Ferill 161. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 162  —  161. mál.
Stjórnarfrumvarp.



Frumvarp til laga


um mannanöfn.

Frá dómsmálaráðherra.



I. KAFLI

Nafngjöf.

1. gr.

Skylda til að bera nafn.

    Skylt er að gefa barni nafn innan sex mánaða frá fæðingu þess. Barn skal bera hið minnsta eitt eiginnafn og eitt kenninafn.

2. gr.

Tilkynning um nafngjöf og fyrsta skráning.

    Þeim er fara með forsjá barns er rétt og skylt að tilkynna Þjóðskrá Íslands um eiginnafn eða eiginnöfn þess og hvernig skrá skuli kenninafn eða kenninöfn.
    Heilbrigðisstofnun eða ljósmóðir tilkynnir Þjóðskrá Íslands um fæðingu barns hér á landi. Þjóðskrá Íslands skráir þá kenninafn þess skv. 4. mgr. 5. gr. þar til tilkynning hefur borist um kenninafn barnsins, sbr. 1. mgr.

3. gr.

Fullt nafn og birtingarnafn.

    Við tilkynningu nafns til Þjóðskrár Íslands skal gefa upp fullt nafn, sbr. 1. mgr. 2. gr. Nöfnin skulu rituð með bókstöfum íslenska nútímastafrófsins að viðbættum stöfunum c, q, w og z. Nafnið má hvorki vera stakur bókstafur, skammstafanir, tölustafir, greinarmerki eða önnur tákn. Nafnið verður að vera hægt að bera fram í íslensku. Að jafnaði má ekki afbaka hefðbundinn rithátt nafna.
    Við tilkynningu nafns skal enn fremur gefa upp birtingarnafn. Birtingarnafn skal dregið af fullu nafni einstaklings og fela í sér að minnsta kosti eitt eiginnafn og eitt kenninafn hans. Komi fram ósk um að birtingarnafn verði skammstafað eða stytt með tilteknum hætti skal það tilgreint í tilkynningunni. Ef Þjóðskrá Íslands er ekki unnt að skrá birtingarnafn manns að fullu eða með þeim hætti sem óskað er eftir og ekki næst samkomulag um skráninguna fer um hana samkvæmt reglum sem ráðherra setur að höfðu samráði við Þjóðskrá Íslands.

4. gr.

Eiginnöfn.

    Eiginnafn skal vera í nefnifalli, án greinis og auðkennt með stórum upphafsstaf.
    Eiginnafn má ekki vera eins eða svo svipað heiti á lögaðila sem nýtur verndar hér á landi að gera megi ráð fyrir að lögmætir hagsmunir bíði tjón af. Sama gildir um heiti á samtökum eða sambærilegum lögaðilum eða almennt þekktu listamannsnafni, sem njóta þó ekki sérstakrar verndar í lögum.
    Eiginnafn má ekki vera þannig að það geti orðið nafnbera til ama.
    Berist Þjóðskrá Íslands tilkynning um nafn barns skv. 2. og 3. gr., sem hún telur verulegar líkur á að geti heyrt undir ákvæði 3. mgr., skal hún kveða upp úrskurð svo fljótt sem við verður komið um hvort nafnið skuli heimilað. Þjóðskrá Íslands getur leitað álits umboðsmanns barna áður en úrskurður er kveðinn upp. Heimilt er að kæra úrskurðinn til ráðuneytisins.

5. gr.

Kenninöfn.

    Kenninöfn eru tvenns konar, kenning til foreldris og ættarnöfn.
    Kenning til foreldris er meginregla hér á landi. Undantekning frá þeirri reglu eru ættarnöfn.
    Kenninafn skal auðkennt með stórum upphafsstaf.
    Heimilt er að kenna sig með eftirfarandi hætti:
     a.      til annars foreldris eða beggja,
     b.      til foreldris eða foreldra og bera ættarnafn eða ættarnöfn,
     c.      bera eitt ættarnafn eða fleiri.
    Heimilt er að bera kenninafn annað en það sem tilgreint er í 4. mgr. ef sérstaklega stendur á.
    Kenning til foreldris er mynduð þannig að á eftir eiginnafni eða eiginnöfnum kemur nafn foreldris eða foreldra í eignarfalli, að viðbættu -son ef karlmaður er, -dóttir ef kvenmaður er eða -bur ef skráning kyns er hlutlaus. Einnig er heimilt að nota sem kenningu eingöngu nafn foreldris í eignarfalli.
    Ef kenninafn er dregið af erlendu eiginnafni foreldris er heimilt að aðlaga það að íslensku máli á sambærilegan hátt og segir í 6. mgr. Einnig má laga það að íslenskum framburði.
    Heimilt er að taka upp nýtt ættarnafn sem kenninafn, sbr. 1. mgr. og 2. málsl. 2. mgr., með beiðni til Þjóðskrár Íslands.
    Heimilt er að taka upp kenninafn maka síns enda liggi samþykki hans fyrir.
    Um kenninöfn gilda sömu takmarkanir og fram koma í 2. og 3. mgr. 4. gr.

II. KAFLI

Nafnbreytingar.

6. gr.

Heimild til nafnbreytingar.

    Heimilt er einstaklingi með leyfi Þjóðskrár Íslands að breyta skráðu eiginnafni og kenninafni sínu, þ.m.t. að taka upp nafn eða nöfn til viðbótar því eða þeim nöfnum sem hann ber eða fella niður nafn eða nöfn sem hann ber.
    Breyting á eiginnafni og kenninafni barns undir 15 ára aldri er háð því skilyrði að fari tveir með forsjá þess standi þeir báðir að beiðni um breytingu nafnsins. Beri forsjármaður barns fram ósk um breytingu á eiginnafni þess eða kenninafni og hafi orðið breyting á forsjánni frá því barninu var gefið nafn skal, ef unnt er, leita samþykkis þess foreldris sem með forsjána fór við fyrri nafngjöf. Þótt samþykki þess foreldris liggi ekki fyrir getur Þjóðskrá Íslands engu að síður heimilað nafnbreytinguna enda sé það talið í samræmi við hagsmuni og vilja barns. Ekki skal leita eftir samþykki ef það er talið vera til verulegs óhagræðis fyrir barnið.
    Barn sem orðið er 15 ára getur óskað eftir breytingu á nafni sínu. Kynna skal þeim er fara með forsjá barnsins um breytingu á nafni liggi samþykki þeirra ekki fyrir.
    Nú gengur móðir ófeðraðs barns í hjónaband og má þá kenna það til stjúpforeldris þess. Sama gildir ef móðir er í skráðri sambúð.
    Heimilt er með leyfi Þjóðskrár Íslands að barn sem kennt hefur verið til kynforeldris sé kennt til stjúpforeldris eða sambúðarmaka foreldris. Leita skal samþykkis þess kynforeldris sem ekki fer með forsjá barnsins, ef unnt er, áður en ákvörðun er tekin um slíkt leyfi. Ef kynforeldri er ekki samþykkt breytingu á kenninafni getur Þjóðskrá Íslands engu að síður leyft breytinguna ef það er talið í samræmi við hagsmuni og vilja barns. Ekki skal leita eftir samþykki ef það er talið vera til verulegs óhagræðis fyrir barnið.
    Ákvörðun skv. 4. og 5. mgr. skal háð samþykki stjúpforeldris eða sambúðarmaka.
    Heimilt er með leyfi Þjóðskrár Íslands að fósturbarn, sem er í varanlegu fóstri hjá fósturforeldrum, sé kennt til fósturforeldris. Leita skal samþykkis kynforeldra barnsins, ef unnt er, áður en ákvörðun er tekin um slíkt leyfi. Ef kynforeldri er ekki samþykkt breytingu á kenninafni getur Þjóðskrá Íslands engu að síður leyft breytinguna ef það er talið í samræmi við hagsmuni og vilja barns. Ekki skal leita eftir samþykki ef það er talið vera til verulegs óhagræðis fyrir barnið. Áður en ákvörðun er tekin er Þjóðskrá Íslands heimilt að leita álits barnaverndarnefndar sem fer með forsjá barns.
    Sé barn yngra en 18 ára ættleitt eftir að því var gefið nafn má gefa því nafn eða nöfn í ættleiðingarleyfi í stað hinna fyrri eða til viðbótar nafni eða nöfnum sem það hefur áður hlotið.
    Þegar barn er ættleitt skal það kennt til kjörforeldris nema kjörforeldrið óski eftir að barnið haldi fyrra kenninafni sínu.
    Breyting á eiginnafni og kenninafni barns skal háð samþykki þess hafi það náð þroska til að taka afstöðu til slíkrar breytingar.
    Barn yngra en 15 ára getur með samþykki þeirra er fara með forsjá þess eða sérfræðinganefndar skv. 9. gr. laga um kynrænt sjálfræði, nr. 80/2019, breytt eiginnafni sínu og kenninafni samhliða breytingu á skráningu kyns.
    Breyting á nafni samkvæmt lögum þessum tekur ekki gildi fyrr en hún hefur verið færð í þjóðskrá.

III. KAFLI

Ritun og notkun nafna.

7. gr.

Ritun nafna í opinberum skrám.

    Á öllum opinberum skrám og öðrum opinberum gögnum skulu nöfn einstaklinga rituð eins og skráð birtingarnafn er í þjóðskrá á hverjum tíma. Með sama hætti skal tjá nafn sitt í skiptum við opinbera aðila, við samningsgerð og önnur lögskipti.

8. gr.

Breyting á ritun nafns.

    Heimilt er að breyta ritun nafns í þjóðskrá án þess að um sé að ræða eiginlega nafnbreytingu. Slík breyting á nafnritun skal fara eftir reglum sem ráðherra setur að höfðu samráði við Þjóðskrá Íslands.

IV. KAFLI

Ýmis ákvæði.

9. gr.

Dagsektir.

    Berist Þjóðskrá Íslands ekki tilkynning um nafn barns innan þess tíma sem um getur í 1. gr. skal stofnunin vekja athygli þeirra sem fara með forsjá barnsins á þessu ákvæði laganna og skora á þá að bæta þar úr án tafar. Sinni þeir ekki þessari áskorun innan eins mánaðar og tilgreini ekki gildar ástæður fyrir drætti á tilkynningu nafns er Þjóðskrá Íslands heimilt, að undangenginni ítrekaðri skriflegri áskorun, að leggja dagsektir allt að 2.000 kr. á þá sem fara með forsjá barns og falla þær á þar til Þjóðskrá Íslands hefur verið tilkynnt um nafn barns. Hámarksfjárhæð dagsekta miðast við vísitölu neysluverðs í janúar 2020 og breytist í samræmi við breytingar hennar. Við ákvörðun fjárhæðar dagsekta er heimilt að taka tillit til ástæðu vanrækslu og fjárhagsstöðu þess eða þeirra sem fara með forsjá barns.
    Innheimtar dagsektir renna til ríkissjóðs að frádregnum kostnaði við innheimtuna og má gera aðför til fullnustu þeirra.

10. gr.

Skrár yfir eiginnöfn og ný ættarnöfn í þjóðskrá.

    Þjóðskrá Íslands skal halda skrár yfir eiginnöfn og ný ættarnöfn sem skráð hafa verið í þjóðskrá. Skrárnar skulu vera aðgengilegar almenningi til upplýsinga án endurgjalds. Uppfæra skal skrárnar a.m.k. einu sinni í mánuði.

11. gr.

Kæruheimild.

    Ákvarðanir Þjóðskrár Íslands samkvæmt lögum þessum er heimilt að kæra til ráðuneytisins.
    Um kærufrest og málsmeðferð að öðru leyti fer eftir ákvæðum stjórnsýslulaga, nr. 37/1993.

12. gr.

Reglugerðarheimild.

    Ráðherra skal setja reglur um skráningu birtingarnafna, sbr. 2. mgr. 3. gr., og um breytta ritun nafna, sbr. 8. gr.
    Ráðherra er heimilt að setja í reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd laga þessara, þar á meðal um tilkynningu nafna og ritun þeirra, sbr. 1. mgr. 3. gr., og um upptöku ættarnafna, sbr. 5. gr.

13. gr.

Gildistaka.

    Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 2021.
    Við gildistöku laga þessara falla úr gildi lög um mannanöfn, nr. 45/1996, með síðari breytingum.

14. gr.

Breytingar á öðrum lögum.

