Ferill 721. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1707  —  721. mál.
2. umræða.Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um ársreikninga og lögum um endurskoðendur og endurskoðun (gagnsæi stærri kerfislega mikilvægra félaga).

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Hörpu Theódórsdóttur og Sigurbjörgu Stellu Guðmundsdóttur frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, Áslaugu Árnadóttur og Hildi Árnadóttur frá Endurskoðendaráði, Margreti Flóvenz frá Félagi löggiltra endurskoðenda, Önnu Sif Jónsdóttur og Jón Sigurðsson frá Félagi um innri endurskoðun og Halldór Inga Pálsson frá Skattinum. Nefndinni bárust umsagnir um málið frá Skattinum, Félagi löggiltra endurskoðenda, Félagi um innri endurskoðun, Endurskoðendaráði, Reikningsskilaráði og KPMG ehf.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um ársreikninga annars vegar og lögum um endurskoðendur og endurskoðun hins vegar. Í fyrsta lagi er lagt til að hugtakið eining tengd almannahagsmunum verði rýmkað þannig að fleiri félög sem teljast mega þjóðhagslega mikilvæg falli undir skilgreiningu þess hugtaks en samkvæmt gildandi lögum. Í öðru lagi eru lagðar til breytingar á kröfum um innihald skýrslna stjórnar. Í þriðja lagi er lagt til að kveðið verði á um að ársreikningaskrá skuli, gjaldfrjálst og á opnu vefsvæði, birta ársreikninga og önnur skilaskyld gögn skv. 109. gr. laga um ársreikninga.

Umfjöllun nefndarinnar.
Ábendingar Félags um innri endurskoðun.
    Í umsögn Félags um innri endurskoðun til nefndarinnar kemur fram að félagið fagni frumvarpinu en telji að of skammt sé gengið til að tryggja að markmið þess um aukið traust og gagnsæi upplýsingagjafar náist. Gerir félagið þrjár tillögur að viðbótum við frumvarpið til að betur megi tryggja að markmið þess náist. Í fyrsta lagi verði einingu tengdri almannahagsmunum gert skylt að starfrækja endurskoðunardeild sem annist innri endurskoðun og verði óháð öðrum deildum í skipulagi einingar og þáttur í eftirlitskerfi hennar. Í öðru lagi verði kveðið á um að stjórn einingar tengdrar almannahagsmunum skuli ráða forstöðumann endurskoðunardeildar sem fari með innri endurskoðun í hennar umboði. Í þriðja lagi verði kveðið á um að innri endurskoðun skuli reglulega gera stjórn og endurskoðunarnefnd grein fyrir starfsemi sinni og að forstöðumaður innri endurskoðunardeildar hafi rétt á að sitja stjórnarfundi þar sem skylt verði að taka á dagskrá og færa til bókar þær athugasemdir sem hann meti mikilvægar.
    Nefndin telur athugasemdir Félags um innri endurskoðun vel rökstuddar í umsögn félagsins og telur nauðsynlegt að þær sæti nánari skoðun í ráðuneytinu. Leggur nefndin til að ábendingarnar verði hafðar til hliðsjónar við næstu endurskoðun laganna og metið á hvaða hátt réttast sé að bregðast við þeim.

Beiting alþjóðlegra reikningsskilastaðla.
    Í umsögnum sínum lögðu reikningsskilaráð og Skatturinn til að skylda til að beita alþjóðlegum reikningsskilastöðlum við gerð ársreiknings yrði rýmkuð frá því sem kveðið er á um í VIII. kafla laga um ársreikninga og slík skylda látin ná til fleiri félaga. Slíkt mundi stuðla betur að því að ná markmiðum frumvarpsins enda væru gerðar ríkari kröfur til upplýsingagjafar í alþjóðlegum reikningsskilastöðlum en í lögum um ársreikninga. Auk þess mundi breytingin leiða til þess að auka samræmi á milli arðgreiðslustofns félaga þar sem misræmi milli alþjóðlegra reikningsskilastaðla og laga um ársreikninga gæti valdið því að arðgreiðslustofninn væri ekki sá sami. Þá bæri félögum sem gera reikningsskil í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla að skila ársreikningi til opinberrar birtingar ekki síðar en fjórum mánuðum eftir lok reikningsárs sem auka mundi gagnsæi í reikningsskilum þeirra félaga sem beita stöðlunum við gerð ársreiknings.
    Nefndin telur að rök kunni að vera til þess að rýmka gildissvið 90. gr. laga um ársreikninga og fella fleiri félög undir skyldu til beitingar alþjóðlegra reikningsskilastaðla en nú er gert. Hins vegar getur slíkur áskilnaður verið þungur í vöfum og ljóst að breyting að þessu leyti verður aðeins gerð að vel ígrunduðu máli. Beinir nefndin því til ráðuneytisins að ábendingar í þessa veru sæti sérstakri skoðun.

