Ferill 212. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 213  —  212. mál.
Stjórnarfrumvarp.Frumvarp til laga


um tekjufallsstyrki.

Frá fjármála- og efnahagsráðherra.I. KAFLI

Almenn ákvæði.

1. gr.

Gildissvið.

    Lög þessi gilda um einstaklinga og lögaðila sem stunda tekjuskattsskyldan atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi, hófu starfsemina fyrir 1. apríl 2020 og bera ótakmarkaða skattskyldu hér á landi skv. 1. eða 2. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003. Lögin gilda ekki um stofnanir, byggðasamlög eða fyrirtæki í eigu ríkis eða sveitarfélaga.

2. gr.

Markmið.

    Markmið laga þessara er að viðhalda atvinnustigi og efnahagsumsvifum með því að styðja við litla rekstraraðila sem hafa orðið fyrir tímabundnu tekjufalli vegna heimsfaraldurs kórónuveiru og aðgerða stjórnvalda til að verjast útbreiðslu hennar.

3. gr.

Orðskýringar.

    Í lögum þessum er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:
     1.      Atvinnurekstur eða sjálfstæð starfsemi: Starfsemi aðila sem greiðir laun skv. 1. eða 2. tölul. 5. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda, nr. 45/1987, og er skráður á launagreiðendaskrá, svo og á virðisaukaskattsskrá þegar það á við.
     2.      Launamaður: Launamaður skv. 1. eða 2. tölul. 4. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda, nr. 45/1987.
     3.      Rekstraraðili: Einstaklingur eða lögaðili sem fellur undir gildissvið laga þessara skv. 1. gr.
     4.      Rekstrarkostnaður: Rekstrarkostnaður skv. 1. tölul. 31. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, að frátöldum niðurfærslum og fyrningum eigna.
     5.      Tekjur: Skattskyldar tekjur skv. B-lið 7. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, að frátöldum hagnaði af sölu varanlegra rekstrarfjármuna.

II. KAFLI

Tekjufallsstyrkur.

4. gr.

Skilyrði.

    Rekstraraðili sem uppfyllir öll eftirtalin skilyrði á rétt á tekjufallsstyrk úr ríkissjóði:
     1.      Tekjur hans á tímabilinu 1. apríl til 30. september 2020 voru a.m.k. 50% lægri en á sama tímabili 2019 og tekjufallið má rekja til heimsfaraldurs kórónuveiru eða ráðstafana stjórnvalda til að verjast útbreiðslu hennar. Hafi hann hafið starfsemi eftir 1. apríl 2019 skulu tekjur hans bornar saman við tekjur hans fyrstu sex heilu almanaksmánuði sem hann starfaði. Hafi hann starfað skemur en sex heila almanaksmánuði í lok mars 2020 skal umreikna tekjur þann tíma sem hann starfaði til loka mars 2020 í 183 daga viðmiðunartekjur.
     2.      Tekjur hans á rekstrarárinu 2019 voru a.m.k. 1 millj. kr. Hafi hann hafið starfsemi eftir upphaf rekstrarársins 2019 skal umreikna tekjur þann tíma sem hann starfaði til loka mars 2020 í árstekjur.
     3.      Að hámarki þrír launamenn störfuðu við rekstur hans 31. mars 2020.
     4.      Hann er ekki í vanskilum með opinber gjöld, skatta og skattsektir sem komnar voru á eindaga fyrir lok árs 2019 og álagðir skattar og gjöld byggjast ekki á áætlunum vegna vanskila á skattframtölum og skýrslum, þ.m.t. staðgreiðsluskilagreinum og virðisaukaskattsskýrslum, til Skattsins síðastliðin þrjú ár áður en umsókn barst eða síðan hann hóf starfsemi ef það var síðar. Að auki skal hann, eftir því sem við á og á sama tímabili, hafa staðið skil á ársreikningum samkvæmt lögum um ársreikninga og upplýst um raunverulega eigendur samkvæmt lögum um skráningu raunverulegra eigenda.
     5.      Hann hefur ekki verið tekinn til slita eða bú hans til gjaldþrotaskipta.

5. gr.

Fjárhæð.

    Fjárhæð tekjufallsstyrks skal vera jafnhá rekstrarkostnaði rekstraraðila tímabilið 1. apríl til 30. september 2020. Tekjufallsstyrkur getur þó ekki orðið hærri en 400 þús. kr. fyrir hvert stöðugildi á mánuði hjá rekstraraðila á sama tímabili.
    Í stað þess að telja til rekstrarkostnaðar reiknað endurgjald fyrir tímabilið 1. apríl til 30. september 2020 er rekstraraðila heimilt að reikna til rekstrarkostnaðar á því tímabili sömu fjárhæð og hann gjaldfærði vegna reiknaðs endurgjalds á tímabilinu 1. apríl til 30. september 2019, eða á fyrstu sex heilu almanaksmánuðum sem hann starfaði, hafi rekstur hafist eftir 1. apríl 2019. Hafi rekstraraðili fengið atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið 1. apríl til 30. september 2020 dragast þær frá þannig reiknuðum rekstrarkostnaði.
    Hafi rekstraraðila verið ákvarðaður lokunarstyrkur samkvæmt lögum um fjárstuðning til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru dregst hann frá tekjufallsstyrk.
    Tekjufallsstyrkur telst til skattskyldra tekna samkvæmt lögum um tekjuskatt.

