Ferill 811. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1536  —  811. mál.
2. umræða.



Nefndarálit


um frumvarp til laga um stuðning úr ríkissjóði vegna greiðslu hluta launakostnaðar á uppsagnarfresti.

Frá 1. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Með frumvarpinu er lagt til að veittur verði fjárstuðningur til greiðslu hluta launakostnaðar atvinnurekenda á uppsagnarfresti launamanna. Markmið frumvarpsins er skv. 2. gr. að tryggja réttindi launafólks og tryggja þeim atvinnurekendum stuðning sem horfa fram á umfangsmikið tekjutap vegna faraldurs kórónuveiru og aðgerða sem honum tengjast.
    Fyrsti minni hluti telur mikilvægt að ríkið styðji fyrirtæki í erfiðri stöðu en dregur í efa að frumvarpið tryggi réttindi launafólks og telur að það geti í sumum tilfellum unnið gegn launafólki. Mikilvægt er að ráðningarsamband haldist á milli atvinnurekenda og starfsmanna á meðan erfiðleikarnir ganga yfir. Því er hlutabótaleiðin svokallaða ákjósanlegur stuðningur þar sem ráðninga samband er tryggt þótt greiðslur til launamanna verði sambland af launum og atvinnuleysisbótum.
    Með frumvarpinu sem hér um ræðir fá atvinnurekendur beinlínis sérstakan stuðning til að segja upp fólki. Töluverðar líkur eru á því að hvatinn verði í þá átt að segja fólki upp frekar en að framlengja ráðninga sambandi með hlutabótaleiðinni. Einkum má gera ráð fyrir því vegna þess að engin krafa er um endurgreiðslu á stuðningnum sem getur orðið 2.155.365 kr. alls með hverjum starfsmanni. Ef fyrirtæki segir upp 10 starfsmönnum getur stuðningurinn orðið rúm 21 millj. kr. og ef 50 starfsmönnum er sagt upp rúmar 107 millj. kr.
    Allar líkur eru á því að einhver fyrirtæki sem fá stuðninginn verði þrátt fyrir hann gjaldþrota. Vonandi verður stuðningurinn þó til þess að fleiri fyrirtæki ná sér á strik en ella enda er það markmiðið. Í greinargerð með frumvarpinu er gert ráð fyrir að brúttókostnaður fyrir ríkissjóð verði um 27 milljarðar kr. miðað við gefnar forsendur.
    Fyrsti minni hluti telur mikilvægt bæði til að skapa hvata til að fyrirtæki velji frekar að halda ráðninga sambandi við launafólk ef kostur er og einnig af réttlætisástæðum að fyrirtækin endurgreiði stuðninginn til ríkissjóðs eftir því sem afkoma og afkomubati leyfir. Þannig greiði fyrirtæki tekjuskattsauka fyrst 2023 og að hámarki næstu tíu ár. Endurgreiðslan verði í formi tekjuskattsauka sem svari 10 prósentustigum til viðbótar núverandi tekjuskattsprósentu. Viðbótartekjuskatturinn dragist frá höfuðstól stuðningsins. Uppsafnað skattalegt tap hafi ekki áhrif á tekjuskattsaukann. Fyrirtækin geti hvenær sem er greitt stuðninginn upp að fullu og losnað þannig undan tekjuskattsaukanum og öðrum kvöðum sem því fylgja að hafa tekið við stuðningsgreiðslu úr ríkissjóði.
    Með þessari leið greiða fyrirtæki sem standa best að vígi árin eftir að faraldurinn hefur gengið yfir, stuðninginn hratt upp með tekjuskattsaukanum en þau sem ekki ná sér eins vel á strik minna í krónum talið og ekkert eftir árið 2033 þegar tekjuskattsaukinn fellur niður. Aðferð þessari svipar til þess sem sex virtir hagfræðingar hafa lagt til við Evrópusambandið vegna stuðnings ESB-ríkja sem tengist kórónuveirufaraldrinum. Greinargerðina má finna hér: safe-frankfurt.de/fileadmin/user_upload/editor_common/Policy_Center/SAFE_Policy_Letter_84_final2.pdf ">safe-frankfurt.de/fileadmin/user_upload/editor_common/Policy_Center/SAFE_Policy_Letter_84_final2.pdf.
    Fyrsti minni hluti leggur til breytingar á 8. og 9. gr. frumvarpsins í þessa veru.

