Ferill 867. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1832  —  867. mál.




Svar


mennta- og menningarmálaráðherra við fyrirspurn frá Birni Leví Gunnarssyni um lögbundin verkefni Tilraunastöðvar Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum.


     1.      Hvaða lögbundnu verkefnum sinnir Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum?
    Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum á sér stoð í lögum um Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum, nr. 67/1990. Þar segir í 1. gr. að Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum sé háskólastofnun sem tengist læknadeild og hefur sérstaka stjórn og sjálfstæðan fjárhag.
    Í 2. gr. laga um Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum er tekið fram að hlutverk stofnunarinnar skuli vera m.a.:
     1.      Að stunda grunnrannsóknir í líf- og læknisfræði dýra og manna.
     2.      Að annast rannsóknir og þjónustu í þágu heilbrigðiseftirlits, sjúkdómsgreininga og sjúkdómsvarna fyrir búfé og önnur dýr í samstarfi við Matvælastofnun og þróa aðferðir í því skyni. Enn fremur að vera Matvælastofnun til ráðuneytis um allt er varðar sjúkdóma í dýrum og varnir gegn þeim.
     3.      Að þróa, framleiða, flytja inn og dreifa bóluefni og lyfjum gegn sjúkdómum í búfé og öðrum dýrum.
     4.      Að veita háskólakennurum og öðrum sérfræðingum, sem ráðnir eru til kennslu og rannsókna á sviðum stofnunarinnar, aðstöðu til rannsókna eftir því sem við verður komið.
     5.      Að annast endurmenntun dýralækna eftir því sem aðstæður leyfa og miðlun upplýsinga til þeirra í samvinnu við Matvælastofnun.
     6.      Að annast eldi á tilraunadýrum fyrir vísindalegar rannsóknir í landinu.
     7.      Að taka þátt í rannsóknum og þróunarvinnu í þágu líftækni og líftækniiðnaðar í landinu.

     2.      Hver er áætlaður heildarkostnaður lögbundinna verkefna Tilraunastöðvar Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum og hver er áætlaður kostnaður hvers verkefnis samkvæmt fjárlögum fyrir árið 2020?
    Heildarfjárheimild til Tilraunastöðvar Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum samkvæmt fylgiriti fjárlaga fyrir árið 2020, sbr. auglýsingu nr. 1379/2019 í B-deild Stjórnartíðinda, er 570,1 millj. kr. að frádregnum sértekjum að fjárhæð 208,2 millj. kr. Fjárveitingar eru ekki sundurliðaðar eftir lögbundnum verkefnum stofnana í fjárlögum. Eftirfarandi skipting á viðföng kemur fram í fylgiriti með fjárlögum:

02-202 Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum 570,1
02-202.101 Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum 557,4
02-202.601 Tæki og búnaður 12,7