6. gr.

Umsókn.

    Umsókn um tekjufallsstyrk skal beint til Skattsins eigi síðar en 1. maí 2021. Umsókn skal vera rafræn en að öðru leyti á því formi sem Skatturinn ákveður.
    Rekstraraðili skal staðfesta við umsókn að hann uppfylli öll skilyrði 4. gr., að upplýsingar sem hann skilar og liggja til grundvallar ákvörðun fjárhæðar skv. 5. gr. séu réttar og að honum sé kunnugt um að það geti varðað álagi, sektum eða fangelsi að veita rangar eða ófullnægjandi upplýsingar.

7. gr.

Ákvörðun.

    Skatturinn skal afgreiða umsókn svo fljótt sem verða má og ekki síðar en tveimur mánuðum eftir að honum berst fullnægjandi umsókn.
    Við afgreiðslu umsóknar og endurskoðun ákvörðunar um tekjufallsstyrk getur Skatturinn farið fram á að rekstraraðili sýni með rökstuðningi og gögnum fram á rétt sinn til styrks.
    Skatturinn skal endurákvarða tekjufallsstyrk komi í ljósi að rekstraraðili átti ekki rétt á styrknum eða átti rétt á hærri eða lægri styrk en honum var ákvarðaður.
    Að því leyti sem ekki er á annan veg kveðið á um í lögum þessum gilda ákvæði 94.–97. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, eftir því sem við getur átt um afgreiðslu umsókna og endurákvarðanir Skattsins.

8. gr.

Málskot.

    Stjórnvaldsákvarðanir Skattsins samkvæmt lögum þessum sæta kæru til yfirskattanefndar. Um kærufrest og málsmeðferð fer samkvæmt ákvæðum laga um yfirskattanefnd.

9. gr.

Ofgreiðsla.

    Hafi rekstraraðili fengið tekjufallsstyrk umfram það sem hann átti rétt á ber honum að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd var með vöxtum skv. 4. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, frá greiðsludegi. Dráttarvextir skv. 6. gr. sömu laga leggjast á kröfu um endurgreiðslu ef hún er ekki innt af hendi innan mánaðar frá dagsetningu endurákvörðunar Skattsins.
    Hafi rekstraraðili veitt rangar eða ófullnægjandi upplýsingar um rekstrarkostnað eða upplýsingagjöf hans hefur að öðru leyti verið svo áfátt að áhrif hafi haft við ákvörðun um styrk skal Skatturinn gera honum að greiða 50% álag á kröfu um endurgreiðslu. Fella skal álagið niður ef rekstraraðili færir rök fyrir því að óviðráðanleg atvik hafi hamlað því að hann veitti réttar upplýsingar eða kæmi leiðréttingu á framfæri við Skattinn. Telji Skatturinn að háttsemi rekstraraðila geti varðað sektum eða fangelsi skal hann ekki gera honum að greiða álag heldur kæra málið til lögreglu.
    Ákvarðanir Skattsins og úrskurðir yfirskattanefndar um endurgreiðslur ofgreiddra tekjufallsstyrkja eru aðfararhæfir. Kæra til yfirskattanefndar eða málshöfðun fyrir dómstólum frestar aðför.

III. KAFLI

Ýmis ákvæði.

10. gr.

Reglugerð um minniháttaraðstoð.

    Stuðningur samkvæmt lögum þessum skal samræmast reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 1407/2013 frá 18. desember 2013 um beitingu 107. og 108. gr. sáttmálans um starfshætti Evrópusambandsins gagnvart minniháttaraðstoð eins og hún var tekin upp í EES-samninginn.


11. gr.

Viðurlög.

    Einstaklingur eða lögaðili sem brýtur af ásetningi eða stórfelldu gáleysi gegn lögum þessum, svo sem með því að veita rangar eða ófullnægjandi upplýsingar í umsókn um tekjufallsstyrk, skal sæta sektum eða fangelsi allt að sex árum nema brot megi teljast minni háttar.

12. gr.

Reglugerðarheimild.

    Ráðherra getur kveðið nánar á um framkvæmd laga þessara í reglugerð.

13. gr.

Gildistaka.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

14. gr.

Breyting á öðrum lögum.

