Ferill 188. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
2. uppprentun.

Þingskjal 189  —  188. mál.
Viðbót.




Frumvarp til stjórnarskipunarlaga


um breytingu á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, með síðari breytingum (kosningaaldur).

Flm.: Andrés Ingi Jónsson, Björn Leví Gunnarsson, Halldóra Mogensen, Hanna Katrín Friðriksson, Helga Vala Helgadóttir, Helgi Hrafn Gunnarsson, Jón Þór Ólafsson, Jón Steindór Valdimarsson, Logi Einarsson, Rósa Björk Brynjólfsdóttir, Smári McCarthy, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir.


1. gr.

    Í stað orðanna „18 ára“ í 1. mgr. 33. gr. stjórnarskrárinnar kemur: 16 ára.

2. gr.

    Á eftir orðunum „kosningarrétt á til þeirra“ í 1. mgr. 34. gr. stjórnarskrárinnar kemur: er 18 ára eða eldri.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Frumvarp þetta er lagt fram til að styrkja lýðræðið með því að bregðast við aukinni kröfu ungs fólks um að hafa tækifæri til að taka virkan þátt í mótun samfélagsins. Verði frumvarpið samþykkt mun kosningaaldur lækka um tvö ár, úr 18 árum í 16 ár, en kjörgengi áfram miðast við 18 ár. Samhliða er nauðsynlegt að gera breytingar á lögum um kosningar til Alþingis og lögum um kosningar til sveitarstjórna. Lækkun kosningaaldurs hefur verið til umræðu á vettvangi Alþingis sl. 13 ár, frá því að Hlynur Hallsson og Kolbrún Halldórsdóttir lögðu fram þingsályktunartillögu þess efnis (514. mál á 133. löggjafarþingi). Síðan hafa frumvörp sem miða að lækkun kosningaaldurs verið lögð fram í ólíkum myndum en ekki náð fram að ganga.
    Ungt fólk hefur lengi sýnt með afgerandi hætti hvernig það getur verið drifkraftur breytinga í samfélaginu. Nærtækt og nýlegt dæmi eru mótmæli Gretu Thunberg gegn aðgerðaleysi sænskra stjórnvalda í loftslagsmálum. Fimmtán ára gömul hóf hún að mótmæla við sænska þingið, en úr þeim mótmælum hefur sprottið alþjóðleg fjöldahreyfing ungmenna sem mótmælir vikulega í flestum löndum heims. Hér á landi hefur ungt fólk ítrekað tekið sér pláss í umræðunni til að benda á hluti sem betur mega fara. Má þar nefna #FreeTheNipple, þar sem ungar stúlkur sýndu hversu ofboðið þeim var aðgerðaleysi stjórnvalda varðandi stafrænt kynferðisofbeldi og áreitni í netheimum, #ÉgErEkkiTabú, þar sem opnuð var umræða um geðheilbrigðismál ungs fólks, og þann sterka kjarna ungs fólks sem hefur staðið fyrir mótmælum í þágu loftslagsmála á hverjum föstudegi undanfarið ár.
    Á sama tíma og ungt fólk hefur ítrekað lagt sitt fram til samfélagsumræðunnar hefur stjórnmálafólki gengið hægar að taka við keflinu. Nú hillir loks undir stjórnarfrumvarp sem tekur á stafrænu kynferðisofbeldi, réttum fimm árum eftir að ungar stúlkur sýndu með öflugum hætti um hversu útbreitt samfélagsmein er að ræða. Er það von flutningsfólks að með lækkun kosningaaldurs megi breyta stjórnmálamenningunni þannig að stjórnmálafólk geri sér betur grein fyrir hagsmunum ungs fólks, sem eru oft umtalsverðir og aðrir en þeirra sem eldri eru, og mætt verði þeirri sjálfsögðu kröfu að stjórnmálin þjóni ungu fólki ekki síður en öðrum þjóðfélagshópum.
    Með því að lækka kosningaaldur í 16 ár nær kosningarrétturinn til tveggja árganga fólks sem enn nýtur verndar barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Sú ráðstöfun er í anda barnasáttmálans sem tryggir börnum rétt til að tjá skoðanir sínar í öllum málum er þau varða. Sú skylda sem hvílir á stjórnvöldum hvað það varðar vex með þroska og aldri barna og í ljósi þess að Ísland hefur stigið það mikilvæga skref að lögfesta barnasáttmálann fer vel á því að þeir elstu í þeim hópi sem barnasáttmálinn nær til fái formleg verkfæri til að ganga á eftir því að réttindi þeirra séu virt. Þannig mun stjórnmálafólk þurfa að standa skýr skil á baráttu sinni í þágu barna þegar að kosningum kemur.
    Flutningsfólk leggur áherslu á að samþykkt frumvarpsins þarf að fylgja eftir með markvissum og vel fjármögnuðum aðgerðum til að auka fræðslu á sviði lýðræðis og samfélagslegrar virkni á öllum skólastigum, styðja við grasrótarstarf ungmenna þar sem þau reyna að hafa áhrif á samfélagið á sínum eigin forsendum, og tryggja að nýir kjósendur fái viðeigandi fræðslu um þátttöku í kosningum. Við umfjöllun um lækkun kosningaaldurs á fyrri löggjafarþingum hefur verið bent á að lengi hafi verið þörf á metnaðarfullum aðgerðum til að styrkja lýðræðisvitund fyrstu kjósenda og til valdeflingar ungs fólks, en slík skref er hægt að taka samhliða lækkun kosningaaldurs. Fyrstu kosningarnar þar sem kosið yrði samkvæmt hinum nýju aldursmörkum yrðu þannig að óbreyttu sveitarstjórnarkosningar 2022, þá forsetakosningar 2024 og loks alþingiskosningar 2025 – þannig að nægur tími er til stefnu til að útfæra átak í lýðræðisfræðslu ungs fólks.
    Lækkun kosningaaldurs hefur verið til umfjöllunar í rúman áratug. Austurríki reið á vaðið og lækkaði kosningaaldur árið 2007, en sama ár var í fyrsta sinn flutt tillaga þess efnis á Alþingi. Frá þeim tíma hafa ýmis lönd stigið þetta skref, með ólíkum hætti. Skoska þingið miðaði við 16 ár í þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfstæði árið 2014 og þótti það gefa svo góða raun að ákveðið var að lækka kosningaaldurinn í öllum þeim kosningum sem Skotland ræður sjálft innan breska samveldisins. Á Möltu var kosningaaldur lækkaður í sveitarstjórnarkosningum 2013 og í öllum öðrum kosningum 2018.
    Ungt fólk hefur löngum þurft að þola lýðræðishalla hvað varðar aðkomu að vali á kjörnum fulltrúum og vægi á framboðslistum stjórnmálasamtaka. Lækkun kosningaaldurs mundi styrkja rödd ungu kynslóðarinnar og leiðrétta þennan lýðræðishalla. Þetta mundi jafnframt auðga stjórnmálin með nýjum hugmyndum um leið og þjóðin er að eldast. Ísland mundi með lækkun kosningaaldurs skipa sér í hóp með þeim ríkjum þar sem ekki er einungis kallað eftir sjónarmiðum ungs fólks til málamynda, heldur væri því veittur formlegur og fullur aðgangur að lýðræðinu til jafns við fullorðna. Ísland yrði í hópi ríkja sem eru í fararbroddi þegar kemur að lýðræðisþróun – stigi mikilvægt skref sem er þó enginn endapunktur heldur krafa um stöðugar umbætur til að sem flestar og fjölbreyttastar raddir heyrist.