Ferill 939. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1754  —  939. mál.




Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, með síðari breytingum (endurgreiðsla vegna vinnu á byggingarstað).

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.


1. gr.

    1. mgr. ákvæðis til bráðabirgða XXXIV í lögunum orðast svo:
    Eftirtöldum aðilum skal endurgreiða 100% þess virðisaukaskatts sem þeir hafa greitt vegna vinnu manna sem innt er af hendi á tímabilinu frá 1. mars 2020 til og með 31. desember 2020 á byggingarstað við byggingu, viðhald eða endurbætur á mannvirkjum sem alfarið eru í eigu þeirra, auk virðisaukaskatts sem þeir hafa greitt af þjónustu vegna hönnunar eða eftirlits með byggingu á slíku mannvirki:
     1.      Mannúðar- og líknarfélögum.
     2.      Íþróttafélögum, heildarsamtökum á sviði íþrótta og héraðs- og sérsamböndum.
     3.      Björgunarsveitum, landssamtökum björgunarsveita og slysavarnadeildum og einstökum félagseiningum sem starfa undir merkjum samtakanna.
     4.      Félögum og félagasamtökum sem sinna æskulýðsmálum.
     5.      Þjóðkirkjunni, þjóðkirkjusöfnuðum og öðrum skráðum trú- og lífsskoðunarfélögum.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Í frumvarpi þessu er lögð til breyting á ákvæði til bráðabirgða XXXIV í lögum um virðisaukaskatt. Lagt er til að heildarsamtökum á sviði íþrótta og héraðs- og sérsamböndum, félögum og félagasamtökum sem sinna æskulýðsmálum og þjóðkirkjunni, þjóðkirkjusöfnuðum og öðrum skráðum trú- og lífsskoðunarfélögum verði bætt við upptalningu þeirra sem samkvæmt ákvæðinu er heimiluð tímabundin endurgreiðsla á virðisaukaskatti. Ákvæðinu var bætt við lög um virðisaukaskatt með b-lið 7. gr. laga nr. 25/2020, um breytingu á ýmsum lögum til að mæta efnahagslegum áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru. Í ákvæðinu er kveðið á um endurgreiðslu 100% þess virðisaukaskatts sem greiddur hefur verið vegna vinnu manna sem innt er af hendi á tímabilinu frá 1. mars 2020 til og með 31. desember 2020 á byggingarstað við byggingu, viðhald eða endurbætur á mannvirkjum sem alfarið eru í eigu þeirra aðila sem þar eru tilgreindir. Ákvæðið tekur einnig til hönnunar eða eftirlits með byggingu á slíkum mannvirkjum.
    Frumvarpið er lagt fram í kjölfar ábendinga sem komið hafa fram um tilefni til að rýmka gildissvið bráðabirgðaákvæðisins. Sem dæmi má nefna að bent hefur verið á að endurgreiðslan gæti gagnast æskulýðsfélögum sem eiga aðild að Bandalagi íslenskra skáta vegna byggingar, endurbóta og viðhalds mannvirkja í þeirra eigu. Þá hafa einnig borist ábendingar um að mikil uppsöfnuð þörf sé fyrir viðhald kirkna og safnaðarheimila hér á landi auk þess sem nauðsynlegt sé að tilgreina sérstaklega í lagaákvæðinu heildarsamtök á sviði íþrótta og héraðs- og sérsambönd auk íþróttafélaga. Í ljósi þess mikilvæga samfélagslega starfs sem þessir aðilar inna af hendi hér á landi og til þess að stuðla enn frekar að aukinni atvinnu við þær aðstæður sem nú eru í atvinnulífi og efnahag landsins er lagt til að heimild til endurgreiðslu virðisaukaskatts samkvæmt ákvæðinu skuli einnig taka til þeirra.
