Ferill 278. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 310  —  278. mál.
Stjórnartillaga.



Tillaga til þingsályktunar


um menntastefnu fyrir árin 2020–2030.

Frá mennta- og menningarmálaráðherra.



    Alþingi ályktar að unnið skuli að því að efla menntun landsmanna til ársins 2030 í samræmi við meðfylgjandi menntastefnu.

I. Markmið og framtíðarsýn.
    Framtíðarsýn menntastefnu til ársins 2030 byggist á einkunnarorðunum framúrskarandi menntun alla ævi. Helstu gildi menntastefnunnar verði þrautseigja, hugrekki, þekking og hamingja.
    Menntastefnan byggist á fimm stoðum sem styðja eiga við framtíðarsýn og gildi menntastefnunnar. Stoðirnar verði:
     A.      Jöfn tækifæri fyrir alla.
     B.      Kennsla í fremstu röð.
     C.      Hæfni fyrir framtíðina.
     D.      Vellíðan í öndvegi.
     E.      Gæði í forgrunni.

II. Menntastefna 2020–2030.
     A.      Jöfn tækifæri fyrir alla.
    Lögð verði áhersla á:
                  1.      Nám við allra hæfi.
                  2.      Menntun um allt land.
                  3.      Fjölbreytt menntasamfélag.
                  4.      Snemmbæran stuðning.

     B.      Kennsla í fremstu röð.
    Lögð verði áhersla á:
                  1.      Kennaramenntun og nýliðun.
                  2.      Þekkingu og hugrekki.
                  3.      Hæfniþróun fagstétta í skólastarfi.
                  4.      Lagaramma menntamála.
                  5.      Fjölbreytileika.

     C.      Hæfni fyrir framtíðina.
    Lögð verði áhersla á:
                  1.      Læsi.
                  2.      Framþróun íslenskunnar.
                  3.      Vísindi og rannsóknir.
                  4.      Starfs-, iðn- og tækninám.
                  5.      List- og verknám.
                  6.      Sköpun og gagnrýna hugsun.
                  7.      Stafræna tilveru.
                  8.      Menntun fyrir alla.

     D.      Vellíðan í öndvegi.
    Lögð verði áhersla á:
                  1.      Heilsueflingu.
                  2.      Geðrækt.
                  3.      Forvarnir.
                  4.      Náms- og starfsráðgjöf.
                  5.      Rödd nemenda.
                  6.      Vellíðan allra.

     E.      Gæði í forgrunni.
    Lögð verði áhersla á:
                  1.      Ábyrgð og samhæfingu þjónustukerfa.
                  2.      Aðalnámskrár sem styðja við menntastefnu.
                  3.      Námsmat.
                  4.      Væntingar til nemenda.
                  5.      Væntingar til foreldra.
                  6.      Stöðugar umbætur og gæðastarf.
                  7.      Skilvirka ráðstöfun fjármuna.

III. Innleiðing menntastefnu
    Innleiðingu menntastefnunnar verði skipt í þrjú tímabil. Við upphaf hvers tímabils verði lögð fram innleiðingaráætlun ásamt aðgerðum og árangursmælikvörðum. Fyrsta áætlunin verði lögð fram og kynnt af ráðherra innan sex mánaða frá samþykkt tillögu þessarar. Árangri við innleiðingu skuli ná með öflugu samstarfi menntakerfisins og samfélagsins alls. Eining þurfi að ríkja um framtíðarsýn menntastefnunnar og markvissa hagnýtingu nýjustu rannsókna sem tengjast framþróun og árangri í menntamálum.

Greinargerð.

