Ferill 204. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 205  —  204. mál.
Stjórnarfrumvarp.Frumvarp til laga


um breytingu á barnalögum, nr. 76/2003 (kynrænt sjálfræði).

Frá dómsmálaráðherra.1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. gr. a laganna:
     a.      Í stað 2. málsl. koma tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Móður er skylt að feðra barn sitt þegar feðrunarreglur 2. gr. eiga ekki við, sbr. þó 2.–4. mgr. 6. gr. Sama á við eftir atvikum ef sá sem elur barn og/eða hitt foreldri hefur breytt skráningu kyns og feðrunar- eða foreldrareglur 2. eða 3. mgr. 5. gr. eiga ekki við, sbr. þó 4. mgr. 6. gr. a.
     b.      Á eftir 1. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
                      Barn á rétt á tiltækum upplýsingum í þjóðskrá um skráningu á foreldrastöðu foreldra sinna svo og upplýsingum um breytingar á kynskráningu þeirra.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 2. gr. laganna:
     a.      Á undan 1. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
                      Kona sem elur barn er móðir þess.
     b.      Fyrirsögn greinarinnar orðast svo: Foreldrareglur um börn hjóna og foreldra í skráðri sambúð.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 3. gr. laganna:
     a.      Á eftir 1. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
                      Um foreldrastöðu barns þegar annað foreldri eða báðir hafa breytt skráningu kyns gilda ákvæði 5. gr.
     b.      2. mgr. orðast svo:
                      Um foreldri barns sem getið er við tæknifrjóvgun gilda ákvæði 6. gr., sbr. og 6. gr. a.
     c.      Skammstöfunin „o.fl.“ í fyrirsögn greinarinnar fellur brott.

4. gr.

    5. gr. laganna orðast svo, ásamt fyrirsögn:

Foreldrar barns þegar annað foreldri eða báðir hafa breytt skráningu kyns.

    Karlmaður sem elur barn telst faðir þess. Sá sem elur barn og hefur hlutlausa kynskráningu telst foreldri þess.
    Sé faðir eða foreldri skv. 1. mgr. í hjúskap eða skráðri sambúð í þjóðskrá við fæðingu barns telst eiginmaður eða sambúðarmaður einnig faðir barnsins. Ákvæði 2. gr. gilda um þessar aðstæður eftir atvikum.
    Ef maki þess sem elur barn hefur breytt skráningu kyns þá telst maki móðir eða foreldri barnsins ef það er alið í hjúskap eða skráðri sambúð þeirra. Kona telst þá móðir barns og sá sem hefur hlutlausa kynskráningu telst foreldri barns. Þetta á þó einungis við ef upphafleg kynskráning útilokar ekki líffræðileg tengsl makans við barnið. Ákvæði 2. gr. gilda um þessar aðstæður eftir atvikum.
    Ef ákvæði 2. og 3. mgr. eiga ekki við getur foreldrisstaða ákvarðast á grundvelli faðernis- eða foreldraviðurkenningar skv. 5. eða 6. mgr., samþykkis skv. 6. gr. a eða dómsúrlausnar skv. II. kafla, sbr. 19. gr. a.
    Ef karlmaður, sem faðir eða foreldri skv. 1. mgr. kennir barn sitt, gengst við faðerni þess skv. 4. gr. þá telst hann faðir barnsins.
    Um foreldraviðurkenningu þess sem hefur breytt skráningu kyns gilda ákvæði 4. gr. eftir atvikum. Viðkomandi telst þá móðir eða foreldri barns eftir því hvernig breyttri kynskráningu er háttað, sbr. 3. mgr. Þetta á þó einungis við ef upphafleg kynskráning útilokar ekki líffræðileg tengsl viðkomandi við barnið.
    Það sem segir um móður í 1. gr. a, 3. mgr. 27. gr. og 58. gr., móður sem elur barn í 25. gr. og 2. mgr. 29. gr. og barnsmóður og konu í 26. gr. á einnig við um þann sem er faðir eða foreldri barns skv. 1. mgr. Ákvæði annarra laga sem fjalla um móður, þungaða konu, konu sem nýlega hefur alið barn eða konu með barn á brjósti gilda einnig um þann sem er faðir eða foreldri skv. 1. mgr.
    Það sem segir um föður og barnsföður í ákvæði 25.–27. gr. og 58. gr. gildir um þann sem telst móðir eða foreldri skv. 3. mgr. og þann sem gengst við foreldrastöðu skv. 6. mgr. Ákvæði annarra laga sem fjalla um föður eða barnsföður gilda einnig um þessa einstaklinga.
    Ákvæði þetta á einnig við, eftir því sem við getur átt, ef foreldri breytir skráningu kyns eftir fæðingu barns.

5. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 6. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „foreldri“ í 1. málsl. 2. mgr. kemur: móðir.
     b.      Á eftir 3. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
                      Barn einhleyprar konu sem getið er við tæknifrjóvgun verður ekki feðrað.
     c.      Í stað tilvísunarinnar „4. mgr.“ í 5. mgr. kemur: 5. mgr.
     d.      Í stað tilvísunarinnar „6. mgr.“ í 7. mgr. kemur: 7. mgr.
     e.      8. mgr., sem verður 9. mgr., orðast svo:
                      Ákvæði 8. mgr. 5. gr. gildir um móður skv. 2. mgr. eftir því sem við á.
     f.      Fyrirsögn greinarinnar orðast svo: Foreldrar barns sem getið er við tæknifrjóvgun.

6. gr.

    Á eftir 6. gr. laganna kemur ný grein, 6. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Foreldrar barns sem getið er við tæknifrjóvgun þegar annað foreldri eða báðir hafa breytt skráningu kyns.

    Karlmaður sem elur barn sem getið er við tæknifrjóvgun telst faðir þess. Sá sem hefur hlutlausa kynskráningu og elur barn sem getið er við tæknifrjóvgun telst foreldri þess.
    Eiginmaður sem samþykkt hefur samkvæmt lögum um tæknifrjóvgun að tæknifrjóvgun fari fram á maka sínum sem er faðir eða foreldri skv. 1. mgr. telst faðir barns sem þannig er getið. Eiginkona í sömu sporum telst móðir barns. Sama á við um einstaklinga sem skráð hafa sambúð sína í þjóðskrá.
    Ef sá sem breytt hefur skráningu kyns samþykkir samkvæmt lögum um tæknifrjóvgun að tæknifrjóvgun fari fram á eiginkonu sinni eða hjúskaparmaka sem er faðir eða foreldri skv. 1. mgr. telst viðkomandi móðir, faðir eða foreldri barnsins eftir því hvernig breyttri kynskráningu er háttað. Karlmaður telst þá faðir, kona telst móðir og sá sem hefur hlutlausa kynskráningu telst foreldri barns. Sama á við um einstaklinga sem skráð hafa sambúð sína í þjóðskrá.
    Ef faðir eða foreldri skv. 1. mgr. er einhleypt þá verður ekki ákvarðað hvert hitt foreldri barnsins er.
    Ákvæði 7. og 8. mgr. 5. gr. gilda um foreldra barns sem getið er við tæknifrjóvgun eftir því sem við á.
    Ákvæði 5. og 6. mgr. 6. gr. gilda eftir atvikum um tæknifrjóvgun sem framkvæmd hefur verið erlendis.
    Ákvæði 7. og 8. mgr. 6. gr. gilda einnig eftir atvikum um sæðisgjafa sem breytt hefur skráningu kyns og 8. mgr. 6. gr. um maka, hvort sem maki hefur breytt skráningu kyns eða ekki.
    Ákvæði þetta á einnig við, eftir því sem við getur átt, ef kynskráningu er breytt eftir fæðingu barns.

7. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 7. gr. laganna:
     a.      5. málsl. 2. mgr. fellur brott.
     b.      Á eftir 4. mgr. koma tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
                      Ákvæði 2.–4. mgr. gilda eftir atvikum um þá sem breytt hafa kynskráningu sinni.
                      Ráðherra setur nánari ákvæði í reglugerð um form og framkvæmd skráningar barns í þjóðskrá samkvæmt ákvæði þessu svo og 6. gr. og 6. gr. a, þ.m.t. um gögn til staðfestingar á fæðingu barns, tæknifrjóvgun hér á landi og erlendis og um foreldri þess og upplýsingagjöf skv. 2. mgr. 1. gr. a.

8. gr.

    Í stað tilvísunarinnar „4. mgr.“ í 1. málsl. 1. mgr. 10. gr. laganna kemur: 7. mgr.

9. gr.

    Á eftir 19. gr. laganna kemur ný grein, 19. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Dómsmál til að ákvarða foreldrastöðu barns þegar annað foreldri eða báðir hafa breytt skráningu kyns.

    Ákvæði þessa kafla gilda eftir atvikum um dómsmál til að ákvarða foreldrisstöðu þess foreldris barns sem ekki ól það þegar annað foreldri eða báðir hafa breytt skráningu kyns. Ákvæði annarra laga sem fjalla um faðernismál gilda einnig um dómsmál samkvæmt þessari grein eftir atvikum.