    Við gildistöku laga þessara verður eftirfarandi breyting á lögum um fjárstuðning til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru, nr. 38/2020: Við 5. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Hafi rekstraraðila verið ákvarðaður tekjufallsstyrkur samkvæmt lögum um tekjufallsstyrk dregst hann frá lokunarstyrk.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Frumvarpið er samið í fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Það er liður í aðgerðum ríkisstjórnarinnar til að draga úr tjóni vegna heimsfaraldurs kórónuveirunnar og skapa öfluga viðspyrnu í kjölfar hans.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Heimsbyggðin hefur ekki tekist á við faraldur af sambærilegri stærðargráðu og kórónuveirufaraldurinn í heila öld. Viðbrögð til þess að hefta útbreiðslu faraldursins eiga sér ekki samsvörun og efnahagslegar afleiðingar eru taldar verða meiri en sést hafa í áratugi. Þannig horfa mörg fyrirtæki fram á samdrátt í eftirspurn vegna viðbragða almennings en önnur standa frami fyrir tvíþættu áfalli þar sem aðgerðir stjórnvalda skerða einnig möguleika þeirra á að halda starfsemi sinni gangandi. Meginstef þeirra aðgerða sem um ræðir eru þær takmarkanir sem gripið hefur verið til í því skyni að draga úr samneyti milli fólks innanlands og fækka smitleiðum. Ásamt því voru takmarkanir á landamærum hertar til þess að draga úr útbreiðslu smita.
    Ríkisstjórnin hefur þegar gripið til ýmissa ráðstafana til að draga úr tjóni vegna heimsfaraldursins og skapa öfluga viðspyrnu í kjölfar hans. Ríkisstjórnin samþykkti 10. mars 2020 að beita sér fyrir markvissum aðgerðum til að mæta efnahagslegum áhrifum faraldursins. Meðal aðgerða sem þegar hefur verið gripið til eru greiðsla atvinnuleysisbóta samhliða skertu starfshlutfalli, lenging tímabils tekjutengdra atvinnuleysisbóta, greiðslur vegna launa einstaklinga sem sæta sóttkví, frestun á skattgreiðslum, veiting ábyrgða ríkisins á hluta lána til fyrirtækja í greiðsluvanda og veiting lokunarstyrkja og stuðningslána. Að auki hefur sérstöku fjárfestingarátaki verið hrundið af stað. Þá höfðu stjórnvöld samráð við Samtök fjármálafyrirtækja í aðdraganda samkomulags lánastofnana um tímabundna greiðslufresti á lánum til fyrirtækja.
    Hertar sóttvarnaraðgerðir á landamærum og innanlands hafa haft áhrif á tekjuflæði rekstraraðila í landinu, sumum var gert að loka tímabundið en aðrir upplifðu umtalsverðan tekjumissi í kjölfar takmarkana á landamærum ásamt nálægðar- og fjöldatakmörkunum. Í dæmaskyni má þar nefna einstaklinga sem starfa í menningar- og listgreinum, ásamt ferðaleiðsögumönnum og einyrkjum eða litlum lögaðilum í annarri sambærilegri starfsemi.
     Rekstraraðilar sem ekki var gert að stöðva sína starfsemi glíma sumir við mikinn greiðsluvanda vegna þeirra ráðstafana sem gripið hefur verið til hér á landi. Á meðal þeirra eru rekstraraðilar sem margir hverjir áttu ekki í rekstrarvanda áður en faraldurinn barst til landsins en eiga nú í erfiðleikum með að standa undir rekstrarkostnaði starfsemi sinnar. Því er talið eðlilegt að komið sé til móts við þessa aðila vegna tekjufalls í kjölfar aðgerða stjórnvalda til að verjast útbreiðslu kórónuveiru.
    Samkvæmt upplýsingum frá BHM kemur fram að tæplega 80% einstaklinga sem starfa innan greina tónlistar, sviðslista, myndlistar, ritlistar, kvikmyndagerðar og stoðgreina lista- og menningargreina (hljóðtækni, ljóstækni og tækni- og viðburðaþjónusta) hafa orðið fyrir um 50–100% samdrætti í tekjum það sem af er ári í samanburði við fyrra ár.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Lagt er til að einstaklingar og litlir lögaðilar í atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi sem hafa orðið fyrir minnst 50% tekjufalli á tímabilinu frá 1. apríl til 30. september 2020, samanborið við sama tímabil 2019, vegna heimsfaraldurs kórónuveiru eða aðgerða stjórnvalda til að hefta útbreiðslu hennar geti fengið styrk til að mæta rekstrarkostnaði á tímabilinu. Að auki er lagt til að umsækjendur þurfi að uppfylla skilyrði um skattskyldu á Íslandi, lágmarksveltu, skilvísi á opinberum gjöldum og gögnum til Skattsins og áframhaldandi rekstur. Styrkurinn geti orðið allt að 400 þús. kr. fyrir hvert stöðugildi á mánuði á tímabilinu.
    Líkt og gildir um lokunarstyrki, sbr. lög um fjárstuðning til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru, nr. 38/2020, er lagt til að bæði umsóknar- og ákvörðunarferli verði rafrænt og að framkvæmdin verði falin Skattinum. Jafnframt að ákvarðanir hans sæti kæru til yfirskattanefndar.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Frumvarpið er ekki talið gefa tilefni til að kanna samræmi við stjórnarskrá.
    Samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið bannar að meginreglu til ríkisaðstoð sem raskar eða er til þess fallin að raska samkeppni með því að ívilna ákveðnum fyrirtækjum eða framleiðslu ákveðinnar vöru að því leyti sem hún hefur áhrif á viðskipti milli samningsaðila. Sú aðstoð sem frumvarpið gerir ráð fyrir fellur undir reglur um minniháttaraðstoð og felur því ekki í sér ríkisaðstoð í skilningi samningsins.

5. Samráð.
    Við vinnslu frumvarpsins var haft samráð við forsætisráðuneytið, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið og mennta- og menningarmálaráðuneytið. Við mótun úrræðisins var aflað upplýsinga frá Skattinum.
    Sökum þess hversu áríðandi þótti að leggja frumvarpið fram á Alþingi var ekki haft samráð um drög að frumvarpi í samráðsgátt stjórnvalda.

