Ferill 802. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1902  —  802. mál.




Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Brynjari Níelssyni um kostnað ráðuneytisins við skrifleg svör við fyrirspurnum.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hversu margir starfsmenn ráðuneytisins koma að því að undirbúa skrifleg svör við fyrirspurnum þingmanna og hver er áætlaður heildarfjöldi vinnustunda sem í það hefur farið árlega síðastliðin fimm ár?
     2.      Hver er heildarkostnaður ráðuneytisins við skrifleg svör við fyrirspurnum frá þingflokki Pírata á yfirstandandi löggjafarþingi og hversu margar vinnustundir starfsmanna hafa farið í að svara þeim?
     3.      Hvað eru fyrirspurnir til skriflegs svars frá hverjum þingmanni í þingflokki Pírata hátt hlutfall slíkra fyrirspurna til ráðherra?

    
    Dómsmálaráðuneytið tók til starfa eftir uppskiptingu innanríkisráðuneytisins árið 2017. Ráðuneytinu hafa borist samtals 208 fyrirspurnir á þeim tíma. Það sem af er á núverandi þingi hafa ráðuneytinu borist 54 fyrirspurnir. Ekki er haldið sérstaklega utan um tímafjölda starfsmanna í tengslum við svör við fyrirspurnum og því ekki hægt að tilgreina nákvæman kostnað enda litið svo á að þessi verkefni séu hluti af þeim verkefnum sem ráðuneytinu ber að sinna. Eðli og umfang fyrirspurna er þó mjög mismunandi og oft þurfa starfsmenn undirstofnana einnig að koma að svörum en ekki er haldið utan um tíma eða fjölda starfsmanna undirstofnana frekar en ráðuneytisins.
    Fjöldi fyrirspurna hefur farið vaxandi frá 146. löggjafarþingi eins og sjá má í töflu. Hlutfall fyrirspurna frá þingflokki Pírata er um 44% af fjölda fyrirspurna á þessu tímabili en næst á eftir koma um 15% fyrirspurna frá þingflokki Vinstri grænna. Björn Leví Gunnarsson er með um 15% allra fyrirspurna og Jón Þór Ólafsson um 12% fyrirspurna til dómsmálaráðuneytisins. Aðrir þingmenn eru með lægra hlutfall fyrirspurna.
150 149 148 147 146 Samtals
Flokkur fólksins 3 6 9 4,3%
Framsóknarflokkurinn 1 5 4 1 3 14 6,7%
Miðflokkurinn 16 10 3 29 13,9%
Óháður 1 1 0,5%
Píratar 22 42 14 5 9 92 44,2%
Samfylkingin 4 4 2 10 4,8%
Sjálfstæðisflokkurinn 3 6 1 4 14 6,7%
Viðreisn 2 2 2 1 7 3,4%
Vinstri græn 3 6 7 1 15 32 15,4%
Samtals 52 78 39 7 32 208 100%