    Við gildistöku laga þessara verður eftirfarandi breytingar á lögum um aukatekjur ríkissjóðs, nr. 88/1991, með síðari breytingum:
     a.      Orðin „þó ekki nafnbreytinga skv. 2. málsl. 1. mgr. 11. gr. laga nr. 45/1996, um mannanöfn“ í 26. tölul. 1. mgr. 14. gr. laganna falla brott.
     b.      38. tölul. 1. mgr. 14. gr. laganna fellur brott.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Frumvarp þetta til laga um mannanöfn er samið í dómsmálaráðuneytinu. Að samningu frumvarpsins kom einnig Skúli Guðmundsson lögfræðingur, fyrrverandi skrifstofustjóri hjá Þjóðskrá Íslands og í dómsmálaráðuneytinu. Enn fremur leitaði ráðuneytið ráðgjafar íslenskufræðinganna Aðalsteins Hákonarsonar, Ágústu Þorbergsdóttur og Jóhannesar Bjarna Sigtryggssonar. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að sett verði ný lög um mannanöfn og að samhliða falli lög um sama efni, nr. 45/1996, úr gildi. Með frumvarpinu er stefnt að því að auka til muna frelsi fólks við nafngjöf og afnema eins og mögulegt er þær takmarkanir sem felast í núgildandi löggjöf. Þannig er verið að koma til móts við þá gagnrýni sem komið hefur fram á gildandi lög um að þau feli í sér of strangar reglur og matskennd viðmið um val á nöfnum, sem hefur orðið til þess að mörgum nöfnum hefur verið hafnað af mannanafnanefnd. Enn fremur hefur verið tilgreint að landsmenn njóti ekki jafnræðis þegar kemur að upptöku ættarnafna. Þá hafa heimildir til nafnbreytinga þótt sæta of miklum takmörkunum, m. a. að einungis sé heimilt að breyta nafni sínu einu sinni nema sérstakar ástæður séu fyrir hendi. Í þessu sambandi má benda á að réttur til nafns hefur verið talinn einn mikilvægasti þáttur sjálfsmyndar og varðar fyrst og fremst einkahagi nafnbera en síður almannahag. Árum saman hefur Mannréttindadómstóll Evrópu talið að réttur manns til nafns njóti verndar 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu um friðhelgi einkalífs og verði hann aðeins takmarkaður með lagaheimild ef brýna nauðsyn ber til vegna réttinda annarra, en hliðstætt ákvæði er í 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar. Í því sambandi hefur dómstóllinn m.a. talið að við setningu laga um mannanöfn þurfi að gæta jafnvægis milli hagsmuna ríkis og borgara. Hann hefur til að mynda komist að þeirri niðurstöðu að í vissu tilviki hafi það ekki verið brot á friðhelgi einkalífs að setja lög í þeim tilgangi að vernda opinbert tungumál viðkomandi lands þar sem sú vernd varðaði réttindi og hagsmuni annarra í samfélaginu.
    Frumvarp þetta miðar að því að lög um mannanöfn hafi fyrst og fremst að geyma lágmarksákvæði um skyldu til skráningar nafna og að dregið verði úr afskiptum hins opinbera af mannanöfnum að vissu marki með hliðsjón af friðhelgi einkalífs. Þess hefur þó verið gætt við vinnslu frumvarpsins að hafa íslenska mannanafnahefð að leiðarljósi enda talið mikilvægt að henni verði við haldið eins og kostur er þó að frelsi til nafngiftar verði rýmkað. Lagt er til að heimildir til vals á eiginnöfnum verði með litlum takmörkunum en gengið er út frá því að áfram verði kenning til foreldris áberandi, sem er helsta sérstaða íslenskra laga um mannanöfn, þrátt fyrir heimild til upptöku ættarnafna.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
2.1. Forsaga að endurskoðun mannanafnalöggjafar.
    Undirbúningur að endurskoðun mannanafnalaga hefur staðið yfir í ráðuneytinu um nokkurt skeið. Í marsmánuði 2015 lagði innanríkisráðuneytið fram á vef sínum hugleiðingar sem ætlaðar voru til samráðs við almenning um hvort þörf væri á endurskoðun mannanafnalaga og um hugsanlegar breytingar á lögunum. Til umræðu og skoðanaskipta voru settir fram þrír möguleikar:
     a.      Hvorki er talin þörf á endurskoðun ákvæða mannanafnalaga um nafngjafir né störf mannanafnanefndar. Þeir almannahagsmunir sem liggja að baki ákvæðunum eru óbreyttir en í störfum mannanafnanefndar verði framvegis lögð meiri áhersla á þau sjónarmið sem fram hafa komið í dómaframkvæmd.
     b.      Rétt er talið að gera tilteknar breytingar á mannanafnalögum, m.a. út frá þeim sjónarmiðum sem fram hafa komið hjá dómstólum. Áfram verða í löggjöf reglur um nöfn og nafngjafir en þær endurskoðaðar út frá sjónarmiðum í samfélaginu í dag. Þá verður hlutverk mannanafnanefndar jafnframt endurskoðað með hliðsjón af þessu.
     c.      Rétt er talið að fella úr mannanafnalögum takmarkanir á nafngjöf og gefa þannig fullorðnum einstaklingum og foreldrum barna frelsi til að velja nöfn sín og barna sinna. Mannanafnanefnd er þá óþörf og hún því lögð niður. Rétt er að geta þess að fyrir Alþingi liggur nú frumvarp 14 þingmanna til breytinga á mannanafnalögum þar sem þessi leið er lögð til.
    Ráðuneytinu bárust 30 umsagnir. Mikill meiri hluti þeirra sem sendu inn umsagnir var meðmæltur síðasta möguleikanum og taldi þörf á auknu frelsi einstaklinga til nafngjafa. Í framhaldinu fór ráðuneytið í víðtækara samráð í samstarfi við Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands þar sem leitast var við að kanna nánar skoðanir fólks til breytinga á lögum um mannanöfn. Gerð var könnun sem náði til 1.437 einstaklinga, 18 ára og eldri, og svöruðu 873 eða 61%. Í könnuninni var spurt:
     a.      Ert þú fylgjandi eða andvíg(ur) því að núgildandi reglur um mannanöfn verði rýmkaðar?
     b.      Að hve miklu leyti telur þú að reglur um mannanöfn eigi að vera rýmkaðar?
    Þá voru þátttakendur beðnir að nefna dæmi um hvaða reglur ættu að gilda um mannanöfn á Íslandi.
    Niðurstöður könnunarinnar leiddu í ljós að meiri hluti þátttakenda, eða 60% svarenda, vildi að reglur um mannanöfn yrðu rýmkaðar. Þá töldu 24% svarenda að engar reglur ættu að gilda um mannanöfn en 76% að einhverjar reglur ættu að gilda en höfðu mismunandi skoðanir á því hversu strangar þær ættu að vera. Sem dæmi um hvaða reglur ættu að gilda um mannanöfn nefndu flestir að ekki ætti að heimila nöfn sem gætu orðið barni til ama og næst flestir nefndu að þörf væri á reglum um íslenskar málvenjur og fallbeygingu nafna. Í júní árið 2016 kallaði innanríkisráðuneytið síðan eftir samráði á vef ráðuneytisins um drög að frumvarpi til breytinga á mannanafnalöggjöf. Gerði frumvarpið ráð fyrir að lög um mannanöfn yrðu felld brott en að lágmarksákvæði um skyldu til nafngjafar, form og skráningu nafna í þjóðskrá og um nafnbreytingar yrðu felld inn í lög um þjóðskrá og almannaskráningu (þau lög voru felld brott með lögum um skráningu einstaklinga, nr. 140/2019). Fjöldi umsagna barst um frumvarpsdrögin og er inntak flestra þeirra á þann veg að talin væri þörf á rýmri reglum um skráningu nafna.
    Á haustmánuðum árið 2019 ákvað dómsmálaráðherra að vinnu við endurskoðun laga um mannanöfn skyldi fram haldið. Voru áform um að leggja fram frumvarp til laga um mannanöfn með það að markmiði að rýmka heimildir til skráningar nafna og kenninafna kynnt öðrum ráðuneytum og lögð fram í samráðsgátt Stjórnarráðsins á vefnum Island.is, 29. nóvember – 13. desember 2019 (mál nr. S-297/2019) og almenningi gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Alls bárust sjö umsagnir. Benda flestar þeirra til að almennt sé talin þörf á að rýmka reglur um mannanöfn. Af öllum þeim umsögnum sem sendar hafa verið ráðuneytinu um breytingu á lögum um mannanöfn má þó greina að skiptar skoðanir eru um það hversu langt eigi að ganga í þeim efnum.

2.2. Þróun löggjafar um mannanöfn.
    Heildarlöggjöf um mannanöfn var fyrst sett hér á landi með lögum nr. 41/1913 og öðluðust þau gildi 1. janúar 1914. Lög nr. 54/1925 leystu þau af hólmi og giltu allt til þess er lög um mannanöfn, nr. 37/1991, tóku við. Í millitíðinni voru þrisvar lögð fram stjórnarfrumvörp til nýrra laga um mannanöfn, á 75. löggjafarþingi árið 1955 (85. mál) og tvívegis árið 1971, á 91. löggjafarþingi (308. mál) og á 92. löggjafarþingi (34. mál), en frumvörpin náðu ekki fram að ganga. Lögin frá 1991 þóttu mjög til bóta. Kynjamisrétti eldri laga þótti að mestu útrýmt, m.a. þar sem heimilað var að ættarnöfn gengju einnig í kvenlegg. Með lögunum var komið á ákveðinni festu, sem ekki hafði verið til staðar áður, en um langa hríð hafði ekki verið farið nákvæmlega að eldri lögum. Hins vegar þóttu lögin helst til ströng þegar á reyndi, ekki síst ákvæði um eiginnöfn, sem byggðust að miklu leyti á fyrrgreindum frumvörpum frá árunum 1955 og 1971. Ákvæði um mannanafnanefnd komu fyrst í lög nr. 37/1991 en hún hefur m.a. það hlutverk að semja mannanafnaskrá og skera úr álita- og ágreiningsmálum sem upp kunna að koma um nafngjafir og nafnritun. Fram að þeim tíma var það hlutverk presta að hafa eftirlit með að reglum laganna um nafngift væri fylgt. Ef ágreiningur reis um nafn var það hlutverk heimspekideildar Háskóla Íslands að skera úr.
    Núgildandi lög um mannanöfn, nr. 45/1996, tóku við af lögum nr. 37/1991. Í greinargerð með frumvarpi að lögunum sem lagt var fram á 120. löggjafarþingi (73. mál) kemur fram að brýnt þyki að unnið sé að varðveislu íslenska mannanafnaforðans og íslenskra nafnasiða en hins vegar sé álitið farsælla að vinna að því markmiði með fræðslu og áróðri en með lögboði. Nafn manns sé einn mikilvægasti þáttur sjálfsmyndar hans og varði fyrst og fremst einkahagi hans en síður almannahag. Réttur foreldra til að ráða nafni barns hljóti að vera ríkur en réttur löggjafans til afskipta af nafngjöfum að sama skapi takmarkaður. Sumir nafnsiðir séu þó þess eðlis að þeir snerti ekki síður veigamikla hagsmuni samfélagsins en einkahagi manna og sé réttur löggjafans til afskipta af þeim þá meiri en ella. Sú nefnd sem samdi frumvarpið liti svo á að þetta ætti einkum við um íslenska kenninafnasiðinn. Með lögum nr. 45/1996 var stefnt að því markmiði að auka frelsi í nafngiftum, einkum með því að heimila aðlöguð erlend nöfn, jafnvel þótt þau styddust ekki við hefð í íslensku máli. Einnig var með lögunum heimilað að taka upp millinafn, en með því var reynt að draga úr notkun ættarnafna sem kenninafna og stuðla að því að þau yrðu fremur notuð sem millinöfn. Reynt var að jafna rétt manna eftir því sem kostur var, m.a. með því að auka rétt erlendra manna sem gerast íslenskir ríkisborgarar til að halda nafni sínu. Í gildandi lögum er kveðið á um framkvæmd nafngjafar og rétt og skyldu forsjármanna til að gefa börnum sínum nöfn. Ákvæði eru um frest til þess að gefa barni nafn og sett skilyrði um eiginnöfn og kenninöfn. Þar á meðal eru takmörk á fjölda nafna og reglur sem nöfn þurfa að uppfylla út frá hefðum og reglum íslensks máls. Ákvæði er um að óheimilt sé að taka upp nýtt ættarnafn hér á landi og að skráð ættarnöfn njóti sérstakrar verndar. Reglur eru um skráningu og notkun nafna og nafnbreytingar og um nafnrétt útlendinga sem gerast íslenskir ríkisborgarar og þeirra sem hafa erlent ríkisfang en eru búsettir hér á landi. Ákvæði eru um mannanafnanefnd og mannanafnaskrá.
    Þess má geta að sú breyting var gerð á gildandi lögum um mannanöfn með lögum um kynrænt sjálfræði, nr. 80/2019, að fellt var brott það ákvæði úr lögunum að stúlkum skuli gefa kvenmannsnafn og drengjum karlmannsnafn. Þá var einstaklingi sem hefur hlutlausa kynskráningu í þjóðskrá heimilað að nota nafn föður eða móður í eignarfalli sem kenninafn án viðbótarinnar -son, -dóttir eða -bur en síðastnefnda endingin á kenninafni var heimiluð með sömu löggjöf. Sömuleiðis voru reglur um nafnbreytingu samhliða breytingu á skráningu kyns í þjóðskrá rýmkaðar.

