Ferill 823. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1781  —  823. mál.




Svar


ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra við fyrirspurn frá Birni Leví Gunnarssyni um lögbundin verkefni Hugverkastofu.


     1.      Hvaða lögbundnu verkefnum sinnir Hugverkastofa?
    Hugverkastofan, áður Einkaleyfastofan, fer með málefni hugverkaréttinda á sviði iðnaðar á Íslandi. Hlutverk hennar kemur fram í reglugerð nr. 188/1991, um Einkaleyfastofu, sbr. auglýsingu nr. 187/1991. Þá eru hlutverki stofnunarinnar jafnframt gerð skil í sérlögum, einkum lögum um einkaleyfi, nr. 17/1991, lögum um vörumerki, nr. 45/1997, og lögum um hönnun, nr. 46/2001, auk þess sem vikið er að stofnuninni í ýmsum sérlögum, sbr. hér á eftir.
    Í lögum um faggildingu o.fl., nr. 24/2006, er fjallað um faggildingarsvið Hugverkastofunnar sem annast faggildingu, mat á tilnefndum aðilum og mat á góðum starfsvenjum við rannsóknir.
    Í lögum um lífræna landbúnaðarframleiðslu, nr. 162/1994, segir að faggildingarsvið Hugverkastofunnar annist faggildingu vottunarstofa.
    Í lögum um loftslagsmál, nr. 70/2012, segir að faggildingarsvið Hugverkastofunnar skuli framkvæma faggildingu vottunaraðila og eftirlit með faggiltum vottunaraðilum.
    Í lögum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, nr. 90/2018, segir að faggildingarsvið Hugverkastofunnar hafi heimild til að faggilda vottunaraðila sem gefur út vottun skv. 42. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2016/679 frá 27. apríl 2016 um vernd einstaklinga í tengslum við vinnslu persónuupplýsinga og um frjálsa miðlun slíkra upplýsinga og niðurfellingu tilskipunar 95/46/EB.
    Í lögum um félagamerki, nr. 155/2002, segir að Hugverkastofan annist skráningu félagamerkja.
    Í sveitarstjórnarlögum, nr. 138/2011, segir að byggðarmerki skuli skráð hjá Hugverkastofunni sem veiti umsóknum viðtöku og kanni skráningarhæfi merkjanna.
    Í lögum um vernd afurðarheita sem vísa til uppruna, landsvæðis eða hefðbundinnar sérstöðu, nr. 130/2014, segir að leitað skuli umsagnar frá Hugverkastofunni um umsókn um skráningu afurðarheitis.
    Í lögum um þjóðfána Íslendinga og ríkisskjaldarmerkið, nr. 34/1944, segir að skrásetja skuli vörumerki hjá Hugverkastofunni að fengnu leyfi Neytendastofu fyrir notkun þjóðfánans í því.
    Stofnuninni ber jafnframt að veita einstaklingum, stofnunum og fyrirtækjum upplýsingar og ráðgjöf varðandi hugverkaréttindi í iðnaði. Enn fremur ber henni að stuðla að því að ný tækni og þekking sem felst í skráðum hugverkaréttindum sé aðgengileg almenningi.

     2.      Hver er áætlaður heildarkostnaður lögbundinna verkefna Hugverkastofu og hver er áætlaður kostnaður hvers verkefnis samkvæmt fjárlögum fyrir árið 2020?
    Kostnaði er ekki deilt niður á hvert lögbundið verkefni í fjárlögum, heldur er gerð grein fyrir fjárheimildum vegna hvers málefnasviðs og málaflokks og þeim skipt niður í fjárveitingar til einstakra verkefna og ríkisaðila sem birtast í fylgiriti fjárlaga hverju sinni. Hugverkastofa heyrir undir málefnasvið 7 og málaflokk 7.20. Samkvæmt fylgiriti fjárlaga 2020 er gert ráð fyrir að stofnunin hafi til ráðstöfunar 552,6 millj. kr. til að sinna lögbundnum verkefnum sínum. Allt framlagið er rekstrartekjur.