Ferill 527. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1577  —  527. mál.
Svar


utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra við fyrirspurn frá Rósu Björk Brynjólfsdóttur um aftökur án dóms og laga.


     1.      Hver er afstaða íslenskra stjórnvalda til þess þegar ríki beita aftökum án dóms og laga?
    Fullnusta dauðarefsinga er andstæð stefnu íslenskra stjórnvalda, hvort sem um er að ræða aftökur sem fara fram innan réttarkerfis eða án dóms og laga. Íslensk stjórnvöld, ásamt ríkjum Evrópusambandsins og Evrópska efnahagssvæðisins, gagnrýna reglulega, t.d. á vettvangi Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE), Evrópuráðsins og Sameinuðu þjóðanna, fullnustu dauðarefsinga í þeim ríkjum sem enn beita þeim. Ráðherra hefur einnig talað gegn fullnustu dauðarefsinga á vettvangi mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna.
    Ísland styður við starf sérstaks fulltrúa mannréttindaráðsins um aftökur án dóms og laga. Í júlí á síðasta ári lagði Ísland fram ályktun fyrir mannréttindaráðið þar sem þess var óskað að mannréttindafulltrúi Sameinuðu þjóðanna tæki saman ítarlega skýrslu um ástand mannréttinda á Filippseyjum til umræðu hjá mannréttindaráðinu. Var ályktunin lögð fram í framhaldi af alvarlegum ásökunum á hendur þarlendum stjórnvöldum um mannréttindabrot, m.a. um aftökur án dóms og laga í tengslum við aðgerðir þeirra til að sporna við sölu og neyslu eiturlyfja.
    Á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og mannréttindaráðsins hefur Ísland verið meðal þeirra ríkja sem reglulega hvetja til þess að ríki láti af fullnustu dauðarefsinga og kallað eftir því að látið verði af aftökum án dóms og laga. Íslensk stjórnvöld hafa t.d. afdráttarlaust lýst andúð sinni á aftökum án dóms og laga í samhengi við morðið á sádiarabíska blaðamanninum Jamal Khashoggi. Í þessu samhengi má nefna sameiginlega yfirlýsingu sem Ísland flutti fyrir hönd 36 ríkja á vettvangi mannréttindaráðsins, sem birt er á heimasíðu fastanefndar Íslands í Genf. Jafnframt fór Ísland fyrir hópi 16 ríkja sem í nóvember 2018 fólu lýðræðis- og mannréttindastofnun ÖSE að rannsaka ásakanir um brot á mannréttindum í Téténíu, þar á meðal vegna ásakana um aftökur án dóms og laga á fólki vegna kynhneigðar eða kynvitundar þess.

     2.      Hefur ráðherra lýst afstöðu stjórnvalda til aftökunnar á íranska hershöfðingjanum Qasem Soleimani sem Bandaríkjamenn felldu með loftskeyti í byrjun janúar?
    Viðbrögð íslenskra stjórnvalda við stigmögnun spennu í Írak í lok árs 2019 og við aðgerðum Bandaríkjahers í Írak 3. janúar sl. hafa verið á svipuðum nótum og hinna norrænu ríkjanna. Ljóst er að tilkoma og þróun vopnaðra dróna síðasta áratug hefur umbreytt nútímahernaði og hefur fjöldi drónaárása, bæði af hálfu ríkja og gerenda óháðum ríkjum, margfaldast á síðastliðnum rúmum 10 árum. Utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra hefur lýst yfir áhyggjum vegna átakanna í lok síðasta árs og í upphafi þessa og hefur hvatt hlutaðeigandi til stillingar og að leitað verði diplómatískra lausna til að forðast frekari stigmögnun spennu á svæðinu.

     3.      Hefur ráðherra komið afstöðu Íslands til aftöku án dóms og laga á framfæri við bandarísk stjórnvöld?
    Bandaríkjunum er kunnugt um afstöðu íslenskra stjórnvalda til fullnustu dauðarefsinga, enda gagnrýndi Ísland Bandaríkin sérstaklega fyrir áframhaldandi fullnustu dauðarefsinga í jafningjarýni á ástand mannréttindamála í Bandaríkjunum árið 2015. Ísland lýsir einnig andstöðu sinni við fullnustu dauðarefsinga á vettvangi ÖSE í hvert sinn sem dauðarefsing kemur til fullnustu hjá þátttökuríkjum stofnunarinnar. Einnig styður Ísland við reglubundna ályktun Evrópusambandsins hjá þriðju nefnd Sameinuðu þjóðanna um mannréttindamál er varðar afnám dauðarefsinga. Ráðherra hefur jafnframt hvatt þau ríki sem enn fullnusta dauðarefsingar til þess að láta af þeirri iðju á vettvangi mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna og hjá Evrópuráðinu í Strassborg. Bandaríkjunum er kunnugt um afstöðu Íslands til aftaka án dóms og laga, en fastanefnd Íslands í Genf hefur rekið þau mál á vettvangi mannréttindaráðsins, m.a. í samvinnu við fulltrúa bandarískra stjórnvalda.