2.3. Ættarnöfn.
    Réttur til að bera ættarnöfn er mjög takmarkaður samkvæmt gildandi lögum um mannanöfn. Óheimilt er að taka upp nýtt ættarnafn hér á landi skv. 7. mgr. 8. gr. laga nr. 45/1996. Hins vegar er þeim sem fengið höfðu skráð ættarnöfn í þjóðskrá fram að gildistöku laga nr. 37/1991 heimilt að bera þau áfram sem og niðjum þeirra.
    Með fyrstu lögum hér á landi um mannanöfn var þegnum landsins í fyrsta skipti löglega heimilt, með konunglegu leyfisbréfi, að taka ættarnöfn. Lögin voru nr. 41/1913 og tóku almennt gildi 1. janúar 1914. Aftur á móti hafði, fyrir gildistöku framangreindra laga, tíðkast einkum meðal velmegandi landsmanna að taka upp ættarnöfn án löglegrar heimildar. Þessum mönnum var gert mögulegt að tilkynna Stjórnarráðinu ættarnöfn sín fyrir 1. janúar 1915 og fá þá útgefið leyfisbréf konungs til notkunar ættarnafnsins. Þetta gerðu 12 manns og komu þá, samkvæmt lögunum, í veg fyrir að aðrir gætu tekið upp þessi ættarnöfn eftir 1. janúar 1915. Fyrir þessi leyfisbréf greiddu menn 2 kr. Þá má spyrja hversu hátt 2 kr. gjald var miðað við laun fyrir almenna verkamannavinnu á þessum tíma. Á vefsíðu Hagstofu Íslands má sjá að við útreikninga frá þessu tímabili hafi Hagstofan einkum notast við kauptaxta Verkamannafélagsins Dagsbrúnar í Reykjavík. Þá var í gildi hjá félaginu einn kauptaxti og ekki greint á milli lágmarkstímakaups eða tímavinnukaups fyrir almenna verkamannavinnu í bænum. Samkvæmt þessum útreikningum hefði verkamaður fengið 0,38 kr. fyrir dagsverkið og hefði þá verið rúma fimm daga að vinna fyrir leyfisbréfi. Að vísu hefði honum ekki staðið til boða að greiða 2. kr. fyrir leyfisbréfið, því þann rétt höfðu einungis þeir örfáu sem höfðu tekið sér ættarnafn fyrir gildistöku mannanafnalaganna 1913. Aftur á móti stóð verkamanninum til boða frá 1915 að greiða 10 kr. fyrir leyfisbréf og hefði hann þá verið um það bil 27 daga að vinna fyrir því.
    Á árabilinu frá 1. janúar 1915 og fram til gildistöku nýrra laga um mannanöfn nr. 54/1925 var mönnum heimilt að taka upp ættarnöfn og svokölluð kenningarnöfn. Fyrir þessi nöfn urðu menn að greiða 10 kr. Ættarnöfnin voru, eins og almennt er í öðrum löndum, ætluð til að ganga til niðja þess sem tók það upp. Kenningarnöfn voru einungis ætluð nafnbera einum sem viðbót við eiginnafn og föðurnafn og líktust ættarnöfnum. Þess má geta að einungis einn maður tók upp kenningarnafn fyrir sig og annar maður tók upp kenningarnöfn fyrir börn sín, sem voru fuglaheiti.
    Samkvæmt lögunum frá 1913 skyldi Stjórnarráðið láta semja og gefa út leiðbeiningar um orð og heiti sem fallin þóttu til að hafa að ættarnöfnum. Á árabilinu frá 1915 til 1925 tóku fjölmargir upp ættarnöfn með konunglegu leyfisbréfi. Árlega gaf Stjórnarráðið út skrá yfir ættarnöfn sem tekin höfðu verið upp það árið. Þegar flett er í þessari ættarnafnaskrá Stjórnarráðsins kemur í ljós að á fyrstu árunum enda mörg nafnanna á -dal, -fjörð, -berg, -stað, -lín, -land, -holt, -sen, -fell og -fells, svo einhver dæmi séu tekin. Snemma fór þó að bera á tilhneigingu manna til að gera eiginnöfn í eignarfalli að ættarnöfnum, t.d. Alberts, Arnljóts, Ásgríms, Baldurs, Baldvins, Guðjóns, Hallgríms, Hinriks, Kolbeins, Kristmanns, Ólafs, Reynis, Sveins, Stefáns og Þorsteins. Aðrir héldu sig við kenninafn föður sem ættarnafn en slepptu þá öðru s-inu og rituðu þá kenninöfn sín, t.d. Albertson, Björnson, Einarson, Ólafson og Þorsteinson. Þá fór að bera á því að hefðbundið kenninafn væri gert að ættarnafni, t.d. Benediktsson, Björnsson, Eiríksson, Halldórsson, Hallgrímsson, Jónasson, Sigurðsson, Snorrason, Sveinsson, Sveinbjörnsson og Þórðarson. Enn fremur voru dæmi þess að fleiri en einn fengju að taka upp sama ættarnafnið, t.d. Árdal, Björnsson, Gröndal, Viðar og Valfells (ef til vill var hér um systkini að ræða). Þá voru allmörg nöfn sem í dag eru almenn eiginnöfn tekin upp sem ættarnöfn, t.d. Arnar, Heiðar, Vignir og Þór.
    Með lögum um mannanöfn frá árinu 1925 var upptaka nýrra ættarnafna bönnuð. Aftur á móti var í þessum lögum þeim gert heimilt, sem tekið höfðu upp ættarnöfn án konunglegrar heimildar fyrir gildistöku laganna frá 1913 en höfðu aflað sér slíks leyfis fyrir 1. janúar 1915, að bera þessi ættarnöfn til sinna niðja. Þeir sem fengu konunglegt leyfisbréf eftir 1. janúar 1915 fram að lögunum 1925 áttu einungis að geta borið ættarnafnið sjálfir og börn þeirra en sem sagt ekki frekari niðjar.
    Við gildistöku mannanafnalaganna 1925 var engin allsherjar almannaskráning hér á landi og því ekkert almennt stjórnvald til staðar til þess að fylgjast með og skrá og taka afstöðu til nafna manna í samfélaginu. Því gat hver og einn hagað framsetningu nafna sinna að eigin vild. Þekkt er dæmi úr dagblaði um mann sem bar ættarnafn, samkvæmt lögunum frá 1913, þar sem hann vekur athygli annarra manna á rétti sínum til ættarnafnsins og bannar öðrum notkun þess, að viðlögðum aðgerðum.
    Þegar þjóðskrá var komið á stofn með lögum, sem tóku gildi árið 1953, var tekið allsherjarmanntal í landinu 16. október 1952. Þetta manntal og annað manntal frá 1950 varð stofninn að svokallaðri allsherjar almannaskráningu þjóðskrár, sem nú er haldið úti af Þjóðskrá Íslands. Við gerð fyrstu almannaskráningarinnar kom í ljós að íbúar landsins gáfu upp alls konar eiginnöfn, kenninöfn og ættarnöfn. Engin tök voru á því að sannreyna rétt manna til m.a. ýmissa ættarnafna sem þeir sögðust bera og hefðu borið lengi.
    Þegar horfði til þess að ný lög um mannanöfn yrðu sett á árinu 1991 þurfti m.a. að taka afstöðu til þess hvað gera skyldi við ættarnöfn sem tekin höfðu verið upp á árabilinu frá 1925 til 1991. Ekki þótti gerlegt, með ýmsum rökum, að meina mönnum notkun þeirra áfram. Á sama tíma lá fyrir að ógerningur var að sjá af sumum ættarnöfnum, sem fengin voru með konunglegu leyfisbréfi, hvort þau væru almenn kenninöfn margra manna eða eignarfall af eiginnafni sem margir báru. Því var lagt til við lagasetninguna að hrófla ekki við notkun manna almennt á ættarnöfnum, sem skráð höfðu verið í þjóðskrá, hvort sem þau hefðu verið tekin upp með formlegum hætti eða ekki. Þetta helgaðist einnig af því að fyrir lá að ný ættarnöfn yrði ekki heimilt að taka upp með þessum lögum.
    Ýmsir hafa gagnrýnt að heimild til upptöku ættarnafna sé bundin við tiltekna þegna landsins eftir ætt og uppruna. Erlendir ríkisborgarar sem hér búa og niðjar þeirra bera flestir ættarnöfn og fái þeir íslenskt ríkisfang er þeim og börnum þeirra sömuleiðis heimilt að bera ættarnafn. Erlendum ríkisborgurum búsettum hér á landi hefur fjölgað umtalsvert á undanförnum árum og voru þann 1. janúar 2020 um 50.000 talsins af alls rúmlega 364.000 íbúum landsins, eða 13,6%, sbr. upplýsingar á vef Hagstofu Íslands. Þykir sumum það vera brot á jafnræðisreglu að mismuna fólki með þessum hætti um notkun ættarnafna. Öðrum hefur þótt núgildandi lög um mannanöfn fela í sér viðunandi málamiðlun um heimild til notkunar ættarnafna. Með lögum nr. 45/1996 var búinn til nýr flokkur nafna, svokölluð „millinöfn“, sem m.a. voru hugsuð sem ígildi ættarnafna, en komu þó hvorki í stað þeirra né kenninafna. Öllum er heimilt að taka upp millinafn en bera þarf kenninafn að auki. Að banna upptöku nýrra ættarnafna, en heimila þó áfram þau ættarnöfn sem skráð hafa verið fram að tilteknum tíma, var talið koma í veg fyrir að sá íslenski kenninafnasiður að kenna sig til foreldris myndi falla niður.
    Með frumvarpi því sem nú er lagt fram er gert ráð fyrir því að öllum verði heimilt að taka sér ættarnafn. Þá vaknar sú spurning hvort ættarnöfn þeirra sem nú bera þau í þjóðskrá verði öðrum óheimil. Er lagasetningarvaldinu óheimilt að leyfa almenna upptöku hvaða ættarnafns sem er, óháð því hvort ættarnafnið var keypt með konunglegu leyfisbréfi eða tekið upp án sérstakrar heimildar? Er hægt nú að ganga á rétt ættarnafnabera þegar sagt hefur verið við fyrri lagasetningar að ættarnöfnin megi viðkomandi ætt nota eftirleiðis? Með mannanafnalögunum frá 1925 taldi lagasetningarvaldið að hægt væri að takmarka notkun flestra ættarnafna við nafnbera sjálfan og börn hans. Aftur á móti gekk þetta ekki eftir í framkvæmd eins og að framan greinir.
    Nú er staðan sú að mörg keyptu ættarnafnanna er ómögulegt að greina frá almennum kenninöfnum eða nöfnum sem eru mynduð sem eignarfall af eiginnafni eða er almennt eiginnafn, sbr. upptalningu hér að framan. Þá er ljóst að sum þessara ættarnafna hafa fallið úr notkun. Þekkt er frá mörgum löndum að þegar ákveðinn fjöldi manna er farinn að bera sama ættarnafnið þá er öllum öðrum heimilt að taka það upp. Þá tíðkaðist áratugum saman að börnum væru gefin (oftast við skírn), sem annað eiginnafn, eitthvert ættarnafn sem skráð hafði verið með konunglegu leyfisbréfi. Gat það í sumum tilvikum verið af frændsemi við ættarnafnsberann eða af virðingu við hann, vinnusambandi eða jafnvel af engum sérstökum samskiptum eða tilefni. Þessi ættarnafnaeiginnöfn hafa svo sum hver borist á milli kynslóða í viðkomandi fjölskyldum, allt fram til loka árs 1991. Fá dæmi eru til um opinberar mótbárur eða aðgerðir þeirra sem löglega öðluðust ættarnöfn sín gegn þeim sem fóru að bera þau án sérstakrar opinberrar heimildar. Þess má geta að um áratuga skeið var annað eiginnafna manna sjaldnast sýnilegt í þjóðskrá þó svo að menn bæru þau samkvæmt kirkjubókum. Eftir að fleiri nöfn (stafir) fóru að birtast í þjóðskrá urðu þessi ættarnafnaeiginnöfn sýnilegri, án þess að það hafi kallað á sérstakar mótbárur niðja leyfisberahafans.
    Ef ættarnöfn eiga að njóta sérstakrar verndar er erfitt að sjá að hún nái til ættarnafna sem eru sams konar og almenn kenninöfn. Þrátt fyrir að þeim sem höfðu skráð ættarnöfn við gildistöku laga nr. 37/1991 hafi verið heimilað að halda þeim og þau unnið sér ákveðna hefð, sem veiti fjölskyldunni rétt til að bera þau áfram, er ekki þar með sagt að löggjafanum sé ekki heimilt að móta nýja stefnu og auka frelsi annarra til að taka upp ný ættarnöfn. Þau ættarnöfn gætu þá gengið til niðja eins og lög heimila um ættarnöfn sem nú eru skráð í þjóðskrá.
Um lista yfir birt ættarnöfn og kenningarnöfn á árabilinu 1915–1925 í Stjórnartíðindum, B-deild, vísast til meðfylgjandi fylgiskjals.

