Ferill 279. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 312  —  279. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um leyfi til veiða á álft, grágæs, heiðagæs og helsingja utan hefðbundins veiðitíma.


Flm.: Þórunn Egilsdóttir, Halla Signý Kristjánsdóttir, Silja Dögg Gunnarsdóttir.


    Alþingi ályktar að fela umhverfis- og auðlindaráðherra að útbúa tillögur um heimild til tímabundinna og skilyrtra veiða á eftirfarandi tegundum fugla, utan hefðbundins veiðitíma þeirra:
     a.      álft, grágæs, heiðagæs og helsingja á kornökrum og túnum frá 15. mars til 15. júní,
     b.      álft á kornökrum frá 1. maí til 1. október.
    Leyfin verði veitt á þeim svæðum þar sem þörf er talin á aðgerðum vegna ágangs fugla á tún og kornakra. Ráðherra geri jafnframt áætlun um að tryggja vernd stofnanna.
    Ráðherra greini Alþingi frá tillögum sínum eigi síðar en 1. apríl 2021.

Greinargerð.

    Álftir, grágæsir, heiðagæsir og helsingjar valda miklu tjóni á túnum og kornökrum. Þörf er á að finna leiðir fyrir bændur til þess að stemma stigu við ágangi álfta og gæsa. Umhverfis- og auðlindaráðuneytið, Umhverfisstofnun, Náttúrufræðistofnun og Bændasamtök Íslands hafa tekið saman upplýsingar um ágang af völdum gæsa og álfta á ræktarlönd. Hægt er að byggja á þeirri vinnu við mat á þörf til að bregðast við ágangi. Eftir sem áður þarf að tryggja vernd stofnanna og meta árangur aðgerðanna.
    Álftir og gæsir teljast til andfugla og eru grasbítar. Álftir og gæsir sækja frekar í tún sem eru í góðri rækt en lélegri. Þær eiga auðvelt með að greina fóðurgildi gróðurs og velja sér bithaga eftir því. Álftir þurfa að éta um 300 gr. á dag af þurrefni. Þrátt fyrir að álftin sé alfriðuð þá hefur líklega eitthvað verið um að hún sé skotin ólöglega þar sem hún er talin valda skemmdum á túnum og í kornrækt. Ungfuglar safnast oft í stórum hópum í nýrækt og á kornökrum. Þörf er á að veita staðbundna undanþágu frá lögunum til þess að bregðast við tjóni. Álftin hefur verið friðuð á Íslandi frá árinu 1913 en álftarstofninn hefur stækkað verulega. Um 1960 var stofninn um 3–5 þúsund fuglar en í dag er talið að stofninn sé um 34.000 fuglar.
    Grágæsir sækja mikið í grænan gróður yfir sumartímann og kornakra á haustin. Þær þurfa að éta um 150 gr. á dag af þurrefni. Stofnstærð grágæsa er í kringum um 100.000 fuglar. Kjörsvæði heiðagæsa er á hálendinu en við komuna til landsins fara heiðagæsir talsvert í ræktarlönd áður en þær halda til heiða.
    Heiðagæs étur um 130 gr. dag af þurrefni. Gróður er víða viðkvæmur á hálendi Íslands og má ætla að fuglinn gangi nærri honum á viðkvæmum svæðum. Stofninn er gríðarlega sterkur og fer stækkandi, íslensk-grænlenski stofninn hefur stækkað mjög undanfarna áratugi, árið 1952 var hann 23.000 fuglar en er nú í sögulegu hámarki, um 500 þúsund fuglar.
    Helsingjastofninn á Íslandi hefur vaxið mjög eins og aðrir helsingjastofnar í Evrópu. Hann var stærstur um 81.000 fuglar árið 2013 og hafði fækkað niður í 72.000 fugla árið 2018, m.a. vegna skipulagðra fækkunaraðgerða skoskra stjórnvalda.
