Ferill 998. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 2101  —  998. mál.
2. umræða.Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997, með síðari breytingum
(kaupréttur og áskriftarréttindi).


Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Nefndin fjallaði um efnisatriði málsins fyrir framlagningu frumvarpsins og tók á móti gestum líkt og fram er tekið í greinargerð með því. Gestir nefndarinnar voru Guðrún Þorleifsdóttir, Guðmundur Kári Kárason og Anna Valbjörg Ólafsdóttir frá fjármála- og efnahagsráðuneyti, Linda Kolbrún Björgvinsdóttir, Bjarni Magnússon og Guðmundur Óli Blöndal frá Seðlabanka Íslands og Þórey S. Þórðardóttir, Ólafur Sigurðsson, Davíð Rúdólfsson, Árni Hrafn Gunnarsson og Tómas N. Möller frá Landssamtökum lífeyrissjóða.
    Með frumvarpinu eru heimildir lífeyrissjóða til að fjárfesta í afleiðum rýmkaðar þannig að krafa um að afleiða dragi úr áhættu sjóðs eigi ekki við þegar afleiða felur aðeins í sér kauprétt eða áskriftarréttindi. Tilefni frumvarpsins má rekja til þess að í fyrirhuguðu hlutafjárútboði Icelandair Group hf. er áformað að áskriftarréttindi fylgi seldum hlutum. Ófrávíkjanleg krafa gildandi laga um að afleiða dragi úr áhættu mundi að óbreyttu girða fyrir möguleika lífeyrissjóða á þátttöku í útboðinu. Um efni frumvarpsins vísast að öðru leyti til greinargerðar með því.
    Við umfjöllun um málið bárust nefndinni tillögur frá Landssamtökum lífeyrissjóða um aðra útfærslu en þá sem lagt er upp með í frumvarpinu. Í greinargerð er tekið fram að meiri hluti nefndarinnar leggi til að sú útfærsla sæti nánari skoðun í samráði við viðeigandi sérfræðinga og hagaðila á næsta löggjafarþingi.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Alþingi, 4. september 2020.

Óli Björn Kárason,
form., frsm.
Brynjar Níelsson. Bryndís Haraldsdóttir.
Ólafur Þór Gunnarsson. Willum Þór Þórsson.