10. gr.

    2. mgr. 23. gr. laganna orðast svo:
    Hið sama á við, eftir atvikum, um kröfu um að viðurkennt verði að kona í hjúskap eða skráðri sambúð með móður teljist ekki móðir skv. 2. mgr. 6. gr. og kröfu um að viðurkennt verði að einstaklingur í hjúskap eða skráðri sambúð með foreldri sem ól barn teljist ekki móðir, faðir eða foreldri skv. 2. eða 3. mgr. 6. gr. a.

11. gr.

    Á eftir 24. gr. laganna kemur ný grein, 24. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Dómsmál til vefengingar á faðerni eða foreldrastöðu og dómsmál til ógildingar á faðernis- eða foreldraviðurkenningu þegar annað foreldri eða báðir hafa breytt skráningu kyns.

    Ákvæði þessa kafla gilda eftir atvikum um dómsmál til vefengingar á faðerni skv. 2. mgr. 5. gr. eða foreldrastöðu skv. 3. mgr. 5. gr. og um mál til ógildingar á faðernis- eða foreldraviðurkenningu skv. 5. og 6. mgr. 5. gr. Ákvæði annarra laga sem fjalla um dómsmál til vefengingar á faðerni barns eða ógildingu á faðernisviðurkenningu gilda um mál samkvæmt þessari grein eftir atvikum.

12. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 25. gr. laganna:
     a.      1. mgr. orðast svo:
                      Sýslumaður getur úrskurðað föður barns eða móður skv. 2. mgr. 6. gr. til að greiða framfærslueyri með móðurinni sem gengur með og elur barnið samtals í þrjá mánuði fyrir og eftir fæðingu barns, að kröfu hennar, ef sérstaklega stendur á.
     b.      Í stað orðsins „foreldri“ í 2. mgr. kemur: móður.
     c.      Fyrirsögn greinarinnar orðast svo: Framlög til móður sem elur barn.

13. gr.

    Á eftir orðunum „fer móðir“ í 2. mgr. 29. gr. laganna kemur: sem ól barnið.

14. gr.

    Á eftir orðunum „um faðerni“ í 6. mgr. 57. gr. laganna kemur: eða foreldrastöðu.

15. gr.

    Í stað tilvísunarinnar „1. mgr.“ í 6. mgr. 81. gr. laganna kemur: 2. mgr.

16. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

17. gr.

    Við gildistöku laga þessara verða eftirfarandi breytingar á öðrum lögum:
     a.      Lög um almannatryggingar, nr. 100/2007: Við 2. gr. laganna bætist nýr töluliður, svohljóðandi: Móðir: Kona sem elur barn.
     b.      Lög um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 95/2000: Við 7. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                      Það sem í lögum þessum segir um móður á við móður sem elur barn.
     c.      Lög um kynrænt sjálfræði, nr. 80/2019: 4. mgr. 8. gr. laganna fellur brott.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Frumvarpið er lagt fram af dómsmálaráðherra en það var unnið í samstarfi við forsætisráðuneytið og starfshóp sem var skipaður samkvæmt ákvæði til bráðabirgða II í lögum um kynrænt sjálfræði, nr. 80/2019. Þá var frumvarpið jafnframt unnið í samvinnu við Hrefnu Friðriksdóttur, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands.
    Í samræmi við ákvæði til bráðabirgða II í lögum um kynrænt sjálfræði, nr. 80/2019, skipaði forsætisráðherra starfshóp þar sem áttu sæti fulltrúar dómsmálaráðuneytis, félagsmálaráðuneytis, heilbrigðisráðuneytis og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis. Formaður starfshópsins var skipaður af forsætisráðherra og sérfræðingur forsætisráðuneytisins var starfsmaður hópsins. Starfshópnum var meðal annars falið að fjalla um og gera tillögur um breytingar á öðrum lögum sem nauðsynlegar væru til að tryggja réttindi trans fólks og intersex fólks, meðal annars barnalögum. Starfshópurinn skilaði drögum að frumvarpi til breytinga á barnalögum sem birt voru í samráðsgátt Stjórnarráðsins. Efni frumvarpsins byggist á tillögum sem fjallað er um í skýrslu starfshópsins um ýmsar laga- og reglugerðarbreytingar vegna laga um kynrænt sjálfræði sem afhent var forsætisráðherra í september 2020.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Í frumvarpi þessu er lagt til að við barnalög verði bætt nýjum ákvæðum sem mæla fyrir um foreldrastöðu trans fólks og einstaklinga með hlutlausa kynskráningu. Breytingarnar miða að því að tryggja réttindi foreldra sem breytt hafa skráningu kyns og gera þá jafnsetta öðrum foreldrum. Íslensk lög hafa ekki gert það að skilyrði fyrir breytingu á kynskráningu trans fólks að það gangist undir ófrjósemisaðgerð eins og gert hefur verið í ýmsum löndum til skamms tíma. Því er vel hugsanlegt að trans karl gangi með og ali barn og að trans kona geti barn. Þessir möguleikar voru reyndar fyrir hendi fyrir setningu laga um kynrænt sjálfræði en ekki hafa verið gerðar nauðsynlegar breytingar á lögum til að samræma þau þessum veruleika. Lög um kynrænt sjálfræði heimila einstaklingum að hafa hlutlausa skráningu kyns í þjóðskrá og þurfa foreldrareglur barnalaga jafnframt að taka mið af því.
    Í barnalögum er gengið út frá því að einungis kona geti alið barn og er hugtakið móðir notað um hana. Þá er gert ráð fyrir því í lögunum að hitt foreldri barns sé að jafnaði karl, þ.e. faðir þess. Oftast er faðir líffræðilegt foreldri barnsins en þó ákvarðast foreldrastaða föður í sumum tilvikum af tengslum við móður án þess að hann hafi getið barnið með sæði sínu. Barnalögin skilgreina einnig foreldrastöðu þegar kona í hjónabandi eða skráðri sambúð með annarri konu elur barn sem getið er við tæknifrjóvgun og telst makinn þá foreldri barnsins. Lögin taka hins vegar hvorki til þeirra tilvika þegar einstaklingur sem ekki hefur kvenkyns kynskráningu elur barn né heldur þeirra þegar einstaklingur sem ekki hefur karlkyns kynskráningu getur barn. Þetta þýðir að samkvæmt gildandi rétti yrði trans karl sem elur barn talinn móðir þess og sama er að segja um einstakling með hlutlausa kynskráningu. Trans kona sem getur barn yrði þar af leiðandi talin faðir þess og það sama ætti við um einstakling með hlutlausa kynskráningu.

2.1. Nánar um foreldrahugtök gildandi barnalaga og feðrun barns.
    Hugtakið móðir er ekki skilgreint í barnalögum. Gengið er út frá því að kona sem elur barn sé móðir þess. Þetta er reyndar sérstaklega tekið fram um móður barns sem getið er við tæknifrjóvgun, sbr. 1. mgr. 6. gr. laganna, til að taka af öll tvímæli um móðerni þegar kona sem gengur með barn hefur þegið gjafaegg. Móðerni ræðst því í öllum tilvikum af meðgöngu og fæðingu barns og algengast er að barnið hafi orðið til með frjóvgun eggfrumu móður.
    Orðið faðir er heldur ekki skilgreint í barnalögum en almenn merking þess liggur þar til grundvallar, þ.e. að faðir sé karlkyns foreldri. Ein meginregla barnalaga um feðrun er sú að eiginmaður móður barns teljist faðir þess ef það er alið í hjúskap þeirra ( pater est-reglan), sbr. 1. mgr. 2. gr. Sama á við um karlmann sem er í skráðri sambúð með móður barns. Reglan endurspeglar hefðbundnar hugmyndir um fjölskyldu sem grunneiningu sem samanstandi af karli og konu sem eignist saman börn. Samkvæmt pater est-reglunni er faðir skilgreindur út frá sambandi við einstaklinginn sem gengur með og elur barnið þar sem yfirgnæfandi líkur eru á því að hann sé líffræðilegur faðir barnsins. Skv. 3. mgr. 6. gr. laganna telst maður sem samþykkt hefur að tæknifrjóvgun fari fram á eiginkonu sinni eða sambúðarkonu faðir barns sem þannig er getið. Foreldrastaða ræðst þá einnig af sambandi manns við einstaklinginn sem gengur með og elur barnið óháð því hvort hann lagði til kynfrumu eða ekki.
    Ef feðrunarreglur barnalaga ( pater est-reglan og 6. gr.) eiga ekki við verður barn feðrað annaðhvort með faðernisviðurkenningu manns, sbr. 4. gr., þegar sá maður sem móðir telur líffræðilegan föður barnsins staðfestir faðernið með yfirlýsingu, eða úr því verður skorið með dómi í faðernismáli, sbr. II. kafla laganna, þar sem niðurstöður mannerfðafræðilegra rannsókna ráða úrslitum.
    Samkvæmt barnalögum er ekki mögulegt að barn eigi tvær mæður eða tvo feður. Eins og áður segir gera lögin ráð fyrir þeim möguleika að tvær konur í hjúskap eignist saman barn sem getið er við tæknifrjóvgun en þá telst sú sem ekki ól barnið foreldri þess, sbr. 2. mgr. 6. gr. laganna. Ástæða þess að orðið foreldri er notað en ekki móðir er sú að orðið móðir er stundum notað í lögum þannig að við það er bundinn réttur til ýmiss konar þjónustu á meðgöngu og í tengslum við fæðingu. Staða þeirrar konu sem gengur með og fæðir barnið er því ekki að öllu leyti sú sama og eiginkonu hennar eða sambúðarkonu.
    Samkvæmt þessu er orðið foreldri notað í tvenns konar merkingu í barnalögum. Annars vegar í rúmri merkingu sem fellur saman við venjulega þýðingu orðsins, þ.e. karl eða kona sem á afkvæmi, og hins vegar í þrengri merkingu um foreldrastöðu konu sem er í hjúskap eða skráðri sambúð með annarri konu sem elur barn eftir tæknifrjóvgun, sbr. 2. mgr. 6. gr. laganna.
    Segja má að foreldrareglur barnalaga byggist bæði á líffræðilegum og félagslegum forsendum. Áhersla barnalaga hefur um langan aldur verið sú að líffræðileg tengsl foreldra við barn ráði fyrst og fremst foreldrastöðu þeirra en hafa ber í huga að fjölbreytni fjölskylduforma og framfarir í tæknifrjóvgun hafa að ákveðnu marki ýtt undir þróun á þessari grunnforsendu laganna. Feðrunarreglur hafa lengi verið ítarlegar í barnalögum. Þróun í mannerfðafræðilegum rannsóknum hefur dregið nokkuð úr þýðingu þeirra þar sem sú vandasama sönnunarstaða sem áður var uppi þegar ákvarða skyldi líffræðilegan föður barns er vart lengur fyrir hendi. Þær breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu eru bein afleiðing þessarar samfélagsþróunar.