Inngangur.
    Menntun er lykill að tækifærum framtíðar og eitt helsta hreyfiafl samfélaga og velsældar mannkyns. Á tímum fádæma umskipta, óvissu og örra tæknibyltinga verða þjóðir heims að búa sig undir aukinn breytileika og sífellt flóknari áskoranir. Framtíðarhorfur íslensku þjóðarinnar velta á samkeppnishæfni og sjálfbærni íslenska menntakerfisins. Velgengni byggir á vel menntuðum einstaklingum með skapandi og gagnrýna hugsun, félagsfærni og góð tök á íslensku og erlendum tungumálum til að takast á við hnattrænar áskoranir.
    Menntun styrkir, verndar og vekur viðnámsþrótt einstaklinga og samfélaga. Með menntastefnu verður lögð áhersla á að styrkja viðhorf Íslendinga til eigin menntunar með vaxtarhugarfar að leiðarljósi. Þekkingarleitinni lýkur aldrei og menntun, formleg sem óformleg, er viðfangsefni alla ævi. Skólar og aðrar menntastofnanir skulu vera eftirsóknarverðir vinnustaðir og kennarastarfið áhugavert þar sem það er meðal mikilvægustu starfa samfélagsins.
    Öflugt og sveigjanlegt menntakerfi skal stuðla að jöfnum tækifærum til náms því allir geta lært og allir skipta máli. Allir hafi tækifæri, á eigin forsendum og án nokkurrar mismununar, til að þroskast og auka hæfni sína.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Markmið menntastefnu er að veita framúrskarandi menntun í umhverfi þar sem allir geta lært og allir skipta máli. Því eru leiðarljós menntastefnu þrautseigja, hugrekki, þekking og hamingja og er þeim ætlað að styðja við framtíðarsýnina.
    Skýr stefna um forgangsröðun í þágu menntunar og þekkingarsköpunar eykur lífsgæði og verðmætasköpun. Með henni er lagður grunnur að sterkara samfélagi.
    Menntastefna þessi var unnin í víðtæku samráði við hagsmunaaðila og var meðal annars birt í samráðsgátt. Alls bárust 38 umsagnir sem voru jákvæðar í garð stefnunnar. Í umsögnunum komu fram ýmsar gagnlegar athugasemdir brugðist var við.

Um einstaka þætti menntastefnunnar.
A.1. Nám við allra hæfi.
    Skólar og aðrar menntastofnanir taki mið af þörfum, getu og hæfni sérhvers nemanda og vinni út frá styrkleikum og áhuga hvers og eins. Samfélaginu ber skylda til þess að hlúa sem best að velferð barna og ungmenna og tryggja öllum tækifæri til þess að þroskast og dafna á eigin forsendum innan menntakerfisins. Mikilvægt er að tryggja að allir finni sig í menntakerfinu og að stuðlað sé að jafnrétti innan þess.

A.2. Menntun um allt land.
    Búseta á ekki að hafa áhrif á möguleika til náms. Nýta skal bættar samgöngur og tækni til að tryggja möguleika til náms óháð búsetu sem styrkir stöðu öflugra þekkingarsamfélaga í dreifðari byggðum. Bæta skal námsframboð utan stærstu þéttbýlisstaða, meðal annars með auknu starfs- og tækninámi á landsbyggðinni því námsframboð í heimabyggð ræður miklu um námsval ungmenna að loknum grunnskóla.

A.3. Fjölbreytt menntasamfélag.
    Ísland er fjölmenningarsamfélag sem nýtir þá auðlind sem felst í fjölmenningarlegu skólastarfi, fagnar margbreytileika nemenda og nýtir til að efla samfélagið. Mikilvægt er að meta menntun innflytjenda og flóttafólks í ríkari mæli svo þeirra þekking nýtist þeim og samfélaginu sem best.

A.4. Snemmbær stuðningur.
    Börn og ungmenni skulu fá aðstoð og stuðning við hæfi sem fyrst á námsferlinum og liðsinni áður en vandi ágerist. Horfa þarf sérstaklega til styrkingar leikskólastigsins. Stuðningur getur beinst að nemandanum sjálfum eða umhverfi hans og mikilvægt er að aðlaga hann að þörfum viðkvæmra einstaklinga og hópa. Í þeirri vinnu er þverfagleg samvinna nauðsynleg.

