Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1441, 138. löggjafarþing 659. mál: tekjuskattur (skattaleg meðferð á eftirgjöf skulda).
Lög nr. 104 2. júlí 2010.

Lög um breyting á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, með síðari breytingum (skattaleg meðferð á eftirgjöf skulda).


1. gr.

     Við lögin bætast tvö ný ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
     
     a. (I.)
     Í stað þess að telja að fullu til tekna eftirgjöf skulda umfram rekstrartöp er lögaðilum og þeim mönnum sem stunda atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi heimilt að tekjufæra einungis 50% af fengnum eftirstöðvum eftirgjafar skulda vegna rekstrar- og greiðsluerfiðleika á tekjuárunum 2009, 2010 og 2011 allt að samtals 50 millj. kr., og 75% af eftirgjöf umfram samtals 50 millj. kr. á framangreindu tímabili. Skilyrði er að til skuldanna hafi verið stofnað í beinum tengslum við atvinnureksturinn.
     Lögaðilum og þeim mönnum sem stunda atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi er heimilt að fyrna eignir, sem eru fyrnanlegar skv. 33. gr., um fjárhæð sem nemur eftirstöðvum eftirgjafarinnar, sbr. 1. mgr., að teknu tilliti til ákvæða 42. gr., á því ári sem eftirgjöf er færð til tekna í skattframtali.
     Eigi lögaðilar eða menn sem stunda atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi ekki eignir sem eru fyrnanlegar skal heimilt að færa eftirgjöf skulda til tekna með jöfnum fjárhæðum í skattframtölum næstu þriggja ára frá og með því tekjuári sem skuld var gefin eftir.
     Skilyrði fyrir takmörkun á tekjufærslu skv. 1. mgr., fyrningu skv. 2. mgr. eða frestun á tekjufærslu skv. 3. mgr. er að rekstrartap ársins og yfirfæranlegt rekstrartap hafi verið jafnað.
     Ákvæðið gildir ekki um eftirgjöf skulda milli móður- og dótturfélaga að því undanskildu þegar fjármálafyrirtæki yfirtaka félög til að tryggja fullnustu kröfu, sbr. 2. mgr. 22. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki.
     Taki kröfuhafi hlutafé í hinu skuldsetta félagi sem gagngjald fyrir kröfu í stað eftirgjafar skal það talið fullnaðargreiðsla hennar, nema að því marki sem eftirgjöf skuldar er færð til tekna hjá skuldara að teknu tilliti til 1. mgr.
     Við eftirgjöf skulda skal kröfuhafa skylt að varðveita öll gögn sem forsendur eftirgjafarinnar eru byggðar á þannig að unnt verði að sinna upplýsingaskyldu skv. 92. gr. Upplýsingar skulu veittar í því formi sem ríkisskattstjóri ákveður.
     Sé skilmálum í samningi um lán sem tengjast rekstri lögaðila og sjálfstætt starfandi manna breytt með þeim hætti að endurgreiðsla miðist við íslenskar krónur í stað erlends gjaldmiðils telst það vera skilmálabreyting láns en ekki eftirgjöf skuldar í skilningi laganna, þótt uppreiknaður höfuðstóll sé leiðréttur til lækkunar, enda sé breytingin gerð á málefnalegum forsendum og lánskjörum breytt í kjör sem eru almennt í boði við sambærilegar aðstæður. Sama á við ef breyting er gerð á viðmiðunarvísitölu verðtryggðra lána, eða hluti af uppreikningi höfuðstóls verðtryggðra lána er felldur niður. Séu gerðar breytingar á uppreiknuðum eftirstöðvum lána, sbr. 1. og 2. málsl., ber rekstraraðila að leiðrétta áður gjaldfærðan fjármagnskostnað til samræmis.
     