    Bændur hafa reynt að verjast ágangi fugla með ýmsum hætti, bæði með sjónrænum og hljóðrænum aðferðum. Þær duga þó skammt þar sem fuglinn er fljótur að venjast fælum og kemur fljótt aftur í tún og akra. Sömu aðferðir eru notaðar í öðrum löndum og hafa fuglarnir einnig vanist fælum þar. Með vörnunum er aðeins verið að hrekja fuglana tímabundið af ákveðnum svæðum en þeir leita þá gjarnan til næsta bónda. Slík tilfærsla á vandamálinu er ekki skynsamleg lausn til lengdar og er því nauðsynlegt að bregðast við með aukinni forsjálni.
    Ágangur álfta og gæsa veldur bændum fjárhagslegu tjóni og einskorðast sá vandi ekki við Ísland. Árið 2016 kom út skýrsla á vegum Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins um tjón af völdum álfta og gæsa árin 2014 og 2015. Á þessu tímabili gátu bændur tilkynnt rafrænt um tjón sitt í gegnum Bændatorgið. Niðurstaða skýrslunnar sýndi að tjón af völdum ágangs fugla var mest á túnum. Í flestum tilvikum var um að ræða fleiri en eina fuglategund sem ollu tjóni á tilteknu ræktarlandi. Fram kom að mun fleiri tjónatilkynningar bárust árið 2014 en árið eftir. Samkvæmt niðurstöðum skýrslunnar má ætla að margir bændur hafi látið hjá líða að tilkynna um tjón því að lítið hafi áunnist síðustu ár í að fá tjón viðurkennt eða bætt eða að fá viðeigandi úrræði til að verjast ágangi. Frá árinu 2013 hefur Ísland verið aðili að samningnum um vernd farfugla og votlendisfugla í Afríku og Evrasíu (e. African-Eurasian Migratory Waterbird Agreement, AEWA). Samningurinn kveður á um aðgerðir til verndunar votlendisfuglum á viðkomustöðum þeirra og nær til fjölda fuglategunda sem verpa eða hafa áningarstað á Íslandi. Á grundvelli samningsins geta ríki ákveðið að vinna að því að stýra stofnstærðum fuglategunda sem valda skemmdum á uppskeru. AEWA hefur ráðist í gerð áætlana til að hafa áhrif á stærð gæsastofna í Evrópu, m.a. vegna heiðagæsar, grágæsar og helsingja. Árið 2012 var t.d. gerð áætlun um að minnka stærð Svalbarðastofns heiðagæsa í Danmörku og Noregi í samstarfi við Holland og Belgíu niður í u.þ.b. 60.000 fugla (gildistími 2012–2022). Takmarkið náðist tveimur árum síðar. Markmið áætlunarinnar um Svalbarðastofninn er að viðhalda stofnstærðinni í 60.000 fuglum til þess að lágmarka skaða sem gæsirnar valda á uppskeru og gróðri í freðmýri (túndru) án þess að gera út af við stofninn. Hugmyndin um tjónveiði helst í hendur við 43. gr. frumvarps til laga um vernd, velferð og veiðar villtra fugla og villtra spendýra, sem hefur verið birt í samráðsgátt stjórnvalda. Í áðurnefndri grein frumvarpsins er gert ráð fyrir því að Umhverfisstofnun geti veitt tímabundna og skilyrta undanþágu til veiða á tiltekinni tegund villtra fugla enda sé sýnt fram á raunverulega og skilgreinda hættu á tjóni af þeirra völdum í ákveðnum tilvikum eða á tilteknum stöðum eða svæðum, enda sé undanþágan í samræmi við samþykkta stjórnunar- og verndaráætlun hlutaðeigandi tegundar.
    Flutningsmenn telja nauðsynlegt að setja markmið um stærð stofna álfta og gæsa. Þá er mikilvægt að til verði skýr heimild og áætlun um veiðar á álft og gæs í því skyni að minnka tjón bænda, hvort sem hún feli í sér breytingar á lögum eða eftir atvikum reglugerðum þar að lútandi. Samhliða þessari aðgerð verði gerð áætlun um að tryggja vernd stofnanna.