Ferill 251. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1892  —  251. mál.
2. umræða.Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um lax- og silungsveiði,
nr. 61/2006, með síðari breytingum (minnihlutavernd, gerð arðskráa o.fl.).


Frá meiri hluta atvinnuveganefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Arnór Snæbjörnsson, Jóhann Guðmundsson og Sigríði Norðmann frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, Sigurð Guðjónsson, Guðna Guðbergsson og Sigurð Má Einarsson frá Hafrannsóknastofnun – rannsókna- og ráðgjafarstofnun hafs og vatna, Guðna Magnús Eiríksson frá Fiskistofu, Elías Blöndal Guðjónsson og Jón Helga Björnsson frá Landssambandi veiðifélaga, Óskar Magnússon frá Landssamtökum landeigenda, Bjarna M. Jónsson og Pétur Guðmundsson frá Samtökum eigenda sjávarjarða, Gísla Ásgeirsson og Hildi Þórarinsdóttur frá Veiðiklúbbnum Streng ehf., Víði Smára Petersen lögmann, Margréti Einarsdóttur, prófessor við lagadeild Háskólans í Reykjavík, Atla Má Ingólfsson lögmann, Kristínu Haraldsdóttur, lektor við lagadeild og forstöðumann Auðlindaréttarstofnunar Háskólans í Reykjavík, Þórð Bogason lögmann, Jóhannes Sigfússon, formann Veiðifélags Hafralónsár, og Sigurð Þór Guðmundsson, oddvita Svalbarðshrepps og fulltrúa í veiðifélögum Hölknár, Sandár og Svalbarðsár.
    Nefndinni bárust umsagnir og erindi frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, Fiskistofu, Hafrannsóknastofnun, Landssambandi veiðifélaga, Steinari Berg Ísleifssyni, Veiðiklúbbnum Streng ehf. og Víði Smára Petersen lögmanni.

Umfjöllun.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um lax- og silungsveiði, nr. 61/2006, með síðari breytingum, sem miða að því að styrkja minnihlutavernd í veiðifélagi með sérstökum reglum um atkvæðavægi á fundum auk þess sem gerð er tillaga um breytta skipan arðskrárnefndar og að dregið verði úr milligöngu hins opinbera við greiðslu kostnaðar af störfum matsnefndar.
    Líkt og rakið er í skýringum með frumvarpinu hafa verið færð rök fyrir því að lítt hafi verið hugað að vernd minni hluta félagsmanna í veiðifélögum við síðustu endurskoðun laganna vorið 2006, en þá féllu úr gildi þau fyrirmæli 2. mgr. 48. gr. eldri laga að byggi maður á fleiri en einni jörð skyldi hann engu síður aðeins hafa eitt atkvæði á félagsfundi. Ákvæðið bar með sér að vera sett á þeim tíma þegar aðeins var gert ráð fyrir að bændur kæmu á félagsfund, en skylt var að veiðiréttur fylgdi ábúð væri jörð seld á leigu. Sú breyting tók e.t.v. ekki mið af því að síðustu ár hefur verið aukinn áhugi á því að kaupa jarðir vegna laxveiðiréttindanna einna, líkt og rakið er í skýringum með frumvarpinu. Telja verður líklegt að sú þróun sé afleiðing af breyttu samfélagi og fækkun býla í sveitum landsins.

Tilgangur lax- og silungsveiðilaga.
    Þrátt fyrir að flestir umsagnaraðilar hafi talið jákvætt að auka vernd minni hluta í veiðifélögum voru gerðar talsverðar athugasemdir við þá útfærslu sem lögð er til með frumvarpinu og bent á að með þessu fyrirkomulagi gæti minni hlutinn í reynd ráðið för í veiðifélögum. Meiri hluti nefndarinnar telur mikilvægt að sátt náist um þá leið sem farin verður til að tryggja minni hlutanum í veiðifélögum aukinn rétt og hefur í því skyni rætt ýmsar aðrar útfærslur sem allar stefna að sama markmiði.
    Af 1. gr. laga um lax- og silungsveiði er ljóst að gengið er út frá því að fiskstofnar í ferskvatni séu nýttir, þ.e. að þeir séu veiddir, en það ber að gera á skynsamlegan, hagkvæman og sjálfbæran hátt. Fyrir tilkomu skylduaðildar að veiðifélögum gat hver landeigandi veitt fyrir sínu landi og leigt út sinn veiðirétt. Meginreglan er aftur á móti sú að veiðiréttarhöfum er óheimilt að veiða í vatni á félagssvæði sínu nema samkvæmt heimild frá veiðifélaginu, sbr. 3. mgr. 37. gr. laganna. Tilgangurinn með þessu er að nýta hina sameiginlegu fiskauðlind til hagsbóta fyrir heildina, enda er bæði hagkvæmara og skynsamlegra að leigja út stærri veiðisvæði en ef hver og einn landeigandi veiðir og/eða leigir fyrir sínu landi.
    Í skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands frá því í október 2018 um efnahagslegt virði lax- og silungsveiðiréttinda kemur fram að beinar tekjur vegna laxveiði hafi verið 4,9 milljarðar kr. árið 2018. Þar af fóru um 2,8 milljarðar kr. beint til veiðiréttarhafa og 2,1 milljarður kr. til leigutaka. Ráðstöfun veiðiréttinda með útleigu getur því verið afar arðbær.