2.4. Þörf á breytingum.
    Lög um mannanöfn, nr. 45/1996, eru komin til ára sinna en þau hafa verið í gildi í tæpan aldarfjórðung. Lögin hafa sætt töluverðri gagnrýni. Snýr hún helst að áskilnaði um að nöfn megi ekki brjóta í bága við íslenskt málkerfi en einnig að þeim skilyrðum að eiginnafn skuli geta tekið íslenska eignarfallsendingu eða hafa unnið sér hefð í íslensku máli. Hefur umboðsmaður Alþingis meðal annars bent á í áliti sínu í máli nr. 4254/2004 að almennar reglur um íslenskt málkerfi hafi ekki verið lögfestar og kerfið byggi því á ólögfestum reglum sem grundvallaðar séu á hefðum. Mannanafnanefnd hefur því þurft að leggja mat á það í úrskurðum um upptöku nýrra nafna hvort ný nöfn uppfylli það skilyrði laganna að brjóta ekki í bága við íslenskt málkerfi. Þá telja sumir að lögin séu of ströng og vegi þannig að friðhelgi einkalífs og samrýmist ekki nútímasamfélagi. Ákvæði laganna um ættarnöfn sem heimila tilteknum hópi að bera ættarnöfn á grundvelli erfðaréttar og nánast á grundvelli einkaréttar viðkomandi ættar hefur mörgum einnig þótt ýta undir ójafnræði.
    Vegna fjölgunar erlendra ríkisborgara sem búsettir eru hér á landi er töluverður fjöldi erlendra nafna og ættarnafna nú skráður hér á landi meðan flestir íslenskir ríkisborgarar sem ekki eru af erlendu bergi brotnir hafa ekki heimild til að taka upp ættarnöfn eða skrá nafn sitt með erlendum bókstöfum nema í undantekningartilvikum. Hins vegar má skynja töluverðan áhuga á ættarnöfnum sem rekja má til þeirra undirtekta sem millinöfn hafa fengið eftir að þau voru heimiluð. Þá hafa beiðnir til mannanafnanefndar um upptöku nýrra nafna og ritun nafna með erlendum bókstöfum, svo og synjanir nefndarinnar á sumum þeirra beiðna, bent til þess að reglur laganna séu helst til strangar.
    Þar sem samsetning þjóðfélagsins hefur tekið miklum breytingum á þeim árum sem liðin eru frá setningu gildandi laga um mannanöfn má ef til vill segja að lögin séu barn síns tíma og hafi að nokkru leyti runnið sitt skeið. Því sé tími kominn á heildarendurskoðun löggjafarinnar. Þar sem efni frumvarpsins felur í sér víðtækar breytingar á lögum um mannanöfn var talið rétt að leggja fram ný heildarlög um mannanöfn fremur en að gera tillögu að breytingum á gildandi lögum. Við undirbúning frumvarps þessa hefur verið litið til þeirra breytinga sem orðið hafa á íslensku samfélagi frá gildistöku laga nr. 45/1996. Jafnframt var tekið tillit til úrskurða og ákvarðana mannanafnanefndar og dómaframkvæmdar.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Með frumvarpi þessu er lagt til að lögfest verði ný heildarlöggjöf um mannanöfn og samhliða falli úr gildi lög, nr. 45/1996, um sama efni. Markmiðið með frumvarpinu er að einfalda reglur um mannanöfn og afnema eins og unnt er þær takmarkanir sem eru í dag á skráningu nafna, bæði eiginnafna og kenninafna, og auka heimildir til nafnbreytinga. Með því er reynt að tryggja sem best rétt fólks til að ráða sjálft nöfnum sínum og barna sinna. Er þannig leitast við að aðlaga lögin betur að ríkjandi viðhorfum og aðstæðum í þjóðfélaginu í dag. Þá miðar frumvarpið einnig að því að jafna rétt manna til notkunar nafna en sumir telja núgildandi lög fela í sér ákveðna mismunun á rétti til nafns, einkum þegar kemur að upptöku ættarnafna. Frumvarpið gengur samt sem áður út frá því að sá siður verði enn við lýði að kenna sig til foreldris, eins og verið hefur hér á landi frá ómunatíð, þótt reglurnar verði mun rýmri en í gildandi lögum. Ákvæði um skráningu og notkun nafns verða efnislega sambærileg ákvæðum gildandi laga. Nánar tiltekið eru helstu breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu eftirfarandi:
     1.      Lagt er til að ekki verði takmörk á fjölda eiginnafna og kenninafna. Er þar komið til móts við rétt þeirra sem fara með forsjá barns til að ráða nafni þess og réttur löggjafans til afskipta af nafngjöfum þar með takmarkaður.
     2.      Börnum frá 15 ára aldri er tryggður sjálfsákvörðunarréttur þegar kemur að nafnbreytingum auk þess sem leitast er við að tryggja betur rétt yngri barna til að taka þátt í slíkri ákvörðun, í samræmi við 12. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013.
     3.      Felldar verði niður reglur um að eiginnöfn skuli geta tekið íslenska eignarfallsendingu eða hafa unnið sér hefð í íslensku máli. Einnig er fellt brott ákvæði um að nafn megi ekki brjóta í bága við íslenskt málkerfi og að það skuli ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls nema hefð sé fyrir öðrum rithætti þess. Eingöngu er gert að skilyrði að eiginnafn sé í nefnifalli og án greinis og að eiginnöfn og kenninöfn skuli auðkennd með stórum upphafsstaf. Ákvæði laganna um ritun nafns hafa sætt gagnrýni. Svo sem áður var rakið hefur umboðsmaður Alþingis bent á í áliti sínu í máli nr. 4254/2004 að almennar reglur um íslenskt málkerfi hafi ekki verið lögfestar og þegar sleppi reglum sem settar hafa verið um stafsetningu og greinarmerkjasetningu byggi íslenskt málkerfi á ólögfestum reglum sem grundvallaðar séu á hefðum. Einnig hefur verið bent á að beiting hefðarákvæðis sé vandmeðfarið enda á það sér ekki beina stoð í lögum. Ritháttur nafna hefur einmitt verið nokkuð algeng ástæða fyrir því að mannanafnanefnd hefur orðið að hafna beiðni um upptöku nýrra nafna. Sú rýmkun sem lögð er til á ritun nafna hefur auk þess í för með sér að niður falla takmarkanir á notkun erlendra nafna en kveðið er á um að nöfn skuli rita með bókstöfum íslenska nútímastafrófsins að viðbættum stöfunum c, q, w og z. Í íslenska nútímastafrófinu eru 32 eftirfarandi stafir: a, á, b, d, ð, e, é, f, g, h, i, í, j, k, l, m, n, o, ó, p, r, s, t, u, ú, v, x, y, ý, þ, æ, ö.
     4.      Það nýmæli er lagt til í frumvarpinu að heimilt verði að taka upp ný ættarnöfn en það hefur ekki verið lagalega heimilt frá setningu laga nr. 54/1925. Hins vegar er lagt til að millinöfn (nöfn sem standa á eftir eiginnafni en fyrir framan kenninafn) verði lögð niður en álitamál er um hvort upptaka þeirra hafi náð þeim tilgangi sem að var stefnt þegar þau voru lögfest. Virðist þeim að einhverju leyti hafa verið ætlað að koma í stað ættarnafna og vera einhvers konar ígildi þeirra en að notkun ættarnafna sem kenninafna myndi að sama skapi minnka. Verði ættarnöfn heimiluð er ekki lengur talin þörf á millinöfnum. Áfram er gert ráð fyrir kenningu til foreldris eins og hefð hefur verið hér á landi og er heimild til upptöku ættarnafna ekki ætlað að ganga gegn þeim aldagamla menningararfi.
     5.      Í samræmi við það markmið frumvarpsins að virða rétt einstaklingsins til að ráða sjálfur nafni sínu er lagt til að heimildir til nafnbreytinga verði víðtækari en núverandi lög kveða á um.
     6.      Þá er lagt til að hætt verði að halda mannanafnaskrá í þeirri mynd sem hún er í dag, en það er skrá yfir eiginnöfn sem teljast heimil, og hefur það verið eitt af hlutverkum mannanafnanefndar að halda utan um þá skrá. Hins vegar er gert ráð fyrir að Þjóðskrá Íslands haldi skrár yfir þau eiginnöfn sem skráð hafa verið í þjóðskrá og yfir ný ættarnöfn sem kunna að verða tekin upp verði frumvarp þetta að lögum og að þær skrár verði aðgengilegar almenningi án endurgjalds. Skrárnar verði eingöngu til upplýsingar. Lagt er til að mannanafnanefnd verði lögð niður. Sú breyting leiðir af þeim víðtæku breytingum sem frumvarpið felur í sér en telja verður að mun minni þörf verði fyrir aðkomu nefndar að skráningu nafna verði frumvarpið að lögum þar sem skráning þeirra verður háð óverulegum takmörkunum. Hins vegar er mikilvægt að unnt verði að úrskurða á stjórnsýslustigi í ágreiningsmálum sem upp kunna að koma um nafngiftir. Í ljósi þess að lagt er til í frumvarpinu að felldar verði brott allflestar reglur núgildandi laga um heimildir til skráningar nafns verður að gera ráð fyrir að mun færri mál sæti kæru af þessu tilefni en verið hefur. Er gengið út frá því í frumvarpinu að úrskurðir um þau álitamál verði hjá ráðuneytinu.
     7.      Lögð er til sú breyting að tilkynning til Þjóðskrár Íslands um nafn barns verði eingöngu á ábyrgð þeirra sem fara með forsjá barns en horfið verði frá því fyrirkomulagi að prestar þjóðkirkjunnar og prestar eða forstöðumenn skráðra trúfélaga og lífsskoðunarfélaga tilkynni um nafn barns sem því er gefið við skírn eða sérstaka athöfn.
     8.      Ákvæði um að stúlkum skuli gefa kvenmannsnafn og drengjum karlmannsnafn hefur þegar verið fellt úr lögunum með lögum um kynrænt sjálfræði, nr. 80/2019, og er ekki lögð til breyting á því.
     9.      Áfram er lagt til að nafn megi ekki vera nafnbera til ama en það byggir meðal annars á umsögnum Barnaverndarstofu og umboðsmanns barna um frumvörp til laga um mannanöfn sem lögð voru fram af þingmönnum á 148. löggjafarþingi (þskj. 150, 83. mál) og 149. löggjafarþingi (þskj. 9, 9. mál), þar sem lagt var til að ákvæðið félli brott. Var bent á að nauðsynlegt væri að hafa eftirlit með nafngiftum barna. Um mikilvæga hagsmuni barns væri að ræða og vanlíðan vegna nafns gæti haft neikvæð áhrif á sjálfsmynd þess. Sambærileg ákvæði eru í löggjöf allra hinna Norðurlandanna um mannanöfn. Í umsögnunum er einnig vísað til þeirrar skyldu löggjafans að tryggja börnum þá vernd sem velferð þeirra krefst, sbr. 3. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar og sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Í 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar segir að allir skuli njóta friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu. Skv. 3. mgr. sömu greinar má, þrátt fyrir ákvæði 1. mgr., með sérstakri lagaheimild takmarka á annan hátt friðhelgi einkalífs, heimilis eða fjölskyldu ef brýna nauðsyn ber til vegna réttinda annarra. Í íslenskum rétti hefur verið talið að réttur manns til nafns falli undir ákvæði 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar enda sé þar um mikilvæg persónuleg réttindi að ræða. Þá hefur Mannréttindadómstóll Evrópu (MDE) viðurkennt í dómaframkvæmd sinni að rétturinn til nafns falli undir 1. mgr. 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem er efnislega samhljóða 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar. Telur dómurinn það á hinn bóginn geta þjónað hagsmunum samfélagsins að ríki geti stjórnað vali á nöfnum innan hvers ríkis, (sbr. dóm MDE í máli Salonen gegn Finnlandi frá 2. júlí 1997, nr. 27868/95, dóm MDE í máli Johansson gegn Finnlandi frá 6. september 2007, nr. 10163/02 og dóm MDE í máli Mentzen gegn Lettlandi frá 7. desember 2004, nr. 71074/01). Í síðastnefnda málinu komst dómstóllin að þeirri niðurstöðu að ríki hafi verið heimilt að skylda konu til að breyta nafni sínu þar sem það var gert til að vernda tungumál landsins. Dómstóllinn taldi sem sagt í því tilviki að ekki væri um brot á friðhelgi einkalífs að ræða þar sem réttlætanlegt hefði verið að vernda opinbert tungumál viðkomandi lands þar sem sú vernd varðaði réttindi og hagsmuni annarra í samfélaginu. Af þessum dómum má ráða að til að mynda sé heimilt að vera með ákvæði í löggjöf til þess að verja hagsmuni barna gegn því að hljóta nafn sem geti valdið þeim erfiðleikum. Dómstóllinn telur þannig að lög um mannanöfn þjóni hagsmunum samfélagsins. Að mati dómstólsins hafa ríki einnig mikið svigrúm til lagasetningar á þessu sviði en ákvarðanir um mannanöfn þurfi hins vegar að uppfylla skilyrði þess að jafnvægi sé milli hagsmuna ríkisins og borgara. Mannréttindadómstóllinn gerir þannig ekki athugasemdir við það að ríki setji lög sem stjórni því hvaða nöfn borgarar geti tekið sér. Nefnir dómstóllinn í dómum sínum að ríkin hafi svigrúm til að ákveða á hvaða hátt þetta skuli gert og gerir dómstóllinn ekki athugasemdir við framkvæmd hvers ríkis við þá ákvörðun. Dómstóllinn kannar hins vegar þann rökstuðning sem liggur að baki hverri ákvörðun og fer gaumgæfilega yfir að gætt sé jafnvægis milli hagsmuna borgara og ríkis við slíka ákvörðun hverju sinni.
    Í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur sem kveðinn var upp 31. janúar 2013, nr. E-721/2012, og fjallaði um rétt stúlku til að bera nafn sem skráð var sem karlmannsnafn (nafnið Blær) byggði dómurinn á því að réttur manns til nafns félli undir vernd ákvæðis stjórnarskrárinnar um friðhelgi einkalífs. Því til stuðnings var vísað í dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu. Dóminum var ekki skotið til Hæstaréttar Íslands. Af niðurstöðu dómsins, sem heimilaði stúlku að taka upp nafn sem skráð var sem karlmannsnafn, má sjá að dómurinn taldi í því einstaka máli að skilyrði 71. gr. stjórnarskrárinnar hafi ekki verið uppfyllt, hagsmunir samfélagsins væru ekki ríkari en hagsmunir einstaklingsins í þessu tilviki. Þannig hafi ekki verið réttlætanlegt á grundvelli 3. mgr. 71. gr. að skerða rétt stefnanda til að bera framangreint nafn. Þá taldi dómurinn að heimildir mannanafnanefndar til að hafna nafngift skyldu skýrðar þröngt.
    Talið er að frumvarp það sem hér er lagt fram sé til samræmis við framangreind mannréttindaákvæði og að jafnræðis hafi verð gætt milli hagsmuna ríkis og borgara við samningu þess. Frumvarpið er einnig talið vera í samræmi við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013, þar sem leitast er við að tryggja betur að virtur sé réttur barna til þátttöku áður en nafni þeirra er breytt, sbr. 12. gr. sáttmálans. Að öðru leyti vekur frumvarpið ekki upp spurningar er varða stjórnarskrá eða alþjóðlegar skuldbindingar.