     b. (II.)
     Í stað fullrar tekjufærslu á eftirgjöf veðskulda utan atvinnurekstrar og skulda vegna bílasamninga utan atvinnurekstrar er heimilt að telja ekki til tekna allt að samtals 15 millj. kr. hjá einstaklingi og samtals 30 millj. kr. hjá hjónum eða samsköttuðum vegna greiðsluerfiðleika á tekjuárunum 2009, 2010 og 2011. Fari eftirgjöf fram úr tilgreindum fjárhæðum, sbr. 1. málsl., má falla frá tekjufærslu sem nemur 50% af eftirgjöfinni að hámarki samtals 30 millj. kr. hjá einstaklingi og samtals 60 millj. kr. hjá hjónum eða samsköttuðum, og 25% af eftirgjöf umfram samtals 30 millj. kr. hjá einstaklingi og samtals 60 millj. kr. hjá hjónum eða samsköttuðum á framangreindu tímabili. Ákvæði 1. og 2. málsl. eiga ekki við um eftirgjöf á upprunalegum höfuðstól að teknu tilliti til afborgana. Skilyrði er að um sé að ræða skuld sem ekki tengist atvinnurekstri. Fjármálaráðherra er heimilt að setja reglugerð um framkvæmd tekjufærslunnar á grundvelli þessa ákvæðis.
     Heimilt skal að fresta tekjufærslu á eftirgjöf skulda manna, sbr. 1. mgr., í tvö ár frá og með því tekjuári sem skuld er gefin eftir. Heimilt skal að færa eftirgjöf skulda til tekna með jöfnum fjárhæðum í skattframtölum næstu fimm ára frá og með því tekjuári þegar skuld var sannanlega gefin eftir eða frá og með því ári þegar tveggja ára frestunartímabili lauk.
     Ákvæðið á ekki við gildi 3. tölul. 28. gr. um eftirgjöf skulda.
     Við eftirgjöf skulda skal kröfuhafa skylt að varðveita öll gögn sem forsendur eftirgjafarinnar eru byggðar á þannig að unnt verði að sinna upplýsingaskyldu skv. 92. gr. Upplýsingar skulu veittar í því formi sem ríkisskattstjóri ákveður.
     Þeir sem ekki hafa þegar fengið úrlausn sinna mála skv. 3. tölul. 28. gr. eða óskað eftir því geta sótt um til ríkisskattstjóra sem skal á grundvelli umsóknar lækka eða fella niður tekjuskattsstofn manns sem myndast hefur vegna eftirgjafar skulda, sbr. 1. mgr., að loknu tveggja ára frestunartímabili skv. 2. mgr. þegar fyrir liggur samkvæmt hlutlægu mati á fjárhagsstöðu skuldara, og eftir atvikum maka hans, að eignaaukning hafi orðið lítil eða engin vegna skuldaniðurfærslna, eða eignir séu litlar sem engar eða aflahæfi sé verulega skert. Fjármálaráðherra skal setja reglugerð um hvernig meta skuli fjárhagsstöðu manns og um nánari skilyrði fyrir lækkun tekjuskattsstofns á grundvelli þessa ákvæðis.
     Sé skilmálum í lánasamningi milli lánastofnunar og manns breytt með þeim hætti að endurgreiðsla miðist við íslenskar krónur í stað erlends gjaldmiðils telst það vera skilmálabreyting láns en ekki eftirgjöf skuldar í skilningi laganna, þótt uppreiknaður höfuðstóll sé leiðréttur til lækkunar, enda sé breytingin gerð á málefnalegum forsendum og lánskjörum breytt í kjör sem eru almennt í boði við sambærilegar aðstæður. Sama á við ef breyting er gerð á viðmiðunarvísitölu verðtryggðra lána, eða hluti af uppreikningi höfuðstóls verðtryggðra lána er felldur niður. Leiðréttingar á skuldum sem gerðar eru í tengslum við sértæka skuldaaðlögun og sjálfvirka greiðslujöfnun, sbr. lög nr. 107/2009, um aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishrunsins, teljast til skilmálabreytinga en ekki eftirgjafar skulda, enda sé framkvæmdin í samræmi við verklagsreglur sem settar hafa verið á grundvelli þeirra laga. Sama á við um leiðréttingu samkvæmt tímabundinni greiðsluaðlögun samkvæmt lögum nr. 50/2009, um tímabundna greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði.

2. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 24. júní 2010.