Skylduaðild og reglur um sérstaka sameign.
    Í 1. mgr. 37. gr. laga um lax- og silungsveiði segir að mönnum sé skylt að eiga aðild að veiðifélagi, en eins og fram kemur í dómi Hæstaréttar 13. mars 2014 í máli nr. 676/2013 felst í þessari skylduaðild undantekning frá þeirri meginreglu fyrri málsliðar 2. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar að engan megi skylda til aðildar að félagi. Jafnframt er fólgin í þessari skipan takmörkun á eignaryfirráðum fasteignareiganda hvað veiðiréttindi varðar. Í dóminum er einnig vikið að því að skipan mála innan veiðifélaga og í skiptum út á við sé með sama hætti og þegar eignarréttindi að tilteknu verðmæti eru í sérstakri sameign. Var það niðurstaða réttarins í því tilviki að leiga til gisti- og veitingarekstrar væri ekki á meðal lögbundinna verkefna veiðifélaga og giltu því óskráðar réttarreglur eignarréttarins um sérstaka sameign um þá ráðstöfun. Þar sem um væri að ræða meiri háttar ákvörðun í skilningi hinna óskráðu reglna hefði þurft samþykki allra félagsmanna fyrir útleigunni.
    Meginregla eignarréttar um sérstaka sameign er að samþykki allra sameigenda þarf til óvenjulegra ráðstafana og ráðstafana sem eru meiri háttar þótt venjulegar geti talist.

Minnihlutavernd.
    Að mati meiri hluta nefndarinnar ganga lög um lax- og silungsveiði út frá því að fasteignareigendur fái að nýta þau hlunnindi og fasteignarréttindi sem felast í veiði eða útleigu á veiðirétti. Veiðar skuli þó stundaðar með sjálfbærum hætti og geta stjórnvöld gripið til ráðstafana ef talið er að hætta sé á ofveiði. Þannig kemur fram í 24. gr. laganna að ef nauðsyn ber til að draga úr veiði eða friða heilt vatn eða hluta þess um tiltekinn tíma gegn allri veiði eða takmarka einstakar veiðiaðferðir í vatninu til verndar fiskstofnum geti Fiskistofa sett reglur um slíka friðun, að fenginni tillögu eða umsögn Hafrannsóknastofnunar. Áður en slíkar reglur eru settar skal jafnan leita umsagnar viðkomandi veiðifélags. Ákvörðun á grundvelli 24. gr. er byggð á vísindalegu, ígrunduðu og sérfræðilegu mati stjórnvalda. Með hliðsjón af því að meginmarkmið laganna er sjálfbær nýting auðlindar má færa rök fyrir því að eðlilegt sé að friðun veiðisvæða sé fyrst og fremst tekin á slíkum grunni, frekar en að félagsmenn í veiðifélagi taki slíkar ákvarðanir, án þess að þar að baki liggi málsmeðferð á grundvelli 24. gr. laganna.
    Samkvæmt gildandi lögum er meginreglan sú að afl atkvæða ræður á aðalfundum og almennum félagsfundum, sbr. 8. mgr. 40. gr. laganna. Í lögunum eru aðeins fáeinar undantekningar frá þessari reglu. Þetta þýðir m.a. að meiri hluti í veiðifélagi getur komið í veg fyrir að veiðiréttinum sé ráðstafað með útleigu og jafnframt synjað veiðiréttarhafa um að fá að veiða í vatninu. Sú staða getur því skapast að veiðiréttarhafi getur hvorki veitt fyrir sínu landi né notið arðs af þessum hlunnindum sínum. Felur þetta í sér umtalsverða takmörkun á hagnýtingar- og ráðstöfunarrétti viðkomandi fasteignareiganda. Við þetta bætist jafnframt að hann er skyldugur til aðildar að veiðifélaginu og getur því ekki hætt í félagsskapnum. Þessi aðstaða er, eðli máls samkvæmt, afar íþyngjandi fyrir viðkomandi veiðiréttarhafa.
    Meiri hluti nefndarinnar telur að færa megi gild rök fyrir því að ákvörðun veiðifélags um að ráðstafa ekki veiði með útleigu, og jafnvel friða ána, sé svo óvenjuleg og meiri háttar að jafna mætti til þeirrar aðstöðu að samþykki allra þyrfti til að koma samkvæmt meginreglum eignarréttar um sérstaka sameign, sérstaklega þegar horft er til hins íþyngjandi eðlis skylduaðildar að veiðifélögum. Eins og áður greinir hefur sú regla aftur á móti verið lögfest í 8. mgr. 40. gr. laganna að afl atkvæða ráði. Af þeim sökum dugar einfaldur meiri hluti félagsmanna til að taka þessa óvenjulegu og meiri háttar ákvörðun samkvæmt lögunum. Ef minni hlutinn getur hins vegar knúið fram ráðstöfun veiðiréttarins er, að mati meiri hluta nefndarinnar, í raun verið að létta á þeim hömlum sem leiðir af skylduaðildinni, þ.e. að veiðiréttarhafi á auðveldara með að ná fram nýtingu á þessum þýðingarmiklu fasteignarréttindum sínum. Á sama hátt verður erfiðara fyrir meiri hlutann að koma í veg fyrir þessa eðlilegu og hefðbundnu hagnýtingu.
    Að mati meiri hluta nefndarinnar ætti að vera óþarft að hafa af því sérstakar áhyggjur að minni hlutinn taki ákvörðun um að ráðstafa veiðirétti í andstöðu við markmið laganna um sjálfbæra nýtingu fiskstofna. Í d-lið 1. mgr. 37. gr. er sérstaklega áréttað að við ráðstöfun á veiði skuli gætt að markmiðum laganna um sjálfbæra nýtingu. Þá skal ítrekað að stjórnvöld hafa ýmis úrræði til að koma í veg fyrir ofveiði, t.d. með svæðisbundinni friðun skv. 24. gr. laganna.