B.1. Kennaramenntun og nýliðun.
    Inntak kennaramenntunar skal taka mið af þörfum samfélagsins og styðja við menntastefnu. Unnið verður að aukinni viðurkenningu á störfum kennara og eflingu faglegs sjálfstæðis þeirra. Mótaðar verða leiðir til að koma í veg fyrir kennaraskort, meðal annars með fullnægjandi nýliðun.

B.2. Þekking og hugrekki.
    Nemendum verður gert kleift að afla sér nýrrar þekkingar og hæfni ásamt því að geta beitt og hagnýtt þekkingu sína. Nemendur verða meðvitaðir um mikilvægi þess að vera skapandi og ábyrgir í þekkingarleit sinni, ígrundun og rökstuðningi og óhræddir við að prófa sig áfram.

B.3. Hæfniþróun fagstétta í skólastarfi.
    Tryggt skal að hæfni- og þekkingarþróun verði skilgreind sem hluti af starfi kennara og skólastjórnenda á öllum skólastigum til að hæfni sé í samræmi við breyttar þarfir og faglegt sjálfstæði þeirra. Lögð verður áhersla á tengsl milli grunnmenntunar, starfsnáms og hæfniþróunar fagstétta í skólastarfi þannig að allir geti vaxið í störfum sínum og markvisst aukið þekkingu sína og hæfni, kynnt sér faglegar nýjungar og eflt samstarf sín á milli.

B.4. Lagarammi.
    Til að nýta mannauð sem best og búa honum góð starfsskilyrði og vinnuumhverfi skal tryggja markvissa innleiðingu á lögum um menntun, hæfni og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leik-, grunn- og framhaldsskóla.

B.5. Fjölbreytileiki.
    Menntakerfi framtíðar kallar á aukna nýsköpun og mikla samvinnu. Þörf er á aðkomu fólks með fjölbreytta sérþekkingu við mótun þess.

C.1. Læsi.
    Það er hluti þjóðmenningar okkar að allir geti lesið sér til gagns og gamans. Læsi er lykill að lífsgæðum og endurspeglar hæfni fólks til að skynja og skilja umhverfi sitt, náttúru og samfélag á gagnrýninn hátt og eflir það til virkar þátttöku í mótun þess. Lestur er öflugasta tæki nemenda til að afla sér þekkingar og tjáning í ræðu og riti er forsenda þátttöku í lýðræðissamfélagi. Þess vegna leggur menntastefna sérstaka áherslu á málskilning, lesskilning, tjáningu, ritun og hlustun og aðgerðir sem miða að því að mæta þeim sem glíma við lestrarörðugleika. Leitast verður við að tryggja virkni alls samfélagsins við að bæta læsi og þá sérstaklega aðkomu heimila, bókasafna, rithöfunda og fjölmiðla.

C.2. Framþróun íslenskunnar.
    Við stöndum vörð um og aukum áhuga á íslenskri tungu og menningu hjá öllum kynslóðum. Tryggja þarf að íslenska og íslenskt táknmál verði notað á öllum sviðum samfélagsins, íslenskukennsla verði efld á öllum skólastigum og að framtíð íslenskrar tungu í stafrænum heimi verði tryggð.

C.3. Vísindi og rannsóknir.
    Vísindi og rannsóknir eru grunnur öflugs þekkingarsamfélags sem leggur rækt við menntun, nýsköpun, menningu, velferð, lýðræði og mannréttindi. Frjáls þekkingarleit sem byggist á áhuga, fróðleiksfýsn og sköpunargleði vísindafólks er lykilþáttur í framþróun auk þess að vera grundvöllur samfélagsbreytinga. Stuðla þarf að öflugri miðlun vísindalegrar þekkingar til fólks á öllum aldri.