3. Meginefni frumvarpsins.
3.1. Aðferðir við lagabreytingar.
    Samkvæmt framansögðu var skipaður stafshópur á grundvelli ákvæðis til bráðabirgða II í lögum um kynrænt sjálfræði, nr. 80/2019, til að fjalla um og gera tillögur um breytingar á öðrum lögum sem nauðsynlegar væru til að tryggja réttindi trans fólks og intersex fólks, þar á meðal barnalögum og lögum um tæknifrjóvgun og notkun kynfrumna og fósturvísa manna til stofnfrumurannsókna, svo og reglum um greiðsluþátttöku sjúkratrygginga vegna aðgerða sem tengjast kynleiðréttingu. Í skýrslu starfshópsins var bent á að tvær meginleiðir kæmu til greina við að innleiða þær lagabreytingar sem nauðsynlegar væru vegna setningar laga um kynrænt sjálfræði. Annars vegar væri hægt að breyta lögum, þar á meðal barnalögum, á þann veg að þau verði kynhlutlaus og hins vegar væri mögulegt að setja sérákvæði í barnalög um einstaklinga sem breytt hafa kynskráningu sinni. Starfshópurinn taldi ýmislegt mæla með fyrri leiðinni en þá myndu sömu reglur gilda fyrir alla og framsetning einfaldari heldur en ef farin væri sú leið að setja sérákvæði í barnalög. Starfshópurinn taldi aftur á móti þá leið að gera barnalögin kynhlutlaus kalla á umfangsmeiri breytingar á íslenskum lögum. Meðal annars í ljósi þess að starfshópurinn hafði takmarkaðan tíma til þess verkefnis sem honum var falið var það niðurstaða hans að leggja að meginstefnu til sérákvæði og átti það sérstaklega við um breytingar á barnalögum. Starfshópurinn taldi þó rétt að stefnt yrði að því með tímanum að barnalög og fleiri lög yrðu kynhlutlaus.

3.2. Foreldrareglur sem lagðar eru til í frumvarpinu.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að grunnmerking orðsins faðir sé sú sama og í gildandi lögum, þ.e. að faðir sé karlkyns foreldri. Samkvæmt því telst karlmaður sem elur barn eftir breytingu á kynskráningu sinni faðir þess. Þetta þýðir að sá möguleiki verður fyrir hendi að barn eigi tvo feður. Til samræmis er lögð til breytt skilgreining hugtaksins móðir í barnalögum þannig að það eigi við um kvenkyns foreldri en ekki einungis um konu sem elur barn. Breytingin hefur í för með sér að barn getur átt tvær mæður, t.d. ef móðirin sem elur það er í hjúskap eða sambúð með trans konu. Vegna breyttrar merkingar hugtaksins er nauðsynlegt að breyta þeim ákvæðum barnalaga og annarra laga sem mæla fyrir um sérstök réttindi til handa móður vegna meðgöngu og barnsburðar. Þá er lagt til í frumvarpinu að hugtakið foreldri í þrengri merkingu verði notað um foreldra sem hafa hlutlausa kynskráningu enda sé orðið ekki kyngreinandi.
    Með frumvarpinu er lagt til að foreldraregla (sem kalla mætti parens est-reglu), hliðstæð pater est-reglu 2. gr. barnalaga, gildi um ákvörðun foreldrastöðu foreldris sem breytt hefur skráningu kyns og er í hjúskap eða skráðri sambúð með foreldrinu sem ól barnið. Með tilliti til þeirrar forsendu barnalaga að slíkar reglur grundvallist á yfirgnæfandi líkum á að makinn sé líffræðilegt foreldri er lagt til að parens est-regla eigi einungis við ef upphafleg kynskráning foreldra útilokar ekki líffræðileg tengsl makans við barnið. Reglan getur því ekki, frekar en pater est-regla gildandi laga, átt við í hjónaböndum eða sambúð einstaklinga sem höfðu upphaflega sömu kynskráningu. Krafan um möguleika á líffræðilegum tengslum við þessar aðstæður er í beinu samhengi við rétt barns til að þekkja uppruna sinn. Ef kona á von á barni án tæknifrjóvgunar samkvæmt lögum og líffræðileg tengsl við maka eru útilokuð er alger óvissa til staðar um uppruna sæðisins og þar með líffræðilegan uppruna barnsins. Árétta ber að þegar um er að ræða tæknifrjóvgun er staðan á hinn bóginn allt önnur. Þá er um að ræða formlegt ferli, notast við gjafasæði og sæðisgjafi verður lögum samkvæmt ekki dæmdur faðir barns, sbr. 6. mgr. 6. gr. gildandi laga.
    Ef parens est-reglan eða sérstakar reglur um foreldastöðu eftir tæknifrjóvgun eiga ekki við verður foreldrastaða þess foreldris sem ekki ól barnið og breytt hefur skráningu kyns ákvörðuð með foreldraviðurkenningu, sem er í öllum aðalatriðum sambærileg faðernisviðurkenningu, eða dómsmáli skv. II. kafla barnalaga. Það gildir þó einnig um regluna um foreldraviðurkenningu að hún getur einungis átt við ef upphafleg kynskráning útilokar ekki líffræðileg tengsl foreldris við barnið.
    Lagðar eru til sérstakar reglur um ákvörðun foreldrastöðu foreldra sem breytt hafa kynskráningu sinni þegar barn er getið við tæknifrjóvgun. Annars vegar er um að ræða reglur um foreldrastöðu þess foreldris sem elur barnið, þ.e. karlmaður sem elur barn telst faðir þess og einstaklingur með hlutlausa kynskráningu telst foreldri barns sem hann elur. Hins vegar eru reglur um foreldrastöðu hins foreldrisins og eru þær hliðstæðar reglum 6. gr. barnalaga.
    Í frumvarpinu eru einnig lagðar til breytingar á 2. mgr. 6. gr. gildandi barnalaga sem snýr að því að kona sem samþykkir að tæknifrjóvgun fari fram á eiginkonu sinni eða sambúðarmaka verði móðir barns en ekki foreldri eins og gildandi ákvæði mælir fyrir um.

4. Norræn löggjöf.
    Hér á eftir er gerð grein fyrir reglum annarra Norðurlandaþjóða um foreldrastöðu trans fólks.

4.1. Danmörk.
    Árið 2014 voru samþykktar lagabreytingar í Danmörku til að tryggja rétt trans fólks til að breyta skráðu kyni sínu (lög nr. 752 frá 25. júní 2014, lov om ændring af lov om Det Centrale Personregister (Tildeling af nyt personnummer til personer, der oplever sig som tilhørende det andet køn) og lög nr. 744 frá 25. júní 2014, lov om ændring af sundhedsloven og lov om assisteret reproduktion i forbindelse med behandling, diagnostik og forskning m.v. (Kriterier for kastration og justeringer som følge af indførelse af juridisk kønsskifte m.v.)). Ekki voru samhliða gerðar breytingar á dönsku barnalögunum varðandi foreldrastöðu. Þar er því enn gengið út frá óbreyttum skilgreiningum á hugtökunum móðir, faðir og meðmóðir ( d. medmor) sem er eiginkona móður. Einstaklingur sem fæðir barn telst þannig móðir, burtséð frá lagalegri kynskráningu, og faðernisreglur laganna eru óbreyttar. Samkvæmt upplýsingum frá dönskum yfirvöldum er starfshópur nú að yfirfara lögin með hliðsjón af réttarstöðu trans fólks.