Svigrúm til breytinga skv. 44. gr. stjórnarskrárinnar.
    Í ljósi þeirra verulegu athugasemda sem fram komu um málið taldi meiri hluti nefndarinnar ljóst að gera þyrfti breytingar á frumvarpinu til að afmarka og skýra betur ákvæði 1. gr. frumvarpsins svo að ekki væri vafa undirorpið að ákvæði þess stæðust stjórnarskrá og færu saman við ákvæði EES-samningsins. Í nefndinni var þó nokkuð fjallað um það svigrúm sem nefnd hefur til að leggja til breytingar á þeim þingmálum sem hún hefur til meðferðar. Í 44. gr. stjórnarskrárinnar er kveðið á um að ekkert lagafrumvarp megi samþykkja fyrr en það hefur verið rætt við þrjár umræður á Alþingi. Í því felst m.a. að ekki má gera svo viðamiklar breytingar á frumvarpi að það teljist svo gerbreytt að um sé að ræða annað mál. Hér ber þó að hafa í huga að 46. gr. laga um þingsköp Alþingis kveður á um að ráðherrar og þingmenn geti komið fram með breytingartillögur og því gert ráð fyrir að frumvörp geti tekið breytingum í meðförum þingsins. Samkvæmt þingsköpum er málum vísað til nefnda að lokinni 1. umræðu til nánari skoðunar. Þegar nefndir afgreiða mál til 2. umræðu er algengara en ekki að þær eða meiri hluti þeirra leggi til breytingar á málunum. Það hefur ekki orðið til þess að talið hafi verið að mál séu ekki sett með stjórnskipulega réttum hætti eða uppfylli ekki 44. gr. stjórnarskrárinnar. Ekki gilda fastmótaðar reglur um hversu umfangsmiklar breytingar geti verið til að þær teljist ganga gegn framangreindu ákvæði stjórnarskrár en ætla verður löggjafanum vítt svigrúm til breytinga. Eðlilegt er þó að líta til markmiða frumvarpa og hvort þær breytingar sem lagðar eru til breyti slíku markmiði. Meiri hluti nefndarinnar áréttar að þó svo að breytingartillögur hans við mál þetta séu umfangsmiklar er markmið þeirra hið sama og með fyrirliggjandi frumvarpi, breytingar varða sömu ákvæði laga um lax- og silungsveiði og verður að telja þær nauðsynlegar til að tryggt sé að frumvarpið nái fram því markmiði sínu að styrkja minnihlutavernd í veiðifélagi og treysta það grundvallar markmið veiðifélaga að þau ráðstafi veiðirétti og tryggi félagsmönnum sínum arð af nýtingu hans.

Breytingartillögur.
    Í breytingartillögu meiri hluta nefndarinnar er stefnt að sömu markmiðum og í upphaflegu frumvarpi, þ.e. að tryggja minni hlutanum í veiðifélögum aukinn rétt og koma í veg fyrir ofríki meiri hlutans. Helsta breytingin er fólgin í því að minni hlutinn getur knúið fram tillögu og ákvarðanatöku um ráðstöfun veiðiréttar. Áfram er gert ráð fyrir því að meiri hlutinn ráði því að meginreglu hvernig fyrirkomulagi ráðstöfunarinnar er háttað en í stað þess að mælt verði fyrir um að einn aðili geti að hámarki haft yfir að ráða tilteknu hlutfalli atkvæða verði aukið við rétt minni hlutans. Í breytingartillögu meiri hluta nefndarinnar er gert ráð fyrir fimm nýjum málsgreinum í 40. gr. laganna og einni nýrri málsgrein í 42. gr. laganna. Meiri hluti nefndarinnar vill í þessu samhengi taka fram að þeim málsmeðferðarreglum sem hér eru lagðar til er einvörðungu ætlað að vera til verndar minni hluta en eftir sem áður er gert ráð fyrir að veiðifélög ákveði tilhögun og ráðstöfun veiðiréttar á félagsfundum.