C.4. Starfs-, iðn- og tækninám.
    Hugvitsdrifið samfélag framtíðarinnar kallar á aukna áherslu á starfs-, iðn- og tækninám. Slíkt nám verður eflt með það að leiðarljósi að færni þróist í takt við þarfir samfélagsins og áskoranir fjórðu iðnbyltingarinnar. Ungu fólki, óháð kyni, skal boðið upp á starfsnám við hæfi og grunnskólanemendur fái kennslu í iðn- og tæknigreinum. Veitt skal innsýn í fjölbreytt starfs-, iðn- og tækninám á framhaldsskólastigi og nemendum kynntar með skipulögðum hætti námsleiðir sem bjóðast og starfsmöguleikar í kjölfar þeirra.

C.5. List- og verknám.
    Í list- og verkgreinum felast tækifæri til að þroska huga og hönd við lausnamiðað starf og nýsköpun. Listsköpun í námi og áhersla á verkgreinar styrkir hagnýtingu þekkingar og markar framtíðarumhverfi nemenda með jákvæðum hætti.

C.6. Sköpun og gagnrýnin hugsun.
    Allir geti beitt rökvísi, ígrundun og hafi hugrekki til að skapa. Lögð skal áhersla á sköpun í öllu skólastarfi til að stuðla að persónulegum þroska, frumkvæði og nýsköpun. Unnið skal með samspil gagnrýninnar hugsunar og sköpunar til þess að þroska sjálfstætt gildismat nemenda, styrkja hæfni til að setja ólíkar niðurstöður í samhengi og efla þroska til samfélagslegar umræðu. Forsenda þess að virkja og viðhalda sköpunarkrafti og -kjarki nemenda er að þeim sé búið námsumhverfi þar sem hvatt er til frumkvæðis, sjálfstæðis og skapandi hugsunar á öllum sviðum.

C.7. Stafræn tilvera.
    Nemendur skulu skilja bæði tækifæri og áskoranir stafrænnar tilveru. Nemendur fái þjálfun í upplýsinga-, miðla- og tæknilæsi. Samhliða hagnýtingu stafrænnar tækni skulu nemendur fá tækifæri til að auka þekkingu sína á persónuvernd og meðferð og greiningu upplýsinga. Hugað verður að notkun nemenda á samfélagsmiðlum og þeim kennd ábyrg nethegðun og helstu reglur um örugg stafræn samskipti.

C.8. Menntun alla ævi.
    Góð og fjölbreytt menntun á öllum skólastigum og aðgengi fólks á öllum æviskeiðum að menntun er forsenda fyrir því að á Íslandi búi fólk með þekkingu og færni til að leita nýrra leiða og skapa ný tækifæri. Hún stuðlar að því að samfélagið geti brugðist við örum og sífelldum breytingum á atvinnuháttum og tryggir starfsþróun og hreyfanleika á vinnumarkaði.

D.1. Heilsuefling.
    Mikilvægt er að fylgjast með líðan allra nemenda og bregðast skjótt við með viðeigandi aðgerðum í góðri samvinnu heimila, skóla og annarra fagaðila þegar vísbendingar koma fram um vanlíðan nemenda eða ofbeldi af einhverju tagi. Mikilvægt er að gætt sé að jafnréttissjónarmiðum og að nemendum stafi ekki ógn af andlegu, líkamlegu, kynbundnu og kynferðislegu ofbeldi, áreitni og einelti. Í því sambandi er mikilvægi kynfræðslu áréttað. Leitað skal leiða til að stuðla að aukinni heilsueflingu á öllum skólastigum.

D.2. Geðrækt.
    Gæta skal að tilfinningalegri og félagslegri heilsu nemenda og því að efla aðstæður í daglegu lífi sem stuðla að sem bestri líðan. Sóknarfæri til að efla geðheilsu eru einna mest í æsku og því áhersla á að hlúa að þeim verndandi þáttum sem vega þyngst hvað geðheilsu varðar á æskuárunum.