Skattaskjól.
    Fyrsti minni hluti telur að fyrirtæki og auðmenn sem hafa nýtt sér skattaskjól hafi brotið gegn mikilvægum þætti samfélagssáttmálans, þ.e. þeim þætti sem gengur út á að skattgreiðslur og greiðslur opinberra gjalda séu nokkurs konar iðgjöld vegna þeirrar samtryggingar sem einkennir norræn velferðarþjóðfélög. Þannig lítur 1. minni hluti á að með því að draga fé undan skattgreiðslum með nýtingu skattaskjóla hafi fyrirtæki og einstaklingar gefið skýrt til kynna að viðkomandi hyggist standa á eigin fótum í blíðu og stríðu og þeir aðilar hafi í raun sagt sig sjálfir frá stuðningi úr ríkissjóði.
    Fyrsti minni hluti getur ekki sætt sig við að auðmenn nýti sér skattakjól en láti almenning bera uppi samfélagið með skattgreiðslum. Milljarðar króna liggja í skattaskjólum sem fólk felur svo að það þurfi ekki að greiða sinn hlut til samfélagsins, til heilbrigðisþjónustu, í vegi, löggæslu eða þróunaraðstoð.
    Panamaskjölin sýndu að umfang aflandsvæðingar íslensks efnahagslífs var einstakt í heiminum á þeim tíma sem gögnin náðu til. Ástæða er til að ætla að það sé enn stundað hér á landi. Slíka starfsemi ætti ekki að styrkja með almannafé enda grefur slík starfsemi undan velferðarsamfélaginu.
    Í umræðu í þingsal um önnur stuðningsfrumvörp ríkisstjórnarinnar vegna heimsfaraldurs kórónuveiru hafa stjórnarþingmenn haldið því fram að skilyrði um skil á CFC-skýrslum og upplýsingum um raunverulega eigendur útiloki fyrirtæki sem nýta sér skattaskjól eða aflandsfélög frá stuðningi úr ríkissjóði. Samfylkingin hefur bent á að svo sé ekki en við litlar undirtektir stjórnarþingmanna. Til að taka af allan vafa um túlkun Skattsins á skilyrðunum óskaði fulltrúi Samfylkingarinnar eftir skriflegu svari frá Skattinum við tilbúnum dæmum um fyrirtæki sem hugsanlega óskuðu eftir stuðningi, svari um hvernig eða hvort skilyrðin í frumvarpinu útilokuðu fyrrnefnda aðila. Því er skemmst frá að segja að Skatturinn telur að þeir sem nýta sér skattaskjól séu ekki útilokaðir frá stuðningi úr ríkissjóði samkvæmt skilyrðum sem fram eru sett í frumvarpinu.
    Fulltrúi Samfylkingarinnar í efnahags- og viðskiptanefnd hefur áður lagt fram tillögu um að útiloka þá sem nýta sér skattaskjól og aflandsfélög frá stuðningi úr ríkissjóði vegna heimsfaraldurs kórónuveiru. Sú tillaga var felld. Engu minni ástæða er nú en þá að leggja fram slíka tillögu og er það því gert að nýju með breyttu sniði en sama markmiði.
    Í breytingartillögu sem 1. minni hluti leggur fram á sérstöku þingskjali eru lagðar til breytingar á 1. gr. Þar er miðað við að til þess að öðlast rétt á stuðningi samkvæmt lögunum þurfi að liggja fyrir að viðkomandi félag hér á landi eða raunverulegur eignandi þess hafi ekki átt í fjárhagslegum samskiptum við aðila sem staðsettur er á lágskattasvæði síðastliðin þrjú ár. Formleg en óvirk tengsl af þessum toga hafa því ekki áhrif á rétt hans. Framkvæmdin verður á grundvelli yfirlýsingar viðkomandi félags eða raunverulegs eiganda þess um að skilyrðin séu uppfyllt. Krefst það ekki vinnu í stjórnsýslunni við að staðreyna réttinn fyrir fram í einstökum tilvikum. Verði viðkomandi síðar uppvís að því að hafa gefið rangar upplýsingar verður hann krafinn um endurgreiðslu og viðurlögum beitt. Þessi vinnubrögð eru í samræmi við það sem almennt tíðkast í skattastjórnsýslunni.

