Ferill 170. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 481  —  170. mál.




Svar


félags- og barnamálaráðherra við fyrirspurn frá Ingu Sæland um úthlutun styrkja til félaga- og hjálparsamtaka.


     1.      Hefur verið úthlutað þeim 40 millj. kr. sem ákveðið var í fjáraukalögum, sem samþykkt voru 30. mars sl., að ráðstafa til hjálparsamtaka sem styðja fólk í vinnu gegn kvíða og einmanaleika? Ef svo er, hvaða hjálparsamtök hafa fengið styrki og hversu háa styrki hafa hver samtök fengið?
    Í apríl sl. var þeim 40.000.000 kr. sem vísað er til úthlutað til félagasamtaka. Til viðbótar við þessa fjárhæð lagði félagsmálaráðuneytið 15.750.000 kr. Alls var því úthlutað 55.750.000 kr. til félaga- og hjálparsamtaka til þess að geta brugðist við auknu álagi í þjónustu við viðkvæma hópa sem urðu fyrir áhrifum vegna COVID-19 faraldursins.
    Fjárhæðum var úthlutað með eftirfarandi hætti:

Félagasamtök Fjárhæð
ADHD samtökin 1.000.000
Aflið Akureyri, samtök gegn kynferðis- og heimilisofbeldi 500.000
Alzheimerssamtökin 3.000.000
Barnaheill 2.000.000
Bergið Headspace 2.000.000
Bjarkarhlíð 1.500.000
Bjarmahlíð 1.500.000
Drekaslóð 500.000
Fjölskylduhjálp 500.000
Foreldrahús 2.000.000
Geðhjálp 5.000.000
Grófin geðverndarmiðstöð Akureyri 2.000.000
Heimilisfriður 2.000.000
Hjálparstarf kirkjunnar 6.000.000
Hjálpræðisherinn 1.000.000
Hlutverkasetur 2.000.000
Hugarafl 2.000.000
Höndin – fyrir fólk 500.000
Samtök um kvennaathvarf 2.000.000
Landssamband eldri borgara 5.000.000
Mæðrastyrksnefnd Akranesi 250.000
Mæðrastyrksnefnd Akureyri 500.000
Mæðrastyrksnefnd Kópavogs 500.000
Mæðrastyrksnefnd Reykjavík 1.000.000
Pieta samtökin 2.000.000
SÁÁ 2.000.000
Stígamót 500.000
Umhyggja – félag langveikra barna 1.000.000
UNICEF 2.000.000
Þroskahjálp 2.000.000
Öryrkjabandalagið 2.000.000
Samtals 55.750.000

     2.      Hefur verið úthlutað þeim 25 millj. kr. sem ákveðið var í fjáraukalögum, sem samþykkt voru 11. maí sl., að ráðstafa til félagasamtaka sem styðja viðkvæma hópa í samfélaginu? Ef svo er, hvaða félagasamtök hafa fengið styrki og hversu háa styrki hafa hver samtök fengið?
    Í júlí sl. var úthlutað styrkjum til níu félagasamtaka sem fengu 2,7 millj. kr. fjárframlag hver til þess að geta brugðist við auknu álagi í þjónustu við viðkvæma hópa. Eftirfarandi samtök fengu styrk:

Hjálparsamtök Fjárhæð
Fjölskylduhjálp Íslands 2.700.000
Hjálparstarf kirkjunnar 2.700.000
Hjálpræðisherinn 2.700.000
Kaffistofa Samhjálpar 2.700.000
Mæðrastyrksnefnd Akranesi 2.700.000
Mæðrastyrksnefnd Akureyri 2.700.000
Mæðrastyrksnefnd Hafnarfirði 2.700.000
Mæðrastyrksnefnd Kópavogs 2.700.000
Mæðrastyrksnefnd Reykjavík 2.700.000

     3.      Á hvaða forsendum er ákvörðun tekin um það hvaða samtök fái styrki í þessum tilfellum?
    Í nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar um frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2020, sem samþykkt voru 30. mars sl., kom fram að félagsmálaráðuneytinu væri ætlað að nota 40 millj. kr. framlagið til að styrkja frjáls félagasamtök sem sinna mikilvægri þjónustu og ráðgjöf vegna faraldurs kórónuveiru. Forsendur úthlutunar ráðuneytisins tóku mið af þessum ummælum. Litið var til félagasamtaka sem veita mikilvæga þjónustu til ýmissa hópa í samfélaginu þar sem búist var við að álag myndi aukast í kjölfar COVID-19 faraldursins. Má þar nefna samtök sem sinna ýmiss konar hjálparstarfi, svo sem mataraðstoð; samtök sem veita þjónustu til ungmenna og fullorðinna einstaklinga með kvíða, þunglyndi og/eða geðraskanir; og samtök sem veita þolendum ofbeldis stuðning og ráðgjöf. Á tímum efnahagsþrenginga og áfalla er viðbúið að margir lendi í fjárhagserfiðleikum og upplifi bæði kvíða og áfallastreitu. Þá hafa rannsóknir sýnt að í aðstæðum á borð við COVID-19 verði aukning á heimilisofbeldi og ofbeldi gegn börnum. Þar af leiðandi var talið mikilvægt að fyrrgreind samtök yrðu styrkt til þess að halda úti þjónustu til þessara viðkvæmustu hópa.
    Í nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar um frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2020, sem samþykkt voru 11. maí sl., kom fram að markmið 25 millj. kr. framlagsins væri að styrkja sérstaklega þau félagasamtök sem styðja við viðkvæma hópa í samfélaginu og finna fyrir aukinni eftirspurn í kjölfar heimsfaraldursins. Til að mynda væri eftirspurn eftir aðstoð hjálparstofnana sem sæju um matarúthlutanir og kallað hefði verið eftir auknu fjármagni til að bregðast við því, m.a. í samvinnu við félagsþjónustu sveitarfélaga og hjálparsamtök. Forsendur úthlutunar félagsmálaráðuneytisins tóku mið af þessum ummælum. Var ákveðið að veita styrk til samtaka sem sinna hjálparstarfi með ýmsum hætti, svo sem neyðaraðstoð (inneignarkort fyrir matvöru, aðstoð við lyfjakaup, fatnað o.fl.), mataraðstoð, heitum máltíðum í hádeginu o.s.frv.).

     4.      Eru einhver samtök sem sóttu um styrki frá ráðuneytinu vegna fjárheimildanna og fengu ekki?
    Ekki var sótt sérstaklega um styrki vegna fjárheimildanna. Þau samtök sem hlutu styrki voru valin á grundvelli forsendna sem er lýst í svari við 3. tölul. fyrirspurnarinnar. Félagsmálaráðuneytið hefur góða yfirsýn yfir starfsemi félagasamtaka og styrkleika þeirra á hverju sviði en ráðuneytið auglýsir árlega eftir umsóknum um styrki af safnliðum fjárlaga til verkefna á sviði félagsmála. Þá var talið mikilvægt að bregðast skjótt við úthlutun fjármagnsins og því ekki auglýst sérstaklega eftir umsóknum.