Ferill 155. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 284  —  155. mál.




Svar


ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra við fyrirspurn frá Albertínu Friðbjörgu Elíasdóttur um hugtökin tækni, nýsköpun og atvinnuþróun.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Við hvaða skilgreiningar á hugtökunum a) tækni, b) nýsköpun og c) atvinnuþróun notast ráðuneytið í störfum sínum?

a) Tækni.
    Hugtakið tækni getur haft margþætta þýðingu en í sinni einföldustu mynd má segja að það feli í sér beitingu vísindalegrar þekkingar eða sérhæfðrar aðferðar, sbr. skilgreiningu Íslenskrar nútímamálsorðabókar sem haldið er úti af Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.
    Ráðuneytið hefur hliðsjón af þessari skilgreiningu í störfum sínum.

b) Nýsköpun.
    Hugtakið nýsköpun hefur í sinni einföldustu mynd verið skilgreint sem það að skapa eða búa til eitthvað nýtt sem og endurbæta það sem þegar er til staðar. Það á jafnt við um nýja eða endurbætta vöru, þjónustu, tækni, aðferðafræði, framleiðsluaðferð, stjórnskipulag eða leið til sölu- og markaðssetningar. Nýsköpun felur það í sér að hrinda hugmynd eða endurbótum í framkvæmd og getur falið í sér hagræðingu og/eða framleiðsluaukningu, sbr. umfjöllun á Vísindavef Háskóla Íslands sem er aðgengileg á slóðinni www.visindavefur.is/svar.php?id=6601.
    Þá hefur OECD skilgreint nýsköpun sem innleiðingu nýrrar eða mjög endurbættrar vöru, þjónustu eða ferils, nýrrar aðferðar til markaðssetningar eða nýrrar skipulagsaðferðar í viðskiptaháttum, skipulagi á vinnustað eða ytri samskiptum. (OECD Statistics. Definition: An innovation is the implementation of a new or significantly improved product (good or service), or process, a new marketing method, or a new organisational method in business practices, workplace organisation or external relations.).
    Ráðuneytið lítur til þessara skilgreininga í störfum sínum.

c) Atvinnuþróun.
    Hugtakið atvinnuþróun hefur í sinni einföldustu mynd verið skilgreint sem breytingar á atvinnumálum og lítur ráðuneytið til þeirrar skilgreiningar í störfum sínum.
    Fjölmargir þættir geta haft áhrif á atvinnuþróun. Má þar nefna tæknibreytingar eins og þá stafrænu byltingu sem nú er hafin, einnig umhverfisþætti og samfélagslegar áskoranir eins og heimsfaraldur á borð við þann sem sem nú gengur yfir. Atvinnuþróunarfélög eru starfandi víðs vegar um landið og tengjast landshlutasamtökum sveitafélaga. Hlutverk þeirra er að veita ráðgjöf við stofnun og rekstur fyrirtækja á starfssvæði, svo sem markaðssókn, vöruþróun, fjármögnun, kynningu, endurskipulagningu, erlend samskipti o.fl. í samstarfi við stofnanir í stoðkerfi atvinnulífs, fyrirtæki og aðra aðila sem vinna ráðgjafar- og leiðbeiningarstarf í atvinnumálum. Umfjöllun um atvinnuþróunarfélög er aðgengileg á slóðinni www.stjornarradid.is/verkefni/atvinnuvegir/nyskopun/serfraediradgjof-og-handleidsla/