Ferill 320. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 360  —  320. mál.
Tillaga til þingsályktunar


um þjóðarátak í landgræðslu.


Flm.: Þórunn Egilsdóttir, Halla Signý Kristjánsdóttir, Guðjón S. Brjánsson, Helgi Hrafn Gunnarsson, Ágúst Ólafur Ágústsson, Ari Trausti Guðmundsson.


    Alþingi ályktar að fela umhverfis- og auðlindaráðherra að koma fyrir ágúst 2021 á samstarfi stjórnvalda, bænda, Landgræðslunnar, atvinnulífs og almennings sem miði að því að auka þátttöku almennings í kolefnisbindingu með landgræðslu og hefja þar með þjóðarátak í landgræðslu.

Greinargerð.

    Þingsályktunartillaga þessi var lögð fram á 150. löggjafarþingi (365. mál) en hlaut ekki afgreiðslu og er endurflutt með smávægilegum breytingum. Með tillögunni er lagt til að umhverfis- og auðlindaráðherra verði falið að sjá til þess að komið verði á fót vettvangi fyrir samstarf stjórnvalda, Landgræðslunnar, bænda, atvinnulífs og almennings sem miði að því að auka þátttöku almennings í kolefnisbindingu með landgræðslu og gera þannig þjóðarátak í landgræðslu. Samstarfsvettvangi þessum verði komið á fyrir ágúst 2021.
    Markmið tillögunnar er að auka kolefnisbindingu, koma í veg fyrir jarðvegsrof og græða upp örfoka land með aukinni þátttöku almennings í landgræðslu.
    Samstarfsvettvangurinn hafi að fyrirmynd átakið „Bændur græða landið“, samstarfsverkefni bænda og Landgræðslunnar um uppgræðslu heimalanda, sem hefur verið starfrækt frá árinu 1990 og gefið góða raun.
    Með aukinni umhverfisvitund og fræðslu almennings hafa æ fleiri fyrirtæki boðið viðskiptavinum upp á að kolefnisjafna viðskipti sín. Þátttaka atvinnulífsins í verkefninu gæti falist í því að bjóða upp á kolefnisjöfnun viðskipta með landgræðslu. Þannig yrði þátttaka almennings tvíþætt, annars vegar með beinni þátttöku í landgræðslu undir leiðsögn Landgræðslunnar, hins vegar með kolefnisjöfnun viðskipta sinna.
    Markmið þessarar þingsályktunartillögu falla vel að loftslagskafla stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur, aðgerðaáætlun í loftslagsmálum fyrir árin 2020–2030 sem og heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna, markmiði nr. 13: Aðgerðir í loftslagsmálum.
    Aðrir alþjóðasamningar sem samvinnuverkefnið gæti verið liður í að uppfylla eru: Parísarsáttmálinn, samningur Sameinuðu þjóðanna um aðgerðir gegn eyðimerkurmyndun sem hefur verið í gildi hér á landi frá árinu 1996, alþjóðlegir samningar um líffræðilega fjölbreytni sem fullgiltir voru á Alþingi árið 1994 og rammasamningur Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar sem tók gildi hér á landi árið 1994.
    Jarðvegur er mikilvæg auðlind. Hann er undirstaða mestallrar matvælaframleiðslu heimsins en jarðvegseyðing er ein mesta ógn mannkyns. Eyðing gróðurs og jarðvegs hefur um langa hríð verið eitt helsta umhverfisvandamál á Íslandi. Flutningsmenn leggja því til að farið verði í þjóðarátak í landgræðslu enda hafi fáar þjóðir hafa eins góð tækifæri og Íslendingar til að draga úr losun vegna landnotkunar og efla kolefnisbindingu í gróðri og jarðvegi.