Ferill 360. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 452  —  360. mál.
Tillaga til þingsályktunar


um græna atvinnubyltingu.


Flm.: Logi Einarsson, Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, Ágúst Ólafur Ágústsson, Guðjón S. Brjánsson, Guðmundur Andri Thorsson, Helga Vala Helgadóttir, Oddný G. Harðardóttir.


    Alþingi ályktar, með tilliti til alþjóðlegra loftslagsskuldbindinga Íslands á tímum hamfarahlýnunar og í ljósi efnahagssamdráttar, sögulegs fjöldaatvinnuleysis og framleiðsluslaka vegna heimsfaraldurs kórónuveiru, að fela ríkisstjórninni að grípa til eftirtalinna aðgerða til að fjölga störfum, örva eftirspurn og styðja við loftslagsvæna verðmætasköpun á Íslandi. Nánari útfærslu tillagna að aðgerðum verði lokið fyrir 1. maí 2021.

1. Grænn fjárfestingarsjóður.
    Stofnaður verði grænn fjárfestingarsjóður í eigu hins opinbera sem styðji við loftslagsvæna atvinnuuppbyggingu og grænan hátækniiðnað. Ríkið leggi sjóðnum til 5 milljarða kr. í hlutafé. Sjóðurinn leiti eftir samstarfi við einkafjárfesta, taki mið af aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum og stefnu Vísinda- og tækniráðs í allri sinni starfsemi og ýti undir góða stjórnarhætti í félögum sem hann fjárfestir í. Umhverfisráðherra skipi í stjórn sjóðsins, m.a. eftir tilnefningu náttúruverndarsamtaka, samtaka launafólks og samtaka atvinnurekenda.

2. Metnaðarfyllri loftslagsmarkmið.
    Umhverfis- og auðlindaráðherra hafi forgöngu um að mótuð verði ný aðgerðaáætlun í loftslagsmálum sem geri ráð fyrir 60% samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda fyrir árið 2030 miðað við árið 2005. Markmið um kolefnishlutleysi árið 2040 verði fest í lög, skerpt á sjálfstæði og aðhaldshlutverki loftslagsráðs gagnvart stjórnvöldum og stjórnsýsla loftslagsmála efld.

3. Efling almenningssamgangna.
    Framkvæmdum vegna borgarlínu á höfuðborgarsvæðinu verði flýtt og 1,5 milljarða kr. viðbótarframlag veitt til uppbyggingar stofnleiða fyrir hjólreiðar á næsta ári. Betri samgöngum ohf. verði falið að flýta þeim framkvæmdum í samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins sem eru mannaflafrek og skila miklum loftslagsávinningi. Jafnframt verði stutt við landsbyggðarstrætó til að gera auðveldara og ákjósanlegra að ferðast milli landshluta með strætisvagni.

4. Hröðun orkuskipta.
    Ráðist verði í markvissar aðgerðir til að hraða orkuskiptum á láði og legi. Stutt verði við uppbyggingu rafhleðslustöðva um allt land með það fyrir augum að nýskráningu bensín- og dísilbíla verði hætt frá og með árinu 2025. Flutnings- og dreifikerfi rafmagns verði styrkt svo að kerfið standi undir auknu álagi, meðal annars vegna rafvæðingar hafna. Framlög til Orkusjóðs verði tvöfölduð til að styðja við kaup á vistvænum tækjum, bæði vegna iðnaðar og samgangna á landi og í skipum og haftengdri starfsemi.

5. Sterk sveitarfélög og fjárfesting í nærsamfélaginu.
    Spornað verði gegn niðurskurði og uppsögnum á sveitarstjórnarstiginu með auknum stuðningi við sveitarfélög sem orðið hafa fyrir miklu tekjufalli vegna heimsfaraldursins. Ríkissjóður hafi milligöngu um hagstæðar lánveitingar til sveitarfélaga vegna loftslagsvænna fjárfestinga og byggða- og samfélagsþróun verði efld með 800 millj. kr. aukaframlagi til sóknaráætlana landshluta árið 2021.

6. Kolefnisbinding og bætt landnýting.
    Ráðist verði í kraftmikið átak í skógrækt, landgræðslu og endurheimt votlendis, birkiskóga og kjarrlendis. Stuðningur við landbótaverkefni frjálsra félagasamtaka verði stóraukinn og sett af stað markviss vinna við endurskoðun styrkjakerfis og skattumhverfis til að ýta undir ábyrga landnýtingu og gera bændum kleift að einbeita sér í auknum mæli að kolefnisbindingu, endurheimt votlendis og uppgræðslu á illa förnu landi.