5. Samráð.
    Vinna við endurskoðun mannanafnalaga á sér nokkurn aðdraganda, sbr. nánar 2. kafla í greinargerð með frumvarpi þessu um tilefni og nauðsyn lagasetningar. Árið 2015 var meðal annars haft samráð við almenning á vef innanríkisráðuneytisins um hugsanlegar breytingar á lögum um mannanöfn. Víðtækara samráð fór síðan fram árið 2016 í samstarfi við Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands og drög að frumvarpi voru í kjölfarið kynnt á vef innanríkisráðuneytisins sama ár. Þær athugasemdir og ábendingar sem þá komu fram sýndu að þörf væri á breytingum á löggjöf um mannanöfn. Þá má nefna að nokkur þingmannafrumvörp um breytingu á löggjöf um mannanöfn hafa verið lögð fram á Alþingi á undanförnum árum: á 133. löggjafarþingi (þskj. 362, 339. mál), á 144. löggjafarþingi (þskj. 523, 389. mál), á 148. löggjafarþingi (þskj. 150, 83. mál) og á 149. löggjafarþingi (þskj. 9, 9. mál). Umsagnir sem sendar hafa verið allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis vegna þeirra frumvarpa gefa til kynna svipaða niðurstöðu. Mismunandi skoðanir komu þó fram í könnunum og umsögnum um fyrirhugaðar breytingar á löggjöf um mannanöfn um það hversu miklar breytingar ætti að gera á löggjöfinni og hvort viðamiklar breytingar muni ógna íslenskum nafnahefðum. Á haustmánuðum 2019 var fram haldið vinnu við breytingar á löggjöfinni. Áform að frumvarpi því sem nú er lagt fram voru kynnt í samráðsgátt stjórnvalda í lok árs 2019 á vefnum Island.is (mál nr. S-297/2019). Umsagnir sem sendar voru vegna þeirra breytinga sem þar voru kynntar bentu flestar til þess að þörf væri á að rýmka reglur um mannanöfn. Í framhaldi af því hófst vinna við samningu frumvarps þessa. Þar sem Þjóðskrá Íslands fer með skráningar á nöfnum fólks hér á landi, og aðkoma stofnunarinnar að málaflokknum því víðtæk, var aflað upplýsinga frá stofnuninni og einnig litið til athugasemda sem hún veitti innanríkisráðuneytinu við vinnslu áðurnefnds frumvarps sem lagt var fram á vef ráðuneytisins árið 2016. Enn fremur leitaði ráðuneytið ráðgjafar hjá nokkrum sérfræðingum í íslensku máli sem sýnt hafa málefnum er varða mannanöfn áhuga á undanförnum áratugum, svo sem fram kemur í inngangi að greinargerð þessari. Drög að frumvarpinu voru birt í samráðsgátt stjórnvalda á vefnum Island.is (mál nr. S-48/2020) frá 25. febrúar til 5. mars 2020 og almenningi gefinn kostur á að leggja fram athugasemdir og ábendingar. Alls bárust sjö umsagnir frá einstaklingum. Þær voru almennt jákvæðar gagnvart þeirri rýmkun löggjafarinnar að leggja sem minnstar hömlur á val á nöfnum og skráningu þeirra. Einhverjir töldu þó óþarft að vernda áður upptekin ættarnöfn þar sem það færi gegn jafnræðisreglu og að mörg þeirra ættarnafna sem nú væru í notkun hefðu verið tekin upp á veikum grunni. Ein umsögn vísaði hins vegar til þess að upptaka ættarnafna myndi með tímanum ryðja burt þeirri aldagömlu hefð að kenna börn til foreldris og var því lagst gegn upptöku ættarnafna. Þá bárust athugasemdir um að ákvæði þess efnis að ekki megi afbaka hefðbundinn rithátt nafna væri óþarft og erfitt gæti verið að framfylgja því. Ein ábending var um að frumvarpið styddi ekki nægilega við íslenska tungu og mannanafnahefð og að nauðsynlegt væri að bæta þar úr. Jafnframt var því velt upp hvort ekki væri eðlilegra að áfram væri til mannanafnanefnd eða hliðstætt stjórnvald sem annaðist ráðgjöf um val á nöfnum, einkum við nafngjöf barna.
    Ráðuneytið hefur farið yfir þær umsagnir og ábendingar sem bárust um frumvarpsdrögin, þar á meðal frá Þjóðskrá Íslands. Tekið hefur verið tillit til ábendinga varðandi jafnræði við upptöku ættarnafna. Þá hefur verið reynt að skilgreina betur hvernig nöfn skuli mynduð, bæði hvað varðar íslenskt mál og ritun þess. Enn fremur hefur verið reynt að útskýra betur í athugasemdum með frumvarpinu hvað felist í afbökun nafna, svo sem hvernig röðun stafa er í upphafi nafns, miðju þess og endi, þannig að unnt sé að bera nafnið fram í íslensku. Um ráðgjöf varðandi ritun nafna er áfram gert ráð fyrir því í frumvarpinu að telji Þjóðskrá Íslands leika vafa á því hvernig nafn skuli ritað þá geti hún leitað ráðgjafar Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum (Árnastofnunar). Hins vegar hefur sú breyting verið gerð á frumvarpinu að Þjóðskrá Íslands geti óskað álits umboðsmanns barna í stað Árnastofnunar vakni spurningar um hvort nafn geti verið barni til ama eða sé bersýnilega óviðeigandi sem nafn.

6. Mat á áhrifum.
    Efni frumvarpsins snertir alla einstaklinga sem skráðir eru hér á landi í þjóðskrá. Verði frumvarpið að lögum eykur það til muna frelsi einstaklinga til að velja sér og börnum sínum eiginnöfn og kenninöfn og frelsi til að breyta nöfnum verður víðtækara en nú er. Einnig er sjálfsákvörðunarréttur barna betur tryggður með frumvarpinu og réttur yngri barna til að taka þátt í breytingum á nafni sínu.
    Ekki er hægt að segja fyrir um hvort heimild til upptöku ættarnafna á ný komi til með að breyta hinni íslensku mannanafnahefð að kenna sig til foreldris. Á þeim rúmlega tíu árum sem heimilt var að taka upp ættarnöfn með formlegu leyfi er ekki hægt að sjá að það hafi kollvarpað kenninafnasið þjóðarinnar. Spurning er hvort þeirri menningarhefð sé meiri hætta búin nú rúmlega öld síðar. Tíminn einn getur leitt það í ljós. Með svipuðum hætti má velta fyrir sér hvort rýmri heimildir til ritunar nafna muni ryðja úr vegi þeim rithætti sem tíðkast nú á dögum. Þá virðist notkun á nöfnum með bókstöfunum c, w og z ekki hafa orðið til þess að draga úr notkun á hefðbundnum íslenskum nöfnum sem einungis byggja á íslenska nútímastafrófinu.
    Gera má ráð fyrir að breytingar þær sem frumvarpið felur í sér leiði til þess að ágreiningsmálum og dómsmálum um mannanöfn fækki til muna en að sama skapi gæti beiðnum til Þjóðskrár Íslands um nafnbreytingar fjölgað. Hins vegar mun vinna Þjóðskrár Íslands er tengst hefur verkefnum mannanafnanefndar falla niður samhliða niðurlagningu þeirrar nefndar en þess í stað verður stofnuninni falið það verkefni að halda skrár um mannanöfn.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum er því ekki gert ráð fyrir að lögfesting þess hafi fjárhagsleg áhrif á ríkissjóð né sveitarfélögin sem nokkru nemur. Aðlögun þjóðskrárkerfis Þjóðskrár Íslands rúmast innan fjárhagsramma málaflokks um Hagskýrslugerð, grunnskrár og upplýsingamál.
    Ekki er gert ráð fyrir að frumvarpið hafi áhrif á jafnrétti eða stöðu kynjanna.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Í þessari grein er kveðið á um að öllum sé skylt að bera að minnsta kosti eitt eiginnafn og eitt kenninafn. Eiginnafn er það nafn sem einstaklingur er nefndur og er ekki millinafn eða kenninafn, þar á meðal ættarnafn. Eiginnafn kemur alltaf á undan kenninafni og eftir atvikum millinafni ef því er að skipta. Kenninafn er það sem í töluðu máli er gjarnan nefnt eftirnafn og getur annað hvort verið kenning til foreldris eða ættarnafn, en í einstaka tilvikum getur kenning verið til annars einstaklings. Millinöfn voru fyrst heimiluð með lögfestingu gildandi laga um mannanöfn og eru að jafnaði í eðli sínu ígildi ættarnafna en koma ekki í stað kenninafna. Hins vegar getur sá sem á rétt á að bera ættarnafn borið það sem millinafn en því til viðbótar þarf þá að bera kenninafn sem er kenning til foreldris. Millinafn getur verið borið af báðum kynjum eins og ættarnafn. Millinafn kemur alltaf á eftir eiginnafni eða eiginnöfnum og á undan kenninafni. Sú breyting er gerð frá gildandi lögum að lagt er til að millinöfn verði felld niður. Í ljósi þess að frumvarp þetta felur í sér mun meira frjálsræði við val á eiginnöfnum og kenninöfnum en núgildandi lög er ekki talin þörf á þessum flokki nafna, enda hefur borið nokkuð á því að fólk hefur ýmist talið þau vera eiginnöfn eða ættarnöfn. Þeir sem tekið hafa upp millinafn í gildistíð laga nr. 45/1996 eiga hins vegar rétt á að bera það áfram en geta m.a. breytt því í ættarnafn eða eiginnafn eftir atvikum. Búast má við því að einhverjir nýti rétt sinn til þess að breyta millinafni sínu í ættarnafn því í tíð gildandi laga var upptaka nýs ættarnafns óheimil og þar með óhjákvæmilegt annað en að taka nafnið upp sem millinafn í stað ættarnafns sem oft á tíðum var raunverulegur vilji viðkomandi. Ákvæði 1. gr. gerir einnig ráð fyrir þeirri breytingu að ekki verður takmörkun á fjölda eiginnafna sem einstaklingur getur borið, eins og nú er, en í lögum í dag er kveðið á um að eiginnöfn megi ekki vera fleiri en þrjú og að eiginnafn og millinafn megi aldrei vera fleiri en þrjú samtals. Samkvæmt frumvarpinu er einnig gert ráð fyrir að fjöldi kenninafna verði án takmarkana.
    Skylda til að gefa barni nafn innan sex mánaða frá fæðingu þess er óbreytt frá ákvæði 1. mgr. 2. gr. laga um mannanöfn, nr. 45/1996. Sambærilegt ákvæði er í mannanafnalöggjöf hinna Norðurlandanna, þó þannig að í Svíþjóð er fresturinn þrír mánuðir.

Um 2. gr.