4.2. Noregur.
    Í 6. gr. norsku laganna um breytingu á skráðu kyni (lov om endring af juridisk kjønn , 2016-06-17-46) er sérstakt ákvæði um réttaráhrif breytingar á skráningu kyns. Samkvæmt því gildir hið skráða kyn gagnvart öllum lögum og reglugerðum nema því sem lýtur að ákvörðun móðernis og faðernis og forsjár samkvæmt barnalögum.

4.3. Svíþjóð.
    Árið 2018 voru samþykkt á sænska þinginu lög um breytingu á foreldralögum (lag om ändring af föräldrabalken nr. 2018:1279). Þau fólu í sér allnokkrar breytingar á 1. kafla laganna sem fjallar um faðerni og móðerni. Meðal annars var nýjum undirkafla bætt við með fyrirsögninni: Faðerni og móðerni við breytta kynskráningu. Kjarni breytinganna er að karlmaður sem elur barn telst faðir þess. Um hann gilda reglur laga sem fjalla um móður. Trans kona sem getur barn með sæði sínu telst móðir þess. Um hana gilda reglur laga sem fjalla um föður. Rétt er að vekja sérstaka athygli á því að samkvæmt kaflanum gildir ekki líkindaregla, hliðstæð pater est-reglunni, um hitt foreldri barnsins, þrátt fyrir að foreldrarnir séu í hjúskap eða sambúð. Ákvörðun þess foreldris barnsins sem ekki ól það byggist alltaf á faðernis-/móðernisviðurkenningu eða dómi (sjá 2. mgr. 13. gr. og 2. mgr. 14. gr. foreldralaganna). Þetta á einnig við þegar tvær konur í hjúskap, staðfestri samvist eða sambúð eignast barn sem getið er við tæknifrjóvgun, sbr. 9. gr.
    Í frumvarpi því er varð að fyrrnefndum breytingarlögum er vísað til þess að viðurkenning breytingar á kynskráningu falli undir 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu um friðhelgi einkalífs og fjölskyldu, sbr. dóm Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Christinu Goodwin gegn Bretlandi frá 11. júlí 2002 (28957/95). Þá er bent á að sænskir stjórnsýsludómstólar hafi talið það ganga gegn reglum um friðhelgi einkalífs að skrá karlmann sem fæðir barn móður þess.
    Samkvæmt upplýsingum frá sænskum stjórnvöldum er unnið að lagafrumvarpi sem byggir á tillögum sérstakrar nefndar um faðerni og foreldrastöðu frá 2018. Þær fela meðal annars í sér að líkindaregla samsvarandi pater est-reglunni gildi um hjón þar sem annað eða bæði hafa breytt skráningu kyns.

4.4. Finnland.
    Í Finnlandi hafa ekki verið sett lög um rétt einstaklinga til að ákvarða kyn sitt sjálfir og þar í landi er ófrjósemisaðgerð enn forsenda fyrir því að skráningu kyns sé breytt. Samkvæmt upplýsingum frá finnskum stjórnvöldum er unnið að breytingum á þessu með nýrri löggjöf og er talið nauðsynlegt að endurskoða foreldralöggjöf samhliða þeirri vinnu.

5. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Frumvarp þetta miðar að því að tryggja réttarstöðu foreldra sem breytt hafa kynskráningu sinni og gera þá jafnsetta öðrum foreldrum. Eins og getið er um hér að framan hafa gildandi barnalög ekki að geyma sérstök ákvæði um foreldrastöðu trans fólks og einstaklinga með hlutlausa kynskráningu.
    Efni frumvarpsins varðar bæði 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, sem kveður á um friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu, og jafnræðisreglu 1. mgr. 65. gr. Hugtakið einkalíf í 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar er víðtækt og í friðhelgi þess felst réttur manns til að ráða yfir lífi sínu og líkama og til að njóta friðar um lífshætti sína og einkahagi. Jafnframt er litið svo á að tilfinningalíf og tilfinningasambönd við aðra njóti verndar samkvæmt ákvæðinu. Með hugtakinu fjölskylda er átt við fjölskyldutengsl í víðum skilningi, t.d. samband foreldra og barna. Það leiðir af 3. mgr. 71. gr. að friðhelgi einkalífs, heimilis eða fjölskyldu verður ekki skert nema samkvæmt sérstakri lagaheimild og þá einungis ef brýna nauðsyn ber til vegna réttinda annarra.
    Samkvæmt 1. mgr. 65. gr. stjórnarskrárinnar skulu allir vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti. Tilvísunin til „stöðu að öðru leyti“ felur í sér að mismununarástæður þær sem taldar eru upp í ákvæðinu eru ekki tæmandi heldur kann að vera óheimilt að mismuna fólki á grundvelli annarra þátta, svo sem kynhneigðar og kynvitundar.
    Einkalíf og fjölskyldulíf fólks nýtur einnig verndar skv. 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Hugtakið einkalíf í greininni hefur víða merkingu og hefur Mannréttindadómstóll Evrópu meðal annars fellt undir það líkamlega og andlega friðhelgi, líkamlega og félagslega sjálfsmynd einstaklings og jafnframt nýtur kynvitund og kynhneigð fólks verndar samkvæmt greininni. Hér er einnig vert að minnast á einkalífsvernd skv. 17. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og 16. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013. Í síðarnefndu greininni er mælt fyrir um vernd einkalífs barna og fjölskyldna þeirra. Ákvæði 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar er skýrt með hliðsjón af þeim skuldbindingum sem felast í þessum ákvæðum, ekki síst 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu eins og hún hefur verið túlkuð í dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu.
    Eins og áður er fram komið hafa barnalög ekki að geyma sérstök ákvæði sem taka til þess þegar einstaklingar sem breytt hafa kynskráningu sinni eignast barn. Að óbreyttum lögum yrði foreldraskráning þeirra í andstöðu við kynvitund þeirra og skráningu kyns í þjóðskrá. Færa má rök fyrir því að það að skrá karlmann sem móður barns og konu sem föður barns sé til þess fallið að opinbera að óþörfu stöðu foreldranna sem trans fólks. Verður að telja hæpið að þetta samrýmist þeirri einkalífsvernd sem framangreind ákvæði stjórnarskrárinnar og mannréttindasamninga mæla fyrir um. Með frumvarpinu er stefnt að því að bæta úr þessu. Benda má á að stjórnsýsludómstólar í Svíþjóð hafa talið sams konar fyrirkomulag þar í landi brjóta í bága við 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. 4. kafla.
    Í 1. mgr. 7. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins er kveðið á um rétt barns til að þekkja foreldra sína. Kveðið er á um þessi réttindi í 1. gr. a barnalaga. Í því skyni að standa vörð um rétt barns til að þekkja líffræðilegan uppruna sinn er lagt til að nýju ákvæði verði bætt við 1. gr. a og mælt fyrir um að barn eigi rétt á tiltækum upplýsingum í þjóðskrá um skráningu á foreldrastöðu foreldra sinna svo og upplýsingum um breytingar á kynskráningu þeirra.