D.3. Forvarnir.
    Á öllum skólastigum, skólagerðum og í frístundastarfi verður áhersla á forvarnir með kennslu og þjálfun í hegðunar-, félags- og tilfinningafærni til að styrkja nemendur. Þannig er einnig lagður grunnur að því að fyrirbyggja þróun óheilbrigðra samskipta og ofbeldis.

D.4. Náms- og starfsráðgjöf.
    Farsæll námsferill krefst þess að nemandinn taki upplýstar og ígrundaðar ákvarðanir um nám sitt út frá eigin áhugasviðum, styrkleikum og gildum. Náms- og starfsráðgjöf styður við stöðuga starfsþróun einstaklinga út starfsævina ásamt hæfninni til að stýra eigin náms- og starfsferli í ljósi breyttra atvinnu- og samfélagshátta. Lögð er áhersla á að allir finni hæfni sinni farveg og tilgang með námi sínu, þannig má meðal annars draga úr brotthvarfi og styðja við atvinnuþátttöku. Náms- og starfsráðgjöf á að vera aðgengileg á öllum skólastigum, óháð aldri og búsetu, og veitt af þar til bærum sérfræðingum.

D.5. Rödd nemenda.
    Frá fyrstu tíð skal rödd nemenda heyrast og þeir fá tækifæri til að hafa áhrif á námsumhverfi sitt. Gæta verður að því að nemendur geti óháð aldri látið í ljós skoðanir sínar og að tekið sé réttmætt tillit til þeirra í samræmi við aldur þeirra og þroska. Með innleiðingu barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks í skólastarfi er aukin þátttaka barna í allri ákvörðunartöku og nemendalýðræði virkjað á markvissan hátt. Nemendur skulu taka þátt í að móta jákvæðan skólabrag og samskiptareglur. Áhersla er lögð á að nemendur læri að bera ábyrgð á eigin námi, venji sig á gott vinnulag, þrói með sér vaxtarhugarfar og læri að setja sér markmið. Þessi áhersla skal vera jafnt innan skóla sem og í starfi frístundaheimila, félagsmiðstöðva, ungmennahúsa og öðru skipulögðu íþrótta- og æskulýðsstarfi enda lýðræði undirstaða í öllu starfi með ungmennum.

D.6. Vellíðan allra.
    Hamingja og vellíðan allra skal vera í öndvegi. Tryggt skal að enginn sé undanskilinn með því að leggja áherslu á jafnrétti, samábyrgð, samstöðu, viðurkenningu fyrir ólíkum sjónarmiðum og virðingu fyrir margbreytileika og fjölbreyttum menningarheimum nemenda. Í skóla-, íþrótta- og æskulýðsstarfi er unnið að eflingu umburðarlyndis, mannréttinda- og lýðræðisvitundar.

E.1. Ábyrgð og samhæfing þjónustukerfa.
    Samstarf, skýr ábyrgð og samþætting innan og milli kerfa er rauður þráður menntastefnu. Heildstæð skólaþjónusta með áherslu á samábyrgð, stigskiptan stuðning í námi og stuðning við foreldra og starfsfólk skóla verður í forgrunni á öllum skólastigum. Við allan stuðning og íhlutun er mikilvægt að öll stuðningskerfi samfélagsins þjóni nemendum á heildstæðan hátt og grípi inn í eftir þörfum með samfellu í þjónustu mismunandi ábyrgðaraðila og fagstétta. Brýnt er að stjórnun og fagleg forysta sé markviss og samstarf innan menntakerfisins skilvirkt.

E.2. Aðalnámskrár sem styðja við menntastefnu.
    Aðalnámskrár skulu endurspegla menntastefnu og styðja við hæfni til framtíðar. Þær verðar endurmetnar með þetta í huga og tryggt að þær styðji við alþjóðlegar skuldbindingar sem Ísland hefur undirgengist. Áhersla verður á að í boði séu fjölbreytt námsgögn sem taka mið af möguleikum stafrænnar miðlunar og margbreytileika nemenda.

