Ferill 253. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 2004  —  253. mál.
Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Unni Brá Konráðsdóttur um breytt greiðslufyrirkomulag á dvalar- og hjúkrunarheimilum.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hefur verið tekin ákvörðun innan ráðuneytisins um næstu skref í átt að breyttu greiðslufyrirkomulagi á dvalar- og hjúkrunarheimilum, sbr. svar félags- og barnamálaráðherra á þskj. 1987 (575. mál) á 149. löggjafarþingi? Ef svo er, hvaða ákvarðanir hafa verið teknar?

    Ekki liggur fyrir ákvörðun um næstu skref í átt að breyttu greiðslufyrirkomulagi á dvalar- og hjúkrunarheimilum. Hins vegar er nú að fara af stað á vegum heilbrigðisráðuneytisins greining á rekstrargrunni hjúkrunarheimila. Sú greining er í samræmi við samkomulag sem Sjúkratryggingar Íslands, Samband íslenskra sveitarfélaga og Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu gerðu með sér í desember síðastliðnum, samtímis samningi um rekstur hjúkrunarheimila, en samkomulagið kvað á um slíka greiningu. Greiningin mun verða gerð af fimm manna verkefnastjórn sem í sitja fulltrúar áðurnefndra aðila, auk eins fulltrúa heilbrigðisráðuneytis og eins óháðs aðila sem hlutaðeigandi verða ásáttir um. Ætlunin er m.a. að greina í sundur kostnað við heilbrigðisþjónustu, félagsþjónustu og húsnæði.
    Greiningin á að liggja fyrir þann 1. október næstkomandi og gæti þá m.a. komið að notum við ákvarðanatöku um breytt greiðslufyrirkomulag á dvalar- og hjúkrunarheimilum.