    Í 1. mgr. er tilgreint að þeir sem fara með forsjá barns séu einir ábyrgir fyrir því að Þjóðskrá Íslands sé tilkynnt um eiginnafn eða eiginnöfn barns og einnig hvernig skrá skuli kenninafn þess eða kenninöfn. Ef tveir fara með forsjá verða þeir báðir að koma að tilkynningunni. Samkvæmt þessu öðlast barn formlega nafn með tilkynningu til Þjóðskrár Íslands. Tilkynningar til Þjóðskrár Íslands eru að jafnaði á rafrænu formi á vef stofnunarinnar, skra.is. Í þessu felst sú breyting að horfið er frá því að prestar þjóðkirkjunnar og prestar eða forstöðumenn skráðra trúfélaga eða lífsskoðunarfélaga, eða einstaklingar sem starfa í umboði þeirra, fari með það hlutverk gagnvart Þjóðskrá Íslands að tilkynna um nafn barnsins, svo sem nú er kveðið á um í 2. mgr. 2. gr. laga um mannanöfn. Þó barn sé skírt í þjóðkirkjunni eða því gefið nafn við skírn eða við athöfn hjá skráðu trúfélagi eða lífsskoðunarfélagi verður það samt á ábyrgð þeirra sem fara með forsjá að tilkynna nafnið til Þjóðskrár Íslands og ekki verður tekið við tilkynningum frá prestum þjóðkirkjunnar eða prestum og forstöðumönnum skráðra trúfélaga og lífsskoðunarfélaga. Sú staða kann að koma upp að leggja þurfi fram skírnarvottorð, svo sem við tilteknar umsóknir eða skráningar í öðrum löndum. Hafi barn verið skírt í þjóðkirkjunni eða skírt hjá skráðu trúfélagi ættu þeir sem fara með forsjá að geta óskað eftir vottorði frá þjóðkirkjunni eða hlutaðeigandi félagi. Ekki verður lengur gert ráð fyrir að Þjóðskrá Íslands berist skírnarvottorð frá þjóðkirkjunni eða skráðu trúfélagi eða vottorð frá lífsskoðunarfélagi um athöfnina.
    Í 2. mgr. er ákvæði sem er efnislega samhljóða 1. mgr. 18. gr. laga nr. 45/1996. Tekið er fram að við skráningu á kenninafni barns eftir fæðingu þess skuli það kennt til foreldris eða eftir atvikum skráð með ættarnafn skv. 4. mgr. 5. gr. þar til Þjóðskrá Íslands hefur verið tilkynnt um kenninafn barns. Tilkynning um fæðingu barns berst Þjóðskrá Íslands frá heilbrigðisstofnun eða ljósmóður ef barn fæðist á Íslandi. Fæðist barn erlendis þarf að tilkynna það sérstaklega til Þjóðskrár Íslands. Ef barn er ófeðrað skal barn kennt til fyrsta eiginnafns þess sem fæðir barnið eða skráð með ættarnafn eftir því sem við á. Ef foreldrar eru í hjúskap eða skráðri sambúð skal barn á sama hátt vera kennt til þess sem ekki fæðir barnið, þar sem sú kenning er algengust.

Um 3. gr.

    Í 1. mgr. koma fram tæknileg skilyrði þess að hægt sé að skrá nafn hjá Þjóðskrá Íslands. Eru þessi skilyrði þrenns konar. Í fyrsta lagi þarf að skrá a.m.k. tvö nöfn, eitt eiginnafn og eitt kenninafn. Í öðru lagi þurfa nöfnin að vera rituð með bókstöfum íslenska nútímastafrófsins og í þriðja lagi er nauðsynlegt að hægt sé að bera þau fram í íslensku, sbr. nánari umfjöllun um þessa grein. Íslenskt nútímastafróf með 36 stöfum er tilgreint í staðlinum ÍST 130:2004 (aðgengilegur á vef Staðlaráðs Íslands). Honum fylgir sú athugasemd að stafrófið sé stundum nefnt íslenskt nútímastafróf með viðauka, þar sem viðaukinn er stafirnir c, q, w og z. Ef viðaukinn er undanskilinn hefur stafrófið 32 stafi en ekki 36. Nöfn verða því hvorki skráð með annars konar letri eða öðrum bókstöfum og ekki er gert ráð fyrir að nafn sé skráð með stökum bókstöfum, tölustöfum, greinarmerkjum eða öðrum táknum. Táknin @ eða % gætu t.d. ekki verið nafn eða hluti nafns. Þó getur verið heimilt að tengja tvö kenninöfn með bandstriki en ekki með orðinu og. Þeir sem nýta sér þá heimild eru þar með að breyta tveimur kenninöfnum í eitt kenninafn sem raðast þá í stafrófsröð kenninafna eftir fyrri hluta kenninafnsins. Ekki er heldur gert ráð fyrir að titill eða námsgráða séu hluti af nafni eða að nafn beri með sér aðgreiningu innan fjölskyldu í beinan legg, t.d. eldri og yngri (junior eða senior). Ef nafn er ritað með öðru letri en íslensku nútímastafrófi ber að rita það samkvæmt viðurkenndum umritunarreglum eins og tíðkast hefur hér á landi. Nafn verður að vera hægt að bera fram í íslensku. Þegar átt er við framburð í íslensku snýst málið um íslenska hljóðskipun. Með hljóðskipun er um að ræða hvaða hljóðasambönd hægt er að bera fram í ákveðnu tungumáli, í þessu tilviki íslensku. Í bók Kristjáns Árnasonar, Íslenskri tungu II (2005:164), segir um hljóðskipun: „Ljóst er því að málið býr yfir reglum um það hvernig málhljóðin, jafnt samhljóð sem sérhljóð, raða sér saman. Þessar reglur eru kallaðar hljóðskipunarreglur.“ Sem dæmi um klasa (stafi) sem ekki koma fram í íslensku nefnir hann orð sem byrja á stöfunum rks eða orð sem enda á stöfunum trj. Reglurnar snúast þannig um það hvernig hljóðin raða sér saman í orðum, hvaða hljóð megi standa saman, hvers konar klasar mega vera fremst í nafni (í framstöðu), aftast í nafni (í bakstöðu) og inni í nafni (í innstöðu) o.s.frv. Þetta myndi þá t.d. útiloka furðunöfn eins og Qwzzsyn, Svanjr eða eitthvað álíka, en ekki t.d. nafnið Emilia.
    Í 1. mgr. er einnig lagt til að hefðbundinn rithátt nafna megi að jafnaði ekki afbaka. Ekki er gert ráð fyrir að ákvæðið eigi við um t.d. rithátt sem tíðkaðist hér á árum áður í íslensku máli, eins og t.d. Pjetur eða Gunnarr. Er ákvæðinu fremur ætlað að eiga við ef nafn er á augljósan hátt fært úr lagi og jafnvel óhæft til framburðar. Sem dæmi má nefna Maggnús (fyrir Magnús), Hadla (fyrir Halla), Boji (fyrir Bogi), Gvuðmundur (fyrir Guðmundur). Þessi dæmi eru eins konar hljóðritun í stað hefðbundins ritháttar. Þá gætu nöfn eins og Walgerður (fyrir Valgerður), Zigurður (fyrir Sigurður) eða Cári (fyrir Kári) einnig talist vera afbökun.
    Þar sem Árnastofnun hefur m.a. það hlutverk samkvæmt lögum um stofnunina að veita ráðgjöf og svara fyrirspurnum er nærtækt að Þjóðskrá Íslands geti kallað eftir ráðgjöf frá stofnuninni telji hún tilefni til áður en ákvörðun er tekin um nafn sem vekur spurningar um hvernig skuli skrá.
    Í 2. mgr. er áskilnaður um að við tilkynningu um nafn skuli gefa upp birtingarnafn. Birtingarnafn getur verið fullt nafn eða stytt útgáfa af fullu nafni einstaklings eða skammstöfun. Það skal bera með sér að minnsta kosti eitt eiginnafna og eitt kenninafna hans. Í lögum um skráningu einstaklinga, nr. 140/2019, er hugtakið birtingarnafn skilgreint í 1. tölul. 4. gr. sem nafn eins og því er miðlað í þjóðskrá. Í athugasemdum með frumvarpi að lögunum sem lagt var fram á 150. löggjafarþingi (þskj. 101, 101. mál) segir að birtingarnafn endurspegli að öllu jöfnu fullt nafn einstaklings en heimilt sé að stytta nafn gerist þess þörf. Er í því sambandi vísað til heimildar í 20. gr. núgildandi laga um mannanöfn, nr. 45/1996. Enn fremur segir að birtingarnafn sé það nafn sem er miðlað áfram til endanotenda þjóðskrár, þ.e. þeirra sem fletta upp í þjóðskrá, og er því það nafn sem opinberir aðilar eiga að sjá í sínum kerfum. Rökin fyrir birtingarnafni eru meðal annars þau að samræmi sé í miðlun á nafni einstaklings, þ.e. að miðlarar og endanotendur stytti ekki nöfn með mismunandi hætti í tilvikum þar sem nafn er of langt fyrir viðkomandi upplýsingakerfi eða t.d. þegar birta á nafn á skilríkjum, í bréfum, á greiðslukortum o.s.frv. Aftur á móti er fullt nafn ritað á nafnskírteini, fæðingarvottorð og önnur vottorð útgefin af Þjóðskrá Íslands, en hvað varðar vegabréf verður að hafa í huga að ritun nafna í þau er háð alþjóðlegum stöðlum um 38 stafbil. Gengið er út frá því að við styttingu fulls nafns verði farið að reglum um viðurkenndar umritunarreglur, sbr. nú reglur birtar í Stjórnartíðindum, B-deild, nr. 1025/2011, um skráningu nafna, þegar ekki er unnt að skrá nafn manns að fullu í þjóðskrá og ekki næst samkomulag um hvernig með skuli fara.
    Þrátt fyrir ákvæði um skyldu til að bera bæði eiginnafn og kenninafn kann að vera hefð fyrir því í einstaka löndum að gera ekki greinarmun á eiginnafni og kenninafni eða að einstaklingur beri aðeins eitt nafn. Er þá gert ráð fyrir að Þjóðskrá Íslands hafi það til hliðsjónar við skráningu nafns ef færð eru fram haldbær rök fyrir þeirri hefð með vísun til viðhlítandi gagna.

Um 4. gr.

    Í 1. mgr. eru sett fram lágmarksákvæði um ritun eiginnafns en þau eru mun færri en kveðið er á um í gildandi lögum. Gerð er eingöngu sú krafa að eiginnafn sé ritað í nefnifalli og án greinis og með stórum upphafsstaf. Rýmkun reglnanna felur einnig í sér að erlend eiginnöfn verða heimiluð og ekki er gert ráð fyrir að þau þurfi að laga að íslensku beygingakerfi.
    Í 2. mgr. er sá fyrirvari gerður um skráningu eiginnafna að þau megi ekki vera eins eða svo svipuð heiti á almennt þekktum lögaðila að lögmætir hagsmunir geti beðið tjón af. Sama á við um samtök eða sambærilega aðila eða almennt þekkt listamannsnöfn sem þó njóta ekki sérstakrar verndar í lögum. Eðli máls samkvæmt á sama við um kenninöfn, sbr. 10. mgr. 5. gr. Í þessu sambandi má benda á rétt til auðkenna sem getur hvílt á sérlöggjöf, svo sem vörumerkjalögum, nr. 45/1997, lögum um verslanaskrár, firmu og prókúruumboð, nr. 42/1903, og þess háttar. Enn fremur getur réttur til auðkenna skapast í vissum tilvikum með skráningu. Upplýsingar um skráð auðkenni af ýmsum toga má t.d. nálgast hjá fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra, vörumerkjaskrá eða skráningarstofu léna (lénaskrá ISNIC). Þá má benda á að réttur til vörumerkis getur einnig stofnast með notkun vörumerkis sem er eða hefur verið notað hér á landi fyrir vöru eða þjónustu. Þá geta önnur auðkenni notið ákveðinnar viðbótarverndar á grundvelli 15. gr. a laga um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu, nr. 57/2005. Sambærilegt ákvæði er að finna í löggjöf annarra Norðurlanda.
    Í 3. mgr. er sambærilegt ákvæði og verið hefur alla tíð í löggjöf um mannanöfn hér á landi þar sem lagt er til að nafn megi ekki vera nafnbera til ama. Er ákvæðinu ætlað að gæta hagsmuna ólögráða barna og hugsað til að koma í veg fyrir nafngjafir sem almennt geta talist íþyngjandi eða bersýnilega óviðeigandi sem nafn. Eins og fram kemur í almennum athugasemdum hafa umboðsmaður barna og Barnaverndarstofa meðal annars bent á nauðsyn þess að ákvæði um eftirlit með nafngiftum barna sé í lögum, þó tilvikin séu fá. Er bent á að það að bera nafn sem er barni til ama geti haft í för með sé mikla vanlíðan og skaðað sjálfsmynd barns um aldur og ævi. Eftirlit með nafngiftum barna sé nauðsynlegt þar sem um mikilvæga hagsmuni sé að ræða. Því sé nauðsynlegt að hægt sé að grípa inn í ef ástæða þykir til. Er meðal annars vísað til skyldu löggjafans að veita börnum þá vernd sem þau eiga skilið á grundvelli 3. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar og barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, sem fullgiltur var hér á landi árið 1992, og lögfestur með lögum nr. 19/2013. Túlkun ákvæðisins getur þó verið vandmeðfarin og er mikilvægt að beita því varlega.
    Í 4. mgr. er lagt til ákvæði um að Þjóðskrá Íslands skuli, ef henni berst tilkynning um nafn barns sem álitið er að geti verið barni til ama, taka til úrskurðar hvort heimila skuli skráningu nafnsins. Þá er lagt til að stofnunin geti leitað álits umboðsmanns barna áður en ákvörðun er tekin. Að mati Barnaverndarstofu þykir eðlilegra að það stjórnvald sem vinnur með skráningu nafna taki upp mál sem varða nafngift barna fremur en barnaverndaryfirvöld. Ef Þjóðskrá Íslands synjar skráningu nafns á þessum forsendum er unnt að skjóta þeirri ákvörðun til ráðuneytisins. Sambærilegt ákvæði er að finna í löggjöf allra Norðurlandanna.

