Ferill 796. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1466  —  796. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Birni Leví Gunnarssyni um lögbundin verkefni lyfjagreiðslunefndar.


     1.      Hvaða lögbundnu verkefnum sinnir lyfjagreiðslunefnd?
    Lyfjagreiðslunefnd sinnir þeim lögbundnu verkefnum sem talin eru upp í 43. gr. lyfjalaga, nr. 93/1994, með síðari breytingum. Innflytjendum lyfja, lyfjaframleiðendum og umboðsmönnum þeirra er gert að sækja um hámarksverð í heildsölu, greiðsluþátttöku sjúkratrygginga og allar verðbreytingar á lyfseðilsskyldum lyfjum og dýralyfjum til lyfjagreiðslunefndar, sbr. 1. mgr. 44. gr. lyfjalaga.
    Í 2. mgr. 43. gr. lyfjalaga kemur fram að lyfjagreiðslunefnd skuli ákveða eftirfarandi atriði að fenginni umsókn:
    1.    Hámarksverð á lyfseðilsskyldum lyfjum og öllum dýralyfjum í heildsölu og smásölu.
    2.    Hvort sjúkratryggingar taka þátt í greiðslu, skv. III. kafla laga nr. 112/2008, um sjúkratryggingar, á lyfjum sem eru á markaði hér á landi.
    3.    Greiðsluþátttökuverð, þ.e. það verð sem sjúkratryggingar miða greiðsluþátttöku sína við.
    4.    Greiðsluþátttöku í lyfjum sem veitt hefur verið undanþága fyrir skv. 7. mgr. 7. gr. Nefndin getur vísað afgreiðslu umsókna vegna lyfja sem veitt hefur verið undanþága fyrir samkvæmt því ákvæði til sjúkratryggingastofnunarinnar.
    5.    Hvaða lyf eru leyfisskyld í samráði við sérfræðinga frá Landspítala og sjúkratryggingastofnun. Með leyfisskyldum lyfjum er átt við þau lyf sem eingöngu eru notuð í samræmi við klínískar leiðbeiningar og eru jafnan kostnaðarsöm og vandmeðfarin.
    Í 3. mgr. sömu greinar kemur fram að lyfjagreiðslunefnd skuli fylgjast með verðlagningu lyfja í heildsölu og smásölu og greiðsluþátttökuverði í löndum á Evrópska efnahagssvæðinu og taka mið af þeim athugunum við verðákvarðanir sínar skv. 1. og 3. tölul. 2. mgr. sömu greinar.
    Í 4. mgr. sömu greinar kemur fram að lyfjagreiðslunefnd raðar samheitalyfjum og lyfjum með sambærileg meðferðaráhrif í viðmiðunarverðflokka til ákvörðunar greiðsluþátttöku sjúkratrygginga.
    Í 6. mgr. sömu greinar kemur fram að lyfjagreiðslunefnd annast útgáfu lyfjaverðskrár þar sem birt er hámarksverð og greiðsluþátttökuverð lyfseðilsskyldra lyfja og allra dýralyfja.
    Fjallað er nánar um störf lyfjagreiðslunefndar í reglugerð um lyfjagreiðslunefnd nr. 353/2013.

     2.      Hver er áætlaður heildarkostnaður lögbundinna verkefna lyfjagreiðslunefndar og hver er áætlaður kostnaður hvers verkefnis samkvæmt fjárlögum fyrir árið 2020?
    Fjárlög gera ráð fyrir 54,4 millj. kr. til rekstrar lyfjagreiðslunefndar á þessu ári. Fjárheimildin er ætluð til að sinna verkefnum nefndarinnar og er ekki sundurliðuð sérstaklega.