E.3. Námsmat.
    Námsmat skal meta hæfni nemenda á gagnsæjan og leiðbeinandi hátt og taka til mismunandi hæfni hvers og eins. Sérstaklega þarf að gæta jafnréttis gagnvart nemendum með fötlun og þeim sem eiga við náms- og félagslega örðugleika að stríða. Mikilvægt er að sameiginlegur skilningur sé á áherslum námsmats og að þær samræmist áherslum aðalnámskráa. Námsmat verði sett fram þannig að það veiti reglulega skýrar upplýsingar um framvindu náms og sé fjölbreytt mat á námi, vellíðan og velferð.

E.4. Væntingar til nemenda.
    Auknar væntingar verða gerðar til nemenda um árangur í námi, þrautseigju og námsframvindu að teknu tilliti til þarfa og aðstæðna. Menntakerfið skal bjóða upp á sveigjanleika fyrir þá nemendur sem hann þurfa og veita öllum nemendum viðeigandi stuðning í námi og leik. Lögð skal áhersla á ábyrgðarkennd, félagsfærni og samfélags- og umhverfisvitund. Gera þarf kröfur um góða íslenskufærni barna jafnt sem fullorðinna sem hafa annað móðurmál en íslensku og að nemendur hafi möguleika á að leggja rækt við móðurmál sitt samtímis aukinni færni í íslensku.

E.5. Væntingar til foreldra.
    Foreldrar eru mikilvægir bandamenn menntakerfisins og búa yfir ómetanlegri þekkingu sem nýta þarf í þágu nemenda til þess að skólaganga þeirra verði farsæl. Áhersla er lögð á gott samstarf heimila og skóla þar sem gagnkvæm virðing og traust er viðhaft. Til mikils er að vinna til að efla árangur og hlúa að þekkingu, þrautseigju og hamingju nemenda. Foreldrar ólögráða nemenda bera ábyrgð á uppeldi og menntun barna sinna þó að nemendur beri ábyrgð á eigin námi með hliðsjón af aldri og þroska.

E.6. Stöðugar umbætur og gæðastarf.
    Efla þarf ytra og innra mat á skóla- og fræðslustarfi í samræmi við menntastefnu og samræmda árangursmælikvarða. Það skal unnið út frá skýrum og rökstuddum viðmiðum og fela í sér skipulega söfnun, greiningu og túlkun gagna. Mikilvægt er að skýr ábyrgð sé á framkvæmd og gæðum skóla- og fræðslustarfs. Menntastofnanir skulu sjálfar bera ábyrgð á innra mati en ráðuneyti og sveitarfélög á ytra mati. Ytra mat skal vera reglulegt og fylgt eftir með markvissum umbótastuðningi í samstarfi ríkis, sveitarfélaga og annarra fræðsluaðila. Ráðuneytið safnar upplýsingum um skóla- og fræðslustarf, meðal annars með þátttöku í alþjóðlegum könnunum á námsárangri. Í forgangi er að niðurstöður í ytra og innra mati séu nýttar til umbóta, sjálfsmats og lærdóms. Skilgreina þarf lykilmælikvarða árangurs, birta þá reglulega og rýna þá til gagns.

E.7. Skilvirk ráðstöfun fjármuna.
    Ísland setur fjárfestingu í menntun í öndvegi og gerir kröfu um að sú fjárfesting nýtist vel, markmiðum menntastefnu sé náð og tryggt sé að þróun menntakerfis mæti þörfum samfélagsins. Þess vegna þarf menntakerfið að vera vel fjármagnað og fjárveitingar skýrar og unnar á faglegum forsendum eftir skilvirka greiningu.

Innleiðing.
    Innleiðing menntastefnu er lykill að því að ná fram settum markmiðum. Fylgjast þarf með framkvæmd hennar og því verður lögð áhersla á samráð, upplýsingar og mælingar á árangri. Aðgerðaráætlun ásamt árangursmælikvörðum verður gerð til þriggja ára í senn og verður metin árlega.