Aukinn meiri hluti til ákvarðanatöku.
    Meiri hluti nefndarinnar leggur til að við 40. gr. bætist ný málsgrein er kveði á um að aukinn meiri hluta þurfi til að samþykkja ákvörðun um gerð fiskvegar eða sambærilegs mannvirkis í vatni eða meðfram vatni, sbr. 1. mgr. 34. gr. laganna. Þannig þurfi a.m.k. 2/3 hluta atkvæða til ákvarðanatöku er varðað getur mikla hagsmuni félags og félagsmanna. Meiri hluti nefndarinnar bendir á að í dómaframkvæmd hefur það ekki verið talið ganga gegn ákvæðum 2. mgr. 72. stjórnarskrár að einfaldur meiri hluti ráðstafi mikilvægustu hagsmunum veiðiréttarhafa. Það sé hins vegar í samræmi við sjónarmið um minnihlutavernd að aukinn meiri hluta þurfi til að taka tilteknar mikilvægar ákvarðanir í félagi.

Minnihlutavernd við ráðstöfun veiðiréttar.
    Meiri hluti nefndarinnar leggur til nýja málsgrein í 40. gr. laganna um ráðstöfun veiðiréttar samkvæmt d-lið 1. mgr. 37. gr. laganna. Þar er kveðið á um að þegar komið er að ákvörðun um ráðstöfun veiðiréttar geti þeir sem fara með 1/ 5 hluta atkvæða lagt fram tillögu til stjórnar veiðifélags, eða veiðifélagsdeildar, um fyrirkomulag á ráðstöfun réttarins. Með ráðstöfun er í þessu sambandi átt við útleigu veiðiréttarins, sem getur að hámarki staðið í tíu ár, sbr. 2. mgr. 9. gr. laganna. Friðun laxveiðiár telst tvímælalaust ekki til ráðstöfunar veiðiréttarins, eins og skýrlega má ráða af d-lið 1. mgr. 37. gr. laganna, sbr. og 24. gr. laganna sem fjallað var um hér að framan. Þá kemur eingöngu til greina að beita þessari heimild þegar leigusamningar hafa runnið sitt skeið á enda, sbr. orðalagið um að þetta verði gert þegar „komið er að ákvörðun um ráðstöfun veiðiréttar“. Verði breytingartillagan samþykkt hróflar hún ekki við gildandi samningum. Einnig er til öryggis tekið fram að ákvæðið eigi við ef ákvörðun um ráðstöfun veiðiréttar fer fram á vettvangi veiðifélagsdeildar, sbr. 4. mgr. 39. gr. laganna. Þótt leiga á veiðihúsum teljist almennt falla undir d-lið 1. mgr. 37. gr. laganna, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 676/2013, taldi meiri hluti nefndarinnar rétt, með hliðsjón af e-lið umrædds lagaákvæðis, að taka af öll tvímæli um að við ráðstöfun veiðiréttar sé jafnframt gert ráð fyrir að leigutaki geti tekið við veiðihúsi, öðrum mannvirkjum og viðeigandi lausa- og fylgifé, ef það er til staðar, og hafi umráð yfir því eftir því sem samið er um á milli aðila yfir samningstímann.
    Í ákvæðinu kemur fram að tillaga minni hlutans skuli lögð fram eigi síðar en þremur dögum fyrir aðalfund eða almennan félagsfund. Samkvæmt 14. gr. reglugerðar nr. 345/2014 um starfsemi veiðifélaga ber að boða aðalfund og félagsfund þar sem ráðstafa á veiði með a.m.k. 10 daga fyrirvara. Þeir sem hafa í hyggju að leggja fram tillögu um ráðstöfun veiði ættu því að hafa a.m.k. 7 daga til að móta tillögu sína sem ætti að teljast hæfilegur frestur. Ekkert er því til fyrirstöðu að í tillögunni sé með nokkuð ítarlegum hætti gerð grein fyrir því hvernig minni hlutinn telur að ráðstafa eigi veiðiréttinum, t.d. í hversu langan tíma, með hversu mörgum stöngum o.þ.h. Eðlilegt er að stjórnin kynni framkomna tillögu á umræddum aðalfundi eða almennum félagsfundi, en í breytingartillögunni kemur fram að í kjölfar fundarins skuli stjórn útbúa tillögu um ráðstöfunina, t.d. um leigutíma veiðiréttar og veiðihúsa, fjölda veiðidaga, daglegan veiðitíma, veiðistaði, veiðiaðferðir og aðra skilmála sem máli skipta. Stjórninni er því falið að setja tillögu minni hlutans í þann búning að hægt sé að taka ákvörðun um hana á næsta félagsfundi sem skal haldinn innan fjögurra vikna frá hinum fyrri fundi. Á síðari fundinum leggur stjórnin tillöguna fram til afgreiðslu og afl atkvæða ræður þá hvort tillagan verður samþykkt eða henni synjað.
