Ferill 958. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 2012  —  958. mál.
Svar


umhverfis- og auðlindaráðherra við fyrirspurn frá Smára McCarthy um árlega losun gróðurhúsalofttegunda og kolefnisbindingu árið 2019.


     1.      Hver var losun gróðurhúsalofttegunda sem Ísland ber ábyrgð á í þúsundum tonna CO2-ígilda á árinu 2019? Svar óskast sundurliðað eftir eftirfarandi flokkum:
                  a.      Samgöngur á landi.
                  b.      Skip og hafnir.
                  c.      Orkuframleiðsla og smærri iðnaður.
                  d.      F-gös og efnanotkun.
                  e.      Landbúnaður.
                  f.      Úrgangur og sóun.
                  g.      Hvatar til umskipta.
                  h.      ETS:
                      1.      Flug.
                      2.      Iðnaður.

    Árlega skilar Umhverfisstofnun Landsskýrslu um losun gróðurhúsalofttegunda (e. National Inventory Report – NIR) til Evrópusambandsins og loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna (e. United Nation Framework Convention on Climate Change – UNFCCC) í samræmi við skuldbindingar Íslands í loftslagsmálum. Í skýrslunni er að finna losunarbókhald Íslands um bæði losun gróðurhúsalofttegunda og bindingu kolefnis úr andrúmslofti og er það unnið í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar Íslands í loftslagsmálum.
    Skýrslunni ber að skila fyrir 15. apríl ár hvert og hefur að geyma upplýsingar um losun almanaksárs tveimur árum áður. Opinberar og yfirfarnar upplýsingar um losun ársins 2019 munu því liggja fyrir í apríl 2021. Bókhaldið nær yfir árlega losun gróðurhúsalofttegunda allt frá árinu 1990.
    Upplýsingar um losun ársins 2018, skipt niður eftir þeim flokkum sem spurt er um, er að finna í nýútkominni aðgerðaáætlun Íslands í loftslagsmálum og í töflunni hér að aftan. Upplýsingarnar eru unnar eftir upplýsingum í losunarbókhaldi.

Tafla: Losun gróðurhúsalofttegunda árið 2018, skipt eftir flokkum, í þúsundum tonna CO2-ígilda.

Þús. tonn CO2-ígilda

a. Samgöngur á landi
979
b. Skip og hafnir 596
c. Orkuframleiðsla og smærri iðnaður 309
d. F-gös og efnanotkun 183
e. Landbúnaður 635
f. Úrgangur og sóun 276
g. Hvatar til umskipta á ekki við
Samtals heildarlosun innan beinna skuldbindinga Íslands 2.978
    Upplýsingar um losun í ETS eru aðgengilegar í apríl ár hvert vegna losunar undangengins árs. Losun í ETS-kerfinu fyrir Ísland árið 2019 er að finna á heimasíðu Umhverfisstofnunar. *
    Heildarlosun innan ETS-kerfisins á Íslandi fyrir árið 2019 var 2.403.187 tonn CO2-ígilda. Þar af var losun í flugi sem féll undir kerfið 596.124 tonn CO2-ígilda og losun í iðnaði var 1.807.063 tonn CO2-ígilda.

     2.      Hver var kolefnisbinding á Íslandi í þúsundum tonna CO2-ígilda á árinu 2019?
    Upplýsingar um kolefnisbindingu eru einnig birtar í losunarbókhaldi Íslands. Upplýsingar um losun ársins 2019 verða því aðgengilegar í apríl 2021 en skráð kolefnisbinding árið 2018 með skógrækt og landgræðslu (sem eru bókfærðar samkvæmt reiknireglum Kýótó-bókunarinnar) var 502 þúsund tonn CO2-ígilda.
*     ust.is/atvinnulif/ets/skraningarkerfi/uthlutun-og-uppgjor/uppgjor-2019/