Ferill 963. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 2127  —  963. mál.




Svar


sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við fyrirspurn frá Andrési Inga Jónssyni um sektir samkvæmt lögum um hvalveiðar.


     1.      Til hvaða upphæðar í íslenskum krónum svarar sektarheimild í 1. mgr. 10. gr. laga um hvalveiðar, nr. 26/1949?
    Ráðuneytið óskaði eftir umsögn Seðlabanka Íslands vegna þessarar fyrirspurnar. Í svari bankans, dags. 28. júlí sl., segir að eitt SDR (sérstök dráttarréttindi) jafngildi 2,2039 gullkrónum. Samkvæmt því svari er sektarheimild 1. mgr. 10. gr. laga um hvalveiðar, nr. 26/1949, 172.630–3.452.400 kr. miðað við gengisskráningu Seðlabankans 24. júlí 2020.

     2.      Á hvaða forsendum er verðgildi gullkrónu byggt og hvernig er það reiknað út?
    Í framangreindu svari frá Seðlabanka Íslands kemur fram að á einhverju stigi, eftir að gullviðmiðun hafi verið afnumin hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og stofnuð hafi verið reikningseiningin SDR (sérstök dráttarréttindi), hafi verið tekin upp viðmiðun við SDR við útreikning á gullkrónu. Stuðst hafi verið við þá viðmiðun að eitt SDR jafngilti 2,2039 gullkrónum. Seðlabankinn setur hins vegar fyrirvara við útreikningana þar sem þessi viðmiðun sé úrelt og ekki hafi verið óskað eftir útreikningum á gullkrónu frá bankanum í tugi ára.