7. Menntasókn.
    Stutt verði við námstengd vinnumarkaðsúrræði fyrir atvinnuleitendur og fleiri með auknum framlögum til starfsmenntunar, framhaldsfræðslu, símenntunarstöðva, starfsendurhæfingar og vinnustaðanáms. Stofnaður verði Umhverfis- og garðyrkjuskóli með starfsnámi á framhaldsskólastigi að Reykjum í Ölfusi, aðgengi að tæknifræðinámi utan höfuðborgarsvæðisins verði aukið og stutt við uppbyggingu háskólaútibús á Austurlandi.

8. Uppbygging iðngarða.
    Skipaður verði starfshópur um skipulega uppbyggingu iðngarða á Íslandi þar sem auðlindastraumar eru fjölnýttir og virði hreinnar orku hámarkað, svo sem til uppbyggingar í matvælaiðnaði, lífrænni eldsneytisframleiðslu, líftækni og garðyrkju. Hafist verði handa við breytingar á lögum, regluverki og leyfiskerfum til að liðka fyrir slíkri starfsemi.

9. Stuðningur við listir og menningu.
    Framlög til launasjóða listamanna verði stóraukin og komið verði til móts við menningarstofnanir sem orðið hafa fyrir tekjutapi vegna samkomubanns. Endurgreiðslur á virðisaukaskatti til framleiðenda kvikmynda og sjónvarpsefnis verði hækkaðar og ráðist í markvissar aðgerðir til að gera Ísland að ákjósanlegum stað til fullvinnslu kvikmynda.

10. Stórsókn í nýsköpun og þróun.
    Ráðist verði í heildstæða greiningu á því hvernig bæta megi regluverk og nýta skattalega hvata til að treysta samkeppnishæfni Íslands á sviði nýsköpunar, rannsókna og þróunar og tryggja hugverka- og hátækniiðnaði hagfelldari rekstrarskilyrði. Framlög til Tækniþróunarsjóðs, Rannsóknasjóðs og Innviðasjóðs verði aukin og úrræðið Stuðnings-Kría fullfjármagnað svo að ekki þurfi að skerða mótframlagslán til nýsköpunarfyrirtækja í rekstrarvanda.

Greinargerð.