Loftslagshamfarir.
    Fyrsti minni hluti leggur til að sett verði skilyrði um áætlun í loftslagsmálum fyrir stuðningi samkvæmt frumvarpinu. Með skilyrðinu setja stjórnvöld loftslagsmál á dagskrá og krefjast þess um leið að fyrirtækin geri það einnig.
    Í breytingartillögu sem 1. minni hluti leggur fram á sérstöku þingskjali eru lagðar til breytingar á 4. tölul. 4. gr. frumvarpsins. Lagt er til að gerð verði krafa um að fyrirtæki skili gögnum um losun gróðurhúsalofttegunda á árinu 2019 og leggi fram áætlun um minni losun gróðurhúsalofttegunda árlega næstu fimm árin. Skilyrðið eigi við fyrirtæki sem segir upp 10 starfsmönnum eða fleiri í fullu starfi.
    Stuðningur við uppsögn 10 starfsmanna í fullu starfi nemur samkvæmt frumvarpinu rúmri 21 millj. kr. vegna launa starfsmannanna og lífeyrissjóðsiðgjaldshluta atvinnurekenda.
    Mikilvægt er að stjórnvöld geri kröfur í loftslagsmálum samfara stuðningi við fyrirtæki. Glíman við loftslagshamfarir af mannavöldum stendur yfir og vandinn sem henni fylgir óleystur. Þessi glíma er stærsta viðfangsefni mannkynsins og verður það áfram næstu missirin.
    Skilyrðið er ekki íþyngjandi fyrir fyrirtækin og auðvelt í framkvæmd. Bókhald fyrirtækja fyrir árið 2019 liggur fyrir og nýta má þær upplýsingar til að færa losunarbókhaldið. Á slóðinni samfelagsabyrgd.is/verkefnin/loftslagsmarkmid/ má finna hvernig færa má slíkt bókhald. Góðar leiðbeiningar eru á síðunni.

Launaviðmið.
    Eitt af skilyrðum framlengingar hlutabótaleiðar er að þeir njóti ekki stuðnings sem hafi greitt eigendum sínum eða æðstu stjórnendum mánaðarlaun sem nema hærri fjárhæð en 3.000.000 kr. til hvers og eins.
    Til einföldunar er mikilvægt að skilyrði fyrir stuðningi sé sem líkast í báðum frumvörpunum. Freistandi gæti verið að velja annað úrræðið umfram hitt einungis vegna mismunandi skilyrða fyrir stuðningi. Þess ber að geta að framangreind fjárhæð tekur mið af fjórföldum reglulegum heildarlaunum að meðaltali fyrir launamenn í fullu starfi samkvæmt mælingum Hagstofu Íslands, að teknu tilliti til breytinga á launavísitölu Hagstofunnar.

Breytingartillögur meiri hlutans.
    Samfylkingin styður breytingartillögur meiri hlutans við frumvarpið en tekur þó fram að með breytingartillögu 1. minni hluta verður engin tekjufærsla á stuðningnum með þeim flækjum sem 8. og 9. gr. gera ráð fyrir.
    Mikilvægt er að miða við stöðu fyrirtækja 1. apríl 2020 í stað 1. mars 2020 þar sem tekjufall sumra fyrirtækja varð ekki verulegt fyrr en liðið var á marsmánuð.
    Gegnsæi og gott aðgengi að upplýsingum um stuðning úr ríkissjóði er afar mikilvægt. Almenningur á rétt á því að fá að vita í hvað opinberum fjármunum er ráðstafað. Með birtingu upplýsinganna felst einnig ákveðið aðhald og hún auðveldar eftirlit. Breyting á 14. gr. í þá veru að Skattinum sé skylt að upplýsa um nöfn styrkþega og um fjárhæð stuðnings til hvers aðila fyrir sig er nauðsynleg.

Alþingi, 28. maí 2020.



Oddný G. Harðardóttir.