6. Mat á áhrifum.
Áhrif á rekstraraðila.
    Styrkjunum er ætlað að koma til móts við tekjutap sem ýmsir rekstraraðilar, með umfangslitla starfsemi sem útheimtir vinnuframlag launamanna, verða fyrir vegna faraldursins og takmarkana stjórnvalda bæði á landamærum og innanlands. Þeim er ætlað að draga úr líkum á rekstrarerfiðleikum en ekki að bæta allt tekjutap rekstraraðila heldur liðsinna rekstraraðilum í þeim greiðsluvanda sem upp er kominn. Styrkfjárhæð skal jafngilda rekstrarkostnaði á tímabilinu frá 1. apríl 2020 til 30. september 2020 en getur þó ekki orðið hærri en 400 þús. kr. fyrir hvert stöðugildi á mánuði hjá rekstraraðila á tímabilinu. Styrkurinn mun teljast til skattskyldra tekna en ekki virðisaukaskattsskyldrar veltu.

Áhrif á efnahagslífið.
    Í baráttu gegn útbreiðslu kórónuveiru hafa stjórnvöld gripið til ýmissa sóttvarnaraðgerða sem hafa heft verulega starfsemi sumra rekstraraðila í landinu. Tilteknum aðilum hefur verið gert að loka eða stöðva starfsemi en aðrir hafa orðið fyrir miklum tekjumissi vegna ráðstafana á landamærum og samkomutakmarkana innanlands. Með því úrræði sem lagt er til í frumvarpi þessu og samspili þess við önnur úrræði stjórnvalda, svo sem hlutaatvinnuleysisbætur vegna skerts starfshlutfalls og lengingu tímabils tekjutengdra atvinnuleysisbóta, er vonast til að dregið verði úr greiðsluflæðisvanda smárra og lífvænlegra rekstraraðila sem hafa orðið fyrir miklu tekjutapi vegna sóttvarnaraðgerða hérlendis.

Áhrif á stjórnsýslu.
    Með frumvarpinu er lagt til að Skattinum verði falið nýtt verkefni við afgreiðslu umsókna um styrk skv. II. kafla. Gera má ráð fyrir töluverðri eftirspurn eftir styrkjunum og mun afgreiðsla þeirra því fela í sér aukin umsvif og kostnað hjá Skattinum. Þó verður unnt að nýta þann grunn sem þegar hefur verið lagður fyrir umsóknir um lokunarstyrki sem dregur úr kostnaði við að koma úrræðinu á laggirnar.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að ákvarðanir Skattsins um tekjufallsstyrk verði kæranlegar til yfirskattanefndar. Áhrifin á stjórnsýsluna munu ráðast af fjölda kærumála en gert er ráð fyrir að þau áhrif verði ekki veruleg og málin ekki af þeim toga að þau krefjist mannauðs sem skattyfirvöld búa ekki yfir nú þegar.

Áhrif á ríkissjóð.
    Úrræðið sem lagt er til í frumvarpi þessu er ætlað einyrkjum og litlum fyrirtækjum. Samkvæmt upplýsingum frá Skattinum er heildarfjöldi tekjuskattsskyldra félaga með þrjú ársverk eða færri og veltu yfir 1 millj. kr. á rekstrarárinu 2019 um 21 þúsund og einstaklingar með rekstrartekjur yfir þeirri fjárhæð á sama ári tæplega 15 þúsund. Þannig teljast um 36 þúsund rekstraraðilar falla undir gildissvið þessa frumvarps en einungis sá hluti þeirra sem uppfyllir öll skilyrði 1. og 4. gr. frumvarpsins mun eiga rétt á tekjufallsstyrk. Þá þarf einnig að sækja um styrkinn og ekki er talið að allir rekstraraðilar sem eiga rétt á styrknum muni gera það.
    Heildaráhrif á ríkissjóð eru óljós þar sem ekki er vitað hversu margir einyrkjar og lítil fyrirtæki munu uppfylla öll skilyrði frumvarpsins og sækja um styrkinn. Ef samþykktar umsóknir einyrkja yrðu um 1.500 og samþykktar umsóknir fyrirtækja með þrjú stöðugildi álíka margar yrði kostnaður vegna frumvarpsins allt að 14,4 milljarðar kr. Það miðast þó við allir þeir þrjú þúsund aðilar ættu rétt á hámarksstyrk og raunverulegur kostnaður væri því líklega talsvert minni. Gera má ráð fyrir að styrkveitingarnar hafi jákvæð áhrif á efnahagsumsvif og atvinnustig og stuðli þannig að auknum tekjum ríkissjóðs sem vegi að hluta til á móti kostnaðinum.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Aðeins einstaklingar og lögaðilar sem stunda tekjuskattsskyldan atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi, hófu starfsemina fyrir 1. apríl 2020 og bera ótakmarkaða skattskyldu hér á landi skv. 1. eða 2. tölul. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, geta fengið tekjufallsstyrk samkvæmt frumvarpinu. Atvinnurekstur og sjálfstæð starfsemi er skilgreind í 1. tölul. 3. gr. frumvarpsins. Ótakmörkuð skattskylda skv. 1. eða 2. gr. laga um tekjuskatt felur að meginreglu til í sér skyldu til að greiða tekjuskatt hér á landi af öllum skattskyldum tekjum einstaklings eða lögaðila. Almennt hvílir ótakmörkuð skattskylda á einstaklingum og lögaðilum sem eru heimilisfastir hér á landi. Aðilar sem eru undanþegnir tekjuskattsskyldu skv. 4. gr. laga um tekjuskatt falla ekki undir frumvarpið. Af því leiðir til dæmis að lögaðilar sem verja hagnaði sínum einungis til almenningsheilla og hafa það að einasta markmiði samkvæmt samþykktum sínum falla ekki undir frumvarpið.
    Frumvarpið nær ekki til stofnana, byggðasamlaga eða fyrirtækja í eigu ríkis eða sveitarfélaga. Fyrirtæki telst í eigu ríkis eða sveitarfélaga í skilningi frumvarpsins ef ríki og sveitarfélög eiga samanlagt meira en helming eignarhluta í því. Fyrirtæki sem þrjú sveitarfélög eiga hvert 20% hlut í telst þannig til dæmis í eigu sveitarfélaga þótt aðrir en ríki og sveitarfélög eigi þau 40% sem út af standa.
    Í frumvarpinu er vísað til þeirra sem falla undir gildissviðið sem rekstraraðila, sbr. 3. tölul. 3. gr.

