Ferill 8. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 8  —  8. mál.




Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um þingsköp Alþingis, nr. 55/1991, með síðari breytingum (fjarfundir nefnda).

Frá forsætisnefnd.


1. gr.

    Í stað 2. málsl. 1. mgr. 17. gr. laganna koma tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Nefndarmönnum er þó heimilt að taka þátt í nefndarfundi með notkun fjarfundarbúnaðar þegar sérstaklega stendur á, svo sem af heilsufars- eða sóttvarnarástæðum, vegna samgöngutruflana eða veikinda aðstandenda eða þegar fundir eru haldnir utan starfsáætlunar þingsins. Forföll og notkun fjarfundarheimildar skal tilkynna nefndarritara með eins góðum fyrirvara og unnt er.

2. gr.

    Við 2. málsl. 22. gr. laganna bætist: eða tekur þátt í fundi samkvæmt heimild í 2. málsl. 1. mgr. 17. gr.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.


Greinargerð.

    Frumvarp þetta er lagt fram af forsætisnefnd og áheyrnarfulltrúar í nefndinni styðja flutning þess. Reynslan af störfum fastanefnda Alþingis í COVID-19-faraldrinum hefur orðið tilefni til þess að festa í sessi í lögum um þingsköp Alþingis heimild fyrir alþingismenn til að taka þátt í nefndarfundum með notkun fjarfundarbúnaðar.
    Ákvæði þingskapa gera ráð fyrir að alþingismönnum sé skylt að mæta á nefndarfundi, sbr. 1. mgr. 17. gr. Gilda um það sömu reglur og um fundarsókn þingmanna, sbr. 65. gr. Hefur það verið skilið svo að nefndarmaður teljist mættur á nefndarfund sé hann á staðnum. Af mætingarskyldu nefndarmanns og 22. gr. þingskapa leiðir að nefndarfundur telst aðeins ályktunarbær að meiri hluti nefndarmanna sé staddur á fundinum. Þó að notkun fjarfundarbúnaðar og símafundir hafi tíðkast í störfum þingnefnda í fjarveru nefndarmanna getur nefndarmaður sem tekur þátt í fundi með slíkum búnaði ekki tekið þátt í atkvæðagreiðslu um mál, átt tillögurétt eða komið að öðrum ákvörðunum nefndarinnar að óbreyttum þingsköpum.
    Á þingfundi 12. mars 2020 (72. fundi) voru samþykkt tímabundin afbrigði frá þingsköpum, eins og heimilt er að gera skv. 95. gr. þingskapa, til að víkja frá 1. mgr. 17. gr. um mætingarskyldu þingmanna á fundum fastanefnda og 22. gr. um ályktunarbærni nefndarfunda, vegna COVID-19-faraldursins. Markmiðið var að skapa nefndarmönnum skilyrði til að sinna nefndarstörfum þrátt fyrir samkomubann og fjarlægðartakmarkanir. Í kjölfarið voru settar leiðbeiningar um framkvæmd afbrigðanna og notkun fjarfundarbúnaðar. Heimild til að beita afbrigðunum var framlengd á þingfundum 14. apríl 2020 og 30. apríl 2020 og þá var ákveðið að hún skyldi gilda til loka þingsins. Uppfærðar leiðbeiningar um fundahöld og notkun fjarfundarbúnaðar á fundum fastanefnda voru í kjölfarið sendar þingmönnum.
    Í framhaldi af breytingum á takmörkunum á samkomum vegna farsóttar var hinn 29. maí 2020 tilkynnt á þingfundi að fundir fastanefnda yrðu á ný haldnir á fundarstað nefnda á Alþingi og nefndarmenn skyldu því að jafnaði vera staddir á fundarstað. Þeim nefndarmönnum sem þess óskuðu af sóttvarnar- og heilsufarslegum varúðarástæðum var heimilt að taka þátt í fundi nefndar með fjarfundarbúnaði. Hinn 8. júní 2020 var bætt við afbrigðin og tilkynnt á þingfundi að landsbyggðarþingmenn gætu tekið þátt í fundum fastanefnda með fjarfundarbúnaði á meðan takmarkanir á flugsamgöngum vegna faraldursins settu þeim skorður.
