Ferill 807. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1815  —  807. mál.
Svar


samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra við fyrirspurn frá Brynjari Níelssyni um kostnað ráðuneytisins við skrifleg svör við fyrirspurnum.


     1.      Hversu margir starfsmenn ráðuneytisins koma að því að undirbúa skrifleg svör við fyrirspurnum þingmanna og hver er áætlaður heildarfjöldi vinnustunda sem í það hefur farið árlega síðastliðin fimm ár?
    Svarið takmarkast við tímabilið 11. janúar 2017 til 15. júní 2020. Frá 1. janúar 2011 til 11. janúar 2017 var fyrirspurnum á sviði dóms- og samgöngumála beint til innanríkisráðherra og er ekki fjallað um það hér.
    Á vef Alþingis má sjá að fjöldi skriflegra fyrirspurna til samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra er 157 á ofangreindu tímabili eða ríflega 40 á ári. Samanburður á eldri tölfræði sýnir mikla fjölgun en flestar voru fyrirspurnar 16 fyrir stofnun innanríkisráðuneytis.
    Aukinn fjöldi fyrirspurna tekur óhjákvæmilega meiri tíma hjá starfsmönnum ráðuneytisins en fjöldi vinnustunda sem fara í hvert svar er mjög breytilegur eftir umfangi fyrirspurnarinnar. Á síðustu árum má greina breytingu á umfangi fyrirspurna. Fleiri fyrirspurnir en áður ná yfir langt tímabil, oft 10 ár. Þá eru fleiri fyrirspurnir sem beinast að ráðuneytinu og öllum undirstofnunum þess. Fjöldi vinnustunda í þeim tilvikum er í tugum talinn en að lágmarki koma þrír starfsmenn ráðuneytisins að undirbúningi fyrirspurna. Ráðuneytið heldur ekki tölfræði um fjölda vinnustunda á ári sem fara í skrifleg svör en getur með vissu sagt að hann hefur aukist undanfarin ár.

     2.      Hver er heildarkostnaður ráðuneytisins við skrifleg svör við fyrirspurnum frá þingflokki Pírata á yfirstandandi löggjafarþingi og hversu margar vinnustundir starfsmanna hafa farið í að svara þeim?
    Eins og greint er frá í svari við 1. tölul. fyrirspurnarinnar þá heldur ráðuneytið ekki tölfræði um fjölda vinnustunda sem fara í undirbúning svara og getur því ekki greint frá kostnaði ráðuneytisins hvað fyrirspurnir varðar.

     3.      Hvað eru fyrirspurnir til skriflegs svars frá hverjum þingmanni í þingflokki Pírata hátt hlutfall slíkra fyrirspurna til ráðherra?
    Fjöldi fyrirspurna frá þingflokki Pírata á yfirstandandi löggjafarþingi er 10 eða 24% allra skriflegra fyrirspurna. Fyrirspyrjandi er í öllum tilvikum Björn Leví Gunnarsson.