Um 2. gr.

    Stjórnvöld hafa komið af stað ýmsum úrræðum sem styðja við atvinnulífið og fólk á vinnumarkaði til þess að draga úr áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru og aðgerða til að hægja á útbreiðslu hans á efnahagslífið, svo sem með lögum um breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar og lögum um Ábyrgðasjóð launa (minnkað starfshlutfall), nr. 23/2020, lögum um breytingu á ýmsum lögum til að mæta efnahagslegum áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru, nr. 25/2020 og lögum um fjárstuðning til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru, nr. 38/2020. Markmið þessa frumvarps er að breikka stuðning stjórnvalda þannig að stærri hópur geti nýtt sér úrræði sem draga úr tímabundnum áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru og aðgerða til að verjast útbreiðslu veirunnar á efnahagslífið. Efnahagsleg áhrif sem stefnt er að eru að styðja við eftirspurn, viðhalda atvinnustigi og draga úr hættu á greiðsluflæðisvanda sem gæti leitt til enn dýpri efnahagssamdráttar.

Um 3. gr.

    Um 1. tölul. Með atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi er átt við starfsemi aðila sem greiða laun skv. 1. eða 2. tölul. 5. gr. um staðgreiðslu opinberra gjalda, nr. 45/1987. Undir það fellur bæði endurgjald fyrir vinnu starfsfólks og reiknað endurgjald vegna vinnu við eigin rekstur. Það er jafnframt skilyrði að launagreiðandi hafi verið skráður á launagreiðendaskrá. Skv. 19. gr., sbr. 5. og 7. gr., laga um staðgreiðslu opinberra gjalda ber hverjum þeim sem greiðir laun í skilningi laganna að tilkynna sig sem launagreiðanda. Þá er það einnig skilyrði að viðkomandi sé jafnframt skráður á virðisaukaskattsskrá þegar það á við. Skv. 5. gr. laga um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, ber hverjum þeim sem er skattskyldur samkvæmt þeim lögum að tilkynna ríkisskattstjóra um atvinnurekstur sinn eða starfsemi.
     Um 2. tölul. Launamenn samkvæmt frumvarpinu er fólk sem fær endurgjald fyrir starf sitt hjá rekstraraðila og sjálfstætt starfandi fólk sem reiknar sér endurgjald fyrir vinnu sína í eigin atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi, auk maka og barna sjálfstætt starfandi fólks ef þeim er reiknað endurgjald í atvinnurekstrinum eða starfseminni.
     Um 3. tölul. Rekstraraðilar samkvæmt frumvarpinu eru einstaklingar og lögaðilar sem stunda tekjuskattsskyldan atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi, hófu starfsemina fyrir 1. apríl 2020 og bera ótakmarkaða skattskyldu hér á landi, þó ekki stofnanir, byggðasamlög eða fyrirtæki í eigu ríkis eða sveitarfélaga, sbr. 1. gr.
     Um 4. tölul. Rekstrarkostnaður samkvæmt frumvarpinu er skilgreindur með sama hætti og í 1. tölul. 31. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, að því frátöldu að til rekstrarkostnaðar samkvæmt frumvarpinu teljast ekki niðurfærslur og fyrningar eigna. Ástæða þess að niðurfærslum og fyrningum eigna er í frumvarpinu haldið utan hugtaksins er að þær fela ekki í sér bein fjárútlát. Samkvæmt tilvitnuðu ákvæði tekjuskattslaga má draga frá tekjum af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi rekstrarkostnað, þ.e. þau gjöld sem eiga á árinu að ganga til að afla teknanna, tryggja þær og halda þeim við.
     Um 5. tölul. Tekjur samkvæmt frumvarpinu eru tekjur sem eru skattskyldar skv. B-lið 7. gr. laga um tekjuskatt, þ.e. allar tekjur af atvinnurekstri og sjálfstæðri starfsemi, þ.m.t. endurgjald fyrir selda vöru og þjónustu, umboðslaun, þóknanir, atvinnurekstrarstyrkir, rekstrarstöðvunarbætur og hvers konar tekjur sem upp eru taldar í öðrum liðum greinarinnar og tengdar eru atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi. Hagnaður af sölu varanlegra rekstrarfjármuna telst þó ekki til tekna í skilningi frumvarpsins. Hann getur verið verulegur en er almennt óreglulegur og gefur ekki rétta mynd af þeim tekjum sem rekstraraðili hefur alla jafna.

