging eða svæði sem er í beinni eigu sveitarfélags eða bygging eða svæði þar sem fram fer starfsemi sem er hluti af lögbundnum eða ólögbundnum verkefnum viðkomandi sveitarfélags og er í eigu stofnana eða fyrirtækja á vegum sveitarfélags eða hins opinbera. Verkefni sem hér gætu fallið undir eru t.d. almennar úrbætur á aðgengi fatlaðs fólks í opinberum byggingum, biðstöðvum almenningssamgangna eða vinnustöðum fatlaðs fólks.
    Í c-lið ákvæðisins er gert ráð fyrir að ráðherra geti með reglugerð kveðið á um að sveitarfélagi verði heimilt að ráðstafa framlagi úr fasteignasjóði til að auka aðgengi eða bæta aðgengi fatlaðs fólks enda séu þær unnar í samstarfi við félagasamtök og aðra aðila sem starfa í þágu almannaheilla. Rétt er að árétta að hér er einungis um heimild að ræða en ekki skyldu.
    Rétt er að taka fram að áfram er gert ráð fyrir að ráðherra setji reglur um nánari skilyrði og fyrirkomulag úthlutunar úr fasteignasjóði sem fellur undir ofangreint hlutverk sjóðsins, sbr. 4. mgr. 13. gr. b laganna.

Um 6. gr.

    Lagt er til bráðabirgðarákvæði þar sem Jöfnunarsjóði sveitarfélaga verði veitt heimild til að nýta fjármuni fasteignasjóðs Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga til að greiða tiltekin framlög Jöfnunarsjóðs á árinu 2020. Tilgangur heimildarinnar er að minnka áhrif tekjutaps sjóðsins á árinu 2020, sem kemur til vegna áhrifa heimsfaraldurs COVID-19, á almenn framlög sjóðsins. Þess í stað er lagt til að haldið verði eftir hluta af sömu framlögum og tiltekin eru í ákvæðinu, næstu sjö árin, sem renna skulu í fasteignasjóðinn. Tekið skal fram að ekki er gert ráð fyrir að um sömu árlegu greiðslur verði að ræða heldur er Jöfnunarsjóð veitt svigrúm til að jafna stöðu fasteignasjóðs með þeim hætti sem hefur minnstu heildaráhrif á framlög sjóðsins ár hvert.

Um 7. gr.

    Í 1. gr. laga um tímabundnar greiðslur vegna launa einstaklinga sem sæta sóttkví samkvæmt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda án þess að vera sýktir, nr. 24/2020, kemur fram að lögin taki til greiðslna til atvinnurekenda sem greitt hafa launamönnum sem sæta sóttkví laun á tímabilinu frá 1. febrúar 2020 til og með 30. apríl 2020. Enn fremur kemur fram að lögin gildi um greiðslur til launamanna sem sæta sóttkví á sama tímabili en fá ekki greidd laun frá atvinnurekanda. Þá kemur fram að lögin gildi um greiðslur til sjálfstætt starfandi einstaklinga sem sæta sóttkví á sama tímabili. Hér er lagt til að tímabilið sem lögin taka til verði framlengt þannig að þau taki til þeirra tilvika þegar framangreindir einstaklingar sæta sóttkví á tímabilinu 1. febrúar 2020 til og með 30. september 2020.
    Í skýringum við 1. gr. frumvarps þess er varð að lögum um tímabundnar greiðslur vegna launa einstaklinga sem sæta sóttkví samkvæmt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda án þess að vera sýktir kemur fram að gildistíminn hafi verið afmarkaður við 1. febrúar 2020 til og með 30. apríl 2020 meðal annars þar sem sóttvarnaryfirvöld hafi talið óvíst hversu lengi til viðbótar sóttkví yrði beitt til að hefta útbreiðslu COVID-19 sjúkdómsins. 20. apríl 2020 höfðu rúmlega 18 þúsund einstaklingar lokið sóttkví og er gert ráð fyrir að sóttkví verði áfram beitt á meðan staðfestum smitum COVID-19 fjölgar.
    Markmið laganna er að styðja atvinnurekendur sem greiða launamönnum sem sæta sóttkví laun þegar önnur réttindi, svo sem veikindaréttur samkvæmt kjarasamningum, eiga ekki við. Með því er stefnt að því að einstaklingar geti fylgt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda um að sæta sóttkví án þess að hafa áhyggjur af afkomu sinni. Þykir því mikilvægt að gildistími laganna verði framlengdur til 30. september 2020 þar sem áfram ríkir nokkur óvissa um þróun COVID-19-faraldursins.
    Þá er lagt til að við 1. gr. laganna bætist ný málsgrein þar sem skýrt verði kveðið á um að lögin gildi ekki hafi launamaður eða sjálfstætt starfandi einstaklingur farið til útlanda þrátt fyrir að honum hafi mátt vera ljóst þegar hann fór að hann þyrfti við heimkomuna að sæta sóttkví enda hafi heilbrigðisyfirvöld gefið það út að þeir sem dvelji í viðkomandi landi þurfi að sæta sóttkví við heimkomu. Samkvæmt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda þurfa allir íslenskir ríkisborgarar og aðrir sem eru með fasta búsetu á Íslandi og hafa dvalið erlendis 24 klst. eða lengur frá og með 19. mars 2020 að fara í sóttkví við heimkomu, án tillits til þess hvaðan þeir koma. Ekki er vitað hvenær slíkum fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda verður aflétt en ekki þykir rétt að til greiðslna geti komið samkvæmt lögunum þegar einstaklingar ferðast af landi brott vitandi að þeir þurfi að sæta sóttkví við heimkomu.

