Ferill 824. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1780  —  824. mál.




Svar


ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra við fyrirspurn frá Birni Leví Gunnarssyni um lögbundin verkefni Ferðamálastofu.


     1.      Hvaða lögbundnu verkefnum sinnir Ferðamálastofa?
    Um Ferðamálastofu gilda lög nr. 96/2018. Samkvæmt þeim fer stofnunin einkum með eftirtalin verkefni:
     1.      Útgáfa leyfa.
     2.      Eftirlit með leyfisskyldri starfsemi, þar á meðal öryggisáætlunum.
     3.      Framkvæmd ferðamálastefnu, áætlanagerð og stuðningur við svæðisbundna þróun.
     4.      Öflun, miðlun og úrvinnsla upplýsinga, þar á meðal tölfræðilegra gagna og annarra upplýsinga um viðfangsefni stofnunarinnar.
     5.      Greining á þörf fyrir rannsóknir sem m.a. nýtast við stefnumótun stjórnvalda, í samvinnu við atvinnugreinina og rannsóknastofnanir á sviði ferðaþjónustu.
     6.      Öryggismál, gæðamál og neytendavernd í ferðaþjónustu.
     7.      Varsla og umsýsla Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða, sbr. lög um Framkvæmdasjóð ferðamannastaða nr. 75/2011.
     8.      Umsjón með starfsemi ferðamálaráðs.
     9.      Umsjón og eftirlit með tryggingaútreikningi og tryggingarskyldu seljenda samkvæmt lögum um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun og reglum um bókhald og reikningsskil ferðaskrifstofa, sbr. lög um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun nr. 95/2018.
    Samkvæmt lögum um landsáætlun um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum, nr. 20/2016, skal fulltrúi Ferðamálastofu sitja í ráðgjafarnefnd um stefnumarkandi landsáætlun til tólf ára.
    Samkvæmt lögum um skipulag haf- og strandsvæða, nr. 88/2018, er Ferðamálastofa ráðgefandi aðili um atriði sem undir lögin heyra og ber að leggja fram nauðsynleg gögn vegna vinnu við gerð stefnu um skipulag haf- og strandsvæða og um strandsvæðisskipulag.
    Samkvæmt lögum um verndar- og orkunýtingaráætlun, nr. 48/2011, skal Ferðamálastofa veita umsögn um hvort fyrirliggjandi gögn varðandi einstaka virkjunarkosti séu nægjanleg til að meta þá þætti sem taka skal tillit til í verndar- og orkunýtingaráætluninni.

     2.      Hver er áætlaður heildarkostnaður lögbundinna verkefna Ferðamálastofu og hver er áætlaður kostnaður hvers verkefnis samkvæmt fjárlögum fyrir árið 2020?
    Kostnaði er ekki deilt niður á hvert lögbundið verkefni í fjárlögum, heldur er gerð grein fyrir fjárheimildum vegna hvers málefnasviðs og málaflokks og þeim skipt niður í fjárveitingar til einstakra verkefna og ríkisaðila sem birtast í fylgiriti fjárlaga hverju sinni. Ferðamálastofa heyrir undir málefnasvið 14 og málaflokk 14.10. Samkvæmt fylgiriti fjárlaga 2020 er gert ráð fyrir að stofnunin hafi til ráðstöfunar 691,4 millj. kr. til að sinna lögbundnum verkefnum sínum. Skiptist framlagið annars vegar í 676 millj. kr. framlag úr ríkissjóði og hins vegar 15,4 millj. kr. rekstrartekjur.