    Heimsfaraldur kórónuveiru hefur valdið heimskreppu og sögulegum efnahagssamdrætti á Íslandi. Meira en 20 þúsund manns eru án vinnu, eftirspurn hefur dregist stórkostlega saman, fjárfestar halda að sér höndum og framleiðsluþættir liggja ónýttir. Um leið hafa vextir snarlækkað og náð sögulegu lágmarki, hvort sem litið er til skammtíma- eða langtímavaxta. Lánakjör ríkissjóðs eru hagstæð og í ljósi framleiðsluslakans í hagkerfinu eru margföldunaráhrif opinberra fjárfestinga og samneyslu umtalsvert meiri nú en í venjulegu árferði.
    Með þingsályktunartillögu þessari er lagt til að við þessar fordæmalausu aðstæður stígi ríkisvaldið fram af festu og nýti fjárfestingarsvigrúmið til að styðja við vistvæna atvinnuuppbyggingu um allt land, auka framleiðslugetu þjóðarbúsins til langframa og renna nýjum stoðum undir verðmætasköpun á Íslandi. Markmiðið er að skapa verðmæt græn störf, efla innviði, auka umsvif í efnahagslífinu og tryggja að viðspyrnan eftir efnahagsáhrif heimsfaraldursins samræmist heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun, einkum markmiðum 13, um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda, og 14, um verndun hafsins. Brýnt er að Ísland uppfæri hið fyrsta landsframlag sitt til samdráttar í losun gróðurhúsalofttegunda í samræmi við Parísarsamkomulagið og sé ekki eftirbátur annarra Evrópuríkja í þessum efnum.
    Samkvæmt rannsókn sem unnin var af hópi hagfræðinga fyrir Oxford Smith School of Enterprise and the Environment í maí 2020 og byggist á viðtölum við á þriðja hundrað sérfræðinga og stjórnenda í fjármálaráðuneytum og seðlabönkum víða um heim, eru fjárfestingar í grænni nýsköpun og þróun og uppbygging innviða og flutnings- og dreifikerfa fyrir endurnýjanlega orku á meðal þeirra efnahagslegu örvunaraðgerða sem hafa mikil margfeldisáhrif og eru þannig ákjósanlegar á krepputímum þegar framleiðsluþættir liggja ónýttir og fjárfestingar í einkageiranum eru við frostmark. Þingsályktunartillaga þessi grundvallast á þeirri sannfæringu að markmið um sjálfbærni og kolefnishlutleysi árið 2040 falli vel að markmiðum um aukin lífsgæði og fjölgun starfa. Með samþykkt hennar og framkvæmd aðgerðanna yrði stigið mikilvægt skref í átt að sjálfbærara samfélagi á Íslandi.
    Milliríkjanefnd Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál hefur áætlað að verja þurfi 2,5% af heimsframleiðslu árlega til loftslagsmála næstu árin svo takmarka megi hlýnun jarðar við 1,5°C miðað við meðalhitastigið fyrir iðnbyltingu. Rannsóknir benda til þess að næstu fimm til tíu ár skipti sköpum fyrir mannkynið og vistkerfi jarðar. Ríkustu 10% heimsbyggðarinnar eru ábyrg fyrir helmingnum af allri losun gróðurhúsalofttegunda en afleiðingar þessarar losunar koma harðast niður á fátækustu þjóðum heims. Þannig er baráttan gegn hamfarahlýnun óaðskiljanleg baráttunni gegn ójöfnuði á heimsvísu og ábyrgð ríkra þjóða mikil. Losun Íslendinga er aðeins brotabrot af útblæstri á heimsvísu en dæmin sanna að smáríki geta haft afgerandi áhrif með því að taka frumkvæði, sýna gott fordæmi og beita sér fyrir breytingum á alþjóðavettvangi.
    Því miður hafa íslensk stjórnvöld ekki staðið sig sem skyldi í þessum efnum á undanförnum árum og áratugum. Lengi hverfðist íslensk loftslagsstjórnsýsla um fátt annað en að ná fram undanþágum fyrir Ísland frá alþjóðlegum skuldbindingum um loftslagsmál. Á meðan mörg nágrannalandanna unnu markvisst að því að draga úr losun síðan Kýótó-bókunin var samþykkt árið 1997 fékk Ísland heimild til að auka losun um 10% á tímabilinu 2008–2012 miðað við árið 1990, auk sérstakrar heimildar fyrir stóriðju til að losa 1,6 milljónir tonna af koltvísýringi á sama tímabili. Skuldbindingartímabili Kýótó-bókunarinnar lýkur nú um áramótin og ljóst er að Ísland þarf að kaupa losunarheimildir fyrir allt að tugi milljarða kr. Frá því að Ísland skrifaði undir Parísarsáttmálann árið 2015 hefur losun haldið áfram að aukast og ljóst er að aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum gengur of skammt.
    Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins kynnti grænan samfélagssáttmála (European Green New Deal) í fyrra sem miðar að samdrætti gróðurhúsalofttegunda um 50–55% fyrir árið 2030 miðað við árið 1990. Norska Stórþingið hefur lögbundið sams konar loftslagsmarkmið. Í október 2020 samþykkti Evrópuþingið að setja markið hærra og ná fram 60% samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda fyrir árið 2030. Danir hafa gengið enn lengra og stefna nú að 70% samdrætti losunar. Ísland er hins vegar eftirbátur nágrannalandanna og Evrópusambandsins í þessum efnum, en aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum gerir aðeins ráð fyrir 35% samdrætti gróðurhúsalofttegunda fyrir 2030 miðað við árið 2005.