    Í ákvæðinu segir að þeir sem fara með 1/ 5 hluta atkvæða geti skotið málinu til matsnefndar skv. VII. kafla þegar eftirfarandi aðstæður eru fyrir hendi:
     1.      Ef tillagan er felld. Margs konar ástæður geta verið fyrir því að tillaga sem þessi sé felld, t.d. ef félagsmenn telja leigutíma of langan, að veitt sé á of mörgum stöngum o.s.frv. Í lagaákvæðinu er gert ráð fyrir að minni hlutinn geti í þessum tilvikum lagt ágreininginn fyrir matsnefndina og fengið hana til þess að leggja fram rökstudda tillögu um fyrirkomulag ráðstöfunarinnar, sbr. síðar.
     2.      Ef þeir sem fara með 1/ 5 hluta atkvæða telja að tillaga sem var samþykkt á seinni fundi hafi í veigamiklum atriðum vikið frá þeirri tillögu sem lögð var fram á fyrri fundi. Taka ber fram að ekki er skilyrði að um sé að ræða sama 1/ 5 hlutann og lagði fram fyrri tillöguna. Tilgangurinn með málskotsrétti til matsnefndar er að leysa úr ágreiningi um réttmæti þess að víkja frá upphaflegri tillögu. Þá getur fræðilega komið upp sú staða að allt að fimm tillögur komi fram á félagsfundi um hvernig ráðstafa eigi veiðiréttinum. Ætla verður að stjórnin hafi nokkuð frjálsar hendur við þessar aðstæður. Þannig gæti stjórnin t.d. ákveðið að velja eina tillögu umfram aðra og gera hana að sinni, eftir atvikum með breyttum útfærslum stjórnarinnar. Stjórnin gæti einnig ákveðið að freista þess að koma mönnum saman um færri tillögur og loks gæti hún lagt tillögurnar allar fram til atkvæða. Ef ein tillaga hlyti brautargengi væri sennilegt að fjórir „minni hlutar“ gætu átt málskotsrétt til matsnefndar.
     3.      Ef stjórn veiðifélags skirrist við og boðar ekki til seinni fundarins innan fjögurra vikna. Hér skal tekið fram að gert er ráð fyrir því að frestur til skjóta máli til matsnefndar verði í öllum tilvikum tvær vikur. Ef stjórn veiðifélagsins lætur hjá líða að boða til fundar ætti fresturinn að byrja að líða að loknu fjögurra vikna tímamarkinu. Ef máli er skotið til matsnefndar að loknum þeim fresti, og matsnefndin vísar því frá af þeim sökum, þýðir það ekki að stjórnin geti komið sér hjá því að boða til fundarins. Þannig getur minni hlutinn ( 1/ 5) hafið málsmeðferðina á nýjan leik með því að leggja á ný fram tillögu sína í samræmi við 1. málsl. 2. mgr. breytingartillögunnar.
    Lagt er til að frestur til að skjóta ágreiningi til matsnefndarinnar verði tvær vikur. Mikilvægt er að málum þessum sé hraðað og fengin sé skjót úrlausn matsnefndarinnar. Á sama hátt er mikilvægt fyrir veiðifélag að fyrirsjáanleiki ríki um þessi atriði, t.d. ef ganga þarf frá samningi við nýjan leigutaka.
    Loks er lagt til að veiðifélagi, eða veiðifélagsdeild, sé óheimilt að gera samning um ráðstöfun veiðiréttar á meðan málskotsréttur varir. Sé máli skotið til matsnefndar innan frests er gerð samnings óheimil þar til matsnefnd hefur endanlega leyst úr málinu. Lagaákvæðið gerir með öðrum orðum ráð fyrir því að samningsgerð verði stöðvuð sjálfkrafa ef máli er skotið til matsnefndar innan málskotsfrests. Að öðrum kosti gæti málskotsréttur veiðiréttarhafa orðið að engu ef veiðifélag hefur gengið frá samningi við leigutaka, enda engin lagaheimild fyrir því að matsnefndin ógildi slíkan samning. Matsnefndin getur þó, hvort heldur er að kröfu málsaðila eða að eigin frumkvæði, ákveðið að aflétta banni við samningsgerð. Fyrirmyndin að þessum hluta lagaákvæðisins er sótt í 107. gr. laga nr. 120/2016, um opinber innkaup, með þeirri undantekningu þó að matsnefndin á eingöngu að aflétta stöðvun samningsgerðar ef ólíklegt er að meðferð hennar leiði til breytinga á ákvörðun veiðifélags. Matsnefndin ætti því ekki að aflétta stöðvun nema t.d. ef málskot til nefndarinnar er tilefnislaust.

