Ferill 39. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Prentað upp.

Þingskjal 39  —  39. mál.
Flutningsmenn.
Tillaga til þingsályktunar


um þjóðaratkvæðagreiðslu um framtíð Reykjavíkurflugvallar.


Flm.: Njáll Trausti Friðbertsson, Ásmundur Friðriksson, Brynjar Níelsson, Haraldur Benediktsson, Jón Gunnarsson, Páll Magnússon, Óli Björn Kárason, Vilhjálmur Árnason, Halla Signý Kristjánsdóttir, Líneik Anna Sævarsdóttir, Willum Þór Þórsson, Þórunn Egilsdóttir, Anna Kolbrún Árnadóttir, Bergþór Ólason, Birgir Þórarinsson, Gunnar Bragi Sveinsson, Karl Gauti Hjaltason, Ólafur Ísleifsson, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Sigurður Páll Jónsson, Þorsteinn Sæmundsson, Guðmundur Ingi Kristinsson, Inga Sæland, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Jón Þór Ólafsson.


    Alþingi ályktar að efnt skuli til þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort flugvöllur og miðstöð innanlands- og sjúkraflugs skuli vera áfram í Vatnsmýrinni í Reykjavík. Eftirfarandi spurning verði borin upp í þjóðaratkvæðagreiðslunni:
    „Vilt þú að flugvöllur og miðstöð innanlands-, kennslu- og sjúkraflugs verði áfram í Vatnsmýrinni í Reykjavík uns annar jafngóður eða betri kostur er tilbúinn til notkunar?
    ▢ Já.
    ▢ Nei.“

Greinargerð.

