Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 673, 136. löggjafarþing 289. mál: virðisaukaskattur (hækkuð endurgreiðsla vegna vinnu á byggingarstað).
Lög nr. 10 11. mars 2009.

Lög um breyting á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum.


1. gr.

     Við 6. málsl. 1. mgr. 42. gr. laganna bætist: og húseiningum.

2. gr.

     Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
     Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 42. gr. skal á tímabilinu 1. mars 2009 til 1. janúar 2011 endurgreiða byggjendum íbúðarhúsnæðis og frístundahúsnæðis 100% þess virðisaukaskatts sem þeir hafa greitt af vinnu manna á byggingarstað. Jafnframt skal á sama tímabili endurgreiða eigendum íbúðarhúsnæðis og frístundahúsnæðis 100% þess virðisaukaskatts sem þeir hafa greitt af vinnu manna við endurbætur eða viðhald þess. Að öðru leyti gilda ákvæði 1. mgr. 42. gr. á umræddu tímabili.
     Á tímabilinu 1. mars 2009 til 1. janúar 2011 skal endurgreiða byggjendum íbúðarhúsnæðis og frístundahúsnæðis 100% þess virðisaukaskatts sem þeir hafa greitt af þjónustu hönnuða og eftirlitsaðila sem löggildingu hafa samkvæmt skipulags- og byggingarlögum vegna hönnunar eða eftirlits með byggingu þess háttar húsnæðis. Jafnframt skal á sama tímabili endurgreiða eigendum íbúðarhúsnæðis og frístundahúsnæðis 100% þess virðisaukaskatts sem þeir hafa greitt af þjónustu arkitekta, verkfræðinga og tæknifræðinga vegna hönnunar eða eftirlits við endurbætur eða viðhald þess háttar húsnæðis. Fjármálaráðherra er heimilt að setja reglugerð um framkvæmd þessarar endurgreiðslu.
     Ákvæði 1. mgr. nær á viðkomandi tímabili jafnframt til annars húsnæðis sem er alfarið í eigu sveitarfélaga eða stofnana og félaga sem alfarið eru í eigu sveitarfélaga.

3. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. mars 2009.

Samþykkt á Alþingi 6. mars 2009.