    Markmið frumvarpsins er að heimila þingmönnum að taka þátt í ályktunarbærum nefndarfundi með notkun fjarfundarbúnaðar þegar sérstaklega stendur á. Lagt er til að meginreglan verði áfram sú að nefndarmenn skuli vera staddir á fundarstað. Komi upp ófyrirséðar aðstæður er þingmönnum heimil þátttaka í fundi með notkun fjarfundarbúnaðar. Tekur heimildin til dæmis til heilsufars- og sóttvarnaraðstæðna, veikinda aðstandenda, samgöngutruflana eða þegar nefndarfundir eru haldnir utan starfsáætlunar þingsins. Frumvarpið felur því ekki í sér almenna heimild til handa þingmönnum að taka þátt í nefndarfundum með fjarfundarbúnaði.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. laga um þingsköp Alþingis, sbr. einnig 65. gr. laganna, er þingmönnum skylt að sækja alla nefndarfundi nema nauðsyn banni. Í 1. gr. frumvarpsins er lagt til að við ákvæði 17. gr. þingskapa bætist heimild nefndarmanna til að taka þátt í nefndarfundi með notkun fjarfundarbúnaðar þegar sérstaklega stendur á. Tillagan gerir ráð fyrir að meginreglan verði áfram sú að þingmenn mæti sjálfir á nefndarfundi, en komi upp óvæntar aðstæður er þingmanni heimilt að taka þátt í fundi með notkun fjarfundarbúnaðar. Hér getur til dæmis verið um að ræða heilsufarsástæður sem varða þingmanninn sjálfan, sóttvarnaraðstæður eins og þær sem komu upp í tengslum við COVID-19, veikindi barna eða annarra aðstandenda, röskun á samgöngum, svo sem vegna veðurs eða niðurfellingar ferða, eða óreglulega fundi nefnda, t.d. ef aukafundir eru haldnir utan starfsáætlunar Alþingis. Eins og frumvarpstillagan er orðuð falla fyrirsjáanlegar aðstæður, líkt og þegar þingmenn sækja fundi erlendis í alþjóðastarfi sínu, utan heimildarinnar. Tekið skal fram að heimildin nær einnig til áheyrnarfulltrúa og varamanna í nefndum.
    Gert er ráð fyrir að þingmaður sem hyggst taka þátt í nefndarfundi með notkun fjarfundarbúnaðar tilkynni það nefndarritara, sbr. 3. málsl. ákvæðisins. Tilkynningin skal send með eins góðum fyrirvara og unnt er þannig að fyrirkomulagið verði eins fyrirsjáanlegt og hægt er, þótt um óvæntar aðstæður sé að ræða. Ljóst er að heimildin nær ekki til þeirra tilvika þegar leggja á fram trúnaðarupplýsingar á fundi fastanefnda, en þá gilda ákvæði 5. mgr. 19. gr. og 2. mgr. 51. gr. laga um þingsköp Alþingis. Við slíkar aðstæður getur þingmaður þurft að grípa til annarra ráðstafana en að sækja fund með notkun fjarfundarbúnaðar, eins og til dæmis að kalla til varamann á nefndarfund.
    Gert er ráð fyrir að forseti Alþingis setji reglur um nánari útfærslu á notkun fjarfundarbúnaðar á fundum fastanefnda, sbr. heimild í 5. mgr. 8. gr. þingskapalaga, og líti til þeirra leiðbeininga sem gefnar hafa verið út um sama efni, t.d. um það hvernig gætt verði að 19. gr. þingskapa um lokaða nefndarfundi og hvernig bregðast skuli við ef tenging rofnar við nefndarmann á meðan á fundi stendur.

Um 2. gr.

    Lögð er til breyting á 22. gr. þingskapa þar sem kveðið er á um ályktunarbærni nefndarfunda. Er lagt til að nefndarfundir séu ályktunarbærir ef meiri hluti nefndarmanna er staddur á fundi eða tekur þátt í fundi með notkun fjarfundarbúnaðar samkvæmt heimild í 17. gr. þingskapa, sbr. 1. gr. frumvarpsins. Nefndarmaður sem nýtir sér fjarfundarbúnað samkvæmt heimildinni getur því tekið þátt í afgreiðslu máls og telst hluti af ályktunarbærri nefnd. Nefndarmaðurinn hefur rétt til að taka þátt í atkvæðagreiðslu um mál eða um aðrar ákvarðanir nefndar og hefur tillögu- og bókunarrétt.

Um 3. gr.

    Ákvæðið þarfnast ekki skýringa.