    Með æskulýðsstarfi er í frumvarpinu átt við skipulagða félags- og tómstundastarfsemi félaga eða félagasamtaka samkvæmt æskulýðslögum, nr. 70/2007, sbr. 1. gr. þeirra laga. Við mat á því hvaða félög eða félagasamtök falla undir heimildina skal litið til 1. og 3. tölul. 2. gr. sömu laga. Heimildin skal þannig ná til starfsemi félaga og félagasamtaka sem sinna æskulýðsmálum á frjálsum áhugamannagrundvelli, enda byggist félagsstarfsemin fyrst og fremst á sjálfboðastarfi og eigin fjármögnun. Hér undir fellur til að mynda þorri skipulagðrar starfsemi æskulýðssamtaka og æskulýðsfélaga í landinu, svo sem starfsemi ungmennafélaga, skátahreyfingarinnar o.fl. Þá fellur hér undir starfsemi sem er einkum fyrir ófélagsbundin ungmenni í skipulögðu æskulýðsstarfi, svo sem dvöl í sumarbúðum og önnur starfsemi sem börn og ungmenni taka þátt í. Undir heimildina fellur ekki æskulýðsstarf á vegum ríkis og sveitarfélaga og í skólum, sbr. 2. tölul. 2. gr. laga nr. 70/2007.
    Jafnframt er lagt til að íslenska þjóðkirkjan njóti samsvarandi réttar til endurgreiðslu á virðisaukaskatti vegna vinnu manna á byggingarstað sem og þjóðkirkjusöfnuðir hér á landi, sbr. lög nr. 78/1997, um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar. Í 2. mgr. 2. gr. þeirra laga segir að þjóðkirkjan, einstakar sóknir og stofnanir hennar njóti sjálfstæðrar eignhelgi og komi fram sem sjálfstæðir aðilar gagnvart almannavaldinu eftir því sem við getur átt. Á sama hátt taki endurgreiðsla samkvæmt ákvæðinu til annarra skráðra trú- og lífsskoðunarfélaga á grundvelli laga um skráð trúfélög og lífsskoðunarfélög, nr. 108/1999. Við mat á því hvort slíkt félag eða söfnuður eigi rétt á endurgreiðslu virðisaukaskatts samkvæmt ákvæðinu skal jafnframt litið til þess hvort aðilinn eigi rétt á ákveðinni hlutdeild í tekjuskatti skv. 1. gr. laga um sóknargjöld o.fl., nr. 91/1987.
    Þá er lagt til að heildarsamtök á sviði íþrótta og héraðs- og sérsambönd njóti samsvarandi heimildar til endurgreiðslu virðisaukaskatts og íþróttafélög samkvæmt ákvæðinu. Í 2. mgr. 5. gr. íþróttalaga, nr. 64/1998, kemur fram að Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands sé æðsti aðili frjálsrar íþróttastarfsemi í landinu og í erlendum samskiptum íþróttahreyfingarinnar. Þar segir jafnframt að Ungmennafélag Íslands séu sjálfstæð félagasamtök á sviði íþrótta. Í 6. gr. sömu laga segir að landið skiptist í íþróttahéruð og að Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands og Ungmennafélag Íslands annist skiptingu og breytingu á íþróttahéruðum. Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands er landssamband héraðssambanda/íþróttabandalaga og sérsambanda. Með þessu móti er ætlunin að ljóst verði að yfirsamtök íþrótta í landinu, svo sem Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands, Ungmennafélag Íslands og Íþróttasamband fatlaðra, íþróttahéruð og sérsambönd innan Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands, svo og önnur heildarsamtök í skipulögðu íþróttastarfi, heyri undir ákvæðið.
    Með frumvarpinu er lögð til rýmkun á endurgreiðsluheimild virðisaukaskatts til aðila sem annars njóta ekki slíkrar heimildar og því mun samþykkt þess hafa í för með sér frekari lækkun á tekjum ríkissjóðs af virðisaukaskatti. Áætla má að sú lækkun gæti numið allt að 200 millj. kr. sem að mestu komi fram á þessu ári.