Málsmeðferð matsnefndar.
    Lögð er til ný málsgrein í 40. gr. þar sem fjallað er um sérstök afbrigði í málsmeðferð matsnefndarinnar, en að öðru leyti fer um meðferðina eftir VII. kafla laganna. Lagt er til að matsnefnd skuli, eftir að ágreiningi er skotið til hennar og að lokinni málsmeðferð, kveða upp rökstuddan úrskurð sem felur í sér tillögu að fyrirkomulagi um ráðstöfun veiðiréttar. Hér er matsnefndinni veitt verulegt svigrúm til þess að móta sína eigin tillögu að ráðstöfun veiðiréttarins, en tillagan verður eðli máls samkvæmt að vera málefnaleg, forsvaranleg og hófleg og byggjast á markmiðum laganna og meginreglna stjórnsýsluréttarins. Þá er tekið fram í ákvæðinu að matsnefndin skuli hafa hliðsjón af framkomnum tillögum, sjónarmiðum málsaðila og venjum á viðkomandi veiðisvæði. Matsnefndin er því ekki bundin af því að velja tiltekna tillögu umfram aðra, heldur getur hún jafnvel blandað saman ólíkum tillögum og sjónarmiðum. Í úrskurði sínum skal matsnefnd gera tillögu um sömu atriði og stjórn ber að gera á seinni fundi, t.d. um leigutíma, fjölda veiðidaga, daglegan veiðitíma, veiðistaði, veiðiaðferðir og aðra skilmála sem máli skipta. Til að taka af allan vafa skal matsnefnd kveða upp rökstuddan úrskurð í öllum þeim tilvikum sem réttlætt geta að ágreiningi er skotið til hennar á grundvelli lagaákvæðisins, þ.m.t. í þeim tilvikum þegar stjórnin skirrist við að boða til seinni fundarins. Í þeim tilvikum leggur stjórnin, vegna athafnaleysis, ekki fram seinni tillögu sína og kemur þá tillaga matsnefndarinnar eingöngu til umræðu og atkvæða.
    Lagt er til að matsnefndin hafi heimild til þess að gera tillögu um að leitað verði tilboða í veiðiréttinn með útboði. Eðlilegt er að matsnefnd hafi hliðsjón af venju á viðkomandi veiðisvæði og meti hvort líklegt sé að markmiðum laganna verði betur náð með því að gefa sem flestum kost á að bjóða í veiðiréttinn. Þess ber að geta að í sumum tilvikum hefur gefist vel að veiðifélagið sjálft selji veiðileyfi. Af þeim sökum telur meiri hluti nefndarinnar mikilvægt að matsnefndin taki það til skoðunar í hverju og einu tilviki hvers konar útfærsla er best til þess fallin að þjóna markmiðum laganna.
    Eins og áður var nefnt er brýnt að niðurstaða um þessi atriði liggi fyrir sem fyrst. Af þeim sökum er lagt til að úrskurður matsnefndar skuli kveðinn upp innan átta vikna frá því að ágreiningi er skotið til hennar. Mál hjá matsnefndinni skulu því sæta flýtimeðferð.

Málsmeðferð tillögu matsnefndar.
    Lögð er til ný málsgrein í 40. gr. þar sem kveðið er á um hvað gerist í kjölfar uppkvaðningar úrskurðar matsnefndarinnar. Þá ber stjórn að leggja tillöguna fram á félagsfundi innan fjögurra vikna eftir að úrskurðurinn var kveðinn upp. Telst tillagan samþykkt, nema þeir sem fara með 4/ 5 hluta atkvæða hafni henni, án tillits til fundarsóknar. Með þessu er átt við að ekki nægir að 4/ 5 hluti þeirra sem sækja félagsfundinn þurfi að hafna tillögunni. Ef 20 atkvæði eru í veiðifélaginu þurfa 16 að greiða atkvæði gegn tillögunni. Ástæðan er sú að ætla verður að tillaga matsnefndarinnar sé byggð á ígrunduðu og málefnalegu mati á staðreyndum málsins og því eðlilegt að þennan aukna meiri hluta þurfi til að koma í veg fyrir ráðstöfun veiðiréttarins enda er það í samræmi við sjónarmið um minnihlutavernd að aukið atkvæðamagn þurfi til að taka tilteknar mikilvægar ákvarðanir í félagi. Þá verður að tryggja að ekki komi til pattstöðu í veiðifélaginu, þar sem meiri hlutinn getur komið í veg fyrir að veiðiréttinum verði að lokum ráðstafað og minni hlutinn þyrfti þá eftir atvikum að hefja vegferð sína á nýjan leik.