6. Samráð.
    Efni frumvarpsins byggir á tillögum starfshóps samkvæmt bráðabirgðaákvæði II í lögum um kynrænt sjálfræði um breytingar á lögum sem nauðsynlegar eru vegna setningar þeirra laga. Í starfshópnum voru fulltrúar dómsmálaráðuneytis, félagsmálaráðuneytis, heilbrigðisráðuneytis og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis. Formaður starfshópsins var skipaður af forsætisráðherra og sérfræðingur forsætisráðuneytisins var starfsmaður hópsins. Skipan starfshópsins miðaði að því að tryggja gott samráð um umfangsmestu lagabreytingarnar. Starfshópurinn átti meðal annars fundi með fulltrúum frá Samtökunum '78 – félagi hinsegin fólks á Íslandi og Trans Íslandi um nauðsynlegar breytingar á barnalögunum. Starfshópurinn ræddi jafnframt um ýmis atriði tengd framkvæmd barnalaga við fulltrúa frá Þjóðskrá Íslands. Þá leitaði dómsmálaráðuneytið eftir samráði og samvinnu við Hrefnu Friðriksdóttur, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands, við vinnslu frumvarpsins. Dómsmálaráðuneytið hafði auk þess frekara samráð við Þjóðskrá Íslands við vinnslu frumvarpsins.
    Drög að frumvarpi til breytinga á barnalögum frá starfshópi samkvæmt bráðabirgðaákvæði II í lögum um kynrænt sjálfræði voru birt í samráðsgátt stjórnvalda á vefnum Ísland.is til umsagnar frá 7.–21. ágúst 2020 (mál nr. S-141/2020. Síðan þá hafa frumvarpsdrögin tekið nokkrum breytingum, aðallega hvað uppsetningu lagaákvæða frumvarpsins varðar. Alls bárust tvær umsagnir í samráðsgáttinni, ein frá einstaklingi sem var mótfallinn efni frumvarpsins og hin frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Samband íslenskra sveitarfélaga gerði ekki efnislegar athugasemdir við frumvarpið en vildi vekja athygli á því að tilefni væri til þess að endurskoða og bæta umgjörð um feðrun barna. Hvað varðar markmið og tilgang frumvarp þessa vísast til almennra athugasemda frumvarpsins. Auk þess bárust dómsmálaráðuneytinu á síðari stigum þrjár aðrar umsagnir, ein frá Samtökunum ´78 – félagi hinsegin fólks á Íslandi, ein frá Trans Íslandi, félagi trans fólks á Íslandi, og ein frá Þjóðskrá Íslands.
    Í umsögn Samtakanna ´78 – félags hinsegin fólks á Íslandi er því meðal annars fagnað að í frumvarpinu sé foreldrum með hlutlausa kynskráningu veittur réttur í lögum sem foreldri. Einnig sé jákvætt skref að trans einstaklingum sé veittur sami réttur og séu því skráð með þeirra réttu kynskráningu. Í umsögninni kemur fram að mikilvægt sé að tryggja þessi réttindi enda væru lög um kynrænt sjálfræði í þeim anda að veita trans fólki og kynsegin fólki sama rétt og öðrum þegar kemur að almennum réttindum. Samtökin bentu á að fulls jafnræðis í foreldraskráningu væri þó ekki gætt. Hlutverk starfshópsins hafi þó verið það að bæta inn kynhlutlausri skráningu og tryggja rétt trans fólks en að mati samtakanna hefði þurft að líta til foreldraskráningar í víðara samhengi. Þá var óskað skýringa á því hvort breytingar á barnalögum geri ráð fyrir tveimur konum sem eignast barn með gjafasæði og að þær verði þá sjálfkrafa skráðar foreldrar/mæður barnsins án skilyrða. Óskað var frekari útskýringa á 3. mgr. 5. gr. um að upphafleg kynskráning útiloki ekki líffræðileg tengsl við maka. Óskað var eftir upplýsingum um hvernig stjórnvöld muni tryggja friðhelgi trans fólks ef ætlunin sé að geyma upplýsingar um líffræðileg einkenni þeirra til þess að geta framfylgt lögunum. Þá voru gerðar athugasemdir við það að samkvæmt frumvarpinu þurfi trans karl sem eignast barn með konu að gera sérstaklega grein fyrir gjafasæði en samkvæmt núgildandi lögum sé það ekki krafa. Sé það skref aftur á bak og talið mismuna feðrum. Samtökin hvöttu einnig til þess að breyta lögum þannig að maki eða sambúðarmaki einstaklings sem elur barn verði sjálfkrafa foreldri, faðir eða móðir barns (í samræmi við kynskráningu) og án þess að skila inn sérstöku vottorði um að gjafasæði hafi verið notað eða tæknifrjóvgunarmeðferð þegin. Það myndi gæta jafnræðis meðal foreldra og tryggja hinsegin foreldrum sama rétt og öðrum. Mikilvægt væri einnig að barn fái rétta skráningu foreldra sinna en mikilvægt væri að hafa það rétt og skýrt alveg frá upphafi.
    Í umsögn Trans Íslands kemur meðal annars fram að fagnað sé því mikilvæga skrefi að foreldri með hlutlausa kynskráningu hljóti viðurkenningu í barnalögum sem foreldri og að sömuleiðis sé trans körlum og trans konum gert kleift að vera skráð í samræmi við kynvitund og vilja hvers og eins. Mikilvæg sé að réttur þeirra sé tryggður með afgerandi hætti eins og lagt hefur verið til. Þá er því fagnað að Ísland muni vera í fararbroddi í þessum málefnum og vera fordæmisgefandi fyrir önnur ríki sem vilja tryggja trans fólki jöfn réttindi sem foreldrar. Í umsögninni er nokkrum athugasemdum komið á framfæri og meðal annars lagt til að maki eða sambúðarmaki einstaklings sem elur barn verði sjálfkrafa viðurkennd/ur/t sem foreldri/faðir/móðir barns í samræmi við núverandi kynskráningu viðkomandi, án þess að þurfa að skila inn vottorði til Þjóðskrár Íslands um að gjafasæði hafi verið notað.
    Hvað varðar athugasemdir um það að upphafleg kynskráning útiloki ekki líffræðileg tengsl við maka vísast til athugasemda við 4. gr. frumvarpsins. Með vísan til framangreindra athugasemda frá Samtökunum ´78 og Trans Íslandi um tæknifrjóvgun og þau gögn sem leggja þarf fram hjá Þjóðskrá Íslands vísast til þess sem áður hefur komið fram um gildissvið pater est-/parens est-reglunnar. Með frumvarpi þessu stendur ekki til að gera grundvallarbreytingar á undirstöðusjónarmiðum um foreldrastöðu, þ.e. að sjálfkrafa skráning á faðerni geri ráð fyrir löglíkum á faðerni nema formleg tæknifrjóvgun hafi átt sér stað. Af þessu leiðir að í tilviki tveggja kvenna sem eignast barn verður að sýna fram á að formleg tæknifrjóvgun hafi átt sér stað. Árétta ber að í frumvarpinu er þó lagt til að ráðherra setji reglugerð um skráningu barns í kjölfar tæknifrjóvgunar, sbr. 7. gr. frumvarpsins. Með þeim hætti er unnt að taka til skoðunar hvernig haga megi skráningu á sem aðgengilegastan hátt með hliðsjón af gildandi lögum.
    Þjóðskrá Íslands óskaði eftir nánari skýringum á b-lið 1. gr. frumvarpsins um það að barn eigi rétt á tiltækum upplýsingum í þjóðskrá um skráningu á foreldrastöðu foreldra sinna svo og upplýsingum um breytingar á kynskráningu þeirra. Óskað var eftir nánari upplýsingum um hverjir mættu fá þessar upplýsingar, með hvaða hætti og hvenær. Í athugasemdum með viðkomandi ákvæði hafa nú verið settar nánari útskýringar. Auk þess er gert ráð fyrir að framkvæmdin hvað þetta varðar verði mótuð nánar í reglugerð, sbr. 7. gr. frumvarpsins. Þá óskaði Þjóðskrá Íslands eftir upplýsingum um hvort upplýsingar í venslaskrá þjóðskrár varðandi foreldratengsl skuli ávallt uppfærast breyti foreldri foreldraskráningu sinni. Að lokum var Þjóðskrá Íslands með ábendingu varðandi eyðublöð. Frumvarpið gerir þá kröfu að barn eigi rétt á tiltækum upplýsingum í þjóðskrá um skráningu á foreldrastöðu foreldra sinna og upplýsingum um breytingar á kynskráningu þeirra og ber Þjóðskrá Íslands að veita slíkar tiltækar upplýsingar. Ekki er gert ráð fyrir að framkvæmdin varðandi eyðublöð stofnunarinnar gefi tilefni til að breyta ákvæðum frumvarpsins en framangreint snýr að framkvæmdinni hjá Þjóðskrá Íslands. Varðandi skráningu upplýsinga í venslaskrá þjóðskrá ber stofnuninni að skrá og halda utan um skráningu á þeim breytingum sem verða á kynskráningu foreldris. Er það meðal annars vegna þess að samkvæmt frumvarpinu á barn rétt á tiltækum upplýsingum í þjóðskrá um skráningu á foreldrastöðu foreldra sinna svo og upplýsingum um breytingar á kynskráningu þeirra.