Um 4. gr.

    Lagt er til að rekstraraðili þurfi að uppfylla fimm skilyrði til að hljóta tekjufallsstyrk.
     Um 1. tölul. Tekjufallsstyrkjum er ætlað að aðstoða litla rekstraraðila sem hafa orðið fyrir verulegum tekjumissi vegna heimsfaraldurs kórónuveiru við að standa undir rekstrarkostnaði. Því er lagt til að rekstraraðili þurfi að hafa orðið fyrir a.m.k. 50% tekjufalli á tímabilinu 1. apríl til 30. september 2020 samanborið við sömu mánuði á rekstrarárinu 2019 til að geta hlotið styrk. Miðað er við 1. apríl til 30. september 2020 til að ná yfir þá heilu mánuði sem áhrifa faraldursins hefur helst gætt. Hafi rekstraraðili hafið starfsemi eftir 1. apríl 2019 skal í stað 1. apríl til 30. september 2019 miðað við tekjur hans fyrstu sex heilu almanaksmánuði sem hann starfaði. Hafi rekstraraðili til dæmis hafið starfsemi um miðjan maí 2019 ætti að miða við tekjur hans í júní til nóvember það ár. Hafi hann starfað skemur en sex heila almanaksmánuði í lok mars 2020 þarf að umreikna tekjur þann tíma sem hann starfaði til loka mars 2020 í 183 daga viðmiðunartekjur sem skulu bornar saman við tekjur hans 1. apríl til 30. september 2020. Sem dæmi má nefna rekstraraðila sem hóf starfsemi 10. nóvember 2019 og hafði því starfað í 143 daga í lok mars 2020 og hafði 10 millj. kr. tekjur á því tímabili. Viðmiðunartekjur hans voru þá 12.797.203 kr. (10 millj. kr. * 183 dagar / 143 dagar). Tekjur hans 1. apríl til 30. september 2020 mega því ekki hafa verið hærri en 6.398.602 kr. (12.797.203 kr. * 50%). Miða skal við almennar reglur laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, við ákvörðun á því hvenær tekjur hafi orðið til, sbr. einkum 2. mgr. 59. gr. laganna þar sem fram kemur að tekjur skuli að jafnaði telja til tekna þegar þær verða til, þ.e. þegar myndast hefur krafa þeirra vegna á hendur einhverjum, nema um óvissar tekjur sé að ræða.
     Um 2. tölul. Tekjur á rekstrarárinu 2019 þurfa að hafa verið a.m.k. 1 millj. kr., eða ríflega 83 þús. kr. á mánuði að meðaltali. Hafi rekstraraðili hafið starfsemi eftir upphaf rekstrarársins 2019 skal umreikna tekjur þann tíma sem hann starfaði til loka mars 2020 í árstekjur. Hafi hann til dæmis starfað frá 12. júní 2019 ætti að margfalda tekjur hans frá þeim degi til loka mars 2020 með ríflega 1,24 (365 dagar / 294 dagar) til að kanna hvort skilyrðinu um 1 millj. kr. árstekjur hafi verið fullnægt.
     Um 3. tölul. Þar sem tekjufallsstyrk er aðeins ætlað að ná til umfangslítils rekstrar er sett það skilyrði að launamenn hjá rekstraraðila 31. mars 2020 hafi ekki verið fleiri en þrír. Miða skal fjölda launamanna við fyrirliggjandi staðgreiðsluskilagreinar.
     Um 4. tölul. Ekki er talið eðlilegt að ríkissjóður veiti sérstakan fjárstuðning þeim rekstraraðilum sem voru í vanskilum með opinber gjöld áður en áhrifa aðgerða til að draga úr útbreiðslu kórónuveirunnar fór að gæta eða hafa ekki staðið skil á gögnum til Skattsins. Því er það gert að skilyrði fyrir tekjufallsstyrk að rekstraraðili sé ekki í vanskilum með opinber gjöld sem voru komin á eindaga í árslok 2019 og hafi staðið skil á skattskýrslum og ársreikningum og upplýst um raunverulega eigendur þegar við á.
     Um 5. tölul. Frumvarpinu er ætlað að styðja við starfandi rekstraraðila og viðhalda þannig atvinnustigi og efnahagsumsvifum í landinu. Því er lagt til að rekstraraðili geti ekki fengið tekjufallsstyrk ef bú hans hefur verið tekið til gjaldþrotaskipta eða rekstraraðilinn hefur verið tekinn til slita. Um gjaldþrotaskipti gilda lög um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991. Upphaf gjaldþrotaskipta miðast almennt við úrskurð héraðsdómara um gjaldþrotaskipti. Um slit á lögaðilum fer samkvæmt þeim lögum sem gilda um viðkomandi lögaðilaform. Um slit einkahlutafélaga fer þannig t.d. samkvæmt lögum um einkahlutafélög, nr. 138/1994.

Um 5. gr.