Góðir stjórnarhættir og óháð úttekt á starfsemi veiðifélags.
    Í 42. gr. laganna er að finna nánari ákvæði um starfshætti veiðifélags. Til að styrkja betur minnihlutaverndina og með það að markmiði að tryggja góða starfshætti í veiðifélögum leggur meiri hluti nefndarinnar til að við 42. gr. bætist ný málsgrein, er verði 5. málsgr. sem kveði á um að á fundi veiðifélags megi ekki taka ákvörðun sem er ætlað að afla ákveðnum félagsmönnum eða öðrum ótilhlýðilegra hagsmuna á kostnað annarra félagsmanna eða félagsins sjálfs. Þá skuli stjórn veiðifélags vera skylt að láta fara fram óháða úttekt á starfsemi veiðifélags ef þeir sem fara með 1/ 5 hluta atkvæða krefjast þess. Um er að ræða vísireglu um góða stjórnarhætti sem telja verður að rími við m.a. viðurlagaákvæði i-liðar 50. gr. og er þekkt úr m.a. félagarétti, sbr. 70. gr. laga um einkahlutafélög og 95. gr. laga um hlutafélög. Samkvæmt orðalagi ákvæðisins er því ætlað að vernda alla félagsmenn sem og félagið sjálft en ekki aðeins minni hluta félagsmanna fyrir ákvörðunum sem geta aflað félagsmönnum eða öðrum ótilhlýðilegra hagsmuna á kostnað annarra félagsmanna eða félagsins. Meiri hluti nefndarinnar áréttar að félagsmenn geta, hver um sig, nýtt sér kæruheimild í 43. gr. laganna ef uppi er ágreiningur um lögmæti ákvörðunar sem tekin hefur verið á fundi veiðifélags eða af félagsstjórn, og er kæru þá beint til Fiskistofu.

Skipan matsnefndar.
    Með 2. gr. frumvarpsins er lögð til sú breyting á skipan matsnefndar, sbr. 1. mgr. 44. gr. laganna, að ekki sé lengur krafist þess að nefndarmaður sé löglærður. Gildandi ákvæði kveður á um að tveir af þremur nefndarmönnum uppfylli hæfisskilyrði héraðsdómara. Í umsögnum um málið komu fram athugasemdir við þessa fyrirætlan, m.a. með vísan til mikilvægis vandaðrar stjórnsýslu og talið rétt að áfram sé krafa um að minnsta kosti einn nefndarmanna sé löglærður. Meiri hluti nefndarinnar tekur undir það sjónarmið og telur í ljósi þeirra breytinga sem hann leggur til við frumvarpið og aukins verksviðs matsnefndarinnar enn mikilvægara að svo sé. Þá minnir meiri hlutinn á að í 3. mgr. 45. gr. segir að matsnefnd skuli fara með önnur þau verkefni sem henni eru falin lögum samkvæmt. Margvísleg önnur mál geti borist matsnefnd, svo sem vegna ósamats á vatnasvæðum, veiðiréttar og bótaréttar líkt og kveðið er á um í lögunum. Leggur meiri hlutinn því til breytingu til samræmis við þetta um að formaður matsnefndar skuli vera lögfræðingur og uppfylla almenn hæfisskilyrði héraðsdómara.
    Í 3. gr. frumvarpsins er lagt til að í stað þess að ráðuneytið hafi milligöngu um greiðslu kostnaðar af arðskrárnefnd greiði veiðifélögin þann kostnað beint. Verksvið matsnefndar er aukið frá því sem nú er með því að minni hluti getur skotið álitaefnum um ráðstöfun veiðiréttar til matsnefndarinnar. Meiri hluti nefndarinnar telur rétt að aðilar beri kostnað af því enda um að ræða einkaréttarlega hagsmuni.

Viðurlagaákvæði.
    Við meðferð málsins kom fram ábending um að ágallar væru á viðurlagaákvæðum reglugerðar nr. 409/2019, um bann við álaveiðum, og viðurlagaákvæði reglugerðar nr. 1100/2019, um bann við selveiðum. Meiri hlutinn leggur því til að höfðu samráði við ráðuneytið að sú háttsemi sem þar um ræðir verði látin varða refsingu, sektum eða fangelsi allt að tveimur árum, með sama hætti og gildir um aðra háttsemi sem lýst er refsiverð með lögunum.