7. Mat á áhrifum.
    Í frumvarpinu eru lagðar til grundvallarbreytingar á merkingu hugtakanna móðir og faðir þannig að þau munu ekki endurspegla uppruna kynfrumna eða líffræðilegan uppruna barns með sama hætti og nú er. Samhliða því markmiði að tryggja jafnræði og koma til móts við kynvitund þeirra sem verða foreldrar er nauðsynlegt að tryggja réttindi barns til friðhelgi einkalífs og réttar þess til að þekkja uppruna sinn. Til að tryggja eins og kostur er rétt barns til að þekkja líffræðilegan uppruna sinn er lagt til að mælt verði fyrir um að barn eigi rétt á tiltækum upplýsingum í þjóðskrá um skráningu á foreldrastöðu foreldra sinna svo og upplýsingum um breytingar á kynskráningu þeirra.
    Í frumvarpinu er meðal annars lagt til að í barnalögum verði bætt nýjum ákvæðum sem mæla fyrir um foreldrastöðu trans fólks og einstaklinga með hlutlausa kynskráningu. Gildandi barnalög hafa ekki að geyma sérstök ákvæði um foreldrastöðu trans fólks og einstaklinga með hlutlausa kynskráningu. Samkvæmt framansögðu heimila lög um kynrænt sjálfræði einstaklingum að hafa hlutlausa skráningu kyns í þjóðskrá og þurfa foreldrareglur barnalaga jafnframt að taka mið af því. Verði frumvarpið að lögum verður réttarstaða foreldra sem breytt hafa kynskráningu sinni, þ.e. trans fólks og einstaklinga með hlutlausa kynskráningu, tryggð í íslenskum lögum. Áhrif frumvarpsins felast því einkum í réttarbótum fyrir þennan hóp fólks þar sem kynskráning hans verður viðurkennd að fullu og jafnræðis gætt að lögum. Fyrirhugaðar breytingar miða því að því að gera þá foreldra jafnsetta öðrum foreldrum.
    Þá eru jafnframt lagðar til breytingar á barnalögum sem snúa að því að kona sem samþykkir að tæknifrjóvgun fari fram á eiginkonu sinni eða sambúðarmaka verði talin móðir barns en ekki foreldri eins og gildandi ákvæði mælir fyrir um. Hafa þær breytingar einnig það markmið að tryggja jafnræði meðal foreldra.
    Þær breytingar sem frumvarpið felur í sér hafa því áhrif á foreldra, óháð kyni, og er markmið breytinganna að tryggja jafnræði. Frumvarpið hefur einnig áhrif á börn sem eiga rétt á því að þekkja uppruna sinn. Vísast að öðru leyti til almennra athugasemda um aðdraganda þeirra breytinga sem lagðar eru til í frumvarpi þessu.
    Hvorki er gert ráð fyrir að samþykkt frumvarpsins hafi fjárhagsleg áhrif á ríkissjóð, sem neinu nemur, né á sveitarfélög.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Í ákvæðinu eru lagðar til breytingar á 1. gr. a laganna sem kveður á um rétt barns til að þekkja báða foreldra sína. Jafnframt er kveðið á um skyldu móður til að feðra barn sitt þegar feðrunarreglur 2. og 6. gr. eiga ekki við, þ.e. pater est-reglan og skyldar reglur. Lagðar eru til breytingar á 1. gr. a sem fela í sér að sams konar regla gildi um foreldra sem breytt hafa kynskráningu sinni. Sams konar skyldur hvíla því á móður sem elur barn ef hitt foreldrið er einstaklingur sem breytt hefur kynskráningu sinni og parens est-regla 3. mgr. 5. gr. á ekki við. Sams konar skyldur hvíla einnig á einstaklingi sem elur barn eftir að hafa breytt kynskráningu þegar pater est-regla 2. mgr. 5. gr. eða parens est-regla 3. mgr. 5. gr. á ekki við. Skyldan nær ekki til einhleypra einstaklinga sem eignast barn sem getið er við tæknifrjóvgun.
    Í frumvarpinu eru lagðar til grundvallarbreytingar á merkingu hugtakanna móðir og faðir þannig að þau munu ekki endurspegla uppruna kynfrumna eða líffræðilegan uppruna barns með sama hætti og nú er. Jafnhliða því markmiði að tryggja jafnræði og koma til móts við kynvitund þeirra sem verða foreldrar er nauðsynlegt að tryggja réttindi barnsins til friðhelgi einkalífs og réttar þess til að þekkja uppruna sinn. Til að tryggja eins og kostur er rétt barns til að þekkja líffræðilegan uppruna sinn er lagt til að nýrri málsgrein verði bætt við 1. gr. a þar sem mælt verði fyrir um að barn eigi rétt á tiltækum upplýsingum í þjóðskrá um skráningu á foreldrastöðu foreldra sinna svo og upplýsingum um breytingar á kynskráningu þeirra. Ekki er mælt fyrir um tiltekin aldursmörk í þess sambandi. Gera verður ráð fyrir að forsjárforeldrar geti komið fram fyrir hönd barna sinna í samræmi við ákvæði laga um forsjárskyldur og að börn öðlist jafnframt sjálfstæðan rétt til að óska upplýsinga í samræmi við vaxandi aldur og þroska. Gert er ráð fyrir að ráðherra setji reglugerð meðal annars um upplýsingagjöf samkvæmt ákvæði þessu, sbr. 7. gr. frumvarpsins.

Um 2. gr.

    Í ákvæðinu eru lagðar til breytingar á 2. gr. laganna. Í íslenskum rétti er gengið út frá því að kona sem elur barn sé móðir þess en um þetta er ekki almennt ákvæði í barnalögum. Þetta er hins vegar sérstaklega tekið fram um móður barns sem getið er við tæknifrjóvgun, sbr. 1. mgr. 6. gr. laganna. Lagt er til að nýrri málsgrein verði bætt við 2. gr. laganna þar sem þessi meginregla um móðerni barns er sett fram. Í 2. gr. laganna eru nú reglur um faðerni barns þegar foreldrar þess eru í hjónabandi eða skráðri sambúð, þ.e. pater est-reglan og skyldar reglur. Breytingin miðar að samræmi innan laganna því að í frumvarpinu er lagt til að sérstök regla verði sett um foreldrastöðu einstaklings sem elur barn eftir breytingu á kynskráningu. Gert er ráð fyrir að fyrirsögn greinarinnar verði breytt til samræmis við efnisinnihald eftir breytingar.

Um 3. gr.

    Í ákvæðinu eru lagðar til breytingar á 3. gr. laganna. Í 1. mgr. 3. gr. laganna er fjallað um hvernig feðra skuli barn ef feðrunarreglur 2. gr. eiga ekki við. Lagt er til að bæta við nýrri 2. mgr. 3. gr. þar sem áréttað er að ákvæði 5. gr. gildi um foreldrastöðu barns þegar annað eða báðir foreldrar hafa breytt skráningu kyns.
    2. mgr. 3. gr. barnalaga mælir fyrir um að 6. gr. laganna gildi um foreldri barns sem getið er við tæknifrjóvgun. Lagt er til að bætt verði við ákvæðið tilvísun til 6. gr. a sem hefur að geyma foreldrareglur eftir tæknifrjóvgun þegar annað foreldri eða báðir hafa breytt kynskráningu sinni. Jafnframt er gert ráð fyrir að 2. málsl. 2. mgr. 3. gr. falli brott en að samhljóða ákvæði verði í 4. mgr. 6. gr. Ákvæðið mælir fyrir um að barn einhleyprar konu sem getið er við tæknifrjóvgun verði ekki feðrað. Þykir það eiga betur heima í 6. gr. Í samræmi við þetta er einnig lagt til að skammstöfunin „o.fl.“ í fyrirsögn ákvæðisins falli brott.

Um 4. gr.

