Ferill 887. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1764  —  887. mál.




Svar


ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra við fyrirspurn frá Maríu Hjálmarsdóttur um nýsköpun í ferðaþjónustu á landsbyggðinni.


         Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er lögð rík áhersla á nýsköpun enda gífurlega mikið í húfi á tímum örra samfélags- og tæknibreytinga. Nýsköpun gengur þvert á allar atvinnugreinar, þ.m.t. ferðaþjónustu, þar sem áhersla hefur verið lögð á að styrkja innviðina og byggja traustan grunn fyrir sjálfbæra og farsæla þróun greinarinnar til framtíðar. Í stjórnarsáttmála er einnig kveðið á um aukna dreifingu ferðamanna um landið, einkum til þess að skapa fleiri og fjölbreyttari heilsársstörf úti á landsbyggðinni og styðja þannig við byggðafestu í landinu. Vöruþróun og nýsköpun eru lykilatriði í þeirri þróun.
    Eftirtalin verkefni sem heyra undir ráðherra ferðamála styðja við nýsköpun og þróun í ferðaþjónustu á landsbyggðinni:
          Framkvæmdasjóður ferðamannastaða veitir fé til uppbyggingar, viðhalds og verndunar ferðamannastaða í eigu eða umsjón sveitarfélaga og einkaaðila um land allt.
          Flugþróunarsjóður veitir fé til stuðnings uppbyggingar reglulegs millilandaflugs um alþjóðaflugvellina Akureyri og Egilsstaði.
          Áfangastaðaáætlanir fyrir alla landshluta hafa verið unnar á vegum markaðsstofa landshlutanna en þær taka m.a. á skipulagi, þróun og markaðssetningu hvers svæðis með tilliti til ferðaþjónustu. Stofnun áfangastaðastofa sem fá m.a. það hlutverk að framfylgja áfangastaðaáætlununum er í undirbúningi.
          Markaðssetning áfangastaða á landsbyggðinni hefur verið efld m.a. með samningum við Íslandsstofu og markaðsstofur landshlutanna.
          Verkefnið Fyrirmyndaráfangastaðir felst í því að skilgreina hvað einkennir fyrirmyndaráfangastað í ferðaþjónustu og þróa fyrstu fyrirmyndaráfangastaði landsins.
          Verkefni um stafræna þróun ferðaþjónustunnar á vegum Ferðamálastofu hefur að markmiði að auka getu smærri ferðaþjónustufyrirtækja til að nýta sér kosti stafrænnar tækni við daglegan rekstur og markaðssetningu.
          Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið veitir tvisvar á ári styrki til verkefna og viðburða á málefnasviði ráðherra. Horft er til ýmissa þátta við úthlutunina, m.a. hvort verkefnin þyki hafa gildi fyrir starfsemi viðkomandi málaflokks og hvort þau búi yfir sérstöðu eða nýnæmi.
    Framtíðarsýn og leiðarljós íslenskrar ferðaþjónustu til 2030 kom út árið 2019 en yfirskriftin er að íslensk ferðaþjónusta verði leiðandi á heimsvísu í sjálfbærri þróun. Meðal áherslna er að allir landshlutar njóti ávinnings af ferðaþjónustu, að ferðamenn ferðist um allt land, allt árið um kring, að ferðaþjónusta hafi jákvæð áhrif á nærsamfélag og auki lífsgæði og að hún nýti tækni, nýsköpun og vöruþróun. Ný aðgerðabundin ferðamálastefna 2020–2025 sem byggist m.a. á leiðarljósinu er í vinnslu.
    Nýsköpunarstefna fyrir Ísland kom einnig út árið 2019. Stefnan markar sýn til ársins 2030 og er ætlað að gera Ísland betur í stakk búið til að mæta áskorunum framtíðarinnar með því að byggja upp traustan grundvöll fyrir hugvitsdrifna nýsköpun á öllum sviðum.
    Í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru hefur ríkisstjórnin ráðist í umfangsmikið fjárfestingarátak til þess að skapa öfluga viðspyrnu fyrir efnahagslífið, ekki síst ferðaþjónustu. Um er að ræða m.a. aðgerðir til eflingar nýsköpunar, svo sem eflingu Tækniþróunarsjóðs um 700 millj. kr. og innviðauppbyggingu um allt land, þar á meðal 200 millj. kr. viðbótarframlag til Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða fyrir árið 2020. Þessar aðgerðir styðja við nýsköpun og þróun ferðaþjónustu á landsbyggðinni.