Um 5. gr.

    Í 1. mgr. er mælt fyrir um að kenninöfn geti verið kenning til foreldris og ættarnöfn.
    Í 2. mgr. er áréttað að kenning til foreldris sé meginregla hér á landi. Rétt þykir að taka það skýrt fram, þar sem talið er mikilvægt að varðveita þann íslenska kenninafnasið sem verið hefur við lýði hér á landi frá upphafi byggðar. Upptaka ættarnafna verði hins vegar undantekningarregla, sbr. nánar um 8. mgr.
    Í 3. mgr. er tekið fram að kenninafn skuli auðkennt með stórum upphafsstaf en það er í samræmi við reglur um ritun eiginnafna, sbr. 4. gr. Um nánari reglur um ritun nafna vísast til 3. gr. frumvarpsins og athugasemda um þá grein.
    Samkvæmt 4. mgr. getur kenning til foreldris verið kenning til annars eða beggja eins og heimilt hefur verið. Enn fremur gæti kenning verið til kynforeldris og stjúpforeldris ef svo ber við, sbr. heimild í 6. gr. Frumvarpið gerir jafnframt ráð fyrir að hægt verði að nota bæði kenningu til foreldra og að bera ættarnafn eða ættarnöfn en þeir sem hafa heimild til að bera ættarnafn í dag geta notað það sem kenninafn ásamt kenningu til annars foreldris, sbr. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 45/1996.
    Í 5. mgr. er ákvæði sem svarar að nokkru leyti til 16. gr. laga nr. 45/1996 þar sem heimilt getur verið ef sérstaklega stendur á að taka upp kenninafn sambærilegt við kenningu til foreldris án þess þó að kenningin tengist foreldri. Ýmsar gildar ástæður geta legið til þess að einstaklingur vilji kenna sig á annan hátt en til foreldris án þess að taka upp ættarnafn. Kenninafnið kann til dæmis að vera einstaklingi til ama eða skaða sjálfsmynd hans. Þá getur verið að samskipti við kynforeldri hafi verið lítil sem engin og að viðkomandi óski að kenna sig til einhvers nákomins einstaklings, svo sem ættingja, stjúpforeldris eða fósturforeldris. Rétt þykir að rökstuðningur liggi fyrir beiðni um kenninafn skv. 5. mgr. og ef mögulegt er samþykki þess einstaklings sem óskað er að kenna sig til, ef ástæða þykir til.
    Í 6. mgr. er tekið fram hvernig kenning til foreldris er mynduð en sú regla er í samræmi við ákvæði 3. mgr. 8. gr. laga nr. 45/1996. Frumvarpið gengur þannig út frá því að hver einstaklingur kenni sig til foreldris á sama hátt og tíðkast hefur hér á landi um ómunatíð. Kenninafnið er þá myndað af eiginnafni foreldris í eignarfalli að viðbættri endingunni -son ef karlmaður er, -dóttir ef kvenmaður er eða -bur ef skráning kyns er hlutlaus. Eins og fram kemur í athugasemdum við 3. mgr. 8. gr. í frumvarpi því er varð að lögum nr. 45/1996 er nokkuð um að kenninöfn séu dregin af afbrigðilegu eignarfalli nafns, t.d. Sigurðsson, Magnússon og Jónasdóttir (í stað Sigurðarson, Magnúsarson og Jónasardóttir, sbr. hins vegar Sigurðardóttir). Segir í athugasemdunum að þótt það sé ekki sérstaklega tekið fram sé að sjálfsögðu gert ráð fyrir að þessi kenninöfn verði áfram heimil, enda hafi þau unnið sér hefð í málinu og séu mynduð í samræmi við rótgrónar orðmyndunarreglur íslenskra nafna. Ekki er gert ráð fyrir breytingu á þessu verði frumvarp þetta að lögum. Það nýmæli kemur fram í 6. mgr. að kenning til foreldris geti einnig verið á þann veg að eingöngu sé notað nafn foreldris í eignarfalli án þess að bæta við -son, -dóttir eða -bur. Þeim sem hafa hlutlausa skráningu kyns í þjóðskrá hefur verið heimilt að nota þá kenningu frá því breyting var gerð á 3. mgr. 8. gr. laga um mannanöfn með lögum um kynrænt sjálfræði, nr. 80/2019. Með hliðsjón af jafnræði er talið rétt að víkka þá heimild þannig að öllum verði frjálst að nota nafn foreldris í eignarfalli sem kenninafn. Sagan sýnir að margir virðast hafa tilhneigingu til að vilja kenna sig á þann hátt. Til að mynda eru ættarnöfn sem birt voru í Stjórnartíðindum, B-deild, á árunum 1915–1925 mörg hver mynduð á þennan hátt og ýmsir rita kenninafn sitt í eignarfalli án endingar þó það sé ekki skráð þannig í þjóðskrá. Hins vegar þykir ekki ástæða til að kenning sem þessi verði talin heyra undir ættarnöfn og gengi hún því ekki til niðja eins og heimilt er um ættarnöfn.
    Í 7. mgr. er áréttuð sú heimild sem verið hefur í lögum að aðlaga megi erlent nafn sem kenninafn á sama hátt og íslensk kenninöfn. Í gildandi lögum segir að þetta sé heimilt með úrskurði mannanafnanefndar. Þar sem lagt er til að sú nefnd verði lög niður er lagt til að Þjóðskrá Íslands taki ákvörðun um skráninguna. Vegna lögbundinna verkefna Árnastofnunar gæti Þjóðskrá Íslands fengið ráðgjöf hjá stofnuninni um hvernig réttast sé að skrá nafn, sbr. skýringar við 3. gr., og leitað álits nafnfræðisviðs um hvernig réttast sé að skrá nafnið.
    Í 8. mgr. er sú breyting lögð til frá gildandi lögum að ekki eru settar skorður við notkun ættarnafna eins og þær sem fram koma í 5. mgr. 8. gr. laga nr. 45/1996. Þar segir að maður, sem samkvæmt þjóðskrá bar ættarnafn við gildistöku þeirra laga eða bar ættarnafn í gildistíð laga, nr. 37/1991, megi bera það áfram. Sama gildi um niðja hans hvort heldur er í karllegg eða kvenlegg. Í frumvarpinu felst það nýmæli að heimild til notkunar ættarnafna verður ekki bundin við þá einstaklinga sem bera eða báru ættarnafn í tíð gildandi laga heldur verður öllum heimil notkun þeirra. Hægt verði að taka upp nýtt ættarnafn með beiðni til Þjóðskrár Íslands á svipaðan hátt og unnt verður að óska eftir nafnbreytingu, sbr. nánar um 6. gr. frumvarpsins, og þá gegn gjaldi samkvæmt ákvæðum laga um aukatekjur ríkissjóðs, svo sem verið hefur um nafnbreytingar. Þeir sem bera ættarnafn sem kenninafn, eða eiga rétt til þess á grundvelli ættartengsla samkvæmt gildandi lögum, hafa heimild til að gera það áfram og niðjar þeirra sömuleiðis, án þess að um nafnbreytingu sé að ræða, hafi ættarnafnið ekki verið skráð í þjóðskrá. Frumvarpið gerir þannig ráð fyrir að ættarnöfn sem skráð voru hér á landi fram að gildistöku laga nr. 37/1991 njóti verndar gagnvart því að vera tekin upp af ótengdum aðilum þar sem heimild til upptöku ættarnafna miðast við ný ættarnöfn. Þau munu þá geta gengið til niðja og nytu sömu verndar og ættarnöfn sem áður hafa verið tekin upp hér á landi. Almenn kenninöfn eða eiginnöfn munu þó ekki teljast til ættarnafna né heldur kenning til nafns foreldris í eignarfalli, sbr. það sem fram kemur í athugasemdum um 6. mgr. Ákvæði um bann við upptöku ættarnafna, sem verið hefur í löggjöf um mannanöfn allt frá setningu laga, nr. 54/1925, verður því fellt úr lögum nái frumvarp þetta fram að ganga. Gert er ráð fyrir að ráðherra geti sett reglugerð um nánari framkvæmd á upptöku ættarnafna.
    Í 9. mgr. er það nýmæli lagt til að heimilt verði að taka upp kenninafn maka síns. Í 12. gr. gildandi laga er erlendum ríkisborgara sem stofnar til hjúskapar við íslenskan ríkisborgara heimilað að taka upp ættarnafn maka síns, ef það er til, eða kenna sig til foreldris hans. Hér er hins vegar lögð til sú breyting að eingöngu verði heimilt að nota kenninafn maka, hvort sem hann hefur ættarnafn eða ekki, og að heimildin verði ekki takmörkuð við erlenda ríkisborgara heldur geti íslenskir ríkisborgarar einnig nýtt sér þessa heimild. Sanngjarnt þykir að þessi regla gildi um alla þá sem skráðir eru búsettir hér á landi óháð ríkisfangi og óháð því hvort kenninafn maka hafi verið tekið upp erlendis en nokkuð hefur verið um það að íslenskir ríkisborgarar hafi tekið upp kenninafn maka síns við búsetu erlendis. Þá hefur um árabil tíðkast að erlendar konur sem flust hafa til landsins og gifst íslenskum manni taki upp sama kenninafn og hann hvort sem það er ættarnafn eða dregið af kenningu til foreldris, þar sem það er almenn regla víða erlendis að hjón beri sömu kenningu.
    Í 10. mgr. er sambærilegt ákvæði og fram kemur í 2. mgr. 3. gr. um takmarkanir á skráningu kenninafna sem líkjast heiti á lögaðila eða heiti á samtökum eða sambærilegum lögaðilum eða almennt þekktu listamannsnafni og vísast til skýringa við það ákvæði.
    Ekki þykir þörf á að hafa ákvæði um kenningu barns sem getið er við tæknifrjóvgun í lögum um mannanöfn, sbr. nú ákvæði í 2. mgr. 8. gr. laga nr. 45/1996, þar sem barnalög kveða skýrt á um það hverjir eru foreldrar barns. Ekki þykir heldur þörf á að hafa áfram ákvæði um að ófeðrað barn geti verið kennt til afa síns þar sem frumvarpið felur í sér mun víðtækari heimildir en nú eru til að taka upp kenninöfn.

Um 6. gr.