    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      1. gr. orðist svo:
                      Á eftir 6. mgr. 40. gr. laganna komi fimm nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
                      Þeir sem fara með 2/ 3 hluta atkvæða þurfa að samþykkja töku ákvörðunar um gerð fiskvegar eða sambærilegs mannvirkis í vatni eða meðfram vatni, sbr. 1. mgr. 34. gr. svo gild sé.
                      Þegar komið er að ákvörðun um ráðstöfun veiðiréttar, skv. d-lið 1. mgr. 37. gr., geta þeir sem fara með 1/ 5 hluta atkvæða lagt fram tillögu til stjórnar veiðifélags, eða veiðifélagsdeildar, um fyrirkomulag á ráðstöfun réttarins. Slík tillaga skal lögð fram eigi síðar en þremur dögum fyrir aðalfund eða almennan félagsfund. Í kjölfar fundarins skal stjórn útbúa tillögu um ráðstöfunina, t.d. um leigutíma veiðiréttar og veiðihúsa, fjölda veiðidaga, daglegan veiðitíma, veiðistaði, veiðiaðferðir og aðra skilmála sem máli skipta. Með ráðstöfun veiðiréttar í framangreindum skilningi er einnig átt við ráðstöfun á veiðihúsum, öðrum mannvirkjum, fylgi- og lausafé og öðru því sem hefðbundið er að fylgi við slíka ráðstöfun, sbr. og einnig e-lið 1. mgr. 37. gr.
                      Stjórn skal á nýjum félagsfundi innan fjögurra vikna frá hinum fyrri fundi leggja fram tillögu til afgreiðslu um ráðstöfun veiðiréttarins. Ef tillagan er samþykkt og telji þeir sem fara með 1/ 5 atkvæða að vikið sé í veigamiklum atriðum frá þeirri tillögu sem lögð var fram á fyrri fundi geta þeir skotið ágreiningi þar um til matsnefndar skv. VII. kafla. Sama hlutfall þeirra sem fara með atkvæði í veiðifélaginu, eða veiðifélagsdeildinni, getur skotið ágreiningi til matsnefndar ef tillaga er felld á fundi, eða ef stjórn leggur ekki fram tillögu innan þeirra tímamarka sem áður er getið. Málskotsfrestur skal vera tvær vikur. Óheimilt er veiðifélagi, eða veiðifélagsdeild, að gera samning um ráðstöfun veiðiréttar á meðan frestur til málskots varir. Sé ágreiningi skotið til matsnefndar innan málskotsfrests er gerð samnings óheimil þar til matsnefnd hefur endanlega kveðið upp úrskurð sinn. Matsnefnd getur þó, hvort heldur er að kröfu málsaðila eða að eigin frumkvæði, ákveðið að aflétta banni við samningsgerð ef ólíklegt er að meðferð nefndarinnar leiði til breytinga á ákvörðun veiðifélags.
                      Þegar máli hefur verið skotið til matsnefndar og að lokinni málsmeðferð skal matsnefndin kveða upp rökstuddan úrskurð sem felur í sér tillögu að fyrirkomulagi um ráðstöfun veiðiréttar og skal m.a. hafa hliðsjón af framkomnum tillögum, sjónarmiðum málsaðila og venjum á viðkomandi veiðisvæði. Matsnefnd getur lagt til að leitað verði tilboða í veiðiréttinn með útboði og skal nefndin þá leggja til útboðsskilmála. Úrskurður matsnefndar skal kveðinn upp innan átta vikna frá því að málið barst nefndinni.
                      Stjórn veiðifélags skal leggja fram tillögu matsnefndar til afgreiðslu á félagsfundi innan fjögurra vikna frá því að úrskurður matsnefndar var kveðinn upp. Telst hún samþykkt, nema þeir sem fara með 4/ 5 hluta atkvæða hafni henni, án tillits til fundarsóknar.
     2.      Á eftir 1. gr. komi ný grein, svohljóðandi:
                      Við 42. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                      Á fundi veiðifélags má ekki taka ákvörðun sem er ætlað að afla ákveðnum félagsmönnum eða öðrum ótilhlýðilegra hagsmuna á kostnað annarra félagsmanna eða félagsins. Skylt er stjórn veiðifélags að láta fara fram óháða úttekt á starfsemi veiðifélags ef þeir sem fara með 1/ 5 hluta atkvæða krefjast þess.
     3.      Á eftir orðunum „formaður nefndarinnar“ í a-lið 2. gr. komi: og skal hann vera lögfræðingur og uppfylla almenn hæfisskilyrði héraðsdómara.
     4.      Á eftir 3 gr. komi ný grein, svohljóðandi:
                      Við 50. gr. laganna bætast tveir stafliðir, svohljóðandi:
              j.      hann veiðir sel þannig að fari gegn banni eða takmörkun sem sett hefur verið með heimild í 4. mgr. 11. gr.
              k.      hann veiðir ál þannig að fari gegn banni eða takmörkun sem sett hefur verið með heimild í 2. mgr. 20. gr.

Alþingi, 25. júní 2020.

Lilja Rafney Magnúsdóttir,
form.
Njáll Trausti Friðbertsson,
frsm.
Halla Signý Kristjánsdóttir.
Ásmundur Friðriksson. Ólafur Ísleifsson. Rósa Björk Brynjólfsdóttir.
Sigurður Páll Jónsson.