Ferill 23. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 377  —  23. mál.
2. umræða.Nefndarálit


um frumvarp til laga um ráðstafanir gegn óréttmætri takmörkun á netumferð o.fl.

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Heimi Skarphéðinsson frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, Gunnar A. Ólafsson og Heimi Örn Herbertsson frá Nova hf. og Breka Karlsson og Einar Bjarna Einarsson frá Neytendasamtökunum.
    Umsagnir bárust frá Neytendasamtökunum og Nova hf.
    Þá barst nefndinni minnisblað frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti.
    Með frumvarpinu er lagt til að innleiða í íslenskan rétt reglugerð (ESB) 2018/302 um ráðstafanir gegn óréttmætum landfræðilegum takmörkunum á netumferð og annarri mismunun sem byggist á því hvert þjóðerni viðskiptavinar er, hvar hann er búsettur eða hvar hann hefur staðfestu á innri markaðnum. Með frumvarpinu er því lagt til að sett verði ný heildarlög um ráðstafanir gegn óréttmætri takmörkun á netumferð o.fl. Um efni og markmið frumvarpsins að öðru leyti vísast til greinargerðar með því.
    Í umsögn Neytendasamtakanna er vakin athygli á því að aðstoð við neytendur á grundvelli 8. gr. reglugerðarinnar falli vel að hlutverki Evrópsku neytendaaðstoðarinnar (ECC) á Íslandi, sem hýst er hjá Neytendasamtökunum. Við umfjöllun nefndarinnar kom fram að ráðuneytið og Neytendasamtökin hafi komist að niðurstöðu um að samtökunum verði falið þetta hlutverk.
    Að framangreindu virtu leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Alþingi, 19. nóvember 2020.

Óli Björn Kárason,
form.
Bryndís Haraldsdóttir, frsm. Jón Steindór Valdimarsson.
Brynjar Níelsson. Oddný G. Harðardóttir. Ólafur Þór Gunnarsson.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. Smári McCarthy. Willum Þór Þórsson.