Endurskoðun skýrslu stjórnar.
    Við umfjöllun nefndarinnar var bent á að óvissa væri uppi um hvort skýrsla stjórnar væri hluti ársreiknings samkvæmt íslenskum lögum og hvort endurskoða bæri skýrslu stjórnar. Misræmis kynni að gæta í lögum um ársreikninga að þessu leyti.
    Nefndin telur ljóst af 3. gr. laga um ársreikninga að skýrsla stjórnar teljist vera hluti ársreiknings samkvæmt íslenskum lögum. Jafnframt telur nefndin að ákvæði 2. málsl. 2. mgr. 104. gr. laga um ársreikninga beri að túlka þannig að í áritun endurskoðanda, hvað varðar skýrslu stjórnar, felist ekki staðfesting á öðru en því að skýrslan innihaldi þær upplýsingar sem þar eiga að koma fram lögum samkvæmt. Staðfestingin jafngildi með öðrum orðum ekki því að réttmæti upplýsinganna hafi verið sannreynt.

Breytingartillaga nefndarinnar.
Inntak skýrslu stjórnar (2. gr.).
    Í umsögn sinni til nefndarinnar benti Skatturinn á að 2. gr. frumvarpsins, um breytingu á 66. gr. laga um ársreikninga, byggðist á 19. gr. tilskipunar 2013/34/ESB, um árleg reikningsskil o.fl. Til aukins skýrleika væri að taka 2. málsl. 3. mgr. 1. tölul. ákvæðisins, þar sem kveðið væri á um að skýrsla stjórnar skyldi innihalda tilvísanir til fjárhæða sem settar væru fram í árlegum reikningsskilum ásamt frekari skýringum, upp í lagatextann.
    Jafnframt benti Skatturinn á að með lokamálslið 5. tölul. 1. mgr. 2. gr. frumvarpsins væri heimilað að upplýsingarnar sem tilgreindar væru í 5. tölul. yrðu veittar í skýringum með ársreikningi í stað skýrslu stjórnar. Til að tryggja gagnsæi og skýrleika í framkvæmd væri nauðsynlegt að gera kröfu um að í skýrslu stjórnar væri vísað beint í viðeigandi skýringarlið þegar heimildinni væri beitt. Auk þess væri eðlilegt að sambærileg heimild gilti um upplýsingar skv. 3. og 4. tölul. ákvæðisins.
    Nefndin fellst á þessar ábendingar og leggur til breytingu á 2. gr. frumvarpsins í þessa veru.
    Að framangreindu virtu leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    Við 2. gr.
     a.      Á eftir 1. málsl. 1. efnismgr. komi nýr málsliður, svohljóðandi: Þá skal skýrsla stjórnar, eftir því sem við á, hafa að geyma tilvísanir til fjárhæða sem settar eru fram í ársreikningi og frekari skýringar á þeim.
     b.      2. málsl. 1. efnismgr. orðist svo, og verði 2. mgr. ásamt meðfylgjandi töluliðum: Í viðbótarupplýsingum skv. 1. mgr. skal enn fremur fjallað um, eftir því sem við á.
     c.      Lokamálsliður 5. tölul. 1. efnismgr., er verði 5. tölul. 2. efnismgr., falli brott.
     d.      Á undan 2. efnismgr. komi ný málsgrein, svohljóðandi:
                      Heimilt er að veita upplýsingar skv. 3.–5. tölul. 2. mgr. í skýringum með ársreikningi í stað skýrslu stjórnar enda sé tilgreint í skýrslu stjórnar hvaða þættir í 3.–5. tölul. sæti umfjöllun í skýringum með ársreikningi ásamt vísunum til viðeigandi skýringarliða.

    Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Oddný G. Harðardóttir tóku þátt í fundinum þar sem málið var afgreitt í gegnum fjarfundabúnað. Oddný skrifar undir álitið samkvæmt heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fastanefnda.

Alþingi, 12. júní 2020.

Óli Björn Kárason,
form., frsm.
Jón Steindór Valdimarsson. Brynjar Níelsson.
Bryndís Haraldsdóttir. Oddný G. Harðardóttir. Ólafur Þór Gunnarsson.
Smári McCarthy. Willum Þór Þórsson.