    Í 1. mgr. kemur fram sú meginregla að fjárhæð tekjufallsstyrks skuli vera jafnhá rekstrarkostnaði rekstraraðila 1. apríl til 30. september 2020, að báðum dögum meðtöldum. Kalli Skatturinn eftir því þarf rekstraraðili að sýna fram á að kostnaður hafi fallið til á því tímabili. Kostnað sem fellur til á lengra tímabili og er ekki með góðu móti unnt að afmarka hvort falli innan tímabilsins, svo sem iðgjöld vegna vátrygginga, má hlutfalla. Sem dæmi má nefna að hafi tiltekinn kostnaðarliður rekstraraðila vegna ársins 2020 í heild verið samanlagt 3 millj. kr. gæti styrkur til hans vegna þessa kostnaðar numið 1,5 millj. kr. (3 millj. kr. * 183 dagar / 366 dagar).
    Tekjufallsstyrkur til hvers rekstraraðila getur ekki orðið hærri 400 þús. kr. fyrir hvert stöðugildi á mánuði hjá rekstraraðila á sama tímabili. Rekstraraðili með eitt stöðugildi getur því að hámarki fengið 2,4 millj. kr. styrk fyrir allt tímabilið, rekstraraðili með tvö stöðugildi 4,8 millj. kr. og rekstraraðili með þrjú stöðugildi 7,2 millj. kr.
    Sjálfstætt starfandi manni ber að reikna sér endurgjald fyrir vinnu sína. Vinni maki eða nákomnir ættingjar mannsins við reksturinn skal einnig reikna þeim endurgjald. Vinni maður hjá lögaðila sem hann hefur ráðandi stöðu í ber að reikna manninum endurgjald fyrir þá vinnu. Reiknað endurgjald telst til launatekna hjá viðkomandi manni en til kostnaðar í rekstrinum. Ýmis rekstur sem frumvarp þetta tekur til byggist fyrst og fremst á vinnuframlagi eiganda, og eftir atvikum fjölskyldu hans, og því er reiknað endurgjald stór hluti rekstrarkostnaðar. Hafi verulegt tekjufall orðið í rekstri má gera ráð fyrir að úr vinnuframlagi hafi dregið að sama skapi og þar með reiknuðu endurgjaldi. Til að styðja við rekstraraðila sem þannig er ástatt hjá er lagt til í 2. mgr. að í stað reiknaðs endurgjalds fyrir tímabilið 1. apríl til 30. september 2020 verði rekstraraðila heimilt, en ekki skylt, að telja til rekstrarkostnaðar á því tímabili sömu fjárhæð og hann gjaldfærði vegna reiknaðs endurgjalds fyrir sömu mánuði á árinu 2019, eða á fyrstu sex heilu almanaksmánuðum sem hann starfaði, hafi starfsemi hans hafist eftir 1. apríl 2019. Hafi sjálfstætt starfandi maður fengið bætur vegna atvinnuleysis á tímabilinu 1. apríl til 30. september 2020 dragast þær bætur frá reiknuðum rekstrarkostnaði samkvæmt þessari heimild, enda er ekki ætlunin að tvíbæta sama tekjutapið.
    Frumvarpinu er ætlað að mæta vanda aðila sem fyrri úrræði hafa ekki mætt nægjanlega. Því er lagt til í 3. mgr. að lokunarstyrkur sem rekstraraðila hefur verið ákvarðaður dragist frá tekjufallsstyrk.
    Í 4. mgr. kemur fram að tekjufallsstyrkur myndi skattstofn samkvæmt lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003. Hann telst þó ekki til skattskyldrar veltu samkvæmt lögum um virðisaukaskatt, nr. 50/1988.

Um 6. gr.

    Gert er ráð fyrir að komið verði á fót rafrænni gátt fyrir umsóknir en að umsókn og umsóknarferli verði að öðru leyti á formi sem Skatturinn ákveður. Tekjufallsstyrk er ætlað að mæta tímabundnu tekjufalli og því er lagt til í 1. mgr. að umsóknum skuli skila eigi síðar en 1. maí 2021.
    Óhjákvæmilegt getur verið að styðjast að einhverju leyti við upplýsingar sem rekstraraðili leggur til við umsókn um styrk, en gert er ráð fyrir eftirliti eftir á. Því er lagt til í 2. mgr. að umsækjandi skuli staðfesta við umsókn að hann uppfylli skilyrði 4. gr., að upplýsingar sem hann skilar og liggja til grundvallar ákvörðun fjárhæðar skv. 5. gr. séu réttar og að honum sé kunnugt um að það geti varðað álagi, sektum eða fangelsi að veita rangar eða ófullnægjandi upplýsingar.

Um 7. gr.