    Sambærilegar tillögur hafa verið fluttar fimm sinnum áður, síðast á 150. löggjafarþingi (311. mál).
    Lagt er til að fram fari þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð Reykjavíkurflugvallar. Með því fær þjóðin tækifæri til þess að segja hug sinn og hafa áhrif á það hvar flugvöllurinn og miðstöð innanlands- og sjúkraflugs verða í fyrirsjáanlegri framtíð, m.a. með tilliti til þjóðhagslegra hagsmuna og þjóðaröryggis. Ríkir almannahagsmunir felast í greiðum samgöngum innan lands og staðsetning flugvallarins og miðstöðvar innanlandsflugs hefur afar mikla þýðingu í því samhengi. Flugvöllurinn gegnir mjög mikilvægu öryggishlutverki fyrir almenning í landinu vegna sjúkra- og neyðarflugs, svo og sem varaflugvöllur. Þá gegnir flugvöllurinn mjög mikilvægu hlutverki í almannavarnakerfi landsins. Frekar má lesa um mikilvægi öryggishlutverks Reykjavíkurflugvallar í skýrslu Þorgeirs Pálssonar, fyrrverandi flugmálastjóra, til samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, Hlutverk Reykjavíkurflugvallar í öryggiskerfi landsins (ágúst 2017).
    Staðsetning flugvallarins hefur verið umdeild í nokkurn tíma. Í kjölfar dóms Hæstaréttar frá 9. júní 2016 í máli nr. 268/2016 var íslenska ríkinu skylt að loka norðaustur-suðvestur-flugbraut Reykjavíkurflugvallar (flugbraut 06/24) í samræmi við samkomulag þáverandi innanríkisráðherra og borgarstjórans í Reykjavík frá árinu 2013. Hefur umræddri flugbraut nú verið lokað. Eftir sem áður ríkir ekki einhugur um framtíðarstaðsetningu Reykjavíkurflugvallar og hlutverk hans sem samgöngumiðstöðvar til framtíðar, en aðalskipulag Reykjavíkur gerir ráð fyrir því að flugvöllurinn víki í áföngum eftir árið 2022. Fyrir liggur að flugvöllurinn lokast í reynd þegar norður-suður-brautinni verður lokað sem Reykjavíkurborg stefnir að 2022. Í því sambandi þarf einnig að horfa til þess að í samgönguáætlun fyrir árin 2011–2022, sem samþykkt var með ályktun Alþingis nr. 48/140, er gert ráð fyrir því að flugvöllur verði í Reykjavík til ársins 2022 hið minnsta þótt ekki sé með skýrum hætti kveðið á um staðsetningu hans.
    Samhliða samgönguáætlun 2020–2034, sem samþykkt var á Alþingi 29. júní 2020, var kynnt fyrsta flugstefna Íslands. Markmið stefnunnar er m.a. að efla innanlandsflug sem hluta af almenningssamgangnakerfi landsins. Eitt af því sem flugstefnan felur í sér er að tryggja skilvirkt kerfi alþjóðaflugvalla hér á landi sem er samþætt og á einni hendi og að byggja upp innviði alþjóðaflugvalla landsins með áherslu á að þeir mæti sem best þörfum flugrekenda fyrir varaflugvelli; hér gegna Egilsstaðaflugvöllur, Akureyrarflugvöllur og Reykjavíkurflugvöllur lykilhlutverki. Þá má geta þess að í nefndaráliti meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis við afgreiðslu samgönguáætlunar 2020–2034 var lögð áhersla á að Reykjavíkurflugvelli yrði haldið við og hann byggður upp svo hægt verði að sinna því hlutverki sem hann nú gegnir á öruggan og viðunandi hátt og að öryggis- og þjónustustig vallarins verði ekki skert frekar en orðið er fyrr en nýjum flugvelli hefur verið fundinn staður og hann tilbúinn til notkunar.
    Afar brýnt er að þjóðin fái tækifæri til þess að segja hug sinn varðandi helstu samgöngumiðstöð landsins og hafi þar með áhrif á endanlega niðurstöðu málsins sem gæti m.a. falist í tilfærslu á skipulagslegu ákvörðunarvaldi með lögum, að teknu tilliti til mikilvægra almannahagsmuna. Árétta ber að Reykjavíkurflugvöllur gegnir fjölþættu hlutverki í samgöngum landsbyggðarinnar og höfuðborgarinnar. Völlurinn er óumdeilanlega miðstöð innanlandsflugs og gegnir í því sambandi lykilhlutverki. Árið 2018 fóru 400.044 farþegar um Reykjavíkurflugvöll en farþegafjöldinn dróst saman um 12,3% á árinu 2019 þegar 350.858 farþegar fóru um völlinn. Vonir standa þó til að farþegum fari aftur fjölgandi, m.a. fyrir tilstuðlan Loftbrúarinnar en á fyrstu vikunni sem verkefnið hófst höfðu tæplega átta hundrað flugleggir verið bókaðir. Gera má ráð fyrir að tilgangur hluta ferðanna sé að sækja brýna læknisþjónustu á höfuðborgarsvæðið. Flugvöllurinn gegnir því lykilhlutverki í sjúkra- og neyðarflugi og tengist þannig brýnum öryggishagsmunum almennings, en hann er óumdeilanlega ein helsta tenging landsbyggðarinnar utan Suðvesturhornsins við Landspítala. Stjórnvöld hafa markað þá opinberu stefnu í heilbrigðismálum að hér á landi verði aðeins byggt upp og rekið eitt hátæknisjúkrahús og það við Hringbraut í Reykjavík, í næsta nágrenni við flugvöllinn. Greiðar samgöngur milli flugvallar og sjúkrahússins eru því nauðsynlegar til að tryggja aðgengi almennings á landsbyggðinni að sjúkrahúsinu.