    Metnaðarleysi stjórnvalda að því er varðar samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda er ekki síst dapurlegt í ljósi þess að Ísland hefur alla burði til að skara fram úr í loftslagsmálum. Nýting endurnýjanlegra orkugjafa hefur skapað Íslandi nokkra sérstöðu meðal þjóða heims, en Ísland varð fyrsta ríkja til að nýta jarðhita til almennrar húshitunar löngu áður en Loftslagssamningur Sameinuðu þjóðanna var gerður árið 1992 og hefur verið leiðandi í útflutningi þekkingar á sviði jarðvarmanýtingar og jarðhitarannsókna. Auðlindagarðurinn á Reykjanesskaga, þar sem afgangsstraumar úr orkuverum nýtast til fjölbreyttrar atvinnu- og verðmætasköpunar, er skólabókardæmi um sóknarfæri sem felast í sjálfbærri þróun. Að sama skapi á sér stað mikil gróska í sjálfbærri orkunýtingu á Norðausturlandi þar sem sveitarfélög og orkufyrirtæki vinna saman að nýsköpun og bættri nýtingu orkuauðlinda.
    Undanfarin ár hafa íslensk fyrirtæki og vísindamenn þróað byltingarkenndar tæknilausnir í loftslagsmálum sem vakið hafa heimsathygli. Þannig er Hellisheiði núna eini staðurinn í heimi þar sem koltvíoxíð úr andrúmslofti er fangað og því fargað, en alþjóðleg eftirspurn eftir kolefnisförgunartækni gæti aukist umtalsvert á næstu árum vegna Parísarsáttmálans. Öll þessi verkefni stuðla að atvinnu- og verðmætasköpun á grunni sjálfbærni, nýsköpunar og hátækni.
    Ljóst er að markaðsöflin leysa ekki loftslagsvandann upp á eigin spýtur. Þetta gildir jafnt um aðgerðir til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og aðgerðir til að binda og farga kolefni. Til að Ísland geti dregið með markvissum hætti úr losun gróðurhúsalofttegunda og orðið leiðandi í sjálfbærri þróun og grænni uppbyggingu þarf hið opinbera að taka frumkvæði og vísa veginn. Engin samfélagssátt næst um hröð orkuskipti og aðrar breytingar á atvinnu- og lifnaðarháttum nema velferðarsjónarmið séu höfð að leiðarljósi og tryggt sé að kostnaður falli ekki á herðar tekjulægri hópa eða íbúa í dreifðum byggðum umfram aðra. Mótmæli og hörð viðbrögð almennings við hækkun kolefnisgjalda í Frakklandi eru víti til varnaðar og áminning um mikilvægi þess að hugað sé að „sanngjörnum umskiptum“ eins og Alþjóðavinnumálastofnunin hefur talað fyrir.
    Samfylkingin lagði fram þingsályktunartillögu um grænan samfélagssáttmála á 149. löggjafarþingi og aftur með þingmönnum Pírata á 150. löggjafarþingi. Lagt var til að ráðist yrði í heildstæða stefnumótun með það að markmiði að Ísland yrði kolefnishlutlaust fyrir árið 2030, Ísland yrði í framvarðasveit ríkja í baráttunni gegn loftslagsvánni og komið yrði á fót samráðsvettvangi ríkis og sveitarfélaga, félagasamtaka og atvinnulífsins, vísinda- og fræðasamfélagsins um sjálfbærni og grænt hagkerfi. Hinn 19. október 2019 samþykkti flokksstjórnarfundur Samfylkingarinnar ályktun þar sem krafist var metnaðarfyllri aðgerða í loftslagsmálum, m.a. að dregið yrði úr losun gróðurhúsalofttegunda um að minnsta kosti 55% fyrir árið 2030 miðað við 2005, markmiðið yrði bundið í lög og stjórnsýsla loftlagsmála efld til muna. Í ritinu Ábyrga leiðin sem kom út í októberbyrjun 2020 fylgir þingflokkur Samfylkingarinnar þessum vilja flokksstjórnar eftir með útfærðum tillögum og aðgerðalista þar sem m.a. er lögð áhersla á að á tímum heimsfaraldurs og sögulegs fjöldaatvinnuleysis verði þeim loftslagsaðgerðum forgangsraðað sem hafa örvandi áhrif á eftirspurn og atvinnustig í landinu. Þingsályktunartillaga þessi byggist meðal annars á tillögum Ábyrgu leiðarinnar, en töluleg loftslagsmarkmið Samfylkingarinnar hafa verið uppfærð til samræmis við markmið sem Evrópuþingið samþykkti 6. október síðastliðinn.
    Í þeirri djúpu efnahagslægð sem nú ríkir er ábyrgt og skynsamlegt að nýta góð lánakjör ríkisins og fjármagna græna uppbyggingu með aukinni skuldsetningu fremur en að auka álögur á fólk og fyrirtæki. Þó er ljóst að sanngjörn gjaldtaka á losun kolefnis verður mikilvæg á komandi árum til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og ná fram kolefnishlutleysi. Hér þarf að byggja á hugmyndum um sanngjörn umskipti og tryggja að skattbreytingar séu útfærðar í samráði við samtök launafólks, bitni ekki á tekjulægri hópum og heildaráhrif komi ekki ójafnt niður á fólki eftir því hvar á landinu það býr.
    Áætla má að aðgerðirnar sem hér eru lagðar til kosti um 20 milljarða kr. og skili sér í auknum hagvexti og verulegri fjölgun starfa strax á næsta ári og auðveldi jafnframt Íslandi að standa við alþjóðlegar loftslagsskuldbindingar og metnaðarfyllri markmið um samdrátt losunar og kolefnisbindingu. Samhliða eflingu almenningssamgangna, hröðun orkuskipta, bættri landnýtingu, grænni innviðafjárfestingu og skipulegri uppbyggingu iðngarða er lagt til að ráðist verði í aðgerðir til að efla hugvitsiðnað, nýsköpun og þróun og listir og menningu, en með öllu þessu er stuðlað að aukinni fjölbreytni íslensks atvinnulífs.