Ferill 639. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1643  —  639. mál.
2. umræða.Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um Orkusjóð.

Frá meiri hluta atvinnuveganefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ingva Má Pálsson frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, Valdimar Össurarson frá Valorku ehf., Jón Ingimarsson frá Landsvirkjun, Jakob Björnsson frá Orkusjóði, Trausta Baldursson frá Náttúrufræðistofnun Íslands og Lárus M.K. Ólafsson frá Samtökum iðnaðarins og Sigurð Inga Friðleifsson frá Orkusjóði
    Nefndinni bárust umsagnir og erindi frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu, Landsvirkjun, Náttúrufræðistofnun Íslands, Ríkisendurskoðun, Samtökum iðnaðarins og Valorku ehf.

Umfjöllun nefndarinnar.
    Með frumvarpinu er lagt til að sett verði sér lög um Orkusjóð og felld niður 8. gr. laga um Orkustofnun sem kveður á um sjóðinn og hlutverk hans. Um leið er hlutverki Orkusjóðs breytt í þá átt að sjóðurinn fái svigrúm til að styrkja orkutengd verkefni í samræmi við almenna stefnumótun stjórnvalda á sviði orkumála, nýsköpunar, byggðamála og loftslagsmála. Reglugerðum um Orkustofnun, nr. 400/2009, og um Orkusjóð, nr. 185/2016, verði einnig breytt til samræmis. Ein meginbreytingin felst í breyttu hlutverki Orkusjóðs sem ekki verði lengur afmarkað við að styðja við verkefni sem draga úr nýtingu jarðefnaeldsneytis, heldur einnig verkefni sem stuðla að orkuöryggi og samkeppnishæfni á sviði orkumála og orkutengd verkefni í samræmi við áherslur og stefnumótun stjórnvalda.

Stjórn Orkusjóðs.
    Með frumvarpinu er lagt til að í stað þess að ráðherra skipi þriggja manna ráðgjafarnefnd skipi hann þrjá einstaklinga í stjórn sjóðsins. Nokkur umræða varð í nefndinni um skipun stjórnar og hvort setja ætti frekari skilyrði en nú eru gerð við skipun ráðgjafarnefndarinnar út frá hæfisreglum stjórnsýslulaga og þekkingu á málaflokknum, með vísan til þess að um er að ræða ráðstöfun á opinberu fé. Í því samhengi vill meiri hlutinn benda á að með 3. gr. reglugerðar nr. 185/2016, um Orkusjóð, er kveðið á um að ráðgjafarnefndinni sé skylt að leita umsagnar Orkustofnunar eða annarra sérfræðinga eftir því sem við á, áður en tillaga er gerð til ráðherra um styrki eða lánveitingu úr Orkusjóði eða niðurfellingu á endurgreiðsluskyldu lána. Jafnframt starfar ráðgjafarnefndin samkvæmt verklagsreglum nr. 654, sbr. auglýsingu í Stjórnartíðindum frá 29. júní 2016, en reglurnar eru settar á grundvelli fyrrgreindrar reglugerðar. Þar segir að þeir einstaklingar sem sitji í ráðgjafarnefnd skuli gæta að hæfisreglum við ákvarðanatöku og að við mat á vanhæfi skuli hafa til hliðsjónar ákvæði stjórnsýslulaga.
    Meiri hlutinn telur með vísan til þess að í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að ekki sé að öðru leyti gert ráð fyrir breytingu á fyrirkomulagi á skipun í stjórn sé ekki þörf á að leggja til breytingar þar á og áréttar meiri hlutinn að í því felst sá skilningur að í reglugerð sé áfram kveðið á um skyldu stjórnar til að leita umsagnar Orkustofnunar eða annarra sérfræðinga við gerð tillagna til ráðherra. Jafnframt sé skýrt að þegar kemur að skipun í stjórn sé farið að hæfisreglum stjórnsýslulaga, og á sama hátt sé gætt að ákvæðum stjórnsýslulaga við mat á mögulegu vanhæfi stjórnarmanns við meðferð og afgreiðslu mála.

Reikningshald og nýting fjárheimilda.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að Orkusjóður verði fjármagnaður með framlögum úr ríkissjóði á grundvelli fjárlaga hverju sinni, sem og vaxtatekjum sjóðsins, sbr. 6. gr. frumvarpsins. Í umsögn Ríkisendurskoðunar er bent á að samkvæmt því teldist Orkusjóður A-hluta ríkisstofnun og þyrfti því að gera sérstök reikningsskil sem yrðu hluti A-hluta ríkisreiknings. Þá vekur Ríkisendurskoðun einnig athygli á því í minnisblaði til nefndarinnar að mögulega sé skörun við ákvæði laga um opinber fjármál. Fjármála- og efnahagsráðuneytið tekur undir ábendingarnar og bendir á að samkvæmt lögum um opinber fjármál eigi stjórn sjóðsins ekki að geta flutt fjárheimildir á milli ára né talið vaxtatekjur til tekna sjóðsins.
    Meiri hlutinn fellst á þessi sjónarmið en áréttar mikilvægi þess að við lagasetningu sé gætt samræmis við lög um opinber fjármál og leggur til breytingar þar á. Meiri hlutinn telur þó mikilvægt að við ákvörðun um framlag til sjóðsins skv. 6. gr. verði tekið tillit til þess að ekki verði hægt að ráðstafa vaxtatekjum af fé sjóðsins og þess að fjárheimildir færist ekki á milli ára.
    Að þessu virtu leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Orðin „og vextir af fé sjóðsins“ í 6. gr. falli brott.
     2.      Orðin „ára eða“ í síðari málslið 1. mgr. 8. gr. falli brott.

    Albertína Friðbjörg Elíasdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins en skrifar undir álit þetta í samræmi við 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fyrir fastanefndir Alþingis.

Alþingi, 5. júní 2020.

Lilja Rafney Magnúsdóttir,
form.
Njáll Trausti Friðbertsson, frsm. Halla Signý Kristjánsdóttir.
Ásmundur Friðriksson. Ólafur Ísleifsson. Rósa Björk Brynjólfsdóttir.
Sigurður Páll Jónsson. Albertína Friðbjörg Elíasdóttir.