    Flugvöllurinn gegnir einnig lykilhlutverki í tengingu landsbyggðarinnar við opinbera grunnþjónustu og mikilvægar opinberar stofnanir, sem eru flestar staðsettar á höfuðborgarsvæðinu, og jafnframt við almenna verslun og þjónustu. Flugvöllurinn er einnig mikilvæg miðstöð kennsluflugs, eftirlits og leitar- og björgunarflugs og mikilvægur varaflugvöllur fyrir Keflavíkurflugvöll. Þá gegnir flugvöllurinn æ stærra hlutverki í tengslum við stóraukna ferðaþjónustu og tækifæri eru til að dreifa ferðamönnum betur um landið í gegnum flugvöllinn.
    Öll framangreind atriði, auk almenns hagræðis sem leiðir af styrku innanlandsflugi, m.a. með tilliti til umhverfis- og öryggisþátta, eru afar mikilvæg og þess eðlis að nauðsynlegt er að flugvöllurinn verði í Vatnsmýrinni svo að hann geti með sóma sinnt hlutverki sínu þannig að landsmenn allir hafi greiðan aðgang að höfuðborginni. Í skýrslu innanríkisráðuneytisins frá 2014 um félagshagfræðilega greiningu á framtíð innanlandsflugs kemur fram að áætlunarflug innan lands dragist að öllum líkindum mikið saman og verði jafnvel ekki fýsilegt ef það verður flutt frá Reykjavík, t.d. til Keflavíkurflugvallar. Það er því forsenda fyrir virku innanlandsflugi á Íslandi að miðstöð innanlandsflugs sé í Reykjavík og þannig í nánum tengslum við þá þjónustu sem landsmenn sækja til höfuðborgarinnar. Í skýrslunni kemur einnig fram að innanlandsflugið sé þjóðhagslega arðbært og að þjóðhagslegur ávinningur af því til 40 ára sé um 70 milljarðar kr. á virði ársins 2013.
    Álykti Alþingi að fram skuli fara almenn og leynileg þjóðaratkvæðagreiðsla um tiltekið málefni eða lagafrumvarp fer um framkvæmdina samkvæmt lögum um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna, nr. 91/2010, og er niðurstaða slíkrar atkvæðagreiðslu ráðgefandi. Öll skynsamleg rök hníga í þá átt að halda flugvellinum og miðstöð innanlandsflugs í Vatnsmýrinni en verði þar einhver breyting á er nauðsynlegt að öll þjóðin fái að koma að þeirri ákvörðun á beinan og lýðræðislegan hátt.
    Við meðferð málsins á 149. löggjafarþingi var því vísað til umhverfis- og samgöngunefndar sem sendi það til umsagnar. Nefndinni barst 21 umsögn um málið. Yfirgnæfandi meiri hluti sveitarfélaga og samtök sveitarfélaga sem sendu inn umsögn studdu efni tillögunnar um að landsmenn allir fengju að hafa skoðun á framtíð Reykjavíkurflugvallar. Aðeins Reykjavíkurborg var því mótfallin. Í umsögn Félags íslenskra atvinnuflugmanna kom fram að ærið tilefni væri til að halda slíka þjóðaratkvæðagreiðslu. Reykjavíkurflugvöllur væri samgöngumannvirki sem þjónaði öllum íbúum landsins. Þá kom fram í sameiginlegri umsögn stjórnar Íslenska flugmannafélagsins og öryggisnefndar Íslenska flugmannafélagsins að þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð Reykjavíkurflugvallar væri þjóðþrifamál. Ekki væri um einkamál Reykjavíkurborgar að ræða, sérstaklega í ljósi þess að ríkið væri eigandi meiri hluta landsins undir flugvellinum. Þá væri hann mikilvægur út frá hagkvæmnis- og umhverfissjónarmiðum sem varaflugvöllur þar sem varaeldsneytisbirgðir væru töluvert minni ef notast væri við hann sem varaflugvöll. Landfræðilega væri Vatnsmýrin ein besta staðsetningin fyrir flugvöll á höfuðborgarsvæðinu, með tilliti til opinberra stofnana og Landspítalans.
    Flutningsmenn telja ljóst að mikil þörf sé á að fram fari þjóðaratkvæðagreiðsla um þetta brýna samgöngu- og öryggismál þjóðarinnar.