Um 8. gr.

    Í 3. mgr. 9. gr. laga um tímabundnar greiðslur vegna launa einstaklinga sem sæta sóttkví samkvæmt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda án þess að vera sýktir, nr. 24/2020, kemur fram að umsóknir um greiðslur samkvæmt lögunum skuli berast Vinnumálastofnun í síðasta lagi 1. júlí 2020. Hafi umsókn ekki borist fyrir það tímamark falli réttur til greiðslu niður. Í samræmi við þær breytingar sem lagðar eru til í 7. gr. frumvarpsins er hér lagt til að unnt verði að sækja um greiðslur samkvæmt lögunum til 31. desember 2020.

Um 9. gr.

    Lagt er til að mennta- og menningarmálaráðherra verði á árinu 2020 heimilt með reglugerð að útfæra fyrirkomulag á greiðslu sérstaks rekstrarstuðnings til einkarekinna fjölmiðla vegna þess víðtæka rekstrarvanda sem steðjar nú að einkareknum fjölmiðlum vegna faraldursins. Verulegur fjöldi einkarekinna fjölmiðla hér á landi hefur staðið höllum fæti undanfarin ár. Rekstrarforsendur þeirra hafa versnað til muna, svo sem vegna örra tæknibreytinga og minnkandi auglýsingatekna samhliða breyttri neysluhegðun fyrirtækja á markaði. Samhliða þessum erfiðu áskorunum sem einkareknir fjölmiðlar hafa staðið frammi fyrir blasir nú við fyrirsjáanlegt tekjufall vegna samdráttar í fjölda atvinnugreina vegna heimsfaraldurs kórónuveiru. Í ljósi þessa er í ákvæðinu lagt til að brugðist verði við með einskiptisaðgerð til að greiða fyrir rekstri einkarekinna fjölmiðla hér á landi vegna þeirra tímabundnu rekstrarerfiðleika sem rekja má til heimsfaraldursins. Sterkir einkareknir fjölmiðlar eru sérstaklega mikilvægir á tímum sem þessum vegna hlutverks þeirra er snýr að upplýsingu og umræðu í samfélaginu auk þess að veita stjórnvöldum aðhald og efla almannavarnir í þeirri víðtæku merkingu sem hugtakið hefur öðlast frá því að faraldurinn reið yfir.
    Með orðunum einkarekinn fjölmiðill er átt við fjölmiðil sem er hvorki í heild né að hluta í opinberri eigu, þ.e. hvorki í eigu opinberra hlutafélaga, ríkis, sveitarfélaga eða stofnana né félags eða annars lögaðila alfarið í þeirra eigu.
    Í ákvæðinu er lagt til að við ákvörðun um fjárhæð styrks verði meðal annars litið til kostnaðar vegna launa starfsmanna og verktakagreiðslna á ritstjórnum sem miðla fréttum og fréttatengdu efni. Enn fremur að litið verði til þess að stuðningur verði hlutfallslega meiri til minni aðila og þak verði sett á fjárhæð styrkja til einstakra aðila.
    Markmið breytingarinnar er að styðja við og efla útgáfu á fréttum, fréttatengdu efni og umfjöllun um samfélagsleg málefni auk þess að styðja við málstefnu stjórnvalda með því að veita einkareknum fjölmiðlum sérstakan rekstrarstuðning vegna kostnaðar sem fellur til við að afla og miðla slíku efni.
    Breytingin kallar ekki á sérstaka skoðun á samræmi við stjórnarskrá. Tillögurnar fela í sér ríkisaðstoð í skilningi 61. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið (EES-samningsins). Í ákvæðinu er að finna takmarkanir á veitingu ríkisaðstoðar. Frá þeim takmörkunum er þó að finna undantekningar, sér í lagi þær sem fram koma í 2. og 3. mgr. greinarinnar og afleiddri löggjöf. Undantekningar geta þannig átt við ef jákvæð áhrif ríkisaðstoðar á samfélagið vega þyngra en sú röskun á samkeppni sem af henni hlýst. Þær ríkisaðstoðarráðstafanir sem felast í ákvæðinu ber að tilkynna til Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) áður en þær koma til framkvæmda. ESA mun verða upplýst um efni ákvæðisins.
    Þær lagabreytingar sem lagðar eru til um sérstakan rekstrarstuðning til einkarekinna fjölmiðla fela í sér ný útgjöld fyrir ríkissjóð. Gert er ráð fyrir að heildarkostnaður ríkissjóðs verði allt að 350 millj. kr.

Um 10. gr.

    Gert er ráð fyrir því að 2. gr. öðlist þegar gildi og komi til framkvæmda við gildistöku laganna þar sem þær hækkanir sem kveðið er á um í greininni reiknast í álagningu 2021 og 2022 vegna annars vegar rekstrarársins 2020, þ.e. frá gildistöku laganna á því ári, og hins vegar rekstrarársins 2021. Að öðru leyti þarfnast greinin ekki skýringa.