    Í ákvæðinu er lagt til nýtt ákvæði 5. gr. um foreldra barns þegar annað foreldri eða báðir hafa breyttkynskráningu sinni.
    Í 1. mgr. er kveðið á um foreldrastöðu einstaklings sem elur barn eftir að hafa breytt kynskráningu sinni. Samkvæmt ákvæðinu telst karlmaður sem elur barn faðir þess en einstaklingur með hlutlausa kynskráningu sem elur barn telst foreldri þess. Orðið foreldri er hér notað í þrengri merkingu, sbr. umfjöllun í almennum athugasemdum frumvarpsins.
    2. mgr. hefur að geyma feðrunarreglu um börn hjóna og foreldra í skráðri sambúð þegar einstaklingurinn sem elur barnið hefur breytt kynskráningu sinni en hitt foreldri þess ekki. Reglan er sú sama og pater est-regla 2. gr. laganna og ákvæði þeirrar greinar gilda um þessar aðstæður eftir atvikum.
    Í 3. mgr. er sett fram foreldraregla um börn hjóna og foreldra í skráðri sambúð þegar maki þess sem ól barnið hefur breytt kynskráningu sinni. Sá sem elur barn getur hvort sem er verið einstaklingur sem hefur breytt kynskráningu sinni eða ekki. Hafi maki þess sem elur barn breytt kynskráningu sinni telst viðkomandi móðir eða foreldri barns ef það er alið í hjúskap eða skráðri sambúð þeirra. Hér er gert ráð fyrir að barnið sé getið með sæði makans. Sá getur verið trans kona sem telst þá móðir barnsins eða einstaklingur með hlutlausa kynskráningu sem telst þá foreldri barnsins. Reglan er hliðstæð pater est-reglunni. Ákvæði 2. gr. laganna gilda nánar um ákvörðun foreldrastöðu samkvæmt greininni eftir atvikum.
    Til samræmis við ákvæði gildandi laga er nauðsynlegt að árétta að 3. mgr. gildir ekki ef upphafleg kynskráning útilokar líffræðileg tengsl makans við barnið. Hún gildir því ekki um hjón eða sambúðarfólk sem upphaflega hafði sömu kynskráningu. Eins og fram er komið byggist pater est-reglan á því að yfirgnæfandi líkur séu á að eiginmaður eða sambúðarmaður móður sé líffræðilegur faðir barns sem hún elur. Þetta er í samræmi við þá meginforsendu laganna að líffræðileg tengsl foreldra við barn ráði foreldrastöðu þeirra. Með frumvarpinu er ekki gert ráð fyrir að hróflað verði við þessu og því þykir rétt að setja fyrrnefnda undanþágureglu í 3.mgr. Rétt er að nefna að ákvæðið gildir ekki um foreldrastöðu þegar hjón eða sambúðarfólk sem breytt hafa kynskráningu eignast barn sem getið er við tæknifrjóvgun. Um það gilda ákvæði 6. gr. a.
    Ákvæði 4. mgr. er sambærilegt 3. gr. laganna og mælir fyrir um hvernig foreldrastaða þess foreldris sem ekki ól barn verður ákvörðuð ef pater est-regla 2. mgr. eða parens est-regla 3. mgr. á ekki við, þ.e. ef foreldrar barnsins eru ekki í hjúskap eða skráðri sambúð eða ef undanþágureglan í 3. mgr. á við. Foreldrastaða verður þá ákvörðuð á grundvelli faðernis- eða foreldraviðurkenningar skv. 5. eða 6. mgr., samþykkis einstaklings fyrir því að tæknifrjóvgun sé framkvæmd á maka hans skv. 6. gr. a eða dómsúrlausnar, sbr. II. kafla, sbr.19. gr. a. Þetta er í fullu samræmi við það sem gildir um feðrun barns ef feðrunarreglur 2. gr. laganna ( pater est-reglan og skyldar reglur) eiga ekki við, sbr. 3. gr. laganna.
    Í 5. mgr. er mælt fyrir um faðernisviðurkenningu. Ákvæðið fjallar um viðurkenningu karlmanns á að vera faðir barns sem einstaklingur sem breytt hefur kynskráningu sinni hefur alið. Er þá miðað við að faðirinn hafi ekki breytt kynskráningu sinni. Um faðernisviðurkenningu fer nánar skv. 4. gr. laganna.
    Í 6. mgr. er kveðið á um viðurkenningu einstaklings sem breytt hefur kynskráningu sinni á því að vera foreldri barns en sá sem elur barn getur ýmist hafa breytt kynskráningu sinni eða ekki. Það fer eftir kynskráningu þess sem gengst við foreldrastöðu hvort viðkomandi telst móðir eða foreldri. Trans kona telst móðir barns en einstaklingur með hlutlausa kynskráningu telst foreldri barns sem viðkomandi gengst við. Reglan um foreldraviðurkenningu gildir ekki ef upphafleg kynskráning útilokar líffræðileg tengsl viðkomandi við barnið. Trans karl getur til að mynda ekki gefið út foreldraviðurkenningu gagnvart barni því að gert er ráð fyrir að foreldrið sem gengst við barninu hafi getið það með sæði sínu. Ástæður undantekningarreglunnar eru þær sömu og sambærilegrar undanþágureglu í 3. mgr., sbr. skýringar við það ákvæði hér að framan.
    Lagt er til í 7. mgr. að ákvæði laganna og annarra laga um konu sem gengur með og elur barn eigi við um þann sem telst faðir eða foreldri skv. 1. mgr. Þetta þýðir að ónauðsynlegt verður að breyta öllum slíkum ákvæðum sérstaklega og dregur það mjög úr umfangi lagabreytinga. Vísað er til tiltekinna ákvæða laganna í þessu sambandi en af ákvæðum annarra laga sem tilvísunin tekur til má nefna ýmsar greinar laga um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 95/2000, barnaverndarlaga, nr. 80/2002, laga um almannatryggingar, nr. 100/2007, laga um þungunarrof, nr. 43/2019, 4. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga um ráðgjöf og fræðslu varðandi kynlíf og barneignir, nr. 25/1975, 11. mgr. 32. gr. laga um sjúkratryggingar, nr. 112/2008, og 33. gr. laga um útlendinga, nr. 80/2016.
    Í 8. mgr. er kveðið á um réttarstöðu foreldris með sem breytt hefur kynskráningu sinni, þ.e. móður eða foreldris skv. 3. mgr. og þess sem gengst við foreldrastöðu skv. 6. mgr. Mælt er fyrir um að tiltekin ákvæði laganna sem fjalla um föður og barnsföður eigi einnig við um þessa foreldra. Sama er að segja um ákvæði annarra laga sem fjalla um föður eða barnsföður.
    Í 9. mgr. er mælt fyrir um að ákvæðið eigi einnig við, eftir því sem við getur átt, ef kynskráningu foreldris er breytt eftir fæðingu barns. Þetta þýðir að þeir einstaklingar sem eiga börn fyrir breytingu á kynskráningu sinni eiga rétt á því að skráðri foreldrastöðu þeirra verði breytt gagnvart þeim börnum, t.d. í opinberum gögnum.

Um 5. gr.

    Í ákvæðinu eru lagðar til breytingar á 6. gr. laganna. Í gildandi lögum er hugtakið móðir einungis notað um konu sem elur barn. Frumvarpið gerir ráð fyrir að merkingu hugtaksins móðir í barnalögum verði breytt og að hugtakið verði framvegis notað um kvenkyns foreldri. Þessi breyting hefur það í för með sér að konur í hjúskap eða skráðri sambúð sem eignast saman barn sem getið er við tæknifrjóvgun teljast báðar mæður þess. Því er lögð til sú breyting á 1. málsl. 2. mgr. 6. gr. að orðið móðir komi í stað orðsins foreldri en síðarnefnda orðið hefur til þessa verið notað um konu sem samþykkt hefur að tæknifrjóvgun fari fram á eiginkonu sinni eða sambúðarkonu samkvæmt ákvæðum laga um tæknifrjóvgun og notkun kynfrumna og fósturvísa manna til stofnfrumurannsókna.
    Lagt er til að ákvæði 2. málsl. 2. mgr. 3. gr. laganna, um að barn einhleyprar konu sem getið er við tæknifrjóvgun verði ekki feðrað, verði fært í 6. gr. og verði 4. mgr., sbr. umfjöllun einnig um 3. gr. frumvarpsins. Þykir ákvæðið eiga betur heima í 6. gr. laganna. Vegna þessa er nauðsynlegt að lagfæra tilvísanir til málsgreinanúmera í ákvæðinu.
    Til samræmis við breytta notkun orðsins móðir er lagt til í nýrri 9. mgr. að ákvæði 8. mgr. 5. gr. gildi um móður skv. 2. mgr. eftir því sem við, þ.e. móður sem ekki elur barnið.
    Þar sem 6. gr. laganna kveður í senn á um foreldrastöðu konu sem elur barn og maka hennar er lagt til að fyrirsögn greinarinnar verði breytt til að endurspegla það.

Um 6. gr.

    Með ákvæðinu er lagt til nýtt ákvæði barnalaga, 6. gr. a, sem hefur að geyma foreldrareglur þegar barn er getið við tæknifrjóvgun og annað foreldri eða báðir hafa breytt kynskráningu sinni. Reglurnar eru sambærilegar reglum 6. gr. laganna. Í 1. mgr. er mælt fyrir um foreldrastöðu einstaklings sem elur barn eftir tæknifrjóvgun og breytt hefur kynskráningu sinni. Ákvæðið er sama efnis og 1. mgr. 5. gr., þ.e. karlmaður sem elur barn telst faðir þess en einstaklingur með hlutlausa kynskráningu telst foreldri barns sem hann elur.
    Ákvæði 2. og 3. mgr. 6. gr. a fjalla um hitt foreldri barns sem getið er við tæknifrjóvgun en foreldrastaðan byggist á samþykki þess fyrir því að tæknifrjóvgun fari fram á makanum eins og gildir skv. 2. og 3. mgr. 6. gr. Ákvæði 2. mgr. 6. gr. a á við þegar sá sem elur barn hefur breytt kynskráningu sinni en maki hefur ekki breytt kynskráningu sinni. Í ákvæðinu er mælt fyrir um að eiginmaður, sem samþykkt hefur að tæknifrjóvgun samkvæmt ákvæðum laga um tæknifrjóvgun að tæknifrjóvgun fari fram á maka sínum sem hefur breytt kynskráningu sinni, teljist faðir barns sem þannig er getið. Eiginkona í sömu sporum telst móðir barns. Í 3. mgr. 6. gr. a er fjallað um það þegar maki þess sem gengst undir tæknifrjóvgun hefur breytt kynskráningu sinni. Hafi viðkomandi samþykkt aðgerðina telst viðkomandi móðir, faðir eða foreldri barns eftir því hvernig kynskráningu viðkomandi er háttað. Karlmaður telst þá faðir, kona telst móðir en einstaklingur með hlutlausa kynskráningu telst foreldri barns. Ákvæði 2. og 3. mgr. 6. gr. a gilda einnig um einstaklinga sem skráð hafa sambúð sína í þjóðskrá á sama hátt og 2. og 3. mgr. 6. gr.
    Í 4. mgr. er regla sambærileg þeirri sem lagt er til að verði 4. mgr. 6. gr. og kveður hún á um að ef einhleypur einstaklingur sem breytt hefur kynskráningu sinni eignast barn sem getið er við tæknifrjóvgun verði hitt foreldri þess ekki ákvarðað.
    Í 5. mgr. er leitast við að tryggja að réttarstaða foreldra barns sem getið er við tæknifrjóvgun sé sú sama og annarra foreldra með því að vísa til ákvæða 7. og 8. mgr. 5. gr. en um þau ákvæði er fjallað hér að framan.
    Í 6. mgr. er gert ráð fyrir að heimildir 6. gr. laganna um viðurkenningu á tæknifrjóvgun sem fram fer erlendis eigi einnig við þegar annað foreldrið eða báðir hafa breytt kynskráningu sinni.
    Í 7. mgr. er mælt fyrir um að ákvæði 7. og 8. mgr. 6. gr. laganna gildi einnig eftir atvikum um sæðisgjafa sem breytt hefur skráningu kyns og 8. mgr. 6. gr. gildi eftir atvikum um maka, hvort sem maki hefur breytt skráningu kyns eða ekki.
    Í 8. mgr. er mælt fyrir um að ákvæðið eigi einnig við, eftir því sem við getur átt, ef kynskráningu foreldris er breytt eftir fæðingu barns.

