Ferill 120. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Prentað upp.

Þingskjal 1741  —  120. mál.
Síðari umræða.

Síðari umræða.



Nefndarálit


um tillögu til þingsályktunar um ráðstafanir til að draga úr notkun pálmaolíu á Íslandi.

Frá atvinnuveganefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Tryggva Felixson frá Landvernd, Trausta Baldursson frá Náttúrufræðistofnun Íslands, Árna Finnsson frá Náttúruverndarsamtökum Íslands, Jón Bernódusson frá Samgöngustofu og Guðmund Hauk Sigurðarson frá Vistorku. Nefndinni bárust umsagnir frá Landvernd, Náttúrufræðistofnun Íslands og Náttúruverndarsamtökum Íslands.
    Með tillögunni er lagt til að fela ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra að vinna áætlun um takmörkun á notkun pálmaolíu í allri framleiðslu á Íslandi og leggja fram frumvarp um bann við notkun hennar í lífdísil. Þá er lagt til að ráðherra kynni Alþingi niðurstöður sínar og leggi fram frumvarp til laga um bann við notkun pálmaolíu í lífdísil eigi síðar en í lok árs 2020.
    Í umsögnum sem nefndinni bárust kom fram ánægja með markmið tillögunnar. Vegna umhverfisáhrifa pálmaolíu ætti það að vera forgangsatriði að draga úr notkun pálmaolíu. Þá kom fram hjá þeim gestum sem komu fyrir nefndina vegna málsins að í raun væri ekki þörf á að flytja inn pálmaolíu til að setja í lífdísil á Íslandi þar sem unnt væri að framleiða nægan lífdísil á Íslandi, m.a. úr úrgangi og með ræktun repjuolíu. Telur nefndin að tækifæri sé til að framleiða endurnýjanlegt eldsneyti á Íslandi og að það verði liður í því að skipta út jarðefnaeldsneyti. Nefndin álítur að með þessari tillögu sé hvatt til frekari framleiðslu og nýtingar á innlendum lífdísli og styður málið þannig einnig við framleiðslu og nýsköpun í íslenskum landbúnaði.
    Eins og fram kemur í greinargerð með tillögunni má finna pálmaolíu í fjölmörgum afurðum, svo sem snyrtivörum og matvörum. Innflutningur pálmaolíu til slíkrar framleiðslu á Íslandi hefur dregist umtalsvert saman undanfarin ár og nú er meira en helmingur hennar nýttur til framleiðslu á lífdísli samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands.
    Nefndin minnir á að líkt og kemur fram í greinargerð hafa önnur lönd stigið stór skref í þessa sömu átt, sbr. reglugerð framkvæmdastjórnar ESB 2017/807 sem miðar að því að draga úr notkun óendurnýjanlegs lífefnaeldsneytis eins og pálmaolíu. Norðmenn urðu fyrstir til þess að banna pálmaolíu í lífdísli en bannið hefur skilað umtalsverðum árangri frá því að norska ríkið samþykkti árið 2017 að breyta stefnu um opinber innkaup í þá átt. Þá hefur stærsta olíufyrirtæki Ítalíu, Eni, tilkynnt að notkun pálmaolíu verði hætt fyrir árið 2023. Því er ljóst að þróunin miðar í þá átt að draga úr notkun á pálmaolíu eða leggja hana af.
    Nefndin leggur til að þingsályktunartillagan verði samþykkt án breytinga.

Alþingi, 10. júní 2020.


Lilja Rafney Magnúsdóttir,
form.
Albertína Friðbjörg Elíasdóttir,
frsm.
Ásmundur Friðriksson.
Halla Signý Kristjánsdóttir. Jón Þór Ólafsson. Njáll Trausti Friðbertsson.
Ólafur Ísleifsson. Rósa Björk Brynjólfsdóttir. Sigurður Páll Jónsson.