Ferill 839. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1649  —  839. mál.
2. umræða.Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um ferðagjöf.

Frá minni hluta atvinnuveganefndar.


    Með frumvarpinu er lagt til að stjórnvöldum verði heimilað að gefa út ferðaávísun að fjárhæð 5.000 kr. til einstaklinga sem eru fæddir á árinu 2002 eða fyrr og hafa íslenska kennitölu. Ferðaávísunina verði hægt að nýta til greiðslu hjá fyrirtækjum með starfsstöð á Íslandi til samræmis við afmörkun í 2. mgr. 1. gr. frumvarpsins. Frumvarpið er liður í aðgerðum ríkisstjórnarinnar til að efla efnahagskerfið og draga úr neikvæðum áhrifum á atvinnulífið í kjölfar faraldursins og er ætlað að hvetja Íslendinga til ferðalaga innan lands og veita efnahagslífinu, þá einkum ferðaþjónustu, viðspyrnu.
    Minni hlutinn styður meginmarkmið frumvarpsins en telur hins vegar áleitnar spurningar uppi um ýmsa þætti frumvarpsins, svo sem gildissvið og afmörkun. Hvað varðar gildissvið frumvarpsins þá virðist skorta á að gætt sé jafnræðissjónarmiða, sbr. dæmi um að heimilt verði að ráðstafa ávísun til leigu á bifreið en ekki tjaldi. Þá taka aldursmörk, sem sett eru við 18 ára aldur, ekki tillit til barnafjölskyldna. Jafnframt telur minni hlutinn líklegt að ýmsir þjóðfélagshópar muni vart geta fært sér umræddar ferðaávísanir í nyt vegna heilsufars eða fjárhagslegrar stöðu. Auk þess væri að mati minni hlutans réttara að kenna málið við ferðaávísun frekar en ferðagjöf eins og gert var ráð fyrir framan af.
    Minni hlutinn bendir á að ferðaþjónustan hefur skilað þjóðarbúinu miklum tekjum, fjölbreyttum og mörgum vel launuðum störfum og erlendum gjaldeyri í stórum stíl auk þess sem hún stuðlar að því að halda landinu öllu í byggð. Ferðaþjónustan sé líkleg til að gera allt þetta að nýju þegar fram í sækir og áhrifa heimsfaraldurs gætir ekki lengur. Minni hlutinn telur hins vegar að fjárhæð ferðaávísana hefði þurft að vera hærri til að aðgerðin sem í frumvarpinu felst verði meira en táknræn og nýtist ferðaþjónustunni sem lyftistöng við hinar erfiðu aðstæður sem hún horfist í augu við. Í þessu ljósi væri rétt og eðlilegt að af hálfu stjórnvalda væri greininni veittur öflugri stuðningur í þá veru sem frumvarpið gerir ráð fyrir og leggur minni hlutinn því til að fjárhæð ferðaávísunar verði hækkuð úr 5.000 kr. í 15.000 kr.
    Að þessu virtu leggur minni hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    Í stað fjárhæðarinnar „5.000 kr.“ í 1. mgr. 1. gr. komi: 15.000 kr.

Alþingi, 5. júní 2020.

Ólafur Ísleifsson,
frsm.
Sigurður Páll Jónsson.