Um 7. gr.

    Í ákvæðinu eru lagðar til breytingar á 7. gr. laganna. Lagt er til að 5. málsl. 2. mgr. 7. gr. falli brott en í staðinn komi reglugerðarákvæði um sama efni í nýrri 6. mgr. 7. gr. Er jafnframt lagt til að færa gildandi 8. mgr. 6. gr. í nýja 6. mgr. 7. gr. Kveður ný 6. mgr. á um það að ráðherra setji nánari ákvæði um form og framkvæmd skráningar barns í þjóðskrá samkvæmt ákvæði 7. gr., svo og 6. gr. og 6. gr. a, í reglugerð, þ.m.t. um gögn til staðfestingar á fæðingu barns, tæknifrjóvgun hér á landi og erlendis og um foreldri þess og upplýsingagjöf skv. 2. mgr. 1. gr. a.
    Þá er lagt til að við 7. gr. laganna bætist ný málsgrein, 5. mgr., sem kveður á um að ákvæði 2.–4. mgr. 7. gr. gildi eftir atvikum um þá sem breytt hafa kynskráningu sinni en greinin snýr að skráningu barns í þjóðskrá og málsmeðferð við feðrun þegar kona sem ekki er í hjúskap elur barn.

Um 8. gr.

    Lögð er til breyting á tilvísun í 10. gr. laganna vegna breytinga á 6. gr. laganna, sbr. 3. gr. frumvarpsins.

Um 9. gr.

    Með ákvæðinu er lagt til að nýtt ákvæði, 19. gr. a, bætist við II. kafla laganna um dómsmál til feðrunar barns. Samkvæmt ákvæðinu gilda ákvæði kaflans eftir atvikum um dómsmál til að ákvarða foreldrastöðu þess foreldris barns sem ekki ól það þegar annað foreldri eða báðir hafa breytt kynskráningu sinni. Jafnframt er mælt fyrir um að ákvæði annarra laga sem fjalla um faðernismál gildi einnig um slík mál eftir atvikum. Samkvæmt þessu gildir t.d. 4. málsl. 2. mgr. 10. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991, og 2. tölul. 6. mgr. 1. gr. laga um aukatekjur ríkissjóðs, nr. 88/1991, um dómsmál til að ákvarða foreldrastöðu barns.

Um 10. gr.

    Í ákvæðinu eru lagðar til breytingar á 23. gr. laganna sem fjallar um vefengingu á faðerni barns sem getið er við tæknifrjóvgun o.fl. Skv. 1. mgr. gildir að hafi maður samþykkt að tæknifrjóvgun fari fram á eiginkonu eða sambúðarkonu sinni sé í vefengingarmáli skv. III. kafla laganna því aðeins unnt að taka til greina kröfu um vefengingu á faðerni barns að ljóst sé að það sé ekki getið við tæknifrjóvgunina. Skv. 2. mgr. greinarinnar gildir hið sama eftir atvikum um kröfu um að kona sem er maki móður sem elur barn sé foreldri skv. 2. mgr. 6. gr. Í samræmi við breytta skilgreiningu hugtaksins móðir samkvæmt frumvarpinu er lagt til að í stað orðsins „foreldri“ í 2. mgr. komi „móðir“. Jafnframt er gert ráð fyrir að 2. mgr. eigi við um vefengingarmál þar sem krafist er viðurkenningar á að einstaklingur í hjúskap eða skráðri sambúð með foreldri sem ól barn teljist ekki móðir, faðir eða foreldri skv. 2. eða 3. mgr. 6. gr. a.

Um 11. gr.

    Lagt er til ákvæði af sama toga og það sem 9. gr. frumvarpsins fjallar um bætist við III. kafla laganna, sbr. nýtt ákvæði 24. gr. a, en kaflinn fjallar um dómsmál til vefengingar á faðerni barns eða ógildingar á faðernisviðurkenningu. Í ákvæðinu er lagt til að ákvæði kaflans gildi eftir atvikum um dómsmál til vefengingar á faðerni skv. 2. mgr. 5. gr. eða foreldrastöðu skv. 3. mgr. 5. gr. og um mál til ógildingar á faðernis- eða foreldraviðurkenningu skv. 5. og 6. mgr. 5. gr. Þá er einnig mælt fyrir um að ákvæði annarra laga sem fjalla um dómsmál til vefengingar á faðerni barns eða ógildingu á faðernisviðurkenningu gildi um mál samkvæmt greininni eftir atvikum.

Um 12. gr.

    Í ákvæðinu eru lagðar til breytingar á 25. gr. í IV. kafla laganna, sem fjallar um greiðslur sem standa í tengslum við barnsburð og meðgöngu. 25. gr. laganna fjallar um framlög til móður í tengslum við meðgöngu og fæðingu. Vegna breyttrar skilgreiningar á hugtakinu móðir er nauðsynlegt að breyta orðalagi ákvæðisins en ekki er um efnisbreytingar að ræða. Gert er ráð fyrir að orðið móðir komi í stað orðsins foreldri sem í ákvæðinu er notað um konu sem samþykkt hefur að tæknifrjóvgun fari fram á eiginkonu sinni eða sambúðarkonu, sbr. 2. mgr. 6. gr. Þetta gerir það jafnframt að verkum að í 1. mgr. 25. gr. er nauðsynlegt að gera skýran greinarmun á móður sem elur barn og móður sem er hitt foreldri þess, en sú fyrrnefnda kann að eiga rétt á greiðslum samkvæmt ákvæðinu. Á sama hátt er lagt til að fyrirsögn greinarinnar verði breytt svo að ljóst sé að hún fjalli um framlög til móður sem elur barn.

Um 13. gr.

    Breytingin sem lögð er til á 2. mgr. 29. gr. laganna helgast af breyttri skilgreiningu hugtaksins móðir. Í 29. gr. laganna er fjallað um forsjá foreldra og skv. 2. mgr. hennar gildir að ef foreldrar barns eru hvorki í hjúskap né skráðri sambúð við fæðingu barns fari móðir ein með forsjá þess nema foreldrar hafi gert með sér samning um sameiginlega forsjá, sbr. 1. mgr. 32. gr. Þar sem frumvarpið gerir ráð fyrir að orðið móðir eigi almennt við um kvenkyns foreldri verður að árétta í ákvæðinu að átt sé við móður sem elur barn. Rétt er að nefna að skv. 4. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir að í 7. mgr. 5. gr. verði mælt fyrir um að það sem segir um móður sem elur barn í 2. mgr. 29. gr. gildi einnig um einstakling sem elur barn og breytt hefur kynskráningu sinni.

Um 14. gr.

    Í ákvæðinu eru lagðar til breytingar á 57. gr. laganna sem fjallar um úrskurð eða dóm um meðlag. Skv. 6. mgr. 57. gr. skal dómari sem sker úr ágreiningsmáli um faðerni eða forsjá barns einnig, að kröfu, leysa úr ágreiningi um meðlag í dómi samkvæmt ákvæðum greinarinnar. Lögð er til breyting á orðalagi ákvæðisins svo að það gildi einnig um ágreiningsmál um foreldrastöðu.

Um 15. gr.

    Lögð er til breyting á tilvísun í 81. gr. laganna vegna breytinga á 2. gr. laganna, sbr. 2. gr. frumvarpsins.

Um 16. gr.

    Ákvæðið þarfnast ekki skýringar.

Um 17. gr.

    Í ákvæðinu er fjallað um breytingar á öðrum lögum. Vegna breyttrar skilgreiningar á hugtakinu móðir sem lögð er til í frumvarpinu er nauðsynlegt að leggja til breytingar á lögum um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 95/2000, og lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007, til samræmis. Þessar breytingar fela í sér að skilgreiningu á hugtakinu móðir er bætt við þau ákvæði laganna sem hafa að geyma orðskýringar. Með því er áréttað að með orðinu móðir í lögunum sé átt við konu sem elur barn.
    Þá er lagt til að 4. mgr. 8. gr. laga um kynrænt sjálfræði verði felld brott en þar er kveðið á um að reglur sem gilda um konu sem gengur með og fæðir barn gildi einnig um einstakling sem gengur með og fæðir barn eftir að hafa breytt skráningu kyns síns. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að sambærilegt ákvæði verði í 7. mgr. 5. gr., sbr. 4. gr. frumvarpsins, og því verður 4. mgr. 8. gr. laga um kynrænt sjálfræði óþörf.