    Í samræmi við markmið frumvarpsins um aukið frelsi einstaklinga til að velja sér nafn er í 1. mgr. þessarar greinar kveðið á um mun víðtækari heimildir til breytinga á nöfnum en nú eru, bæði eiginnöfnum og kenninöfnum. Er bæði heimilt að bæta við nöfnum eða fella niður nöfn án þess að fyrir því liggi alla jafna einhverjar ástæður eins og nú er mælt fyrir um í 13. og 16. gr gildandi laga. Áskilnaður sem nú er í lögum um að nafnbreytingar skuli einungis heimilaðar einu sinni, nema sérstaklega standi á, er felldur brott. Þrátt fyrir rýmri heimildir til nafnbreytinga verður einstaklingur ávallt að bera að minnsta kosti eitt eiginnafn og eitt kenninafn eins og kveðið er á um í 1. gr. frumvarpsins og verða þau nöfn að vera skráð án styttingar. Segja má að eftir upptöku kennitölu hér á landi árið 1986 skipti ekki eins miklu máli hvert nafn einstaklings er þar sem almennt er hægt að auðkenna hann betur út frá kennitölu en nafni. Telja verður að um eiginlega nafnbreytingu sé að ræða þegar bætt er við nýju eiginnafni eða kenninafni eða eiginnafn eða kenninafn er fellt niður. Ef aðeins er óskað breytingar á ritun nafns, sbr. 8. gr. frumvarpsins, er ekki um nafnbreytingu að ræða. Allar breytingar á nöfnum eða ritun nafna heyra undir Þjóðskrá Íslands. Fyrir þær ber að greiða gjald í samræmi við lög um aukatekjur ríkissjóðs, nr. 88/1991, eins og verið hefur, sbr. nú 26. tölul. 1. mgr. 14. gr.
    Í 2. mgr. er lögð til sú breyting þegar kemur að nafnbreytingum barna að þeir sem fara með forsjá barns skuli standa að breytingu á nafni þess hafi það ekki náð 15 ára aldri en í dag eiga þeir alltaf að standa að breytingu á nafni barns sem er undir 18 ára aldri. Áfram er gerð sú krafa að fari tveir með forsjána skuli þeir báðir standa að beiðni. Frá því er þó sú undantekning að ef barn, sem er í varanlegu fóstri, er kennt til fósturforeldris þá getur beiðnin komið frá fósturforeldrum þótt forsjáin sé hjá barnaverndarnefnd. Sambærileg regla er í lögum í dag, sbr. 5. mgr. 14. gr. laga nr. 45/1996. Eins og núgildandi lög kveða á um er gert ráð fyrir að ef breyta á nafni barns, og forsjá þess hefur breyst frá því barninu var gefið nafn, skuli leita samþykkis þess foreldris sem með forsjána fór á þeim tíma ef unnt er. Þó samþykki liggi ekki fyrir hefur Þjóðskrá Íslands engu að síður getað heimilað nafnbreytingu ef ótvíræðir hagsmunir barns mæla með því. Í frumvarpinu er lagt til það nýmæli að ekki skuli leita samþykkis ef það er talið vera til verulegs óhagræðis fyrir barn. Sama á við ef kenna á barn sem er í varanlegu fóstri til fósturforeldris. Er þetta meðal annars lagt til með hagsmuni barns að leiðarljósi, ef sanngjarnt má telja að heimila nafnbreytingu af sérstökum ástæðum án þess að leitað sé eftir samþykki foreldris.
    Lagt er til það nýmæli í 3. mgr. að barn sem orðið er 15 ára geti sjálft óskað eftir breytingu á nafni sínu án aðkomu forsjáraðila. Er sú tillaga í samræmi við stigvaxandi sjálfsákvörðunarrétt barna eftir aldri og þroska. Þó er gert ráð fyrir að þeim er fara með forsjá barns sé kynnt breyting á nafni barns.
    Ákvæði 4. mgr. um að kenna megi ófeðrað barn til stjúpforeldris svarar til 2. mgr. 14. gr. laga nr. 45/1996, en lagt er til það nýmæli að sama gildi ef móðir er í skráðri sambúð. Þjóðskrá Íslands þarf þá að ganga úr skugga um að barn sé ófeðrað og að stofnað hafi verið til hjúskapar eða að sambúð sé skráð.
    Í 5. mgr. er ákvæði sambærilegt við 3. mgr. 14. gr. laga nr. 45/1996, um að heimilt geti verið að kenna barn sem kennt er til kynforeldris til stjúpforeldris, en nýmæli er að einnig geti verið heimilt að kenna það til sambúðarmaka foreldris. Eins og verið hefur er gert ráð fyrir að jafnan sé leitað samþykkis kynforeldris, ef unnt er, áður en slík ákvörðun er tekin. Þó samþykki liggi ekki fyrir getur Þjóðskrá Íslands engu að síður heimilað breytingu á kenninafni ef það er talið í samræmi við hagsmuni og vilja barns. Eins og kveðið er á um í 2. mgr. er það nýmæli einnig lagt til hér að ekki skuli leita samþykkis ef það er talið vera til verulegs óhagræðis fyrir barn og vísast um það til skýringa við það ákvæði.
    Í 6. mgr. segir. að ákvörðun skv. 4. og 5. mgr. skuli háð samþykki stjúpforeldris eða sambúðarmaka, en sambærilegt ákvæði hvað varðar stjúpforeldri er í 4. mgr. 14. gr. laga nr. 45/1996.
    Í 7. mgr. er ákvæði um að heimilt geti verið að kenna barn sem er í varanlegu fóstri hjá fósturforeldrum til fósturforeldris. Ákvæðið er sambærilegt 5. mgr. 14. gr. laga nr. 45/1996. Leita skal samþykkis kynforeldra barnsins, ef unnt er, áður en ákvörðun er tekin. Þjóðskrá Íslands getur engu að síður heimilað breytinguna þó samþykki liggi ekki fyrir, ef það er talið í samræmi við hagsmuni og vilja barns. Eins og kveðið er á um í 2. og 5. mgr. er það nýmæli einnig lagt til hér að ekki skuli leita samþykkis ef það er talið vera til verulegs óhagræðis fyrir barn og vísast um það til skýringa við ákvæði 2. mgr. Það nýmæli er einnig lagt til að Þjóðskrá Íslands geti leitað álits barnaverndarnefndar þeirrar sem fer með forsjá barns áður en ákvörðun er tekin um breytingu á kenninafni, þar sem í þessum tilvikum getur beiðnin komið frá fósturforeldrum sem ekki fara með forsjána.
    Í 8. mgr. er ákvæði um nafnbreytingu barns sem er ættleitt áður en það nær 18 ára aldri, en það er samhljóða ákvæði 3. mgr. 13. gr. laga nr. 45/1996. Í þessu tilviki er breyting á nafni, ef óskað er eftir henni, skráð í ættleiðingarleyfi, en tekur þó ekki gildi fyrr en hún hefur verið skráð í þjóðskrá, sbr. ákvæði 12. mgr.
    Í 9. mgr. er ákvæði samhljóða 8. mgr. 14. gr. laga nr. 451996, um að kenna skuli barn til kjörforeldris þegar það er ættleitt, nema kjörforeldri óski eftir að barnið haldi fyrra kenninafni sínu. Rétt er þó að minna á ákvæði 10. mgr. um samþykki barns hafi það náð þroska til að taka afstöðu.
    Í 10. mgr. er ákvæði þess efnis að breyting á eiginnafni eða kenninafni barns skuli háð samþykki þess hafi það náð þroska til að taka afstöðu til slíkrar breytingar. Samkvæmt gildandi lögum er breyting á nafni barns háð samþykki þess hafi það náð 12 ára aldri. Í 12. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins sem lögfestur var hér á landi með lögum nr. 19/2013 er kveðið á um um rétt barna til að láta skoðanir sínar í ljós í málum sem það varða í samræmi við aldur þess og þroska. Með hliðsjón af því þykir rétt að afnema aldursmörk laganna til að tryggja að haft sé samráð við barn undir 12 ára aldri hafi það náð þroska til að koma sjónarmiðum sínum að við mögulegar breytingar á nafni sínu.
    Í 11. mgr. er ákvæði um heimild barns sem er yngra en 15 ára til að breyta eiginnafni sínu og kenninafni samhliða breytingu á skráningu kyns. Slík breyting er háð samþykki þeirra er fara með forsjá barns eða sérfræðinganefndar skv. 9. gr. laga um kynrænt sjálfræði, nr. 80/2019. Ákvæði sama efnis er nú í 4. mgr. 13. gr. laga nr. 45/1996, sbr. 18. gr. laga nr. 80/2019, en sú breyting er lögð til hér að heimild þessi miðist við börn yngri en 15 ára í stað barna yngri en 18 ára.
    Í 12. mgr. er tekið fram að breyting á nafni taki ekki gildi fyrr en hún hefur verið færð í þjóðskrá. Málsgreinin er samhljóða 3. mgr. 18. gr. laga nr. 45/1996. Nauðsynlegt er að skýrt sé kveðið á um það hvenær breyting á skráningu nafns tekur gildi. Er það meðal annars til að koma í veg fyrir ósamræmi þegar kemur að notkun nafns og skráningu nafns.

Um 7. gr.

    Hér er tekið upp sambærilegt ákvæði og það sem nú er að finna í 19. gr. laga um mannanöfn, nr. 45/1996. Er þar kveðið á um að skráð birtingarnafn í þjóðskrá ráði skráningu nafnsins í opinberum skrám og í opinberum gögnum en þar má sem dæmi nefna kjörskrá og skattframtal. Þá skulu menn jafnframt tjá nafn sitt með þeim sama hætti í skiptum við opinbera aðila við samningsgerð og í öllum öðrum lögskiptum, enda mikilvægt að ekki leiki vafi á því við hvern er átt við slíkar aðstæður.

Um 8. gr.

    Þessi grein er að mestu samhljóða 1. og 2. málsl. 20. gr. laga nr. 45/1996 og lýtur að því að heimilt sé að breyta ritun nafns í þjóðskrá án þess að um sé að ræða eiginlega nafnbreytingu. Nafn er þá áfram skráð óbreytt í kerfi þjóðskrár þó nafnritunin geti verið á annan hátt. Sú breyting er lögð til frá gildandi lögum að lagt er til að breyting á nafnritun skuli fara eftir reglum sem ráðherra setur að höfðu samráði við Þjóðskrá Íslands í stað samráðs við mannanafnanefnd þar sem gert er ráð fyrir að nefndin verði lögð niður.

Um 9. gr.

    Þessi grein svarar efnislega til 1. mgr. 25. gr. laga nr. 45/1996 og fjallar um að Þjóðskrá Íslands sé heimilt að beita dagsektum ef barni hefur ekki verið gefið nafn innan sex mánaða frá fæðingu án þess að fyrir því liggi gildar ástæður. Sú breyting er þó lögð til að hámarksfjárhæð dagsekta geti verið allt að 2.000 kr., í stað 1.000 kr. eins og nú er bundið í lögum, og að hún miðist við vísitölu neysluverðs í janúar 2020. Nauðsynlegt þykir að hafa dagsektarákvæði í lögum til að tryggja meðal annars rétt barns til skráningar nafns og auðkennis. Markmið þess er að knýja viðkomandi til að tilkynna um nafngjöf barns eins og lög kveða á um. Í ákvæðinu eru sett fram viðmið sem Þjóðskrá Íslands er heimilt að taka tillit til við ákvörðun á fjárhæð dagsekta sem lúta aðallega að fjárhagsstöðu og ástæðu vanrækslu. Dagsektum verður ekki beitt gagnvart öðrum brotum en þeim sem um getur í þessari grein.

Um 10. gr.

    Þar sem frumvarpið gerir ráð fyrir að mannanafnanefnd verði lögð niður, þar á meðal skylda hennar til þess að semja skrá að meginhluta um eiginnöfn, uppfæra hana og gera hana aðgengilega almenningi, er lagt til í frumvarpinu að þessi skylda mannanafnanefndar færist til Þjóðskrár Íslands. Er talið mikilvægt að skrá yfir eiginnöfn sé aðgengileg til upplýsinga og að unnt verði að fletta upp í henni án endurgjalds. Einnig er talið mikilvægt að á sama hátt verði haldin skrá yfir ný ættarnöfn sem kunna að verða samþykkt. Rétt þykir að báðar skrárnar séu uppfærðar ekki sjaldnar en einu sinni í mánuði.

Um 11. gr.

    Í þessari grein er ákvæði um að heimilt sé að kæra til ráðuneytisins ákvarðanir Þjóðskrár Íslands samkvæmt lögunum. Gera má ráð fyrir að mun færri álita- eða ágreiningsmál kunni að koma upp um nafngjafir og nafnritun verði frumvarp þetta að lögum. Þjóðskrá Íslands getur þó þurft að skera úr slíkum málum en getur áður en til úrskurðar kemur leitað sérfræðilegrar ráðgjafar hjá Árnastofnun. Ákvarðanir Þjóðskrár Íslands verða þá kæranlegar til ráðuneytisins sem er breyting frá núgildandi lögum þar sem úrskurðum mannanafnanefndar var ekki unnt að skjóta til æðra stjórnvalds.

Um 12. gr.

    Hér er kveðið á um skyldu og heimild ráðherra til að setja reglur og reglugerðir um nánari framkvæmd laganna. Þar sem víðtækar breytingar um skráningu nafna eru lagðar til í frumvarpinu geta meðal annars komið upp tilvik sem nauðsynlegt kann að vera að skilgreina nánar í reglum eða reglugerð.

Um 13. gr.

    Lagt er til að verði frumvarpið samþykkt öðlist lögin gildi 1. júlí 2021 og á sama tíma falli lög nr. 45/1996 úr gildi. Þar sem frumvarpið felur í sér víðtækar breytingar á skráningu nafna verður að gera ráð fyrir að Þjóðskrá Íslands og þeim sem nýta sér nafnasvæði þjóðskrár gefist ráðrúm til að aðlaga kerfi sín að breyttu umhverfi ef þörf krefur. Jafnframt er nauðsynlegt að kynna almenningi og upplýsa um breytta framkvæmd við skráningu nafna. Enn fremur er mikilvægt að upplýsa þjóðkirkjuna og skráð trú- og lífsskoðunarfélög um að með lagabreytingunni ljúki því hlutverki þeirra að tilkynna nafngjöf barna til stjórnvalda vegna athafna hjá viðkomandi félagi og að það hlutverk verði einungis í höndum þeirra sem fara með forsjá barns.

Um 14. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringar.


Fylgiskjal.


Skrá yfir ættarnöfn, er samkvæmt 7. gr., staflið a, í lögum nr. 41, 10. nóv. 1913, um ættarnöfn, má eigi taka upp, og skrá um ættar- og kenningarnöfn, er upp hafa verið tekin á árabilinu frá 1915 til og með 1925.


www.althingi.is/altext/pdf/151/fylgiskjol/s0162-f_I.pdf