    Í 1. mgr. er lagt til að Skatturinn fari yfir umsóknir um tekjufallsstyrki og greiði út styrki til þeirra sem eiga rétt á þeim. Skatturinn skal afgreiða umsókn svo fljótt sem verða má og ekki síðar en tveimur mánuðum eftir að honum berst fullnægjandi umsókn.
    Ekki er gert ráð fyrir að umsókn þurfi að fylgja ítarlegar upplýsingar eða gögn. Þess í stað er lagt til í 2. mgr. að Skatturinn geti kallað eftir rökstuðningi og gögnum ef þess þarf við afgreiðslu umsóknar eða við endurskoðun á ákvörðun eftir á, eftir atvikum í reglubundnu eftirliti.
    Í 3. mgr. er lagt til að komi í ljós eftir ákvörðun styrks að skilyrði fyrir greiðslu hans voru ekki uppfyllt skuli Skatturinn með endurákvörðun fella hann niður. Þá skal hann endurákvarða styrkfjárhæð, eftir atvikum til lækkunar eða hækkunar, ef síðar kemur í ljós að rekstraraðili átti rétt á hærri eða lægri styrk en honum var ákvarðaður. Um endurgreiðslu ofgreidds styrks fer skv. 9. gr.
    Í 4. mgr. er gert ráð fyrir að almennar reglur 94.–97. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, um heimild skattyfirvalda til upplýsingaöflunar og málsmeðferð gildi um ákvarðanir Skattsins, að því leyti sem ekki er sérstaklega kveðið á um annað. Þetta hefur meðal annars þá þýðingu að heimild til endurákvörðunar takmarkast almennt við sex rekstrarár á undan því ári þegar endurákvörðun fer fram.

Um 8. gr.

    Stjórnvaldsákvarðanir Skattsins sæta almennt kæru til yfirskattanefndar og lagt er til að hið sama gildi um stjórnvaldsákvarðanir hans samkvæmt lögum þessum, nái frumvarp þetta fram að ganga, þar á meðal um það hvort aðili eigi rétt á tekjufallsstyrk. Um kærufrest og meðferð mála, þar á meðal form kæru, gagnaöflun, málflutning og lok meðferðar, gilda lög um yfirskattanefnd, nr. 30/1992.

Um 9. gr.

    Lagt er til að hafi aðili fengið styrk umfram það sem hann átti rétt á, hvort sem hann átti ekki rétt á neinum styrk eða fékk hærri styrk en hann átti rétt á, beri honum að endurgreiða í ríkissjóð þá fjárhæð sem ofgreidd var. Krafan ber útlánavexti skv. 4. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, frá þeim degi sem ofgreitt var og þar til greitt er. Dráttarvextir skv. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu leggjast þó á standi rekstraraðili ekki skil á endurgreiðslu innan mánaðar frá dagsetningu endurákvörðunar Skattsins um að fella niður eða lækka styrk.
    Hafi rekstraraðili fengið ofgreiddan styrk með því að veita rangar eða ófullnægjandi upplýsingar er lagt til að Skatturinn skuli almennt gera honum að greiða 50% álag. Álagið leggst á endurgreiðslukröfuna eins og hún er með áföllnum vöxtum og eftir atvikum dráttarvöxtum á greiðsludegi. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur talið það geta verið andstætt mannréttindasáttmála Evrópu að gera sama manni að greiða álag á skatta og sæta í framhaldinu höfðun sakamáls vegna sama brots. Með tilliti til þeirra sjónarmiða er lagt til að Skatturinn geri aðila ekki að greiða álag ef Skatturinn telur háttsemi hans geta varðað sektum eða fangelsi heldur vísi málinu til rannsóknar lögreglu. Rekstraraðila bæri eftir sem áður að greiða áfallna vexti og eftir atvikum dráttarvexti af ofgreiddum styrk.
    Í 3. mgr. er lagt til að gera megi aðför til fullnustu ákvarðana Skattsins og úrskurða yfirskattanefndar um endurgreiðslur ofgreiddra styrkja án undangengins dóms, sbr. 6. tölul. 1. mgr. 1. gr. laga um aðför, nr. 90/1989. Um framkvæmd fullnustunnar fer samkvæmt lögum um aðför. Ekki má þó gera aðför á meðan endurgreiðslukrafa er til meðferðar hjá yfirskattanefnd eða dómstólum. Réttmæt endurgreiðslukrafa ber þó áfram vexti eða dráttarvexti meðan á slíkri meðferð stendur.

Um 10. gr.

    Í greininni er byggt á því að sá stuðningur sem felst í tekjufallsstyrkjum skuli samræmast svonefndri reglugerð um minniháttaraðstoð (e. de minimis aid) sem er hluti af XV. viðauka EES-samningsins. Stuðningur sem uppfyllir skilyrði reglugerðarinnar telst ekki til ríkisaðstoðar í skilningi 61. gr. EES-samningsins.


Um 11. gr.

    Lagt er til að það varði sektum eða fangelsi allt að sex árum að brjóta gegn ákvæðum laganna, verði frumvarp þetta óbreytt að lögum, af ásetningi eða stórfelldu gáleysi. Það á þó ekki við ef brot telst minni háttar. Í dæmaskyni má nefna þá háttsemi að veita rangar eða ófullnægjandi upplýsingar í umsókn. Það á bæði við um þær upplýsingar sem veittar eru í rafrænu umsóknarferli vegna tekjufallsstyrkja og þær upplýsingar sem umsækjandi kann að afhenda, eða vera krafinn um, í umsóknarferlinu.

Um 12. gr.

    Lagt er til að ráðherra verði heimilað að setja reglugerð þar sem útfæra megi nánar framkvæmd laganna, nái frumvarp þetta fram að ganga.

Um 13. gr.

    Lagt er til að lögin taki þegar gildi enda eru þau ívilnandi og ætlað að mæta brýnni þörf.

Um 14. gr.

    Til samræmis við 3. mgr. 5. gr. er lagt til að tekjufallsstyrkur sem rekstraraðili hafi fengið dragist frá lokunarstyrk sem hann getur fengið.